Fólkið í blokkinni

Fólkið í blokkinni

Látum óttann ekki verða til þess að við gleymum okkur í græðgi og ofsa, sjálfmiðlægni og sérhygli! Höldum áfram að takast á við aðstæðurnar, spyrjum spurninga og veltum vöngum. Eflum í okkur húsreglufólkið sem aldrei sofnaði á verðinum og hafði kjark og þor til að takast á við þá sem báru litla sem enga virðingu fyrir sameigninni.
fullname - andlitsmynd Jónína Ólafsdóttir
19. mars 2017
Flokkar

Guð, uppspretta ljóssins. Þú opnar augu okkar svo að við getum séð í gegnum hið óútskýrða og þorum að trúa þrátt fyrir allt óöryggið. Hjálpa þú okkur að taka eftir ljósinu sem lýsir okkur í Jesú Kristi og hrekur hverskyns nótt á brott. Því að hann er ljósið okkar að eilífu.

Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen. Húsreglurnar í blokkinni

Þegar ég var lítil stúlka dreymdi mig um að búa á efstu hæð í stórri blokk. Ég man að ég spurði foreldra mína ítrekað hvenær kæmi að því að við flyttum í blokk – það var fátt um svör enda voru þau skólastjórahjón út á landi sem höfðu litla möguleika á slíkum húsakosti. Það var ekki fyrr en ég komst á fullorðinsár og var flutt hingað til Reykjavíkur að ég fékk tækifæri til að búa í blokk. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Mér þótti gott að vita af fólkinu í kringum mig og ég kunni vel að meta nábýlið við hina íbúana. Þarna fékk landsbyggðarforvitni mín líka að njóta sín og ég var að sjálfsögðu vel inní öllum helstu málefnum blokkarinnar. Auðvitað voru ekki alltaf allir í blokkinni vinir. – Sumir íbúarnir höfðu um fátt annað að hugsa en húsreglurnar og einbeittu sér jafnvel of mikið að því að týna til allt það helsta sem nágrannar þeirra máttu gera betur af virðingu við húsreglurnar. Ég kunni ágætlega að meta húsreglufólkið, ekki bara vegna skemmtanagildis þess heldur líka af því að ekki voru allir í blokkinni sem skeyttu nokkuð um umgengni eða það nábýli sem við öll bjuggum í. Húsreglufólkið svokallaða veitti skeytingalausa fólkinu nefnilega aðhald sem það þurfti oftar en ekki á að halda.

Við mannfólkið berum ábyrgð gagnvart hvort öðru, gagnvart náttúrunni og gagnvart því sem er að gerast útí hinum stóra heimi. Við búum nefnilega öll saman í lyftulausu fjölbýlishúsi og við þurfum að ganga stigann og fara framhjá dyrum nágranna okkar á hverri hæð, oft á dag. Við eigum sameignina nefnilega saman.

Trumpisminn

En hvernig má það vera að núna, árið 2017 stöndum við manneskjurnar frammi fyrir þeirri ógn að nokkrir af helstu leiðtogum heims einblíni fyrst og fremst og jafnvel einungis á innviði hverrar þjóðar fyrir sig? Bandaríska þjóðin er til að mynda klofin eftir að Donald nokkur Trump tók við stjórnartaumum þar í janúar síðastliðnum. Á næstu fjórum árum hefur Trump hugsað sér að setja bandaríska hagsmuni - eins og hann skilgreinir þá - í forgang. „Ráðið Bandaríkjamenn og kaupið bandarískar vörur,“ sagði hann í stefnuræðu sinni. Trump vill auka fjárútlát til bandaríkjahers um upphæð sem nemur um 6 þúsund milljörðum króna. Þetta er risavaxinn efnahagsaðgerð og að sjálfsögðu mun hún ekki gerast öðruvísi en með stórfelldum niðurskurði í ýmsum öðrum verkefnum, þar á meðal í mörgum samfélags- og umhverfismálum. Óhætt er að segja að margir óttist þetta og hvaða áhrif það muni hafa til framtíðar litið. Nú þegar hefur Trump skorið niður fjárveitingar Bandaríska ríkisins til alþjóðastarfs, Sameinuðu þjóðanna og til loftslagsrannsókna. Á meðan Trumpisminn ræður ríkjum í Bandaríkjunum með þeim hætti sem hér hefur verið lýst glímir heimurinn hins vegar við meiri flóttamannavanda en hann hefur gert frá því á tímum síðari heimstyrjaldarinnar. Milljónir fjölskyldna hafa þurft að flýja heimili sín vegna átaka og miskunnarleysis í löndum eins og Afganistan, Sómalíu, Suður-Súdan og Sýrlandi. Rúmur helmingur þessa flóttafólks eru börn – mörg hver alein á ferð.

