Er hægt að fyrirgefa allt?

Er hægt að fyrirgefa allt?

Stundum hugsa ég um það hvort mér hafi liðið betur þegar ég hataði af öllum kröftum. Það var einhvern veginn einfaldara. En þá lít ég á sjálfa mig og sé að einmitt hatrið gerði mig þreytta, rændi mig voninni, einangraði mig tilfinningalega og slökkti á gleði minni. Samt get ég ekki fyrirgefið, ekki í mínum eigin mætti.
fullname - andlitsmynd Lena Rós Matthíasdóttir
30. ágúst 2010

Sagt er að maður eigi að vera eins og Jesús elska Guð og elska náungann meira að segja þegar hann minnkar mig...  sko, náunginn.

Sagt er að maður sigri að lokum eins og Jesús ef maður svarar í kærleika meira að segja þótt hann fyrirlíti mig... sko, náunginn.

Sagt er að maður eigi að vera eins og Jesús fyrirgefa eins og Guð fyrirgefur meira að segja þótt hann meiði mig... sko, náunginn.

Það er svo margt sagt, en er það allt hægt? 

Mér finnst gott að ég er ekki Jesús þá þarf ég ekki að elska náungann, þarf ekki að sigra illsku hans, þarf ekki að fyrirgefa honum.

-  Jesús gerir það fyrir mig.

 

Elsku Guð!

Ég held að þú vitir það, Guð, að ekkert í veröldinni hef ég upplifað eins ósanngjarnt eins og þegar náungi minn ruddist freklega inn í líf mitt og út úr því aftur og einu ummerkin um nærveru hans er hatrið sem hann skildi eftir.  Þú veist það Guð, að ekkert hef ég upplifað eins ósanngjarnt og að vakna einn daginn til vitundar um það að hafa verið rænd/ur sakleysinu sem þú gafst mér.  Það var gjöf sem þú ætlaðir mér en var svo freklega stolið frá mér.  Ég man samt hvernig það var að vakna á morgnanna með þennan ótrúlega fallega kæruleysislega innvortis frið.  Það var gott.  Samt vissi ég ekki þá hve rík/ur ég var, enginn sem hjálpaði mér að sjá það.  Eiginlega var það bara partur af því að vera ég. 

Ég er þreytt/ur.  Hatur er þung byrði og erfiður förunautur.  En þegar ég lít til baka, get ég ekki séð hvernig ég hefði komist í gegnum þetta án þess að hata.  Sjálfsagt ertu ósammála mér, en þetta var bara allt of ósanngjarnt, ég bað ekki um það.  Í nafni allra saklausra barna... segið þeim að við biðjum ekki um það!!!  Það bara gerðist einn daginn.  Það gerðist hratt, allt of hratt.  Hversu margar svefnlausar nætur hef ég ekki glímt við hugsunina um það hvað ég hefði getað gert til að koma í veg fyrir það.  Á hvaða tímapunkti hefði ég getað hlaupið í burtu?  Hvers vegna sá ég ekki fyrir hvað myndi gerast? 

Í fyrstu grét ég oft.  Ég held ég hafi klárað tárin mín.  Góði Guð, viltu gefa mér aftur tárin mín?   Árin liðu, stundum gleymdi ég þessu, en alltaf braust það af og til upp á yfirborðið, ef eitthvað minnti á það...  þvílíkur sársauki.  Eins og að vera með samfallið lunga.  Við hvern andardrátt herpist andlitið svo að smám saman, eftir því sem tíminn líður, verða skorurnar dýpri, hluti af andliti mínu.  Ég horfi í spegil og sé sársauka, reiði og ótta.  En undir því öllu saman liggur hatrið í dvala og bíður þess að fá að losna úr læðingi, yfirtaka aðrar tilfinningar mínar og tjáningu.  Ég er ekki frjáls.  Ég þrái frelsi frá þessari þungu byrði, vil bara losna og fá að vera aftur ég sjálf/ur.

Nú sit ég hér, öllum þessum árum seinna og skrifa þér bréf til að segja þér að ég  veit ekki hvar ég er með líf mitt, hvað þá heldur hver ég er.  Ég horfi í kringum mig og sé ekkert kunnuglegt, öll andlitin sem hafa komið inn í líf mitt eru afbökuð undir þessari gráu og köldu slæðu sem ég er orðin svo flink/ur að búa til.  Ég finn ekkert, hvorki hatur né ást.  Ég er örmagna.  Hvað gerðist?  Hvernig varð ég svona? Ég hef samt leitað mér hjálpar, talaði við sálfræðinga þegar ég var yngri.  Ég held það hafi hjálpað.  Um daginn fór ég til prestsins í kirkjunni minni.  Ég sagði ekki frá þessu, bara ýmsu öðru.  Maður segir engum frá... nema kannski þér.  Hversu oft hef ég ekki truflað þig með vandamálum mínum?

Presturinn sagði mér að það væri gott að biðja, ég skyldi halda því áfram.  Hann þurfti ekki að segja mér það, ég veit allt um það.  Hef örugglega beðið meira en hann um æfina.  Ef ég hefði ekki bænina og þig, þá veit ég ekki hvar ég væri í dag.  Á erfiðustu tímabilum hefur þú verið mér reipi  sem ég hangi í.  Ég ætla aldrei að sleppa takinu.

Guð! Þú ert sigurinn, sigraðu illsku hans fyrir mig!

Guð! Þú ert kærleikurinn, elskaðu hann fyrir mig!

Guð! Þú ert miskunnsemin, fyrirgefðu honum fyrir mig!  

Sko... náunganum.

Ég er örmagna, Drottinn minn, og á ekkert fyrir hann.  Hvorki kjark né þor að sigra illsku hans.  Hvorki kærleika né fyrirgefningu að elska hann, hvað þá breiða yfir og fyrirgefa.  En ég þrái lausn frá þessu myrkri.  Hann er þarna með lífið sitt og minnir reglulega á sig.  Ég hér með hugsanir mínar og finn bara doða, sorg og ólýsanlega þreytu. 

Stundum hugsa ég um það hvort mér hafi liðið betur þegar ég hataði af öllum kröftum.  Það var einhvern veginn einfaldara.  En þá lít ég á sjálfa mig og sé að einmitt hatrið gerði mig þreytta, rændi mig voninni, einangraði mig tilfinningalega og slökkti á gleði minni.  Samt get ég ekki fyrirgefið, ekki í mínum eigin mætti.  Elsku Guð, mér finnst ég svo smá/r, taktu frá mér sektarkenndina!  Ég vil svo gjarna vera ein/n þeirra sem fyrirgáfu og sögðu það hafa breytt lífi sínu.  Hjálpaðu mér að vera eins og þau!

Ég hitti góða konu um daginn.  Hún átti svipaða reynslu og ég.  Hún gaf mér von.  Hún sagði mér að ég þyrfti bara að treysta þér.  Þú ættir inni næga fyrirgefningu fyrir okkur, bæði, mig og hann.  Því bið ég þig Guð í Jesú nafni:  ,,Láttu fyrirgefningu þína streyma í gegnum mig og til hans.  Láttu fyrirgefningu þína vera fyrirgefningu mína!” 

Og elsku Guð, finnst þú ert þarna, hjálpaðu mér að vera bara ég!   Amen.

Es.  Ég ætlaði að muna eftir að þakka þér fyrir sólina, kæri Guð, og allt góða vatnið okkar hér á Íslandi.   Kannski ég kaupi mér sundföt í dag!