Viltu verða heill?

Viltu verða heill?

Ég vil í upphafi máls míns óska aðstandendum Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju til hamingju með þessa yndislegu hátíð, og þakka allt sem hefur verið framreitt okkur öllum til svo mikillar gleði og uppbyggingar umliðna viku. Kirkjulistahátíð er vísbending um grósku lífs og lista sem á enga hliðstæðu fyrr né síðar hér á landi. Það er sannarlega flest í blóma á Íslandi. Hvert sem litið er má sjá taumlausan sköpunarkraft jafnt í náttúrunni sem í mannlífinu.

Ég vil í upphafi máls míns óska aðstandendum Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju til hamingju með þessa yndislegu hátíð, og þakka allt sem hefur verið framreitt okkur öllum til svo mikillar gleði og uppbyggingar umliðna viku. Kirkjulistahátíð er vísbending um grósku lífs og lista sem á enga hliðstæðu fyrr né síðar hér á landi. Það er sannarlega flest í blóma á Íslandi. Hvert sem litið er má sjá taumlausan sköpunarkraft jafnt í náttúrunni sem í mannlífinu. Menningin sýður og ólgar, gróðinn flæðir um þjóðlífið. Aldrei hefur íslenskt þjóðlíf verið litríkara, fjölskrúðugra, frjórra. Við erum aldeilis ekki lengur fá, fátæk og smá, heldur á heildina litið sem þjóð og samfélag, auðug, öflug og sterk. Við höfum margt að þakka. Því má þó ekki gleyma að ekki sitja hér allir við sama borð, og enn eru fátæktargildrurnar víða, og kalsárin í mannlífsflórunni átakanleg.

Menning er ofin ótal þáttum, þar sem fæstir eru sýnilegir. Vissulega er það svo að „kristilegu kærleiksblómin spretta í kringum hitt og þetta,” eins og Nóbelsskáldið segir. En umhyggjan og samhjálpin eru grundvallarþættir í okkar kristnu siðmenningu, sem síst má vanrækja. Og eins er jafnræði fyrir lögum, ábyrgð og traust og heiðarleiki meginstoðir hins góða samfélags.

Aldrei höfum við verið eins upptekin af öryggi okkar og nú. Æ fleiri svið hins daglega lífs eru vöktuð og mikið til þess kostað, og við virðumst vera fús til að afsala okkur töluverðu af persónufrelsinu. Það er sem menn geti ekki lengur gengið að grundvallar siðgæðis sáttmála samfélagsins vísum.

Í kjölfar hermdarverkaárásanna í Lundúnum er sagt að tortryggnin og óttinn hnippi í sérhvern þann sem gengur inn í neðanjarðarlest eða tekur strætisvagn, og sér þar þeldökkan mann með bakpoka. Má svo nærri geta hvernig því fólki líður, sem vegna útlits síns og uppruna vekur ótta og tortryggni. Vitaskuld eru allflestir múslimar friðsemdarfólk, fæstir samferðarmanna okkar hafa illt í hyggju. En óttinn býr um sig í samfélögunum. Og vitneskjan um að um heim allan sé sáð fræjum haturs og hefnda í ótal skólum, trúarskólum sem sannarlega eru kostaðir af arabískum auðkýfingum bornir uppi af glóandi hatri á vestrænni hugsun og sið.

Hvernig megnum við að vinna gegn þeim viðhorfum sem drepa lönd og þjóðir í dróma óttans? Hvernig getum við eflt okkur sjálf og börn okkar til dáða í baráttu gegn afli fordóma og haturs í sérhverri mynd? Þar þarf annað og meira til en aukna eftirlitstækni og öflugri varnir. Það þarf innri mótstöðu, andlegan og siðferðilegan styrk.

Hvað segir það um mótstöðuafl okkar kristnu siðmenningar að víða Evrópu standa kirkjurnar hálftómar, en moskurnar fullar? Hvert sækjum við viðmið og siðferðisstyrk fyrir okkur sjálf og niðja okkar? PoppTV og MacDonald stoða þar lítt. Ofurkrónan íslenska og viðskiptasnilldin hafa vissulega veitt okkur nægtir að lifa af, en annað og meira þarf til. Við þurfum eilíf gildi að lifa fyrir. Svo virðist á stundum sem fólki sé talin trú um að lífið sé samhangandi útihátíð, eða menningarnótt, án skuldbindinga, án fórna, án baráttu fyrir öðru en því að hafa það sem þægilegast og skemmtilegast, hvað sem það kostar. Margt bendir til að við séum svo blinduð af möguleikum tækninnar að umhugsunarlaust er stokkið á fyrirhafnarlaus tækniráð, og litið framhjá þeim andlegu og siðferðislegu gildum sem í húfi eru.

Klámvæðingin setur sín kámugu fingraför æ víðar og þröskuldarnir lækka og viðnámið minnkar. Oft er sem list og menning sé undirorpin neyslu og gróðasjónarmiðum, tilbúin af tískusmiðum og markaðssett af auglýsingajöfrum.

Trú setur líka mark sitt á samtíðina, oft með harla ógeðfelldum hætti. Það er undur auðvelt að misnota trú í þágu annarlegra valdahagsmuna sem nærast á hatri og heift, eins og dæmin sanna. Það á ekki aðeins við um múslima, heldur öll trúarbrögð og hugmyndakerfi. Allt minnir þetta á hve skrefin eru stutt frá siðmenningu til siðleysis. Við berum hvort tveggja innra með okkur. Kristin menning og siður hefur alltaf byggst á meðvituðu uppeldi og skaphafnarmótun, þar sem virðing og lotning fyrir hinu heilaga, sanna og góða, er í fyrirrúmi, og viðmiðið er þangað sótt.

