Nafnið sem hverju nafni er æðra

Nafnið sem hverju nafni er æðra

Í heimi knattspyrnunnar á Englandi skín stjarna eins manns skærar um þessar mundir en nokkurs annars. Sá heitir Weyne Rooney og er tvítugur að aldri og leikur fótbolta með því fornfræga knattspyrnuliði Manchester United.
fullname - andlitsmynd Kristinn Jens Sigurþórsson
25. desember 2005
Flokkar

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði.Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jh. 1.1-14

Jólin eru gengin í garð.

Hátíðin er runnin upp, sem felur í sér boðskap um ljós og birtu, frið og frelsi, sem og fögnuð til handa sérhverjum þeim sem trúir að frelsari sé fæddur; Kristur Drottinn, í borg Davíðs.

“Og hafið þetta til marks,” segir í jólaguðspjalli Lúkasar: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu,” og við þekkjum svo söguna af því hvernig hróður þessa barns, sem við köllum son Guðs, hefur borist um alla jörð, því eins og segir í Filippíbréfi Páls postula, þá “fór hann ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur, heldur svipti hann sig öllu, tók á sig þjóns mynd, og varð mönnum líkur....og fyrir því hefur Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið sem hverju nafni er æðra.”

Já, nafnið, sem hverju nafni er æðra! Hvert skildi vera æðst allra nafna í nútímanum? Er það nafn þess sem er valdamestur, eða þess sem er ríkastur, eða er það kannski nafn þess sem er bestur á knattspyrnuvellinum? Að skjóta Rooney ref fyrir rass

Í heimi knattspyrnunnar á Englandi skín stjarna eins manns skærar um þessar mundir en nokkurs annars. Sá heitir Weyne Rooney og er tvítugur að aldri og leikur fótbolta með því fornfræga knattspyrnuliði Manchester United.

Á Englandi vita allir hver Wayne Rooney er, og eru yfirburðir hans á knattspyrnuvellinum svo miklir að menn eru farnir að tala um að það sé ekki á færi nokkurs máttar að stöðva hann á því sviði.

Það vakti því nokkra athygli nú á aðventunni þegar á Englandi var kunngjört að í skoðanakönnun á meðal grunnskólabarna yngri en 10 ára hefði Wayne Rooney einungis lent í öðru sæti þegar spurt var hver væri frægasta persónan í heiminum. Í þriðja sæti var Jesús, í því fjórða David Beckham, og fimmta sætið skipaði sjálf englandsdrottning. Í sjöunda sæti kom svo jólasveinninn, sem nokkuð hefur verið til umræðu að undanförnu, en það þykir orðið fréttnæmt þegar lærðir menn hér í prófastsdæminu halda því fram að hann sé ekki til.

En hver ætli hafi lent í 1. sæti þessarar skoðanakönnunar? Jú, fyrsta sætið hreppti Guð, og kom víst nokkuð á óvart. Það var s.s. Guð, skapari himins og jarðar, sem skaut sjálfum Wayne Rooney ref fyrir rass og var efstur á blaði þegar hugur barnanna hafði verið kannaður.

“Vitnisburður”

Þetta segir okkur að Guð er ofarlega í huga barna, og það þarf kannski ekki endilega að koma á óvart, því Guð og trúin á hann hefur verið meira í fréttum á undanförnum misserum en jafnan fyrr, og kannski það hafi haft í för með sér meiri umræðu um Guð inn á heimilunum en oft áður.

Reyndar hefur þessi aukna umræða um Guð ekki allskostar komið til af góðu, því að sumu leyti hefur það verið í tengslum við mannskæðar hryðjuverkaárásir sem og stríðsátökin í Írak. Einnig gæti það átt sinn þátt í þessari auknu umræðu um Guð að frægar manneskjur eru farnar að vitna óhikað um trú sína, eins og t.d. George Bush bandaríkjaforseti, en hann notar orðið hvert tækifæri í fjölmiðlum til að vitna um sterka trúarsannfæringu sína.

Að sumu leyti má kannski segja, að það að vera trúaður sé að einhverju leyti í tísku nú um mundir, og hér heima á Íslandi mætum við því að þekktar manneskjur sem eru á allra vörum, eins og til dæmis Bubbi Morthens og rithöfundurinn Jón Gnarr, sem menn vilja jafnan kenna frekar við grín en alvöru, eru óhræddir við að koma fram í fjölmiðlum og vitna um sína kristnu trú, og um það er ekkert nema gott segja og kannski til marks um ákveðinn þroska og hugrekki.

