Barn og steinn

Barn og steinn

Skírnarfontur úr steini er tákngripur, vísar út fyrir sig til annars og dýpri veruleika, minnir á steinþróna, sem Jesús var lagður í og líka að lífið spratt fram. Neskirkja fékk skírnarfont að gjöf og drengur gefenda var skírður. Margt er því til íhugunar.

Ég hef verið að kenna öllum sonum mínum ferðabæn Hallgríms Péturssonar. Þeir taka vel við og bænin er orðin ómissandi upphaf ferða, sem við förum. Bænin er í sálmabókinni og er svona:

Ég byrja reisu mín, Jesús, í nafni þín, höndin þín helg mig leiði, úr hættu allri greiði. Jesús mér fylgi í friði með fögru engla liði.

Þetta er góð bæn og ekki síst í reisuaðstæðum lífsins. En lífið – er það ekki ferðalag? Skáldið Tómas minnti á, að það væri undarlegt ferðalag. En við megum gjarnan skilja það sem svo það sé undursamlegt. Tilveran er ekki bara hótelgisting heldur heimili ef við virðum eigandann. Okkur, börnum jarðar, er ekki ætlað að halda okkur til hlés í einhverju skoti heldur taka viðburðum daganna með opnum huga, með áræðni og bjartsýni. Og þannig má afstaða okkar vera gagnvart litlum börnum og nýju lífi.

Nýr fontur

Í dag höldum við hátíð. Harður en klappaður steinn er blessaður. Lítið, mjúkt og margstrokið barn, Kolbeinn Flóki var borinn að grjótinu til skírnar. Skírnarfonturinn er fallegur og drengurinn er stórkostlegur. Þessi nýi skírnarsár Neskirkju er gerður af föður drengsins. Þegar fóstrið stækkaði í kviði móðurinnar var listaverkið að mótast í huga pabbans. Hann skoðaði steina, gerði skissur og kannaði möguleika og leiðir. Það er fallegt að meðganga barnsins var samtíða meðgöngu fonts. Samtímis urðu þau til barn og fontur. Þau eru af sama meiði og eiga sér þegar dýpst er skoðað upphaf í veruleika þess sem klappar heiminn til lífs, Guðs.

Ferjustaður

Í sumar fór ég í ævintýraferð austur við Selfoss. Við, fjölskyldan, fundum Hellisskóg, unaðsreit á vesturbakka Ölfusár, uppvaxandi skóg Selfyssinga. Merkileg listsýning var sett upp þar í rjóðrum og á árbakkanum til minningar um baráttu fólks við fljótið og langa ferjusögu. Fólk, varningur og búsmali var um aldir ferjaður yfir ána við Laugardæli. Ölfusá er stórfljót og þegar ég stóð í flæðarmálinu, horfði yfir skolað sundið skerptist vitundin um, að ferðirnar voru ekki hættulausar og eins gott að ferjumenn væru vanda vaxnir og kunnáttusamir.

Listaverkin í skóginum eru skemmtileg. Eitt sýnir hangandi plastfiska í hjalli og minnir á að greiða varð ferjutoll fyrir flutninginn, fiskar voru gjaldmiðill.

Annað verk hafði verið sett í tjörn í skóginum, fjöldi smárra báta sem átti að sigla þar sumarlangt. En í margar vikur rigndi ekki og tjörnin þornaði og gestir gátu gengið þurrum fótum að strönduðum bátunum. Synir mínir kunnu þessu vel og sáu ekkert athugavert við að blautlistaverk væri á þurru, að þeir gætu gengið að þessum bátum. Engum hefði þótt gott að lenda á botni Ölfusár fyrrum, en áin þornaði ekki þótt þurrt væri.

Vörður

Niður við vatnsbakkann sáum við sláandi verk, vörðu með mannsbrag. Hvað var þetta? Var þetta steingerður ferjumaður sem skyggndi ána, leitaði leiðar, horfði yfir straumkastið og stefndi yfir. Listfengið og handbragðið vakti grun minn um hver höfundurinn væri. Þetta hlýtur að vera skúlptúr eftir Þór Sigmundsson? Við kíktum því í bæklinginn um sýninguna. Jú mikið rétt, þetta var varða sem Þór hafði gert, raðað steinflögum saman og myndað merkan minnisvarða. Ekki áminningu um ferjumann, sem flutti sálir til heljar, heldur ferjumenn aldanna, sem ferjuðu til lífs, þeir börðust vissulega á mörkum lífs og dauða. Lítið mátti út af bera, þá gat ferðin endað í dauða, orðið feigðarflan. Hlutverk ferjumanna var að tryggja líf og ferja með öryggi.

