Tólf hundruð krónur á nótt

Tólf hundruð krónur á nótt

„Ég er alveg miður mín“, sagði Unnur þegar hún kom í hádegismessu í síðustu viku. Ég spyr hvað sé að. Hún svarar að það sé búið að ákveða að hún verði að borga 1200 krónur fyrir nóttina ef hún þarf að leggjast inn á sjúkrahús.
fullname - andlitsmynd Ragnheiður Sverrisdóttir
09. október 2013

„Ég er alveg miður mín“, sagði Unnur þegar hún kom í hádegismessu í síðustu viku. Ég spyr hvað sé að. Hún svarar að það sé búið að ákveða að hún verði að borga 1200 krónur fyrir nóttina ef hún þarf að leggjast inn á sjúkrahús. Hún titraði þegar hún sagði þetta, var kvíðin, hrædd og leið.

Gegnum árin hefur hún þurft að leggjast inn á sjúkrahús af og til og sér ekki að hún hafi efni á því lengur. Hún er fimmtug og hefur verið öryrki í langan tíma. Það hefur því ekkert sparifé safnast fyrir gegnum árin. Ef hún hefur ekki efni á læknishjálp þegar hún þarf á að halda er hætt við að ekki verði aftur snúið ef ástandið versnar.

Fréttin um að taka eigi upp gistináttagjald á sjúkrahúsum hljómar fyrir Unni eins og búið sé að ákveða það. Svo er að vísu ekki. Þetta er tillaga í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2014. Svona fréttir skapa mikið óöryggi og kvíða hjá þeim sem eru efnalítil, eru með lélega heilsu og þurfa mikið á heilbrigðisþjónustu að halda.

Sagt var nokkrum dögum eftir að frumvarpið kom fram að auðvitað verði þeir ekki rukkaðir sem verst eru settir en þá hafði fréttin þegar valdið skaða og hver veit hvernig efnahagur fólks er reiknaður út! Kvíðinn yfir því að verða veik eða veikari eykur líkurnar á að heilsa viðkomandi versni. Það er dýrt að vera veik og þó það hljómi undarlega þá hefur hingað til verið ódýrara fyrir einstaklinginn að liggja á sjúkrahúsi en að fá þjónustu utan þess. Komugjöld, lyf, rannsóknargjöld o.fl. þarf þá að greiða fyrir.

Enn og aftur er það staðfest að í því samfélag okkar heldur bilið milli fátækra og ríkra áfram að breikka. Það hefur reynst mörgum þjóðum dýrkeypt að leyfa þessu bili að þenjast út. Fyrr eða síðar kemur að uppgjöri eins og sést víða um heim.

En gistináttagjaldið er kannski bara notað í pólitískri refskák. Athyglin beinist að þessu gjaldi svo fólk átti sig ekki á þeim niðurskurði sem er í heilbrigðiskefinu almennt. Verði það dregið til baka verða ýmsir ánægðir og glaðir en niðurskurðurinn heldur áfram. Það verður kannsi einkavætt í allar áttir svo þeir sem minna mega sín fái enn minna af sameiginlegum gæðum okkar.

Það var víst eitthvað rætt um það fyrr í ár að breiðu bökin gætu kannski tekið á sig sanngjarna byrði. Það var náttúrlega bara dónaskapur að halda að það væri góð hugmynd!

Sagan sem hér er sögð er sönn, nafni og aldri hefur verið breytt.