En hvert var nú grundvallarstef Jesús frá Nasaret? Var það ekki einmitt að láta sig varða um náunga sinn – hugsa ekki einvörðungu um eigin hag? Í kærleika til náungans felst að sérhver manneskja, óháð upprunalandi, trúarsannfæringu, stétt eða stöðu er jafningi þinn og vinur. Guð okkar kristinna manna fer nefnilega ekki í manngreinarálit.

Jesús sem flóttamaður

Við heyrðum í guðspjallinu hér áðan að texti dagsins er einn af þessum krefjandi textum sem við þurfum að glíma svolítið við áður en við áttum okkur á merkingu hans. Einmitt þess vegna er mikilvægt að við gefum honum pláss í prédikun. Textinn kemur úr Jóhannesarguðspjalli og endurspeglar greinilega tíma Jóhannesar, þegar Jesú-hreyfingin var komin talsvert langt á veg með að skilja sig frá móðurátrúnaði sínum – sem mikilvægt er að við höfum í huga að var Gyðingdómur. En hvernig texti er þetta? Er þetta ekki bara frekar villandi frásögn og helst til þess fallin að ala á andúð í garð útlendinga eða annarra trúarhópa? Jú, vissulega er frásögnin villandi og þess vegna er mikilvægt að við skoðum hana. Þegar hér er komið við sögu erum við á gangi með Jesú á leið sinni til Jerúsalem, fyrst yfir Jórdan til Betaníu og endum svo með honum í Jerúsalem þar sem síðasta vika hans hófst. Vikan sem endaði á krossinum. Við vitum að þarna er Jesús á flótta, hann er líklega hræddur og viðbrögð hans og viðmót við Gyðinga bera þess merki. Hann svarar þeim harkalega og minnir þá á með hálf kuldalegum hætti, hver Guðssonurinn sé: „Frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig.“

Guðspjallamaðurinn Jóhannes álítur Guð ekki einungis hafa tekið Jesú að sér sem son sinn heldur sé Jesús sonur hans í bókstaflegri merkingu, „Guði jafn“ og deili með honum guðleika hans og hafi jafnframt fullt guðlegt vald. Og það sama segir Jesús sjálfur: „Ég og Guð erum eitt“. Þessi frásögn sýnir okkur hins vegar skýrt að Jesús var líka mannlegur þrátt fyrir allt. Jesús var á flótta og Jesús var hræddur og hrakinn. Og Jesús gat augljóslega – eins og textinn gefur til kynna – brugðist við með hræðslu, harkalegum hætti og kuldalegu viðmóti, rétt eins og við hin. Hræðslan og kvíðinn eru til þess fallin að koma okkur í viðbragðsstöðu til að verjast yfirvofandi ógn. Það er eðlilegt að verða stundum hræddur og kvíðinn – við verðum það öll einhverntíman í lífinu, sem betur fer. Þegar við erum hrædd þá týnum við hins vegar réttlætinu, týnum skynseminni. Siðferðileg hlið þess að fylgja Jesú felst í miskunnsemi og kærleika í verki gagnvart náunga okkar – hver sem hann er og hvar sem hann er staddur í heiminum. Samstaðan er aftur á móti samfélagslega hliðin og hún felst í að ögra ranglátum valdöflum í heiminum sem viðhalda styrjöldum og þeirri neyð og eymd sem þeim fylgja.

Látum óttan ekki verða til þess að við gleymum okkur í græðgi og ofsa, sjálfmiðlægni og sérhygli! Höldum áfram að takast á við aðstæðurnar, spyrjum spurninga og veltum vöngum. Eflum í okkur húsreglufólkið sem aldrei sofnaði á verðinum og hafði kjark og þor til að takast á við þau sem báru litla sem enga virðingu fyrir sameigninni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.