Orgelsmiðurinn

Orgelsmiðurinn

Org­el sem ekki gef­ur frá sér tón fær aðra merk­ingu þegar maður hef­ur heyrt sögu org­elsmiðsins og veit að hann mun aldrei ljúka við smíði þess. Yfir slíku væri hægt að ergja sig en betra er að sýna þar mann­skiln­ing og mæta „org­elsmiðunum“ allt í kring­um okk­ur með hlýju og heyra sög­ur þeirra. Við erum mörg í sömu stöðu og org­elsmiður­inn; eig­um okk­ar drauma, von­ir, þrár og „smíðis­gripi“ sem við náum aldrei að klára en veita okk­ur þó sanna lífs­fyll­ingu.
Ég kynnt­ist org­elsmiðnum þegar ég gerðist prest­ur á eyju í Norður-Nor­egi. Reynd­ar held ég að eng­inn hafi kynnst þess­um manni og varla ég held­ur. Org­elsmiður­inn var ein­fari. Hann hafði verið kvænt­ur og átti eina dótt­ur. Sam­band hans við dótt­ur­ina var lítið og barn­s­móður­ina ekk­ert. Það var í raun fátt sem stóð org­elsmiðnum nærri. Kannski bara tvennt; tón­list­in og org­elið. Org­elsmiður­inn hafði verið org­an­isti í ára­tugi þegar ég sá hann fyrst. Hann lifði sig inn í tón­list­ina og lék á kirkju­org­elið með tilþrif­um. Stund­um nötraði kirkj­an þegar hið mikla hljóðfæri var tekið til kost­anna í kröft­ugu eft­ir­spili eft­ir messu. Fim­ir fing­ur fóru æfðum hönd­um um nótna­borð org­els­ins. Hann gat líka spilað und­ur­blítt þegar út­far­ir voru og sálm­arn­ir fengu tár kirkju­gest­anna til að falla á kirkjugólfið. Org­an­ist­inn kunni að sýna til­finn­ing­ar en bara þegar hann lék á org­elið. Í dag­lega líf­inu var hann ætíð fá­máll, fá­skipt­inn og einn með sjálf­um sér.
Fyr­ir all­mörg­um árum varð að end­ur­nýja org­el í einni af kirkj­un­um. Það var leitað eft­ir til­boðum í hljóðfæri. Org­el eru auðvitað ekki eins og önn­ur hljóðfæri því þau eru völ­und­ar­smíð. Nýtt org­el frá viður­kenndri org­elsmiðju kostaði of mikið fyr­ir fjár­v­ana söfnuð. Org­elsmiður­inn bauðst til að smíða nýtt org­el í kirkj­una sem kostaði brot af því verði sem org­elsmiðjur settu upp. All­ir vissu að hann var hag­leiksmaður og þess vegna var til­boði hans tekið. Gamla org­elið var tekið niður og org­elsmiður­inn hófst hans við smíða og setja upp stórt og glæsi­legt pípu­org­el. Það tók reynd­ar all­mörg ár að koma org­el­inu nýja inn í kirkj­una. Og þegar allt virt­ist vera komið á sinn stað þá gerðist samt ekki neitt þegar ýtt var á nótna­borð org­els­ins. Það vantaði tón­ana í org­elið. Org­elsmiður­inn var stöðugt að. Þegar messað var í kirkj­unni var notað lítið pí­anó því að úr org­el­inu barst eng­inn hljóm­ur.
Í fyll­ingu tím­ans varð org­elið til­búið eða kannski frek­ar eins full­komið og sköp­un­ar­verk org­elsmiðsins geta orðið. Þegar ég kom til starfa hafði liðið um ára­tug­ur frá vígslu org­els­ins. Org­elsmiður­inn var stöðugt að sem fyrr. Það var ljós í kirkj­unni all­an sól­ar­hring­inn. Þegar inn var komið lágu org­el­píp­urn­ar um alla bekki og gólf í kirkj­unni. Hann með ljós á höfðinu að rýna inn í innviði org­els­ins eða þá að hann blés í píp­urn­ar til að finna hvort þær hefðu ekki hinn sanna hljóm. Stund­um var org­elið sett sam­an þegar þurfti að messa eða ef út­för var. Gerðist það þá stund­um í tón­verk­um að nótna­borð org­els­ins stóð á sér. Þannig gátu nót­ur orðið óþægi­lega lang­ar eða það sem verra var, al­gjör­lega hljóðar. Allt umstangið í kring­um org­elið hafði skapað mikla gremju meðal margra. Flest­ir org­an­ist­ar neituðu að spila í kirkj­unni því þeim líkaði miður vel við org­el sem ekki hlýddi fingr­um þeirra. Prest­ar höfðu hætt í söfnuðinum út af org­elsmiðnum og sókn­ar­nefnd­ar­fólk einnig. Org­elsmiður­inn kærði sig koll­ótt­an um allt nema hinn sanna hljóm org­els­ins. Org­elið var barnið hans. Hug­ar­smíð og sköp­un, ástríða og áhuga­mál allt í senn – það skyldi einn dag verða full­komið.
