Má stela?

Má stela?

Haft er eftir enskum presti að fólk eigi/megi stela úr stórmörkuðum frekar en að horfa á börnin sín svelta. Nauðsyn brjóti lög. Kærleikur Guðs og meðaumkvun með hinum fátæku vegi þyngra en boðorðið ,,þú skalt ekki stela” sem verndi í þessu tilfelli eignarétt auðkýfinga.

Matur í hillu

Haft er eftir enskum presti að fólk eigi/megi stela úr stórmörkuðum frekar en að horfa á börnin sín svelta. Nauðsyn brjóti lög. Kærleikur Guðs og meðaumkvun með hinum fátæku vegi þyngra en boðorðið ,,þú skalt ekki stela” sem verndi í þessu tilfelli eignarétt auðkýfinga.

Þessi spurning er ekki ný, síður en svo. Átt þú/mátt þú horfa á barnið þitt svelta án þess að hafa gripið til allra mögulegra ráða til þess að gefa því mat. Stofusvarið er: Samfélagið byggir á lögum, án þeirra yrði algjör óreiða, þeim verðum við að hlíta. Viðkomandi á að leita allra löglegra leiða, biðja, betla, sárbæna, leita til yfirvalda, kirkju, góðviljaða, höfða til samvisku annarra. Raunveruleikinn: Þetta gengur ekki alltaf upp. Margir eru í það miklum helgreipum fátæktar og einangrunar að það tómt mál fyrir þá að huga að ofangreindu.

En boðorðið ,,þú skalt ekki stela”? Á það við? Ekki endilega. Þessi enski prestur hefur töluvert til síns máls. Færa má rök að því að þau séu töluð inn í aðstæður einfaldrar samfélagsuppbyggingar þar sem flestir sátu við sama borð. Síðar hafi eignasöfnun fárra komið til sögunnar. Fáir hafi sópað að sér eignum samfélagsins. Fjöldinn orðið fátækur, afskaplega margir lifað við hungurmörk. Þetta sé t.d. tilfellið á Bretlandi og í vaxandi mæli hér. Þessi skipan hafi mótast í aldanna rás. Í styrjöldum verði eignatilfærslan hvað svakalegust. Í stað þess að jöfnuður ríki í samfélögum verði misskiptingin megineinkenni þeirra. Er það þessi skipan sem hið gyðinglega samfélag Mósebókanna er að verja? Er það þetta sem Jesú er að leggja blessun sína yfir? Færa má rök að því að svo sé ekki.

Þrátt fyrir þetta er vafasamt að mæla með gripdeildum úr stórmörkuðum alla vega hérlendis. Þó skulum við hafa það í huga að auðjöfrarnir stela sífellt af þeim fátæku í nafni álagningar sem undanfarin ár a.m.k. hefur leitt til ofsagróða hér á landi. Það er svo sannarlega spurning hver stelur af hverjum?

Og enginn skyldi dæma þann mann sem stelur mat handa svöngum börnum sínum.