Friður og frelsi

Friður og frelsi

Sínum augum lítur hver á silfrið. Orð Guðs er dýrmætara en allur heimsins auður. Það er líka auður fyrir okkur íslendinga að hafa búið við frið frá lýðveldissstofnun og frelsi til orðs og æðis. Frelsi fylgir ábyrgð gagnvart sjálfum sér, náunganum og samfélaginu. Varðveitum frelsið og friðinn.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
17. júní 2014
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Gleðilega þjóðhátíð. Í dag fagnar íslenska þjóðin 70 ára lýðveldisstofnun. Það eru forréttindi vera íslendingur. Í síðustu viku keyrðum við Auður vestur á Ísafjörð í blíðskaparveðri á Prestastefnu með viðkomu á Hólmavík. Landslagið var kunnuglegt á norðurlandi þar til við fórum yfir Laxárdalsheiði á góðum malarvegi heim í Búðardal þar sem við tók bundið slitlag til Ísafjarðar um Arnkötludal og Steingrímsfjarðarheiði. Stafalogn var á fjörðunum sem skörtuðu sínu fegursta í sólskininu og selir heilsuðu okkur á skerjum, víkum og vogum innan um æðarkollurnar. Það er fallegt á Ísafirði og í Bolungarvík þar sem sveitarstjórnin bauð biskupum, prestum og mökum til veislu þar sem veisluföngum voru gerð góð skil eins og vera ber þegar kennimenn og makar koma saman. Á vegferð okkar frá Húsavík til Ísafjarðar sáum við margar kirkjur. Krossarnr á þeim voru líkt og vörður sem vísuðu okkur veg á áfangastað og óskuðu okkur góðrar ferðar. Þessar kirkjur voru allar byggðar af fólki sem reisti sér þessi musteri til að tilbiðja sinn eina sanna Guð, Jesú Krist í anda og sannleika.

Sínum augum lítur hver á silfrið er stundum sagt. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með þáttaröðinni um Víkingana í sjónvarpinu að undanförnu. Með hugviti auðnaðist þeim að smíða sér skip sem gátu farið yfir Atlantshafið og áttavita sem vísaði þeim veg með hjálp sólarinnar. Í þáttunum er sagt frá komu þeirra að ströndum Englands þar sem þeir fundu einkennilega menn sem virtust standa vörð um gersemar úr silfri og gulli sem víkingarnir rændu frá þeim. Víkingarnir numu nokkra af þessum krúnurökuðu munkum á brott með sér til Noregs, þar á meðal mann sem hélt þéttingsfast um bók eina sem var honum dýrmætari en gullið sem víkingarnir stálu. Það reyndist vera biblían sem hafði að geyma sannleikann um hinn eina sanna Guð að mati þessa manns. Það áttu víkingarnir erfitt með að skilja en þeir tilbáðu gömlu goðin heima í Noregi og þekktu ekki annað. Þannig barst kannski kristin trú til Noregs og síðar til Íslands. Guð notaði þannig víkingana til að útbreiða fagnaðarerindið án þess að þeir gerðu sér það ljóst með því að taka þessa munka með sér heim til Noregs sem höfðu annan sið en þeir sjálfir, aðra menningu og önnur trúarbrögð.

Það er gott að vera kristinn einstaklingur í þessu fallega landi en rúmlega 70% þjóðarinnar tilheyra Þjóðkirkjunni.  Það kom mér á óvart hversu mörg trúfélög og lífsskoðunarfélög eru skráð hjá Þjóðskrá hér á landi en þau eru 42 talsins að Þjóðkirkjunni meðtalinni. Flest þessara trúfélaga kenna sig við Jesú Krist.

Fyrstu landnemarnir hér á landi voru sennilega víkingar sem tilbáðu heiðin goð en sennilega hafa kristnir munkar komið til landsins og sest að áður en Þorgeir Ljósvetningagoði ákvað að þjóðin skyldi taka upp kristinn sið. Þeir hafa sennilega komist hingað með skipum yfir hafið frá nágrannaþjóðum í austurvegi til að boða íslendingum fagnaðarerindið.

