Guð blessi Ísland

Guð blessi Ísland

Forsjón merkir að Guð ráði framtíðinni og „Hlutirnir hafa tilhneigingu til að fara á betri veg.“ Í þessu er guðstraustið fólgið. Segjum því eins og postulinn: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gjörir.“
fullname - andlitsmynd Hjálmar Jónsson
10. október 2013
Flokkar

Kristur er samur sem fyrr. Í dag er hann að opna augu fólks. Og setja málin í samhengi. Hann dregur upp myndir til þess að mikilvæg sannindi festist í hugum áheyrendanna. Til þess kom hann í heiminn að opna Guði leið til mannanna, - og mönnunum leið til Guðs. Í dæmisögum og líkingum brá hann upp myndum af því sem hann kom til að flytja, öllum mönnum. Það sem hann vildi færa hverju hjarta: Kærleika og fegurð, frið og hamingju. Í athöfnum, e.k. sýnikennslu, gerir hann það nú ljóst hvernig kraftar Guðs verka í mannlegu samfélagi. Maðurinn í sögu dagsins var blindur. Honum dugðu ekki dæmisögur eða venjuleg sýnikennsla. Hann sér ekki og skilur þær ekki. Hann hafði verið afskiptur vegna fötlunar sinnar. Út af fyrir sig væri verðugt að velta því fyrir sér, á Íslandi í dag, hvers vegna umræðan snerist upp í deilur um það hverjum þetta sjónleysi væri að kenna. Hvort hann hefði sjálfur kallað það yfir sig eða hvort foreldrar hans hefðu verið svona vondir að það bitnaði á honum. Annað hvort hlyti það að vera!

Og svo er talað um það hvort þetta hafi nú endilega verið Kristur og kraftur hans sem læknaði - eða einhver annar. Og hvort þetta sé sami maðurinn og hafði verið blindur. Semsagt, það var flest dregið í efa, viðhorfin ólík og ekki gott að átta sig í öllum atriðum. Sjálfur vissi blindi maðurinn um kjarna málsins. “Maður að nafni Jesús breytti lífi mínu.” Ég ætla að segja þetta aftur: “Maður að nafni Jesús breytti lífi mínu.” Hversu margir hafa ekki vitnað um þetta sama!? Við gætum sagt það líka. Hvað væri heimurinn án hans? Einhver spekingurinn velti vöngum yfir þessu á dögunum – í beinni útsendingu fjölmiðils:” Hvernig væri Ísland ef kristni hefði ekki verið lögtekin á Íslandi?” Á ræðumanni var að heyra að hann/hún væri í vafa um það hvort þjóðlífið væri betra eða verra með kristindóminn meðferðis. Víðsýnið, fordómaleysið, hlutleysið, svokallaða tekur á sig ýmsar myndir. Um slíkan málflutning ritaði Sigurbjörn biskup einu sinni svo: “Meinar nokkur í alvöru að íslenskri löggjöf og réttarfari hefði verið betur háttað ef aldrei hefði verið tekið neitt tillit til boðorðanna 10 frá Sínaí? Hefði söguþjóðin orðið göfugri í hugsun og framferði og þroskameiri ef sagan um miskunnsama Samverjann eða hetjusagan frá Golgata hefði aldrei heyrst á hennar tungu? Var það slys að Fjallræðan barst hingað til lands? Þeim er lítt trúandi til andlegrar leiðsagnar sem láta sér slíkt um munn fara.” (Tilv. lýkur í Hirðisbréf Sbj.E.).

