Sjáið þið mig?

Sjáið þið mig?

Hún teygir sig eftir nýja snjallsímanum sem hún fékk í fermingargjöf. Hún er búin að sitja drjúga stund við spegilinn og snyrta sig og nú er kominn tími til að leita viðurkenningar umheimsins. Hún tekur hverja sjálfsmyndina á fætur annarri á símann og velur svo úr þær bestu...

Lúkas 18.9-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hún teygir sig eftir nýja snjallsímanum sem hún fékk í fermingargjöf. Hún er búin að sitja drjúga stund við spegilinn og snyrta sig og nú er kominn tími til að leita viðurkenningar umheimsins. Hún tekur hverja sjálfsmyndina á fætur annarri á símann og velur svo úr þær bestu til að setja inn á síðuna sína á Facebook með orðunum: „Bara aðeins að leika mér haha“. Hún er óörugg með sig og bíður taugaóstyrk eftir viðbrögðum. Það líða ekki nema nokkrar sekúndur þar til síminn byrjar að pípa. Margir láta sér strax líka við myndina og nokkrar skólasystur skrifa athugasemdir: „Sæta sæta“ og annað í þeim dúr. Hún getur ekki varist brosi þegar hið brothætta sjálfsálit hennar nærist af hrósinu. Og ekki spillir fyrir þegar einn vinsælasti strákurinn í skólanum bætist í hóp þeirra sem hæla útliti hennar.

Við lifum á tímum þar sem við getum verið stöðugt til sýnis ef við kjósum það – og jafnvel stundum þó að við kjósum það ekki! Sennilega hafa aldrei verið til staðar jafnfjölbreyttar leiðir fyrir okkur mannfólkið til að sýna okkur og búa til mynd af sjálfum okkur til sýnis fyrir umheiminn. Það getur verið gefandi og bráðskemmtilegt, og gott að þiggja og veita hrós. Um leið getur auðvitað verið stutt í að við notum tækifærið til að upphefja okkur eða til að dæma okkur sjálf eða aðra. Ég nefndi dæmi af unglingsstúlku. Við getum nefnt fleiri dæmi: Ungur maður tekur mynd af próteindrykknum sínum eftir öfluga æfingu í ræktinni og dreifir á samskiptaforritinu Snapchat. Og kona á besta aldri skrifar á fésbókina: „Búin að þrífa allt húsið hátt og lágt í dag og slá garðinn.“

Sjáið þið mig? Sjáið hvað ég er dugleg(ur) eða sæt(ur)? Líkar ykkur ekki örugglega við mig? Er ég nógu góður/góð eins og ég er? Er þetta ekki örugglega frábær predikun hjá mér?

Við heyrðum í guðspjalli dagsins dæmisögu Jesú um tvo menn, sem fóru í helgidóminn, musterið í Jerúsalem, til að biðjast fyrir, en bænamál þeirra var mjög ólíkt. Annar mannanna var farísei og tilheyrði því hópi þeirra, sem fylgdu lögmáli Gyðinga í smáatriðum. Ef við leyfum okkur að nota ímyndunaraflið gætum við sagt að í dag hefði faríseinn í sögunni getað gripið snjallsímann og sent snapp af sér úr musterinu með textanum: „Búinn að fasta í allan dag og borga tíundina mína og nú er það bænastund dagsins :-)“.

Þegar við heyrum í dag þetta orð, farísei, þá hefur það líklega á sér neikvætt yfirbragð í okkar huga. Kannski dettur okkur í hug skinhelgi eða hræsni þegar við heyrum talað um að einhver sé svo mikill farísei. En þannig var því alls ekki farið með áheyrendur Jesú. Almenningur þess tíma vissi að farísearnir reyndu að lifa lífi sem þóknaðist Guði og þeir nutu virðingar í samfélaginu fyrir þá viðleitni sína. Þess vegna er broddurinn í sögunni svo sterkur. Bænamál faríseans vitnar um dugnað hans og yfirburði, en auðmýktina skortir. Myndin sem hann vill búa til af sjálfum sér og dreifa gagnvart Guði og mönnum vitnar um hversu frábær hann er. En Guð sér lengra. Í 1. Jóhannesarbréfi (3.20) segir: „Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt.“

Og þá kemur til skjalanna hin aðalpersónan í dæmisögunni; tollheimtumaðurinn – óvinsæll meðal samborgaranna, sá sem hefur notið góðs af að starfa fyrir erlent kúgunarvald og liggur undir grun um óheiðarleika í kjaftasögunum á götuhornunum. Hans bæn er stutt og laggóð: „Guð, vertu mér syndugum líknsamur!“

Ég veit ekki hvort bæn tollheimtumannsins hefði ratað á Facebook.