“Þankagangur”

Í bók eftir Jón Gnarr, sem kom út nú fyrir jólin og ber nafnið “Þankagangur” fjallar t.d. einn kaflinn um Guð, og þar segir höfundurinn á einum stað:

“Einu sinni hélt ég að ég væri guð. Einn daginn áttaði ég mig á því að það hlyti að vera til eitthvað merkilegra afl í alheiminum en ég. Þá fór ég að leita að Guði. Og ég fann kærleikann.”

Og síðar í þessari sömu bók, þar sem hann fjallar um trú, segir hann:

“Ég komst á þann stað í lífinu þar sem enginn mannlegur máttur gat hjálpað mér. Ég hafði reynt allt. Í staðinn fyrir að gefast bara upp - sem virtist það eina rétta í stöðunni - ákvað ég að halda áfram í blindri von um að ekki væri allt vonlaust. Og það reyndist mér til happs.

Ég fékk trú á Guð og ekki bara hann heldur einnig á sjálfan mig sem Guðs barn og annað fólk sem Guðs börn líka. Þessi trú hefur gert líf mitt hamingjusamara en það var áður.”

Hann heldur síðan áfram í beinu framhaldi af þessum orðum og vísar til kærleikans á ný og segir:

“Ef kærleikurinn er einungis lífeðlisfræðilegt fyrirbæri sem á sér rætur í ótta mannsins við einsemd sína, þá er ég illa svikinn. En mér finnst það fyrst og fremst leiðinleg kenning sem gerir lítið úr andlegum mætti mannsins. Og ef það væri sannað fyrir mér, með vísindalegum aðferðum, að kærleikurinn væri ekki til, þá myndi ég samt halda áfram að trúa á kærleikann.”

Það er bæði athyglisverðan og fallegan vitnisburð að finna í þessum orðum, og kannski ekki hvað síst fyrir það, að þarna vitnar maður um trúarsannfæringu sína, sem þekktastur er fyrir grín og glens, og hálfkveðnar vísur.

Það er hins vegar líka vel þekkt, að eimitt þeir, sem hvað naskastir eru á hinar spaugilegu hliðar lífsins, og er gjarnt að hæðast að öllu, eru oft og tíðum þeir sem einmitt skynja hvað best djúpin myrku sem geyma alvöru lífsins.

Reyndar hefur Jón Gnarr komið fram í fjölmiðlum og skýrt frá því að það hafi verið fjárhagslegir erfiðleikar í lífi hans sem m.a. urðu til þess að hann ákvað að leita trúar og taka líf sitt fastari tökum en áður, og í framhaldi þess ákvað hann að láta af því að þreyta það lífsgæðakapphlaup, sem hann fann að var farið að stjórna lífi sínu. Verðmætamat

Það var því athyglisvert að sjá í könnuninni á börnunum á Englandi, að þrátt fyrir að þau væru sér vel meðvituð um Guð og Jesú Krist, þá vafðist ekki fyrir þeim að svara því, hvað það væri, sem væri eftirsóknarverðast í heiminum. Efst á blaði hjá þeim voru peningar, ríkidæmi og frægð, en því næst var eftirsóknarverðast að spila fótbolta, hlusta á tónlist og að eiga dýr. Lífsgæðakapphlaupið hafði því greinilega náð til þeirra, þótt ekki væru þau eldri en tíu ára gömul.

Verst þótti þeim aftur á móti drukkið fólk, reykingar, sorp, veggjakrot og styrjaldir.

Það er því ljóst af þessu, að þó börnin ungu kunni að nefna Guð á nafn, og son hans Jesú Krist, þá eiga þau ennþá nokkuð í land með að tileinka sér hinn kristna boðskap og það verðmætamat, sem kristindómnum liggur til grundvallar.

Og hvernig ætti það svo sem öðruvísi að vera?

Sá heimur sem við búum í – og sem við í rauninni höfum skapað að miklu leyti sjálf – er yfirfullur af þeim boðskap, að enginn geti talist maður með mönnum nema hann lifi í lúxus, umvafinn dýrðlegum veraldlegum auði.

Það verður okkur hins vegar æ ljósara eftir því sem lífinu vindur fram, að það sem mestu máli skiptir eru ekki veraldleg verðmæti, heldur þau verðmæti, sem mölur og ryð fær eigi grandað; verðmæti eins og kærleikur, vinátta og heiðarleiki, og hérna langar mig líka til að nefna trúna á nafn, því eftir því sem árin færast yfir fer trúin oftar en ekki að skipta meira máli og þá fer að varða meiru hvert það andlega veganesti er, sem maðurinn hefur þegið á lífsleiðinni.

