Upphaf föstu

Upphaf föstu

Flestir siðir og hefðir eiga sér langa sögu. Í föstuinngangi íhugum við gjarnan sögu bolludags, sprengidags og öskudags.

Flestir siðir og hefðir eiga sér langa sögu.  Í föstuinngangi íhugum við gjarnan sögu bolludags, sprengidags og öskudags.  Þeir eiga rætur sínar í kjötkveðjuhátíðum kirkjunnar, sem hafa þó aðallega haldist í kaþólskum löndum.  Við hjónin höfum átt því láni að fagna að hafa oft verið erlendis á þessum dögum og höfum til dæmis upplifað hina frægu Mardi gras hátíð í New Orleans í Bandaríkjunum þar sem skrúðgöngur eru dag eftir dag alla helgina í föstuinngangi, en það eru einmitt dagarnir fyrir öskudag, sem er hinn formlegi upphafsdagur föstunnar. Á Mardi gras hátíðinni klæðist fólk ævintýralegum búningum og hengir á sig alls konar festar og skraut.  Lifandi tónlist í jazz stíl hljómar alls staðar og mikil gleði leikur í loftinu.  Oft tekur það fólk langan tíma að undirbúa skrúðgöngurnar sem oft er gert í félagi við vinahóp eða félagasamtök.

Einnig höfum við upplifað skrúðgöngur á la Gomera sem er ein af sjö eyjum Kanaríeyja.  Þar eru skrúðgöngurnar fjölskylduvænni en í New Orleans. Þar eru fjölskyldurnar saman í skrautlegum búningum og mikil lifandi tónlist leikin undir göngunni.

Íhugun.

Eitt sinn vorum við í Taizé, sem er lítið þorp í Frakklandi, á öskudaginn og sá dagur hafði yfir sér mikinn alvörublæ, enda er Taizé staður þar sem allar kirkjudeildir koma saman til bænahalds og íhugunar við undurfallega og róandi tónlist.  Á öskudaginn var gert krossmark á enni okkar með ösku og við minnt á forgengileika lífsins, iðrun og yfirbót.

Bolludaur, sprengidagur, öskudagur.

En hvernig tengist þetta allt bolludegi, sprengidegi og öskudegi?

Bolludagur og sprengidagur eru eiginlega okkar kjötkveðjuhátíðir.  Áður fyrr var talað um að fasta við hvítan mat og að fasta á kjöt.  Á bolludaginn er borðað hvítt hveiti og rjómi, sem ekki átti að borða á föstunni og eins mikið kjöt og hægt var í sig að láta á sprengidaginn og fasta síðan á kjöt fram að páskum.  Á þessum árstíma var hér á árum áður lítið um nýmeti.  Kjöt var hangið og saltað og því var hefðin áður að borða hangikjöt eða saltkjöt á þessum degi, en saltkjötið orðið ofan á í seinni tíð. Sú hefð skapaðist hins vegar á Íslandi að börn fóru í búninga á öskudaginn.  Í mínu ungdæmi voru það þó aðallega öskupokarnir skemmtilegu sem einkenndu þennan dag, en á Akureyri var kötturinn sleginn úr tunninni og hópar barna klæddu sig upp, gengu í hópum um bæinn og sungu í búðum.

Fastan.

En hvernig höldum við föstuna nú? Neitum við okkur um eitthvað á þessum tíma.  Ég held ekki samkvæmt þessari gömlu skilgreiningu, en við erum samt sem áður alltaf að sjá betur og betur hvað föstur gera okkur gott hvort sem það er 16/8, 15/9 eða hvað þetta heitir nú allt saman. 

Þó við höldum ekki í matarhefðir alla föstuna finnst mér samt sem áður að hún sé inngróin í íslensku þjóðarsálina, en það hafa passíusálmarnir gert um aldir.

Þegar lútherskur siður tók við af hinum kaþólska varð mikil breyting á trúarlífi Íslendinga.  Á Hólum í Hjaltadal kom Biblían út í íslenskri þýðingu árið 1584.  Hún var þó of dýr til að almenningur gæti eignast hana.  Kirkjurnar gátu þó keypt hana og farið var að lesa orð Guðs á íslensku í messum. Árið 1666 komu síðan út á Hólum Passíusálmar Hallgríms Péturssonar.  Þá gat allur almenningur eignast og voru þeir lesnir á húslestrum á hverju heimili alla föstuna, einn á dag fram að páskum.  Þegar Ríkisútvarpið hóf útsendingar sínar árið 1930 lögðust húslestrarnir að miklu leyti af, en þá var farið að lesa passíusálmana í útvarpi alla föstuna og er svo enn.  Eftir að sjónvarpið og aðrar útvarpsrásir tóku yfir var sá siður tekinn upp í mörgum kirkjum að lesa alla passíusálmana á föstudaginn langa og þannig hefur lestur þeirra haldist óslitinn frá 1666 allt til dagsins í dag eða í 356 ár.

Guð gefi að við eigum innihaldsríkan föstutíma þar sem við íhugum líf okkar og samfélag okkar við Guð og getum fagnað upprisuhátíðinni á páskadag með hug og hjarta og í einlægri gleði.