Geðveik messa í samvinnu við Hugarafl

Geðveik messa í samvinnu við Hugarafl

Geðraskanir munu alltaf verða fyrir hendi, þær eru hluti af lífinu eins og það er og við skulum sameinast um að þróa menningu í landi okkar sem tekur á viðfangsefninu með þokka.

Þessi messa er helguð óttanum við geðveikina. Við höldum geðveika messu með Hugarafli af sömu ástæðu og staðið hefur verið fyrir geðveiku kaffihúsi á þeirra vegum og gefnar út geðveikar batasögur.  Svo hittist það líka svo á að þessa helgi er áhugahópur um bættan aðbúnað á geðdeildum með sína bráðsnjöllu brospinnasölu, sem vekur upp umræður um viðhorf okkar til geðraskana.  Ef aðbúnaðurinn á geðdeildum Landspítalans endurspeglar þjóðarsálina í þessum efnum, þá þurfum við að hugsa okkar gang. Ákvörðun þín um það að koma í þessa messu var e.t.v. öðrum þræði ákvörðun um að taka þátt í að bæta þjóðfélagið. Þjóðarsálin er nefnilega ennþá hrædd við geðveiki.

Tölum aðeins um það. Rifjum nú upp nokkrar óttasögur:

Í eina tíð trúði þjóðin á drauga og forynjur og það var m.a.s. útbreidd sannfæring að inni á miðhálendinu væri útilegumannabyggð þar sem hættulegir og stjórnlausir menn byggju við allsnægtir. Útilegumenn voru handrukkarar síns tíma. - Sami ótti, sömu tröllasögur.

Á árum áður var líka mikill ótti tengdur fötlun. Allt fram á miðja síðustu öld tíðkaðist það í mörgum sveitum að hafa fatlaða ekki til sýnis þegar gesti bar að garði á bæjum.

Allt fólk á mínum aldri man hvernig þroskaheftum börnum var strítt fyrir það eitt að skera sig úr. Þar eigum við flest ljótar minningar.

Nú, örfhent börn voru pínd til að nota hægri hönd og sú vinstri jafn vel bundin við stólbakið í skólastofunni alveg fram á 7. áratug síðustu aldar vegna þess að svona frávik þótti vera merki um eitthvað óeðlilegt.

Samkynhneigð var líka álitin sjúkdómur af þorra fólks fram undir síðustu aldamót. Sitthvað fleira mætti efna. HIV t.d. Ég gleymi aldrei þeirri stundu þegar ég sat í fyrsta sinn við hliðina á manni sem ég vissi að var HIV jákvæður. Það lá vínarbrauð á diski fyrir framan okkur og hann var búinn að taka eitt og ég þurfti að fara vandlega í gegnum það hvort ég ætti að þora að taka vínarbrauð af sama diski og maðurinn. Þetta var haustið 1992. Ég þekki þennan mann enn í dag og við föðmumst alltaf þegar við hittumst og ég hef ekki kennti mér meins ennþá.

Við lifum á merkilegum tímum. Við erum að lifa tíma þar sem alls konar svona óttabönd eru að rakna. Flestir forfeður okkar fæddust, ólust upp og dóu án þess að skipta svo mikið um skoðanir. Ég hef ekki tölu á öllum þeim skoðunum sem ég hef skipt um í gegnum tíðina, og fordómarnir sem ég hef fengið tækifæri til að leggja frá mér eru fleiri en ég gæti talið upp í fljótheitum.  Og enn er maður að læra.