Heimurinn okkar þarfnast lækningar. Undir jarðar og mannlífsins svíða og blæða undan yfirgangi okkar og ágirnd. Þess vegna þurfum við að hlusta þegar Jesús Kristur nemur staðar frammi fyrir okkur og spyr eins og í guðspjalli dagsins: „Viltu verða heill?” „Viltu verða heil?” Og í hverju er svarið fólgið? Í vilja okkar og fúsleik að vera manneskjur sem góður Guð getur notað í þágu lífsins, í þágu umhyggjunnar og friðarins.

Um daginn minnti frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti, okkur sem stödd vorum á Hólahátíð á orðskvið sem segir: „Sá einn sem sér hið ósýnilega megnar að gera hið ómögulega.” Við þurfum sýn til hins góða og fagra sem að baki tilverunni dylst, við þörfnums þess að trúin, umhyggjan og listin haldist í hendur, við þurfum þá iðkun menningar sem er rækt þess sanna og góða, við þörfnumst þeirra hefða, hátíða, fagnaða, sem lyfta hug í hæðir og vekja og skerpa sálarsýn til þess sem göfgar. Við þörfnumst trúar „á ljós það og líf sem að lyftir oss duftinu frá” - eins og segir í þjóðsöngnum okkar. Kirkjulistahátíð hefur reitt fram nægtaborð þess sem helst og fremst má beina sjónum til þeirrar áttar. Iðkun kristinnar kirkju, helgar hennar og hátíðir, bæn og söngur og frásagnir og uppeldi á heimilum og kirkjum, snýst einmitt um þetta.

„Viltu verða heill?” spyr Jesús Kristur. Við þurfum að taka höndum saman um að lyfta upp mynd hans, rifja upp sögu hans, draga fram dæmi hans, leggja börnum okkar orð hans á tungu og mynd hans á hjarta. Það verður að segjast að gagnvart nafni hans og mynd, og kristinni trú og iðkun ríki snertifælni í samtíðinni. Svo merkilegt sem það nú er. Við þurfum að styrkja heilbrigða, kristna sjálfsmynd í samfélagi og menningu, til að geta verið í raun og sanni gestrisið, opið og frjótt menningarsamfélag. Óttinn og tortryggnin í garð þess sem er framandi, fordómar og hatur nærast umfram allt af fáfræði og veikri sjálfsmynd. Og tökum eftir því, hin kristna samfélagssýn er ekki sú að allir marseri í sama takti, steyptir í sama mót og syngi einni rödd. Nei, munum eftir frásögn Postulasögunnar af Hvítasunnunni! Það samfélag sem andi Krists laðar til er miklu fremur kantata eða sinfónía, þar sem raddirnar mörgu og hljóðfærin margbreytilegu mynda samhljóm sem hrífur, gleður og vekur.

Guðspjöllin segja söguna af Jesú Kristi, sem tóninn setur og slá takt hins góða lífs og læknaða, upprisna heims. Söguna af því hvernig miskunnsemi og umhyggja bægja frá ótta og tortryggni, fyrirgefning rýmir burt hatri, kærleikur bræðir kaldhæðni og kæruleysi, og yfirvinnur hið illa; hvernig lífið sigrar dauðann. Með því að læra bænir og sálma og sögurnar um Jesú þá lærum við stafróf og móðurmál trúarinnar. Já, og með því að syngja!

Frú Vigdís, sem var að vanda tíðrætt um móðurmálið okkar, þróun þess og hag, hvatti til þess í ræðu sinni í Hóladómkirkju að við færum að syngja meira, leggja meiri áherslu á að syngja gömlu ættjarðarljóðin okkar, þar væri fólginn svo mikill fjársjóður, gegnum sönginn efldist og þroskaðist málkenndin. Það vil ég taka heilshugar undir. Tökum að nýju upp morgunsönginn í skólum landsins! Kirkjan hefur markað sér tónlistarstefnu þar sem lögð er aukin áhersla á almennan söng, og að börn og unglingar verði handgengin sálmaarfinum. Virkust miðlun tungu og trúar hefur ætíð verið með söng. Og í söngnum eru læknandi lindir lífs og sálar.

„Viltu verða heill?” spyr Kristur, og býður fram lækningu sína. Lækningu sem fólgin er í iðrun og afturhvarfi. Og það er ekki afturhvarf til fortíðar, og einhverrar ímyndaðrar andlegrar eða siðferðilegrar gullaldar, eins og sumir ætla. Nei, það er að snúa sér til Guðs og birtunnar hans.

„Viltu verða heill?” spyr Kristur, og býður fram lækningu sína sem er fyrirgefning syndanna. Hún leiðir af sér sátt, að sættast við mótstöðumann sinn og elska óvin sinn. Það merkir ekki að láta undan ofbeldinu og yfirganginum, heldur að sjá sérhverja manneskju sem barn Guðs sem hann elskar og er að leita til að frelsa.

„Viltu verða heill?” Þetta er spurning um trú, von og kærleika. Þar er fólginn lykillinn að heilsu og heilbrigði manns og heims. Í þeirri trú og von og kærleika skulum við halda héðan frá hátíðinni til hversdagsins í frelsarans Jesú nafni. Amen.