Guð, vertu mér syndugum líknsamur!

Guð, ég kem bara til þín eins og ég er – með alla brestina mína og allt sem innra mér býr. Ég kem eins og ég er og bið frá hjartanu um þína hjálp.

Þannig biður sá sem veit að hann hefur ef til vill ekki allt sitt á hreinu en vill vera einlægur og leita smám saman hins góða í lífinu. Og áheyrendur Jesú hafa eflaust hrokkið í kút við niðurlag sögunnar: Sá sem er með allt sitt á hreinu, „góði gaurinn,“ sem getur reyndar ekki stillt sig um að upphefja sig á kostnað annarra, það er ekki hann sem fer heim til sín sáttur við Guð – heldur tollheimtumaðurinn.

Hvers konar boðskapur er þetta?

Eigum við þá ekkert að reyna að standa okkur vel, biðja til Guðs, gefa til góðra málefna, mæta í ræktina og þrífa húsið?

Jú, allt er það gott og gilt og öll skiptir sú viðleitni máli. En látum þessa dæmisögu minna okkur á að frammi fyrir Guði erum við öll ófullkomnir þiggjendur. Við höfum þegið lífið sjálft án verðskuldunar frá Guði. Öll eigum við okkar bresti og glímum við freistingar þó að í ólíkum myndum sé. Öllum hættir okkur eflaust til að falla í þá gryfju að vilja upphefja okkur sjálf og dæma aðra en sjá helst ekki það sem mætti betur fara hjá okkur sjálfum.

Ég las nýlega um bandarískan leikara og skemmtikraft að nafni Tim Cusack sem hefur látið til sín taka á ýmsum sviðum samfélagsins. Við getum kannski séð fyrir okkur svipaða týpu og Jón Gnarr! Eitt af því sem Cusack hefur gert er að bregða sér í ólík hlutverk í þekktum morgunþætti á einni útvarpsstöðinni vestanhafs og láta persónuna sína sitja fyrir svörum hlustenda. Í einum þættinum bjó hann til karakter að nafni Father Tim, eða séra Tim; þetta átti að vera kaþólskur prestur frá Írlandi sem ræddi við hlustendur. Þessi persóna naut svo mikilla vinsælda að leikarinn varð sér úti um svarta hempu, hatt og hvítan kraga og var með uppistand á skemmtistöðum í gervi prestsins. Eitt af því sem Tim gerði var að klippa út pappaspjald sem átti að minna á skriftaklefa og fá svo sjálfboðaliða úr hópi áhorfenda upp á svið til að koma upp á svið til sín og skrifta fyrir sér. Merkilegt nokk voru býsna margir tilbúnir að koma og játa syndir sínar, bæði í gamni og alvöru, fyrir „prestinum.“ Ótrúlegustu játningar komu fram þegar þetta tækifæri gafst.

Með þessu háði leikarans minnti hann á að breyskleikinn er hluti af því að vera manneskja og að það getur verið gott að létta á sér, kannast við að ekki er allt fullkomið í fari okkar og lífi. Sú mynd sem við viljum draga upp af okkur fyrir umheiminum, hvort sem við gerum það á Netinu eða í daglegum samskiptum, geymir aldrei nema hluta sögunnar. Þess vegna er það líka léttir að tala við Guð í einlægni og leita eftir líkn hans, því að Guð þekkir okkur eins og við erum.

Heilbrigð sjálfsmynd leitar stöðugt að jafnvægi milli jákvæðrar og auðmjúkrar sjálfsskoðunar. Að kannast við styrkleika sína og njóta þess sem vel gengur og þiggja hrós fyrir, það er mikilvægt - en líka að vita af því sem betur má fara, viðurkenna það og stefna stöðugt fram á við. Sá eða sú sem hefur heilbrigða sjálfsmynd þarf ekki á því að halda að upphefja sig á kostnað annarra, heldur getur tekið undir orðin í Davíðssálmum (139.14) þar sem segir: „Ég lofa þig fyrir það að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.