Ein­hver minn­is­stæðasti jóla­dag­ur sem ég hef upp­lifað teng­ist org­elsmiðnum. Við höfðum farið að messa á eyju þar nærri sem ekki hafði brú og tók­um við því bíl­ferju. Mess­an gekk all­vel. Marg­ir komu, stund­in hátíðleg, jólaguðspjall og jóla­sálm­ar. Heima­fólk og brott­flutt­ir voru þar sam­an til að eiga sína ár­legu hátíðar­stund í kirkj­unni sam­kvæmt gam­alli hefð. Eft­ir mess­una tók við löng bið hjá mér og org­elsmiðnum eft­ir að ferj­an kæmi aft­ur. Við höfðum komið með bíl­inn minn í ferj­unni og því ákvað ég að bjóða upp á bíltúr meðan beðið var eft­ir ferj­unni að flytja okk­ur heim. Það var frost­stilla og glaða tungls­ljós. Þarna var eins fal­legt um­hverfi og hægt er að hugsa sér.
Við ókum af stað, fyrst í þögn­inni en svo fór org­elsmiður­inn að tala. Hann talaði nær lát­laust þann tíma sem við ókum um. Tím­inn leið eins og ör­skot. Hér fékk ég að heyra ævi­sögu manns sem lík­lega hef­ur aldrei sagt nokkr­um sögu sína. Þetta var saga um von­ir og drauma ungs tón­list­ar­manns. Saga af fyrstu ást­inni, af lífs­draum­un­um sem urðu að víkja fyr­ir raun­veru­leik­an­um. Brostn­ar von­ir í tón­list­inni, hjóna­band sem rofnaði og erfiðleik­ar í sam­skipt­um við dótt­ur. Ég fékk að heyra um ein­semd­ina sem verður þegar höfn­un og von­brigði fá mann til að byrgja allt inni.
Sag­an, nátt­úr­an og jóla­dag­ur þarna í myrk­asta skamm­degi á norður­hjara gerði minn­ingu mína ein­staka. Kannski ekki síst það að fá að vera þarna sem hlust­andi manns sem þurfti að tala um sorg­ir sín­ar og lífs­veg­ferð.
Ég hef oft sem prest­ur verið með fólki í gleði og sorg. Ég hef oft verið hlust­andi á erfiðum stund­um þar sem sagt er frá bit­urri reynslu. Ég veit hve óend­an­lega mik­il­vægt það er að hver og einn fái að segja sína eig­in sögu. Það er bók­staf­lega lækn­ing fólg­in í því að segja sögu. Að koma lífi sínu í orð. Oft er sagt að maður geti talað sig frá erfiðri reynslu og er í því mik­ill sann­leik­ur. Það er líka staðreynd að við þurf­um oft­ar en ekki að segja frá góðu hlut­un­um og gleðjast með ein­hverj­um. Mik­il­vægt er að við heyr­um sög­ur ann­ars fólks því þær hjálpa okk­ur að skilja líf þess og um leið líf okk­ar.
Org­el sem ekki gef­ur frá sér tón fær aðra merk­ingu þegar maður hef­ur heyrt sögu org­elsmiðsins og veit að hann mun aldrei ljúka við smíði þess. Yfir slíku væri hægt að ergja sig en betra er að sýna þar mann­skiln­ing og mæta „org­elsmiðunum“ allt í kring­um okk­ur með hlýju og heyra sög­ur þeirra. Við erum mörg í sömu stöðu og org­elsmiður­inn; eig­um okk­ar drauma, von­ir, þrár og „smíðis­gripi“ sem við náum aldrei að klára en veita okk­ur þó sanna lífs­fyll­ingu.