Maðurinn í guðspjallinu var blindur frá fæðingu. En það er hægt að missa sjónina á ýmsan hátt. Í dag eru 5 ár frá því þáverandi forsætisráðherra landsins skýrði frá því hvar við værum stödd í efnahagsmálum, þessi þjóð. Hvernig farið hefði vegna glannaskapar og oflætis. Hann skýrði frá því til hverra ráða í löggjöf yrði gripið, hvaða viðspyrna væri helst möguleg. Svo hvatti hann til samstöðu og lauk ræðu sinni á þessum orðum: “Guð blessi Ísland.” Þessi orð hafa verið afflutt. Ekkert vakti fyrir honum annað en gera hið besta og biðja þjóðinni farsældar. Mér finnst það alltaf miklu skipta þegar fólk kallar eftir því það besta sem það þekkir og heitir á það til fulltingis sér. Það er öfugt við hitt sem allt of oft verður þó raunin: Að kveðja upp fordóma og ofstæki sér til liðs og ala á tortryggni og sundurlyndi. Þá dimmir yfir landi og lýð. Hvenær vegnar okkur best í landinu? Það er þegar okkur tekst að lifa við sæmilegan frið, þegar látið er af heift og heitingum. Þegar öfgar, stóryrði og sleggjudómar eru víðs fjarri. Stríðsátök milli landi, að ekki sé nú talað um innanlandsróstur, borgarastyrjaldir, hafa alltaf hafist á hervæðingu hugarfarsins með ofstækisfullri umræðu heiftarumræðu. Sannleikurinn verður fyrsta fórnarlambið. Réttsýnin, yfirsýnin, miskunnsemin – öllu slíku er sópað af sviðinu. ---- Lífsspeki kristinnar trúar er öllum boðin, hún er öllum aðgengileg og allra eign. Ekki má gera hana neinum torskilda. “Maður að nafni Jesús gaf mér sjónina.” Drottinn vill fá að opna hugi okkar fyrir öllu því sem gleður og fegrar sál og líf og samfélag manna. Jesús Kristur er mynd, sem Guð faðir gaf okkur. Þar sjáum við hvernig Guð hugsar og talar til okkar. Þegar við sjáum gæsku hans við alla menn, hvernig hann læknaði, lyfti og bætti lífið, þá sjáum við það sem Guð vill að sé alltaf að gerast í mannheimi. Að gjafir hans verði til þess að veröld mannanna sé og verði góð og gegn. Að lækna sjúka er skýrt dæmi um kærleikshugarfar. Um það hljótum við að sameinast sem kristin þjóð.

Skírnin er fegursta táknmynd Guðs, - fegursta og um leið dýrmætasta myndin sem hann dregur upp til að sýna og staðfesta kærleika sinn til mannanna. Þar segir í bæn: “Gef barninu heilagan anda þinn svo að hann veki og glæði allt hið góða sem þú hefur fólgið í sálu þess.” Guð hefur gefið góðar gjafir, - hvert barn er sérstakt þakkarefni, sú gleði og hamingja er engu lík; sú, að taka á móti slíkri gjöf, sem er lögð í hendur foreldrum. Við skírnina er minnt á hlutverk okkar allra gagnvart hinu skírða barni, gagnvart æskunni allri: Að laða fram það góða sem Guð hefur lagt í sál og líf barnanna. Styrkja góðu kostina, efla þau til lífshamingju og gæfu, sjálfum sér og samtíðinni. Það gerum við best með því að vanda persónuleg samskipti og þannig um leið þjóðlífið. „Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.“ Þannig endar lexía dagsins.“ Og það er lexía í þessu, sem er gegnumgangandi í textum dagsins. Boðskapurinn er þessi, á 5 ára „afmæli“ bankakreppunnar: Þú getur átt í erfiðleikum. Það geta komið þeir tímar í þínu lífi að þér finnist öll sund lokuð. Það er nagandi kvíði fyrir morgundeginum og áhyggjur af óleystum málum. En það er alltaf til leið úr sérhverjum vanda. Aðstæðurnar geta breyst – og þær breytast fyrr en varir. Þú getur þurft á þolinmæði að halda. Þú getur þurft þrek og kjark. En forsjón Guðs er ekki þrotin. Forsjón. Besta skýringin á henni finnst mér felast í tveim setningum, sem segja það sama:

1. Forsjón merkir að Guð ráði framtíðinni og 2. „Hlutirnir hafa tilhneigingu til að fara á betri veg.“ Í þessu er guðstraustið fólgið. Segjum því eins og postulinn: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gjörir.“

Guð blessi Ísland. AMEN