Í dag erum við að tala um geðveiki. Sannleikurinn er sá að það þarf að ræða geðveiki í okkar samfélagi vegna þess að það er ennþá feluleikur í kringum hana. Frá sjónarhóli geðsjúkra má í raun segja að Íslandssagan sé meira í ætt við hryllingssögu. Slík hefur meðhöndlun okkar á geðsjúkum samferðarmönnum verið í gegnum aldir og allt fram á síðustu öld. Í dag hafa orðið stórstígar framfarir í viðhorfum okkar. Við erum t.d. sæmilega róleg varðandi þunglyndi. Það er alveg hægt að segja í hópi fólks: „Ég hef tilhneigingu til að vera þunglyndur”  og enginn verður neitt sérstaklega hræddur við þig ... þ.e.a.s. ef þunglyndinu fylgir ekki manía. En manían er eitthvað sem við eigum alveg ferlega erfitt með að tækla ennþá, að ekki sé nú talað um ranghugmyndir. Það hefur í aðra röndina þótt dálítið gáfumerki að vera svartsýnn og niðurdreginn á Íslandi og þunglyndi með sínum kalda húmor þykir þ.a.l. þolanlegt í hófi en allt sem tengist oflæti eða ofskynjunum fyllir okkur vanmætti svo að við vitum hreint ekki hvað á að gera.  Og þá gerum við hvað? - Hvað gerum við til þess að fjarlægja frá okkur það sem við óttumst?  Við uppnefnum það, stimplum það og tengjum það því sem er skítugt eða óútreiknanlegt.

Tölum um uppnefningar og stimplanir:

Ég þekki systkini sem áttu heima hér í hverfinu upp úr 1960  og áttu bróður sem var þroskaheftur með Downs-heilkenni.  „Aumingi með hor!” var kallað á eftir þeim þegar þau voru að passa bróður sinn og eineltið sem systkinin upplifðu með þessum bróður sínum var bara ferlegt.

Upphrópunin: „Helvítis hommi!” Er sennilega hægt og rólega að hverfa úr málinu, vegna þess að hommar og  lesbíur hafa orðið sýnileg og það eru allir búnir að átta sig á því að það er bara í lagi að vera samkynhneigður.

Þegar ég var strákur  man ég að stundum var sungið: “Kleppari á Kleppi sem étur skyr og epli” og ég man hvað það truflaði mig að Kleppi og epli var bara alls ekki að ríma.  Þá þótt líka mjög fyndið að segja Klepparabrandara: “Sko, það var einu sinni Kleppari sem átti hund...” gat verið bryjun á góðri sögu.  Í dag myndi enginn með eðlilega sjálfsvirðingu segja svona brandara og ég get borið vitni um það vegna þess að ég umgengst svo mikið af börnum og veit hvaða brandarar eru í gangi. Hafnarfirðingar hafa tekið á sig sögurnar sem áður voru sagðar um vistmenn á Kleppi, og svo ganga bara gömlu góðu sögurnar um tómatinn sem ekið var yfir og varð að tómatssóu, um páfagaukinn sem skeit í deigið, vinina tvo sem hétu Enginn og Haltu kjafti og konuna sem átti hundinn sem hét Nýjasta tíska. Sömu sögur hring eftir hring en ef þú spyrð 6 ára barn hvað sé Kleppari þá heldur það að þú eigir við einhverskonar heftara eða eldhúsáhald.

Samt er erfiðara út á við að vera geðveikur eða eiga geðveikan ástvin heldur en að vera t.d. sykursjúkur, vanta hönd eða búa við flogaveiki.  Af öllum sjúkdómum er geðveiki það sem erfiðast er að tala um.

Guðspjall dagsins óttasaga. Þar er það óttinn við líkamlega fötlun sem er til umræðu. Þar eru fimm vinir á ferð sem vilja ná fundi Jesú. Einn er lamaður, hinir bera hann á milli sín og þegar sama saga er sögðu í Markúsarguðspjalli er frá því greint að þegar þeir koma að húsinu þar sem Jesús er að ræða við fólkið er fullt út úr dyrum og aðgengi fatlaðra ekki upp á marga fiska. Þá grípa þeir til þess ráðs að þeir rjúfa þekjuna og láta vin sinn síga niður úr rjáfrinu til hans. Munið þið hvernig Freyja Haraldsdóttir gekk fram í síðustu kosningum og setti allt á annan endan með því að krefjast réttar síns? Hversu mikið vesen var það? Og hversu margir landsmenn skyldu hafa hrist hausinn yfir þessu brambolti í fatlaðri manneskjunni. Stundum þarf brambolt til þess að koma á sjálfsögðum úrbótum. Í dag er verið að breyta kosningareglum þannig að þær tryggi líka fötluðum rétt til að nýta atkvæði sitt með reisn. Bæjarbúar í Nasaret hafa horft á aðfarir vinanna fimm og margir hrist hausinn og hellt úr eyrunum yfir aðförum vinanna sem svo einarðlega ætluðu að ná fundi Jesú. „Þegar Jesús sá trú þeirra” segir guðspjallið, „Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lamaða manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Jesús horfði á trú vinanna, traustið sem þeir sýndu og trúnaðinn sem þeir áttu, hann horfði ekki á þá sömu augum og mannfjöldinn sem var allur með hugann við það hvað þessi fatlaði maður væri að vilja upp á dekk.  Vertu hughraustur, syndir þínar eru fyrirgefnar. Sagði Jesús við manninn. Láttu ekki kveða þig í kútinn var hann að segja. Stattu áfram með sjálfum þér, þú ert jafn góður og allir aðrir hér. Syndir þínar eru fyrirgefnar, þú þarft ekki að blygðast þín fyrir að vera þú sjálfur.

