Hvar er Guð?

Hvar er Guð?

eru liðin 70 ár frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Ungur drengur var hengdur í Auswitz en reyndist of léttur til að snaran hertist nægilega að hálsinum. Þar sem hann engdist og barðist milli lífs og dauða spurðu viðstaddir sjálfa sig: Hvar er Guð núna?
fullname - andlitsmynd Ólafur Jóhannsson
15. febrúar 2015
Flokkar

​Í ár eru liðin 70 ár frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Ungur drengur var hengdur í Auswitz en reyndist of léttur til að snaran hertist nægilega að hálsinum. Þar sem hann engdist og barðist milli lífs og dauða spurðu viðstaddir sjálfa sig: Hvar er Guð núna? ​Hvar er Guð í óréttlætinu og valdníðslunni? Hvar er Guð í þjáningunni? Svarið var: Guð hangir hér í gálganum. Guð þjáist með þeim þjáðu. Hann hefur sjálfur verið í sporum þeirra. ​Oft misskilst það þegar talað er um Guð sem alvaldan og almáttugan. Það felur nefnilega ekki í sér að allt, sem gerist, sé eftir vilja Guðs. Margt er augljóslega andstætt þeim vilja. Illsku og grimmd, slys og sjúkdóma er ómögulegt að tengja góðum Guði. ​Kristin trú boðar að Guð hafi komið í heiminn í Jesú Kristi sem ósjálfbjarga hvítvoðungur, vanmáttugt barn sem var hrakið á flótta undan vonsku og heimsku hégómlegs og kaldrifjaðs konungs. Á fullorðinsárum var sonur Guðs misskilinn, handtekinn, hæddur og kvalinn á krossi, algerlega varnarlaus. Hvar var alveldið þá? ​Leyndardómur og þverstæða kristinnar trúar felst í því að með þjáningu sinni og dauða sigraði Kristur illsku, þjáningu, synd og dauða. Sá sigur hefði aldrei unnist án fórnar. Siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther sagði: „Guð vildi ekki að einkasonur hans, sem hann elskaði svo mjög, frelsaði syndarana, nema hann borgaði hið dýra lausnargjald, eins og nefnt er í Jesaja 53:8: „Fyrir sakir syndar lýðs míns var hann lostinn til dauða“.“ ​Lærisveinarnir hvorki skildu það né skynjuðu þegar Jesús sagði fyrir um þjáningu sína og dauða. Þeir heyrðu bara það sem þeir vildu heyra og þetta vildu þeir alls ekki heyra. Það féll ekki að dagdraumum þeirra um hylli, frægð og áhrifastöður. Þeir voru með allan hugann við ávinninginn af því að vera með honum, sáu fyrir sér sigurgöngu til Jerúsalem, völd og vinsældir. Orð Jesú pössuðu engan veginn við þá mynd. ​Jesús heldur áfram ferð sinni til Jerúsalem. Framundan er píslarganga, svik, misþyrmingar, háð, aftaka - og upprisa. Jesús segir fyrir um það allt. Lærisveinarnir eru áfram jafn skilningsvana, sjá ekkert vit og engan tilgang í því að hann eigi að þjást. ​Oft erum við í sporum þeirra, eigum erfitt með að horfast í augu við eymd, böl, óréttlæti og niðurlægingu. ​Jesús sér lengra. Hann sér lausnina, sigurinn í upprisunni. ​Upprisan staðfestir að í kærleika sínum velur Guð að þjást með mannkyninu og fyrir mannkynið. Það er fagnaðarerindi kristinnar trúar, einnig kallað orð krossins. Þó er Kristur ekki á krossinum. Auður krossinn bendir á upprisuna. ​ ​Dýptin í kristinni trú felst í því að Kristur varð að deyja til að rísa upp og sigra. Sjálfur útskýrði hann það myndrænt: „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt“ (Jóh. 12:24). ​Kristin trú er ekki yfirborðskennd heldur fela dauði og upprisa Jesú í sér raunverulega syndahreinsun. ​Mörgum finnst erfitt að kyngja þessu. Þannig hefur það alltaf verið. Pistillinn minnir á að „orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun“ (I.Kor. 1:18). Nánar er útlistað (v. 23) að boðskapurinn um Krist krossfestan sé mörgum hneyksli og heimska. ​Í hugum Gyðinga var hneyksli að tala um að sonur Guðs