Á sjómannadegi

Á sjómannadegi

Gleðilega hátíð. Sjómannadagur er hátíðardagur sjómanna, dagur fagnaðar og gleði, en líka minningadagur. Það er dagur samstöðu og fyrirbæna vegna þeirra sem farist hafa á sjó og þeirra sem eiga um sárt að binda. Við söfnumst hér saman í helgidóminum og tjáum virðingu og þökk í auðmýkt gagnvart því hve lífsbjörg íslenskrar þjóðar er enn sem fyrr dýru verði goldin.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
02. júní 2002
Flokkar

Gleðilega hátíð. Sjómannadagur er hátíðardagur sjómanna, dagur fagnaðar og gleði, en líka minningadagur. Það er dagur samstöðu og fyrirbæna vegna þeirra sem farist hafa á sjó og þeirra sem eiga um sárt að binda. Við söfnumst hér saman í helgidóminum og tjáum virðingu og þökk í auðmýkt gagnvart því hve lífsbjörg íslenskrar þjóðar er enn sem fyrr dýru verði goldin.

Hér í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík er áhrifaríkur minnisvarði um þá sem hlutu hina votu gröf. Þar má líta fjölmörg nöfn. Og þar standa þessi orð Jesaja: "Svo segir Drottinn, sá er skóp þig: Óttastu ekki, ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni. Þú ert minn." Þetta er orð Guðs til þín og þinna. Orð sem stendur í fullu gildi, ávallt og alls staðar.

Á sjómannadegi rifjar kirkjan upp sjóferðarsögu frá liðinni tíð. Við heyrðum þessa sögu frá altarinu, og þekkjum hana vel flest, þessa sögu af hræddum mönnum andspænis lífsháska. Og hjálp sem var næst og ekki brást.

Bátur líður yfir vatnsflötinn. Báran lætur blítt við kinnunginn, vindurinn þenur seglin, og knýr fleyið áfram í átt að landi. Og svo, eins og hendi veifað skellur óveðrið á. Öldurnar æða, stormviðrið hvín. Skelfingin læsir krumlum sínum um hjartarætur bátsverjanna. Nema þess sem sefur. Jesús frá Nasaret sefur, í bátnum, sem kastast til og frá í hafrótinu. Hann sefur rótt eins og hann væri sjálfur auga stormsins sem á andartaki umbreytti kyrrlátu Galíleuvatni í ólgandi, æðandi haf. En svo stendur hann upp og hastar á vindinn og vötnin og breytir stormviðrinu í blíðan blæ.

Sagan á sér hljómgrunn í hjörtum okkar allra. Við erum sjómannaþjóð, "föðurland vort hálft er hafið….." sungum við, og það er alveg satt, við erum þjóð í nábýli við ofurefli ægis, þjóð sem á lífsbjörg sína undir atorku og áræði þeirra sem sækja sjóinn. Og við vitum öll hve lánið bæði og lífið er valt og hve skjótt skipast veður í lofti. Jafnvel við sem vart höfum á sjó komið eigum hlutdeild í sagnasjóði og minningu kynslóðanna sem stóð í stöðugri baráttu, í fangbrögðum við náttúruöflin hörðu og vægðarlausu. Þrátt fyrir tækni, afl og mátt samtímans verða slysin enn, enn er maðurinn smár andspænis ægikröftum náttúrunnar, þegar vindar og vötn æða og slá.

Mál okkar og hugsun geyma myndir og minningar genginna kynslóða, tákn og vísbendingar, sem auðga og dýpka tungutak og reynsluheim. Mynd guðspjallsins af hræddum mönnum um borð í bátsskel í stormi og stórsjó hrærir streng í okkur flestum, reynsluheim ótta og öryggisleysis. Við erum nefnilega á sama báti á sama sjó, þegar allt kemur til alls.

Við þekkjum vel vinda sem blása, storma sem hræða og bylgjur sem skelfa. Við þekkjum það þegar áföllin dynja yfir og sópa burt því sem við treystum á og átti að halda. Við sjáum og hræðumst bylgjur illra afla og áhrifa sem ríða yfir þjóðlíf og menningu. Bylgja ofbeldis og hörku rís hátt. Áfengis og fíkniefnaflóðið æðir áfram, stórstreymt og sogar allt of marga með sér í djúpið. Klámbylgjan brotnar á þjóðarskútunni, og sú svívirða sem henni fylgir, niðurlæging konunnar og ánauð, verslun með konur og hvers konar ofbeldi og óhamingja sem fylgir, ógnar menningu okkar og sið. Og það er alvarlegri vá en margur vill vera láta, ginntur af lævi gróðahyggjunnar. Það er öldungis ólíðandi. Við höfum náð svo langt sem þjóð á vegi frelsis og menningar, auðsældar og velmegunar fyrir fórnir hinna mörgu, uppeldi og menntun. En váboðarnir hrannast upp og stormviðvaranirnar. Hvað mun gefa börnunum okkar styrk að standast í stormunum og brotsjóunum? Hvað veitir innri styrk og afl til að standast frelsið og freistingarnar? Trú, kristin trú er ekki hátt skrifuð í samtíðinni, né heldur tryggðin, og sannleikur er oft álitinn það sem glymur hæst og selst best og hentar mér.