Þegar ég kem inná geðdeildir Landspítalans get ég aldrei varist þeirri hugsun að líklega endurspegil þessi niðurdrepandi aðbúnaður þá skömm sem við tengjum við geðraskanir. Muskulegt og kalt umhverfið flytur skilaboð; Synd og skömm að vera geðveikur, segja upplitaðar gardínur. Synd og skömm að vera geðveikur segja löngu úr sér gengnar innréttingar. Synd og skömm að vera geðveikur segir ljóta gólfefnið.

Vertu hughraustur segir Jesús við hinn geðveika, syndir þínar eru fyrirgefnar.

Guðspjallssagan segir svo frá að þegar Jesús talaði svona til lamaða mannsins hafi ýmsir hneykslast og þótt Jesús gera sig heldur breiðan að ganga svona blygðunarlaust gegn ríkjandi viðhorfum. „En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“ Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.”  (Matt 9.1-8)

Samtökin Hugarafl ganga fram í því valdi sem hér er lýst. Góðu fréttirnar sem trúin boðar eru ekki síst þær að Guð hefur gefið öllu fólki vald yfir eigin lífi. Þetta veit Freyja Haraldsdóttir og þegar hún gekk fram í valdi sínu á kjörstað var ekki hægt að stöðva hana. Þar fengum við að verða vitni að því sama og fólkið í Nasaret, við fengum að sjá lamaðan einstakling standa á fætur.

Núna eru geðsjúkir og vinir þeirra að rísa á fætur í valdi sínu rétt eins og lamaði maðurinn og vinir hans í sögu dagsins. Við skulum öll taka mark á því sem er að gerast og fagna yfir valdeflingu fólks með geðraskanir.  Við skulum styðja í orði og verki notendasamtök eins og Hugarafl og Geðhjálp.Við skulum meta að verðleikum öll nýju úrræðin sem síðustu ár hafa komið til og bera vitni um valdeflandi samstarf við fólk með geðraskanir. Það vita allt of fáir um geðteymin á Landspítalanum, hjá heimaþjónustu Reykjavíkurborgar og líka hjá Heilsugæslunni sem gera mjög mörgu fólki með geðraskanir kleift að lifa eðlilegu lífi utan stofnana. Á Akureyri og víðar á landsbyggðinni hefur líka um árabil verið unnið frábært starf í þessum anda. En þrátt fyrir mjög margar og góðar breytingar síðastliðin ár er enn hópur fólks sem fær ekki þá samstöðu sem hann þarf á að halda og lifir því við skert lífsgæði, fordóma og stimplun.

Í nýjasta helgarblaði Fréttablaðsins er viðtal við Silvíu Ingibergsdóttur deildarstjóra á Kleppi og Halldór Kolbeinsson yfirlæknir á spítalanum þar sem þau lýsa af mannlegri umhyggju og faglegu hispursleysi ömurlegri stöðu þeirra sem lenda á milli þils og veggjar í heilbrigðiskerfi okkar.

Geðraskanir munu alltaf verða fyrir hendi, þær eru hluti af lífinu eins og það er og við skulum sameinast um að þróa menningu í landi okkar sem tekur á viðfangsefninu með þokka.

Amen.