Í dag hefur margt fólk flust búferlum yfir hafið til Íslands með ýmsum hætti og flutt með sér sína menningu og sín trúarbrögð líkt og paparnir og víkingarnir gerðu forðum. Með þeim hætti hefur það auðgað mannlífsflóruna hér á landi með ýmsum hætti. Íslendingar hafa tekið við flóttamönnum í gegnum tíðina í samstarfi við Rauða krossinn sem sest hafa hér að, nú síðast á Akranesi ef ég man rétt. Það virðist vera erfitt fyrir hælisleitendur að fá hér hæli nema þeir geti sannað hverjir þeir séu með viðeigiandi skilríkjum. Það hefur því miður tekið allt of langan tíma að vinna í málum þeirra margra með alvarlegum afleiðingum. Alþingi hefur með ákvörðun sinni veitt mörgum þeirra ríkisborgararétt af mannúðarástæðum eins og það er kallað. Þessar ákvaðanir þingsins eru í anda frelsarans að mínum dómi sem hvatti lærisveina sína til þess að koma fram við aðra eins og þeir vildu að væri komið fram við sig eins og hann segir í guðspjalli þessa þjóðhátíðardags. En til að samlagast landi og þjóð þá er mjög brýnt að þessir hælisleitendur og flóttamenn og aðrir erlendir ríkisborgarar sem hér vilja setjast að læri íslenskt tungumál eins og fljótt og auðið er.

Það er gott að búa á Íslandi vegna þess að hér ríkir trúfrelsi.þar sem hver getur orðið sáluhólpinn á sinn hátt. Trúin varðar það sem hjartað skynjar. Það er næsta víst að á næstu árum og áratugum munu fleiri erlendir ríkisborgarar óska eftir landvist hér á landi. Við þurfum að taka vel á móti þessu fólki og læra af nágrannaþjóðunum í þessu tilliti til þess að ekki komi til ófriðar í landinu milli ólíkra trúarhópa. En það er alveg ljóst að nú á kristin trú undir högg að sækja vegna fjölmenningarlegra áhrifa sem gætir hér á landi.

Kristin trú er eingyðistrú. Þegar gyðingar komu til fyrirheitna landsins með sína trú á einn Guð þá var fyrir í landinu fólk sem aðhylltist fjölgyðistrú, trú á marga guði. Það tók margar aldir fyrir gyðingdóminn að festa rætur í þessu landi því að gyðingar mættu mikilli mótspyrnu. Hins vegar tók það tiltölulega stuttan tíma hér á landi fyrir kristni að festa rætur vegna þess að Þorgeiri var falið af Alþingi á Þingvöllum að kveða upp úr með það hvort kristni skyldi lögtekin hér á landi eða ekki.

Það sem gerði það að verkum að gyðingar gáfust aldrei upp í fyrirheitna landinu var sú staðreynd að þeir trúðu því að Guð hefði gefið þeim landið til eignar eins og kemur fram í lexíu þessa þjóðhátíðardags þar sem segir: ,,Ég legg guðsótta í hjarta þeirra svo að þeir víki aldrei frá mér. Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.“

Forfeður okkar í andlegu og trúarlegu tilliti voru gyðingar í landiu helga sem tóku trú á Jesú Krist. Þeir trúðu því að hann væri sá Messías sem þeir voru búnir að bíða eftir að kæmi í margar aldir.  Í landinu helga  var þessi hreyfing til sem kölluð er kirkja, samfélag trúaðra, sem á sér engin landamerki, sem breiðst hefur út um allan heim. Og hér erum við í dag í Húsavíkurkirkju og syngjum þjóðsönginn sem sr. Matthías Jochumsson samdi út frá Davíðssálmi nr 90 í gamla testamentinu þar sem sálmaskáldið líkir fólki við gróandi grös sem blómgast og gróa að morgni en fölna og visna að kvöldi. Þess vegna þurfum við að geta leitað athvarfs hjá Drottni sem mettar okkur með miskunn sinni og náð frá degi til dags til æviloka. Þjóðsöngurinn er bænarákall til Guðs um miskunn okkur til handa sem lifum við mörk hins byggilega heims, íslendinga sem búum við óblíða náttúru til sjós og lands, íslendinga sem þurfa að hafa töluvert fyrir því að hafa í sig til hnífs og skeiðar, Íslendinga sem hafa stundum verið berskjalda fyrir áföllum af efnahagslegu tagi. Það er gott að vita til þess að Guð fari fyrir okkur og ryðji brautina, geri hana okkur færa til framtíðar litið. Á það minnir hinn hinn lóðrétti og lárétti kross. Guð kom til okkar í syni sínum og hann er með okkur á lífsins vegi í syni sínum Jesú Kristi sem er með okkur á vegferð okkar í gegnum lífið.

Hér í kirkjunni er íslenski fáninn með sínu krosslagi, rauðu og hvítu í bláum bakgrunni. Í dag blaktir íslenski fáninn við hún um land allt. Og krossinn gyllti hvílir á altarinu til að minna okkur á það að Jesús dó fyrir syndir allra manna á krossinum og reis upp frá dauðum til að gefa öllu fólki von. Á þessum þjóðhátíðardegi erum við hvött til þess að biðja í anda postulans Tímoteusar sem hvatti fólk á sínum tíma til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn eins og segir í pistil dagsins.

