Þráin, Hans Klaufi og ríki Guðs

Þráin, Hans Klaufi og ríki Guðs

Stundum er það svo, að við vitum ekki með hvaða móti það mætir okkur sem við þráum. Kemur prinsinn á hvítum hesti eða situr hann litinn gráan asna eða jafnvel geit?

Það er munur á þrá og þörf. Þörfin horfir aftur til fortíðar, horfir á það sem við áttum og höfum misst eða þurfum að fá. Þráin horfir hinsvegar stefnulaus til framtíðar.

Ástin byrjar með þrá. Trúin byrjar með þrá. Vonin byrjar með þrá. Við vitum ekki hvernig það er sem við þráum, bara að það er ekki í hendi okkar og þangað til að við höfum öðlast það, erum við ófullnægð og okkur er órótt. Ef við höfum einu sinni fengið það sem við vonuðumst eftir, trúðum á eða elskuðum, þörfnumst við þess alla ævi.

Þannig gat Ágústínus, biskup frá Hippó í Norður Afríku (4. öld e. Kr.) sagt í bók sinni Játningar: “Hjarta mitt er órótt, unz það hvílir í þér, ó Guð.” Þá átti hann við að hann hafi verið ófullnægður, jafnvel óhamingjusamur áður en hann lærði að treysta Guði.

Stundum er það svo, að við vitum ekki með hvaða móti það mætir okkur sem við þráum. Kemur prinsinn á hvítum hesti eða situr hann litinn gráan asna eða jafnvel geit? Um það er rætt um í biblíunni:

Segið dótturinni Síon: Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip. (Matt. 21)

Einu sinni var prinsessa, sem vissi að hún þráði einhvern, en ekki hvern eða hvað. Boð voru send út frá höllinni og brátt kom allur rjómi aðalsins og samfélagsins á hestum sínum til þess að sannfæra prinsessuna um ágæti sitt. Hún hafnaði þeim, einum á fætur öðrum. Þegar Hans klaufi kom til hallarinnar, ríðandi á geit, sveiflandi dauðum hrafni og dragandi klossa eftir jörðinni var athygli hennar vakin. Þegar þau ræddu saman, sá hún að þar var kominn maður sem hún þráði og þannig eignaðist Hans klaufi hálft konungsríkið og prinsessuna fyrir konu.

Þessi saga hefði aldrei skilist eða verið sögð, hefði ekki Jesús sjálfur sest upp á asna og riðið sem friðarkonungur inn í Jerúsalem, viku fyrir páska. Konungar fara yfirleitt um í kerrum eða á hestbaki í fylgd hermanna. Jesús hafði bara sjálfan sig og vini sína.

Hann sveiflaði engu sverði, hafði engan hjálm eða auð. Styrkur hans var í brennandi kærleika - hann beindi honum til þeirra sem útskúfaðir voru og veikir, en líka þeirra sem fyrirlitnir voru vegna verka sinna. Hann beindi gagnrýni sinni til þeirra sem gerðu sér ekki grein fyrir því að allir eru á sama báti, þegar staðið er frammi fyrir Guði, þar skiptir ekki máli hvort þú ert kornabarn eða öldungur, mikilmenni eða róni, átt auð eða skuldir. Og hann gaf fyrirheit um það að ríki Guðs birtist þar sem menn og konur taka höndum saman í kærleika og réttlæti.

Í guðspjallinu í dag sagði Jesús:

Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. - Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar.

Lúkasarguðspjallið talar á svipuðum nótum og texti jóladags, sem segir að orðið varð hold. Orðið - það er að finna í biblíunni, þegar við opnum hana, biðjum Guð að opna huga okkar - og lesum. Orðið - það er að finna hér í kirkjunni, þegar við brjótum brauð og neytum saman - í altarisgögnunni.

Og í dag er það líka að finna í fólkinu sem Jesús talaði um að fær að hlusta á gleðilegan boðskap, boðskap sem hljómar eins og lagasetningin um að loksins, loksins fá aldraðir að njóta þeirra launa sem þeir hafa til unnið - jafnvel þótt þau hafi dálitla aukavinnu. Loksins, loksins fá fatlaðir og öryrkjar að vinna til launa án þess að bætur þeirra skerðist. Loksins, loksins er nógu vel búðið að Byrginu, og Vogi, og Barnageðdeildinni, þannig að biðlistar eftir að komast af götunni eða óviðunandi aðstæðum, þar sem væsir um mann eru að hverfa. Loksins, loksins er komið að skuldadögum þar sem skuldirnar við bankann og húsnæðissjóð og Visa eru fyrirgefnar og fólk er ekki tekið til gjaldþrotaskipta vegna þess að það hefur ekki vinnu og getur því ekki staðið við afborganir … Loksins, loksins er komið ríkið sem við þráum öll, þar sem réttur og friður ríkir.

Nei, það ríki dettur ekki niður af himnum, fullskapað. Það ætti að vera algerlega ljóst, nú þegar ég hef orðað það þannig að það eigi við okkur en ekki samtímamenn Jesú eingöngu. Það ætti líka að vera ljóst, að það erum við, lærisveinar Jesú og kirkja hans, sem eigum að koma þessu réttlætisverki á.

Og þessvegna sá einn collega minna fyrir sér miðlunarlón, þegar hann talaði um það hvernig við hegðum okkur á aðventunni. Að öll sú jákvæða orka sem við erum hlaðin og beinist að náunganum í desember, dreifist um árið allt. Skemmtileg hugmynd, því þannig yrði árið allt að náðarári.

Á aðventunni verður þrá okkar augljós - við leitum að gjöfinni sem gleður og kannski finnum við hana. Þörf okkar er líka augljós - við þörfnumst friðar og við þörfnumst réttlætis. Sum okkar höfum fundið það sem við þörfnumst, önnur misst. Þessvegna er desember erfiður sumum, sérstaklega þeim sem syrgja látna eða sjúka ástvini. Mig langar til þess að ljúka orðum mínum í dag með einni hvatningu og einni þökk.

Hvatningin er þessi: Leyfið tilfinningum ykkar til náungans að skerpast í einni tilfinningu: Samúðinni. Virkjið reiðina, réttlætiskennd, sorgina þannig að hún breytist í samúð og samstöðu. Þökkin er þessi: Takk fyrir að standa með náunga ykkar sem líður illa. Einföld gjörð eins og sú að skrifa samúðarkort eða að tendra kerti og leggja á stéttina fyrir framan húsið getur létt hugarangur syrgjanda.

Flutt í Kálfatjarnarkirkju fyrsta sunnudag í aðventu 2006.