Þór hefur gert marga og merkilega skúlptúra. Og svo kom lífið í fang hans, lítið barn og hann langaði til að gera font til skírnar barnsins síns. Þór ólst upp á bökkum Ölfusár og þekkir því hinn glæsilega skírnarfont Selfosskirkju, sem er verk Sigurjóns Ólafssonar. Hann hefur því vitað frá bernsku, að fontur er afar mikilvægur við upphaf lífsferðarinnar.

Í dag byrjar nýtt líf, eilíft líf. Skírnarfontur úr steini er tákngripur, vísar út fyrir sig til annars og dýpri veruleika, minnir á steinþróna, sem Jesús var lagður í. Grjóti var velt fyrir opið, en svo var því velt frá til tákns um að lífið kviknaði, líf Jesú hélt áfram og líf heimsins breytist. Ekkert getur hamið hið eilífa líf. Enginn steinn tefur elsku Guðs, en fólk, efni, og þar með talið grjót mega þjóna lífinu. Nú hefur Þór klappað steininn og búið til úr honum fang fyrir vatnið sem með táknrænum hætti vísar til hreinsunar Guðs á flekkuðum heimi. Skírnarfontur minnir á að lífið sprettur fram úr grjótinu.

Steinn og barn spanna hið stóra mál trúar, mannlífs, tíma og eilífðar. Við höldum hátíð þegar barn er fætt, við minnumst afmælis okkar árlega. Víða um hinn kristna heim minnast menn hinna andlegu afmæla sinna og halda skírnarafmæli hátíðleg. Það er ekki síðra tilefni en fæðingardagur. Við megum gjarnan gera meira úr skírninni, skírnardögum og þar með skírnarminningum.

Hvað er mikilvægast?

Fontur og barn eru mikilvæg en hvort skyldi nú vera mikilvægara? Foreldrarnir, Þór og Guðrún Rannveig, myndu ekki hika við að svara. Það er barnið, sem er dýrmætasta perlan. Grjótið er gott, fonturinn er fagur en barnið er ómetanlegur dýrgripur, sem ekkert getur komið i staðinn fyrir. Slík er skipan lífsins, þannig er málum háttað í ríki Guðs. Lífið er mikilvægast og það ber að vernda, og allt sem er í heimi ber að nota vel og með fegurð til að þjóna lífinu.

Guðspjallið, sem lesið er við allar skírnir, er síðustu orðin i Matthesuarguðspjalli, svonefnd kristniboðsskipun. Þar er boð Jesú um að vinir hans beri allri heimsbyggðinni góðar fréttir um Guð, elsku hans, að við erum börn hans. Þar segir einnig, að við skyldum kenna og skíra í nafni föður, sonar og heilags anda og síðan halda allt það, sem Jesús hefur boðið. Hvað verður þá? Jú, að Jesús verður með nálægur alla daga til heimsenda. Þar með er hann ferjumaður allra alda, allra manna, ekki aðeins minnisvarði um góðan ásetning og góða stefnu, steinn á árbakka, heldur ferjumaðurinn sjálfur sem stýrir, er nærri, verndar í öllum háska, og blessar allt til enda. Þess vegna er lítill drengur borinn að skírnarþrónni til að hann fái blessun til ferðarinnar yfir fljót ævinnar. Hættur og erfiðleikar munu örugglega mæta á honum eins og okkur öllum. Því þarfnast hann góðs ferjumanns, góðs vinar, heilags anda.

Eilífa lífið

Hvenær byrjar eilífa lífið? Margir halda, að það byrji fyrst þegar komið er hinum megin við dauðastundina. En hið eilífa líf byrjar í hinu jarðneska lífi. Það byrjar ekki hinum megin við dauða og gröf heldur í skírninni. Þá byrjar æviferðin með Guði. Skírnin er því merkasti viðburður mannsævinnar því barnið er vígt himninum. Í skírninni er stefnan tekin og vökumaður himinsins sest í skut og stýrir. Veröldin er áin sem við höldum yfir, kristindómurinn er skipið sem ber okkur yfir fljótið, ferjumaðurinn er bróðirinn besti. Landfestar eru við skírnarfontinn, þar eru fyrstu áratog lífsferðarinnar, þar er beðið og barnið blessað og fær nafnið í veganesti.  Við ströndina hinum megin bíður vörður lífsins, sem tryggir að allt sé gott. og nafnið skráð í bók lífsins.

Þökk sé Þór og fjölskyldu hans fyrir þennan klappaða stein hins agaða einfaldleika og djúpu merkingar. Blessun fylgi Kolbeini Flóka og þeim öllum. Nessöfnuður blessist af gjafmildinni. Og dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.

Amen

Hugvekja við blessun skírnarfonts 16. ágúst 2009. Fonturinn er gjöf hjónanna, Þórs Sigmundssonar, steinsmiðs og Guðrúnar Rannveigar Stefánsdóttur og barna þeirra.