Guðfræðingurinn og presturinn danski Sören Kirkegaard sagði einu sinni að Guð væri sá eini semaldrei þreyttist á að hlusta á mennina. Og bænarefnin eru jafn mörg og mennirnir eru margir.

Í guðspjallinu fullyrðir Jesús að ef að við biðjum bænirnar okkar þá munum við verða bænheyrð. En hann vill að við biðjum um góðar gjafir sem komi okkur og öðrum að gagni til líkama og sálar. Við höfum við á því að gefa ekki  börnum okkar steina þegar þau biðja um brauð. Á sama hátt gefur Guð faðir á himnum  okkur góðar gjafir. Stundum tökum við ekki eftir þessum gjöfum og teljum þær sjálfsagða hluti. En enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þar vegur þungt góð heilsa sem sannarlega er þakkarefni.

En hver eru bænarefnin okkar húsvíkingar?  Í samfélagslegu tilliti þá hvet ég söfnuðinn til þess að biðja fyrir nýrri sveitarstjórn og nýjum svetiarstjóra sem tekur til starfa í haust.  Guð láti gott á vita í störfum þeirra sem valist hafa til starfa fyrir Norðurþing næsta kjörtímabil. Ég hvet líka söfnuðinn til þess að biðja fyrir þessu samfélagi okkar, að hér ríki eindrægni, sátt og friður í hugum og hjörtum fólks, að allir geti átt griðastað á heimilum sínum, að allir geti búið við réttlæti, að hinum minnsta bróður og systur sé sinnt svo sem þeim ber, ekki síst þeim sem glíma við geðraskanir.

Vinsæl bænaaðferð nú á tímum  nefnist Kyrrðarbæn en hana er hægt að læra undir handleiðslu fólks sem hefur lært hana. Við iðkum þessarar bænar kyrrum við hugann, opnum hug okkar og hjarta fyrir Guði sem umbreytir okkur í þögninni. Í dag eru til margir bænahópar á vegum þjóðkirkjunnar þar sem þessi bæn er iðkuð.

,,Kyrrðarbæn (e. Centering Prayer) er bæn án orða sem felur í sér að við samþykkjum nærveru Guðs og starf hans hið innra með okkur. Helsti ritningarlegi grundvöllur bænarinnar eru viskuorð Jesú í Matteusarguðspjalli 6.6 en þar segir: „En þegar þú biðst fyrir skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.”

Kyrrðarbæn snýst um að gefast Guði og játast honum. Hið andlega ferðalag krefst þess ekki að við förum nokkurt því Guð er nú þegar nálægur hið innra með okkur. Aðferðin er fólgin í því að sleppa tökunum á sérhverri hugsun meðan á bæninni stendur, jafnvel okkar einlægustu trúarhugsunum. Með því að iðka þessa bæn daglega þroskast næmi manns fyrir sínum andlega manni og maður getur farið að finna fyrir nærveru Guðs við venjulegar athafnir daglegs lífs. Nánari upplýsingar er hægt að fá á vefsíðunni kristinihugun.is

Sínum augum lítur hver á silfrið, sagði ég áðan. Orð Guðs er dýrmætara en allur heimsins auður.  Það er líka auður fyrir okkur íslendinga að hafa búið við frið frá lýðveldissstofnun og frelsi til orðs og æðis. Frelsi fylgir ábyrgð gagnvart sjálfum sér, náunganum og samfélaginu . Varðveitum frelsið og friðinn.

Svo oft hef ég keyrt frá Húsavík til Hrútafjarðar að við liggur að ég gæti keyrt þessa leið með skýlu fyrir augum. Ég átti þó ekki von á því um daginn í Víkurskarði að mæta nýja líkbílnum okkar á fleygiferð niður í Fnjóskadal. Ég saup hveljur því að ég gat ekki betur séð með mínum ágætu augum en að líkbíllinn væri mannlaus. Þetta minnir mig á aðra sögu af manni sem keyrði leigubíl með farþega í aftursæti. Þegar farþeginn klappaði honum á öxlina  þá brá leigubílstjóranum svo mikið að hann keyrði upp á gangstétt og keyrði á brunahana. Þegar lögreglan spurði hann hverju þettta sætti þá sagðist hann hafa keyrt líkbíl áður en hann tók að keyra leigubíl.

Minnumst að lokum orða frelsarasns á þessum þjóðhátíðardegi: , Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Lexía: Jer 32.38-41

Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá. Ég geri við þá ævarandi sáttmála um að ég snúi mér ekki frá þeim heldur reynist þeim vel. Ég legg guðsótta í hjarta þeirra svo að þeir víki aldrei frá mér. Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.

Pistill: 1Tím 2.1-4

Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn. Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara vorum, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.

Guðspjall: Matt 7.7-12

Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.