Ashura, Ebru og NeDó

Ashura, Ebru og NeDó

Þann 15. nóvember næstkomandi verður í Neskirkju haldin Ashura hátíð, sem er ætlað að fagna fjölbreytileika menningarhefða að tyrkneskum sið. Ashura hátíðin minnir á búðing Nóa spámanns en sagan segir að hann hafi blandað saman hráefnum sem öllu jafna er ekki blandað saman og að útkoman hafi orðið betri fyrir vikið.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
12. nóvember 2014

Þann 15. nóvember næstkomandi verður í Neskirkju haldin Ashura hátíð, sem er ætlað að fagna fjölbreytileika menningarhefða að tyrkneskum sið. Ashura hátíðin minnir á búðing Nóa spámanns en sagan segir að hann hafi blandað saman hráefnum sem öllu jafna er ekki blandað saman og að útkoman hafi orðið betri fyrir vikið. Í Ashura búðingnum hefur hvert hráefni sín sérkenni og verka með ólíkum hætti á braðskyn okkar og líkama. Ashura hátíðin fagnar fjölbreytileika mannlífsins þar sem hver menningarhefð hefur sín sérkenni og bragðbætir menningu okkar, ef fjölbreytninni er fagnað.

Ersan Koyuncu

Við undirbúning hátíðarinnar hafa ungmenni úr Neskirkju og félaginu Horizon starfað saman að því marki að auka umburðarlyndi og minnka fordóma í samfélagi okkar. Í Horizon starfar fólk af tyrkneskum uppruna, aðallega múslimar, sem vilja auka samtal menningar- og trúarhefða í samfélagi okkar í þeim tilgangi að auka virðingu og eyða fordómum í garð fólks. Ungmennin hafa kynnst hvert öðru, farið í leiki og beðið saman, og munu á Ashura deginum sýna listaverk sem þau unnu samkvæmt tyrkneskri hefð Ebru.

Ebru er tvö þúsund ára gömul aðferð þar sem málað er á vatn og verkið síðan yfirfært á pappír eftir kúnstarinnar reglum. Í hinu forna samfélagi Tyrkja hafði þetta listform djúpa merkingu, þar sem blóm og litir höfðu hvert afmarkaða merkingu, og gátu miðlað boðskap trúar og ástar í myndmáli.

Samstarf að þessu tagi, þar sem ungt fólk af ólíkum trúar og menningarhefðum vinnur saman að því að kynnast menningu hvers annars, er lykillinn að því að skapa fjölmenningarsamfélag á Íslandi. Fjölmenning þarf að byggja á virðingu og samtali, frekar en tortryggni og fordómum og verkefnið er vonandi skref í þá átt. Allir sem tilheyra samfélagi manna hafa dýrmætt framlag fram að færa og ættu að njóta virðingu og ástar á þeim grundvelli einum að vera manneskja.

Við viljum bjóða öllum sem vilja að koma í Neskirkju og skoða afrakstur ungmennanna frá Neskirkju og Horizon. Dagskráin hefst kl. 15.00.

Sigurvin Lárus Jónsson, æskulýðsprestur Neskirkju. Ersan Koyuncu, formaður Félags Horizon.