Við gleymum því hins vegar oft hver hin sönnu verðmæti eru í lífinu, og við þyrftum í rauninni að geta rifjað þau oftar upp fyrir okkur. Hver virði er okkur t.d. fjölskyldan og hvers virði er tíminn, sem við eigum stundum svo auðvelt með að láta ganga okkur úr greipum, eða þá trúin?

Til þess að við gerðum okkur almennilega grein fyrir mikilvægi þess að eiga fjölskyldu, þá þyrftum við eiginlega að leita til einstæðingsins, sem þekkir það af eigin raun, hvað það er að eiga engan að.

Og til að gera sér grein fyrir því hvers virði 10 ár eru af lífinu þá þyrftum við kannski að leita til hjóna sem hefðu verið gift í áratug en væru nýskilin.

Og til að við gerðum okkur grein fyrir því hvers virði eitt ár er af mannsævinni, þá væri hægt að leita í smiðju til þess, sem féll á lokaprófi og þurfti að endurtaka það allt ári seinna.

Og til að við gerðum okkur grein fyrir því hvers virði einn mánuður er, þá gæti verið gott að tala við móður barnsins sem fæddist fyrir tímann.

Og til að gera sér grein fyrir gildi einnar mínútu væri hægt að ræða við þann sem hefði rétt misst af strætisvagninum eða lestinni.

Og ef við vildum gera okkur grein fyrir mikilvægi hverrar sekúndu, þá væri örugglega hægt að ræða um það við þann sem hefði lent í alvarlegu bílslysi.

Og til þess að við gætum gert okkur betur grein fyrir því hvað trúin er manninum bæði eðlislæg og mikilvæg, og stendur hjarta hans í rauninni nærri, þá gætum við án efa lært margt af þeim, sem veit að dauðinn er í nánd og að hann á ekki langt eftir.

Leit að merkingu og mótun lífs

Já, það er tekist á um Guð og gildistmat í heiminum, og út af fyrir sig er það ekkert skrítið, því aldrei sem nú hefur hraðinn í lífinu verið jafn mikill, og jafnframt hafa sennilega aldrei verið uppi samtímis jafn margvísleg viðhorf til Guðs og einmitt nú á dögum.

Við skulum hins vegar ekki láta það slá okkur út af laginu, því þó Guð sé einn og óumbreytanlegur, sá sami í dag og í gær og frá eilífð til eilífðar, þá eru viðhorf okkar til hans ekki alltaf þau sömu. Þau eru í stöðugri mótun – a.m.k. ef við tökum trúna alvarlega og teljum hana búa yfir þeim svörum sem unnt á að vera að leggja til grundvallar lífinu - og því er það að við komum alltaf aftur og aftur að þessum sömu biblíutextum, til að leita merkingar þeirra og til að leyfa þeim að móta líf okkar.

Á jólunum komum við enn á ný að jólaguðspjalli Lúkasar og látum það leiða okkur að barninu í jötu fjárhússins, sem minnir okkur m.a. á, að hið guðlega gistir ekki alltaf í glæstum sölum, og við leitum einnig í upphafsversin í Jóhannesarguðspjalli, sem geymir formálan fallega, þar sem talað er um Orðið – logos – sem varð hold, sem segir okkur að Guð sjálfur, í allri sinni dýrð, hafi svipt sig öllu og stigið niður til okkar mannanna, til að deila kjörum okkar, og ekki bara það, heldur líka til að vísa okkur veginn heim í kærleiksríkan náðarfaðm Guðs – já, verða sjálfur vegurinn heim.

Það er gott að vita að Guð er börnunum á Englandi hugleikinn, og það svo hugleikinn að hann kemur þeim jafnvel fyrr í hug en sjálft knattspyrnugoðið sem áðan var nefnt. Þetta segir okkur að börnum finnst Guð spennandi og að Guð skiptir þau máli.

Og vissuleg skiptir Guð máli, því í honum er lífið, hið sanna líf sem er Kristur Jesús, og Kristur Jesús er ljós okkar mannanna, en öllum þeim, sem taka við honum er gefinn rétturinn til að verða Guðs börn, og sem Guðs börnum er okkur svo gefið að ganga fram í kærleikanum - kærleikanum sem breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt – já, kærleikanum, sem aldrei fellur úr gildi.

Látum þann guðlega boðskap um kærleikann og soninn, sem svipti sig öllu, dvelja með okkur til íhugunar á hinni helgu jólahátíð.