Íslensk börn búa við meira frelsi en annars staðar þekkist á Vesturlöndum. Það er því miður oft frelsi afskiptaleysisins. Ótal margt ber því vitni, eins og til dæmis það að hvergi eru slys á börnum tíðari en hér á landi. Nýlegar fréttir benda til ótrúlegs sljóleika og skeytingarleysis varðandi öryggi barna. Óskiljanlegt, - og þó. En allt er þetta svo fjarri því sem við vildum að væri einkenni þjóðmenningar og orðspor Íslands á alþjóðavettvangi. Við viljum að þjóðmenning og samfélag mótist af virðingu og umhyggju, velferð og samábyrgð; hinu góða lífi, sem er ekki bara það að hafa það gott heldur vera til góðs, náunganum, lífinu.

Sagan um Jesú sem kyrrði vind og sjó er mynd af baráttu lífs gegn ofurefli syndar og dauða, átaka góðs og ills, ljóss og myrkurs, Guðs og hins illa vilja og valds. Sagan er endurómur upphafsorða Biblíunnar um myrkrið sem grúfði yfir djúpunum og anda Guðs sem sveif yfir vötnunum og um röddina sem sagði: "Verði ljós! Og það varð ljós!" "Verði líf!" og lífið reis af dauðans djúpi. Frásögn guðspjallsins á sér tilvísanir í sögunni um förina yfir Rauða hafið og fleiri sögur í sagnasjóði Gamla testamentisins og er og mynd af skírninni þar sem vatnið í skírnarlauginni táknar hvernig hið illa, vald syndar og dauða á að drukkna og deyja svo Guð geti reist okkur upp til lífsins, eilífa lífsins í Jesú Kristi, þar sem hann hefur hastað á vindinn og vötnin, læknað meinin, þerrað tárin og leitt inn í landið fyrirheitna eilífs lífs og gleði.

Þessar frásagnir og meginstef Biblíunnar vitna líka um önnur öfl og djúp. Regindjúp Guðs náðar, takmarkalauss kærleika og umhyggju, sem umlykja þig. Og frásögn guðspjallsins segir: Þegar öfl hins illa skella á okkur þá megum við vita að við hlið okkar er sá sem er sterkari en afl dauðans og heljar. Þótt hann virðist sofa, þótt hann virðist fjarri. Óttastu ekki, trúðu aðeins! Jesús Kristur er öflugri en allt sem ógnar þér.

Ekkert getur skilið okkur frá kærleika hans, engin neyð og engin gifta. Hann gekk í dauðann og steig niður til heljar til að bjarga, til að frelsa. Og hann vill vera hjá þér, í lífsbátnum þínum, í gleðinni og örygginu, og í allri neyð og sorg. Og hann vill leiða þig gegnum bárur, brim og voðasker, storma og stórsjói á ævileið og brimgarðinn stóra, hinsta.

En krossins orð og trú er líka krafa og köllun. Að vera á bandi lífsins og þess sem lífinu hlúir, líknar og eflir. Á sjómannadegi færum við líka fram þakkargjörð vegna þeirra sem leggja sig fram um það. Við hugsum til björgunarsveitafólksins okkar hringinn í kring um landið, sem leggur fram sína góðu krafta til bjargar, við hugsum til Landhelgisgæslunnar, og til vökumannanna sem sinna slysavörnum og öryggismálum til sjós og lands, við hugsum til hjúkrunarliðs og lækna og presta og alls þess góða fólks sem reiðubúið er til að líkna og hjálpa og hugga, og við hugsum til allra þeirra sem leggja sig fram um að reynast öðrum vel, vera vinir í raun og vá. Guð launi og blessi það allt.

***

Hér í Dómkirkjunni er í dag, á sjómannadegi fáni með 8 stjörnum, jafnmörgum og hlutu hina votu gröf á umliðnu ári. Nöfn þeirra og líf er geymt í föðurhjarta Drottins. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra.

Á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum í þögn.

Veit þeim, ó Drottinn, þína eilífu hvíld, og lát þitt eilífa ljós lýsa þeim. Þeir hvíli í þínum friði. Hugga þau sem eiga um sárt að binda, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra hvert tár.

Í Jesú náðar nafni. Amen.

Flutt í Dómkirkjunni, á Sjómannadegi, 2. júní 2002.