hefði verið deyddur. Í hugarheimi annarra þjóða á þessum tíma var hrein heimska að boða slíkt. Óhugsandi þótti að fara þannig með guðsson því litið var á guðina sem ósigrandi hetjur. ​Rétt eins og í frumkristninni finnst mörgum nú til dags afar óþægilegt að tala um krossinn. Fólk fer hjá sér við slíkt tal. Það er alveg skiljanlegt. Krossinn fól í sér þjáningu. Hann var aftökutæki og ógnartákn, staðfesting á niðurlægingu og bölvun. ​Kristin trú leggur áherslu á að krossfesting Krists hafi verið óumflýjanleg. Enn er það mörgum hneyksli og heimska. ​Finnst þér fagnaðarerindið torskilið? Mikið er gott að þurfa ekki að skilja það heldur mega meðtaka það og tileinka sér það, iðka það þótt við getum ekki skilgreint það, þiggja blessun þess og lifa í skjóli krossins. Krossinn var óhugnanlegt kvalatól en er orðinn sigurmerki og tákn um kærleika Krists. ​Pistillinn minnir á að Gyðingar vildu tákn og Grikkir leituðu að speki. Jesús hafði hvort tveggja fram að færa í ríkum mæli. Hann vann mörg kraftaverk og í boðskap hans fólst mikil viska eins og við þekkjum úr dæmisögunum og fjallræðunni. ​Á öllum öldum sækir fólk í tákn og undur, leggur ofuráherslu á lækningar og önnur kraftaverk. Það er samt ekki kjarninn. Vissulega gerast oft stórkostleg og uppörvandi undur. Við fáum yndisleg og skýr bænasvör sem hafa þó aðeins tímabundið gildi, ekki eilíft. Þau, sem læknast núna, eiga öll eftir að deyja síðar. ​Á öllum tímum er líka í tísku að leita spekinnar, hinnar sönnu veraldarvisku, velta fyrir sér hinstu rökum tilverunnar. Þar eiga vangaveltur og umræður um kenningar að leiða til röklegrar niðurstöðu. Kristin trú fellur ekki að þeirri mynd. Henni er ekki ætlað að vera umræðugrundvöllur í heimspekilegri sönnunarfærslu. ​Reynsla árþúsundanna sannar að hvorki undrin né spekin vekja sanna trú. Hvorugt er lausnin. Lausnin er samfylgd Jesú, að eiga hann að. Jesús kallar okkur til að fylgja sér gegnum þjáningu til dýrðar, gegnum þrengingu til sigurs. ​Lærisveinarnir voru samferða Jesú á göngu hans hér á jörð. Þeir eltu hann, hlustuðu á hann, sáu verk hans, lærðu af honum. Þeir höfðu oft séð tákn Jesú og heyrt speki hans. Smám saman jókst og styrktist trú þeirra. Samt sáu þeir hann ekki í réttu ljósi fyrr en eftir upprisuna. Hún ein gaf heildarmynd af öllu sem áður hafði gerst. ​Það var lærisveinunum alveg lokuð bók að sigurganga Krists hæfist með píslargöngu - þangað til eftir upprisuna. Upprisan er lykillinn og vendipunkturinn en jafnframt það óskiljanlegasta, erfiðasta og umdeildasta af öllu! Hana sjáum við ekki í tákni og finnum ekki í speki en við getum mætt hinum upprisna sjálfum, séð hann með augum trúarinnar og þar með allt lífið í ljósi upprisunnar, einnig þjáningu og böl. ​Þá sjáum við að Guð þjáist með þeim þjáðu og kallar okkur til að mæta þeim, líkna þeim. Þjáning er ekki eftirsóknarverð og oftast er hún tilgangslaus. Þá sjaldan að hún hefur tilgang kemur hann helst í ljós eftir á og tilgang hefur hún ekki nema henni fylgi lausn, bati, von. Þannig er þjáning Krists sem fastan beinir huga okkar að. Allt illt, sem lenti á honum, var í þágu okkar. ​Í lok guðspjallsins er samleið lærisveinanna með Jesú í uppnámi. En þrátt fyrir það sem er ofvaxið skilningi þeirra, þrátt fyrir það sem þeir eru ósáttir við og vildu hafa öðruvísi, þrátt fyrir eigin efa, hik og blindu fylgja þeir honum áfram. Þeir vita ekki að framundan er dýpsti dalur skelfingar og vonbrigða en handan hans fyrirheit um eilífan sigur, varanlegan frið og sanna gleði. ​Það sama býðst lærisveinum Jesú Krists á öllum tímum. Við megum ganga með hinum upprisna og á þeirri göngu fáum við mikilvæga staðfestingu trúarinnar. Fyrirfram getum við sjálf aldrei séð allar aðstæður til enda. Ef við erum með Jesú, samferða honum, nægir okkur að hann sjái alla leið. ​Samfylgd Jesú veitir hvorki fyrirheit um veraldlega velgengni né afslátt af byrðum lífsins en býður nánd og styrk til að mæta því sem lífið leggur á okkur og gefur vissu um eilíft líf. ​Kristin trú er ekki ávísun á velgengni. Það hefur ekkert með trúna að gera þótt þú veikist, missir vinnuna, lendir í slysi, missir ástvin eða bíðir skipbrot í hjónabandi. Það getur hins vegar haft heilmikið með trúna að gera hvernig þú vinnur úr slíkum áföllum og heldur áfram lífsgöngunni. ​Mörgum þykir fagnaðarerindi kristinnar trúar of einfalt og afdráttarlaust. Þá er leitað annað og búnir til guðir sem falla betur að smekk og hentugleikum, guðir í mynd manna. Slíkir guðir eru auðvitað vita gagnslausir og ófærir um að veita styrk þegar á bjátar. ​Í lífi okkar allra koma einhvern tíma þær aðstæður að við þurfum raunverulega, utanaðkomandi hjálp þess sem er meiri en mannlegur máttur, hjálp Guðs. Meðvitað eða ómeðvitað þráum við öll staðfestingu þess að til sé góður og nálægur Guð. ​Sú nálægð breytir þó ekki öllum aðstæðum eins og hendi sé veifað. Við lifum í föllnum heimi þar sem vilji Guðs er oft fótum troðinn og margt gerist sem er augljóslega andstætt honum. Heitustu bænir og innilegasta trú koma ekki í veg fyrir það. ​En við lifum alltaf í von, von eilífs lífs, í trausti til þess að allt illt og neikvætt muni enda og við taki friður, gleði og sæla Guðs. Þangað leiðir Jesús okkur, gegnum böl og baráttu, til upprisu og sigurs. Hann á hinsta valdið og endanlegur sigur er í hendi hans. Það er alveldi Guðs. Þannig er hann almáttugur. ​Ég aldrei hef lofað að braut verði bein ​né blómstígar skrýddir á alla grein. ​​Ég get ekki lofað þér gleði án sorgar ​​á göngu til himinsins helgu borgar. ​​En eg hefi lofað þér aðstoð og styrk ​​og alltaf þér birtu þó leiðin sé myrk. ​​Mitt ljúfasta barn, ég lofað þér hef ​​að leiða þig sjálfur hvert einasta skref. ​Dagurinn í dag er kenndur við föstuinngang. Á morgun er bolludagur og svo sprengidagur, íslenska útgáfan af kjötkveðjuhátíð áður en fastan hefst á öskudag. Fastan minnir á útskúfun, einsemd, þjáningu og dauða Jesú. Hún staðfestir að sonur Guðs þekkir það allt af eigin reynslu og skilur þau svo vel sem standa í sömu sporum, þau sem hefur verið útskúfað og finna til einstæðingsskapar, þau sem þjást og horfast í augu við dauðann. ​Lærisveinarnir hvorki skildu né skynjuðu en þeir treystu - og það nægir. Á sömu forsendum erum við lærisveinar Jesú. Að fylgja krossferli Jesú er sigurleið þótt torfær sé á köflum. Honum fylgjum við með því að hlusta á rödd hans og nema orð hans, vita af nálægð hans og treysta endanlegum sigri hans, fylgja fordæmi hans og gera vilja hans. ​Trú er að því leyti fjarlæg mannlegri skynsemi að hún knýr okkur til að stíga skref í trausti, án sannana, en kallar okkur einnig til að vera virk. Hún er hreyfiafl sem krefur okkur um afstöðu og athafnir, samþykki og eftirfylgd. ​Á meðan við lifum erum við kölluð til að vera svar Guðs við illsku, neyð, óréttlæti og ofbeldi í fallinni veröld, líkna bágstöddum og standa með undirokuðum. Þannig erum við sönnun fyrir nálægð Guðs í þjáningunni og berum vitni um kærleika hans. ​Því handan krossins er upprisan og handan hvers kross í lífi okkar er von um sigur, með Jesú Kristi! ​Dýrð sé Guði föður og syni og Heilögum anda svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.