Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð

Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð

Varðveisla Orðsins, felst ekki í því að eiga Biblíu í hillu inni í stofu… eða vera með app í símanum… þó það hjálpi til… heldur það að varðveita trúna á Jesú í hjarta sér…

Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð        Jóel 3.1-5, Post 2.1-4 (-11),  Jóh 14.23-31a

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Jesús sagði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum… já umhugsunarefni okkar núna er… Hvað er að varðveita

Varðveisla hluta getur verið með ýmsum hætti, varðveisla uppi í hillu þar sem óvitar ná ekki til, varðveisla inni í lokuðum skáp, varðveisla með því að pússa og fægja… bera á.. og gera við ef notkun slítur hlutnum… en Jesús er að tala um ORÐ, boðskapinn sem hann kom og boðaði okkur… Jesús var sendur af föðurnum… hann sagði: Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurinsVið fengum persónuleg skilaboð frá Guði föður á himnum að við ættum ekki að óttast eða skelfast, því ef við elskum Guð, gefur hann okkur frið í hjarta…

Í dag er Hvítasunnudagur… tíu dagar liðnir frá uppstingingardegi, er Jesús kvaddi lærisveinana og sté upp til himins… þetta er dagurinn sem lærisveinar Jesú höfðu beðið eftir, dagurinn þegar undur og stórmerki gerðust í Jerúsalem… í fyrri ritningarlestrinum las ég  spádóminn fyrir þessu undri… þar sem var sagt að Guð myndi úthella anda sínum yfir alla menn… og síðari ritningarlesturinn sagði frá því, þegar það svo gerðist…

Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda.

Í þessum frásögnum varðveittist að… skilaboðin, boðskapurinn, spádómur Guðs er fyrir alla. Allir fylltust heilögum anda… boðskapurinn varðveittist sem ORÐ á prenti…

Blöðin sem rit GT voru skrifuð á, slitnuðu með notkun og í tímans rás… svo það varð að afrita textana reglulega, annars hefðu þeir glatast. Hér er ég auðvitað að tala um bókstaflega varðveislu á Orði Guðs… en ef menn hefðu ekki verið svo ötulir að endurnýja og halda ritunum heilum, þá hefðum ekki Biblíuna í dag. Við erum svo blessuð að menn litu á ritin, sem heilög.. og boðskapinn sem heilagt Orð Guðs… litu á ritin sem handbækur eða leiðarvísi fyrir gott líf… undir verndarvæng Guðs…. Já, Handbækur eru nauðsynlegar.   

Þegar við kaupum okkur nýtt rafmagnstæki þá fylgir oftast handbók… leiðarvísir, sem fáir lesa fyrr en allt er komið í óefni… en það er einmitt þá… sem við þurfum á mestri hjálp að halda… þá er gott að vita hvar leiðarvísirinn er… það sama gildir um Biblíuna okkar… hún geymir lausnir og svör við ótrúlegustu spurningum. Á okkar tæknitímum er meðal annars hægt að sækja biblíu app á netinu. Þar getum við nálgast orð Guðs á hvaða tíma sólarhrings sem er, hvar sem við erum stödd í heiminum… fengið vers sem styrkir okkur, veitir huggun eða uppörvar í erfiðum aðstæðum… Oft tala versin inn í aðstæður okkar eða gefa okkur nýja vídd í það samhengi…

Við eigum að nota þessi heilræði og fara eftir boðum Guðs svo okkur sjálfum líði vel.  Ég hef sagt við fermingarbörnin að börnum líði aldrei eins vel og þegar þau vita, hvað má og hvað má ekki… þegar þau vita hvaða reglur gilda á hverjum stað… það fylgir því friður…vellíðan og sátt við sjálfan sig, að vita að það sem maður er að fást við, er innan leyfilegs ramma… Orð Guðs er góður rammi utan um okkur… stundum svo samofin frá uppeldi okkar að við áttum okkur ekki á að þau koma upphaflega frá kristinni kenningu…

Biblían, Orð Guðs… á að vera eins og GPS… hún á að vara okkur við þegar við beygjum af réttri leið og halda okkur á réttri braut… en eins og með öll GPS tæki… þá er betra að vita hvert maður er að fara… það er nauðsynlegt að setja inn áfangastað… við getum stoppað oft á leiðinni… en við skulum stefna á að hafa Guðs Ríki sem síðasta áfangastað.

Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð sagði Jesús... Varðveisla Orðsins, felst ekki í því að eiga Biblíu í hillu inni í stofu… eða vera með app í símanum… þó það hjálpi til… heldur það að varðveita trúna á Jesú í hjarta sér… og til að varðveita trúna, þarf að varðveita þekkinguna á Jesú Kristi… vita hver hann er. Í fermingunni eru börnin spurð hvort þau vilji hafa Jesú Krist sem leiðtoga síns lífs… Hvergi er hægt að finna betri leiðtoga og fyrirmynd… Hann er alltaf til staðar, hann er okkar besti vinur, vill okkur allt hið besta, samgleðst okkur, samhryggist okkur og er tilbúinn að leiða og vera með okkur gegnum allt lífið. Það er okkar að rétta út höndina til að leiða hann og vera tilbúin að læra og lifa með kenningar hans að leiðarljósi.

Jesús fer aldrei í kosningabaráttu…. til þess að fylgja honum þurfum við að kjósa hann með hjartanu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen