Að búa til pláss!

Að búa til pláss!

Jólin snúast mikið um það að búa til pláss. Búa til pláss fyrir okkar nánustu, búa til rúm og tíma fyrir náunga okkar. Jólin snúast einnig um það að búa til pláss fyrir boðskap jólanna. Boðskapinn um frið og fögnuð og kærleika milli manna. Búa til pláss fyrir Guð sem birtist okkur í Jesú Kristi, veita honum sess og sæti. Búa til pláss fyrir jötuna í hjarta okkar.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
28. desember 2009
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega jólahátíð! Annar dagur jóla og við höfum heyrt jólaguðspjallið óma hér og síðustu daga. Frásöguna sem við þekkjum öll, ferðasögu unga parsins og fæðingu Jesú barnsins.

Jólafrásagan geymir minni

Upprifjun frásögunnar snertir við strengum í okkar lífi sem erfitt er að útskýra eða festa hönd á. Frásagan snertir við okkur á sérstakan máta.

Helgisaga jólanna geymir minni sem rista djúpt í okkar vitund.

Þar má finna minni um ferðina og þá skýrskotun um lífið sem ferðalag.

Þar má finna minni um barnið. Öll höfum við einhvern tíman verið börn. Flest vonandi átt foreldra og aðra í kringum okkur sem báru hag okkar fyrir brjósti, vildu okkur vel.

Við sem eigum börn eigum án efa flest þá sameiginlegu reynslu að fæðing barnanna er eitt það stórkostlegasta sem við fáum að reyna í lífinu. Fæðing barns inn í þennan heim er undur, stórmerki, kraftaverk.

Góðu tilfinningarnar sem gjarnan eru reynsla foreldra á þeirri stundu, þakklæti, auðmýkt og vanmáttur í bland við gleði, kærleika og hamingju.

Frásaga jólanna geymir minni um frið, þann frið sem hjarta manna þráir, þann frið sem samfélag manna leitar eftir á öllum tímum.

Friðurinn manna á meðan, friðurinn milli Guðs og manna. Englarnir sungu um frið á jörðu.

Jólafrásagan minnir okkur á þetta og margt fleira.

Endurtekningin

Sterkar hefðir fylgja gjarnan hátíðum. Á jólum eru fjölskyldurnar oft saman og margir gera allt til að vera nærri ástvinum sínum. Við hugsum til þeirra sem eru fjarri, minnumst þeirra og syrgjum þau sem látin eru. Við hugsum til annarra, biðjum fyrir öðru fólki.

Iðullega er sami matur á borðum ár eftir ár. Hangikjöt, hamborgarahryggur, rjúpa, kalkúnn eða hvað það annað sem þið þekkið.

Hver og einn í fjölskyldunni hefur gjarnan sitt hlutverk, jólatónlistin á sinn sess og einnig helgihaldið. Hátíðartón sr. Bjarna, jólaguðsþjónustan héðan úr Dómkirkjunni klukkan sex við upphaf jóla í útvarpi allra landsmanna. Öll eigum við einhverjar slíkar hugsanir og minningar tengdar jólum. Allt eru það ykkar persónulegu helgidómar sem þið varðveitið og eigið og gera jólin að helgidómi í ykkar huga.

Með siðum okkar og venjum glæðum við hátíðina lífi og innihaldi. Gott er að rækta allt hið góða sem Guð hefur gefið.

Öll eigum við í hjarta okkar heilagt rými sem við ræktum sérstaklega um helgar og hátíðir. Krafa okkar allra og sameiginleg hugsun er einhvern vegin sú að allir fái notið hátíðarinnar. Enginn má vera út undan.

Afinn hringdi

Það var hringt í mig. Það var afi úti á landi með áhyggjur af barnabarni sínu hér í bænum, 19 ára dreng. Hann sagði mér undan og ofan af aðstæðum drengsins.

Hann var á götunni og afinn spurði hvort ég væri ekki miðborgarprestur og gæti þess vegna ekki farið fyrir hann og leitað að honum hér á götum borgarinnar.

Ég svaraði því játandi en sagði honum jafnframt að ég næði nú litlum árangri einn og sér.

Eftir allmörg símtöl, samtöl við aðstandendur og lögreglu fannst drengurinn, heill á húfi en svolítið slæptur. Hann er háður fíkninni, í erfiðleikum, búinn að brenna flestar brýr að baki sér.

Ég náði svolítið til hans og átti ágætt spjall við hann og sagði honum að margir hugsuðu vel til hans. Ég sagði honum að ég væri kominn til að aðstoða hann ef hann vildi þiggja aðstoð. Hann vildi lítið þiggja og fannst hann ekki vera í vanda, eins og fólk segir oft sem er í sambærilegri stöðu.

Fjölskyldan var hins vegar búin að fá nóg. Það var ekki pláss fyrir hann, það voru allir fjölskyldumeðlimir búnir að gefast upp á honum og loka sínum dyrum, vildu helst lítið af honum vita, það var ekki pláss hjá neinum. Og jólin voru framundan, hvar ætlaði hann að vera á jólum?

Niðurstaðan var sú að hann lofaði að fara í meðferð, ef hann fengi að vera hjá fjölskyldunni um jólin.

Hvort hann stendur við það, verður síðan að koma í ljós.

Við þekkjum kannski sum svona dæmi úr okkar nánasta samfélagi. Hvað er til ráða?

Jólaguðspjallið segir okkur frá því að ekki var heldur pláss í samfélagi manna fyrir Maríu og Jósef þegar Jesús kom í heiminn. Hann fæddist ekki í mannabústað heldur í fjárhúsi og var lagður í jötu.

Jólin boða okkur að Guð man

Jólin boða okkur að Guð man, minni Guðs og kærleikur varðveitir þetta allt.

Í augliti barnsins sem lagt var í jötu á Beltehemvöllum lítum við í augu 19 ára drengsins sem var á götunni. Við lítum í augu allra þeirra sem þjást og líða, þeirra sem hafa brennt brýrnar að baki sér, þeirra sem upplifa sig út úr, þeirra sem glíma við veikindi og aðra erfiðleika. Þar eru þau öll varðveitt sem fá ekki inni, sem finna sig fyrir utan.

Til þess fæddist hann og kom í heiminn að gera kærleika Guðs opinberan. Eins og segir í litlu bibliunni í Jóhannesarguðspjalli: Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Til þess að enginn glatist. Til að þeir sem lokað er á fái inni, að nýjar leiðir opnist, að þeir finni að Guð er nærri og vill leiða hvern mann sinn lífsins veg.

Hlíf ömmu systir mín

Svo eru það sumir í samfélaginu sem opna fyrir öllum. Vilja vera öllum skjól og hlíf.

Það var einmitt þannig með hana Hlíf ömmu systur mína. Hún var ein af þeim sem vildi öllum vel. Hún lést nú fyrir skömmu og var jarðsett á uppeldisslóðum sínum fyrir austan á Þorvaldsstöðum í Breiðdal. Hún átti heima hér fyrir sunnan á Seltjarnarnesi.

Alltaf þegar fólk kom suður var opið hjá Hlíf og Jóni á Seltjarnarnesi.

Þar var alltaf hægt að bæta disk á borð eða dýnu á gólf. Fólk fór gjarnan úr rúmi fyrir gestina. Margir lifa með því hugarfari í okkar samfélagi, þess vegna gerast kraftaverkin á hverjum degi. Nýjar leiðir opnast, ný tækifæri, nýir möguleikar. Þar að baki öllu er andi Drottins sem vill leiða okkur öll sína leið og gefa af kærleika sínum.

Ef Hlíf hefði verið einn af gistihúseigendunum á Betlehemvöllum fyrir 2009 árum síðan hefði Jesús hugsanlega verið lagður í rúm en ekki jötu.

Hátíðir og helgidagar

Helgidagar og hátíðir eru okkur öllum mikilvægar. Þá ræktum við helga hólfið í hjartanu, helga plássið sem við eigum í okkar huga, þau fræ sem Drottinn hefur sáð í okkar líf.

Hátíðir og helgidagar stóru trúarbragða heimsins hafa einnig þá verkan að krafa helgidagana er sú að fólk fái frí. Allar manneskjur þurfa á hvíld að halda. Þrælar í sögunni eignuðust fyrir tilstuðlan hátíða og helgidaga kristinnar kirkju rétt á hvíld. Því kristin trú stendur vörð um mennsku hvers einstaklings, allir eru mikilvægir, dýrmætir, einstakir. Og þar með þú.

Við erum öll sköpuð í Guðs mynd, eins og segir á helgum stað. Hinn lifandi Guð hefur búið til pláss fyrir okkur hér í heimi, gefið okkur lífið og hefur einnig búið okkur pláss í sínu lífi og hefur fyrirætlun með okkur hvert og eitt. Drottinn vill að við útbreiðum kærleiksboðið með lífi okkar. Píslavottar kristinnar kirkju slógu ekkert af í því.

Jólin snúast um það að búa til pláss

Er það einhver í þínu lífi sem fær ekki pláss hjá þér? Hver er það í þínu umhverfi sem þú vilt ekki opna fyrir?

Ég spurði 300 grunnskólabörn að því um daginn hvort það væru einhverjir sem fengju ekki pláss hjá þeim. Þau svöruðu öll af hjartans einlægni og hluttekningu hátt og vel að það fengju allir pláss hjá þeim.

Svo spurði ég hvað með þá sem væru leiðinlegir við þau, kæmu illa fram eða hegðuðu sér ekki í samræmi við þeirra væntingar!

Þá var nú eitthvað annað upp á teningnum. Fáir svöruðu því játandi að þeir aðilar fengju pláss, rými og tíma. Þeim fannst það ekki sanngjarnt að þurfa að taka tillit til þeirra sem væru leiðinlegir eða kæmu illa fram.

En það er einmitt krafa kristinnar trúar, að biðja fyrir óvinum eins og það er orðað á einum stað. Gera pláss, veita rúm þeim sem við mætum.

Jólin snúast mikið um það að búa til pláss. Búa til pláss fyrir okkar nánustu, búa til rúm og tíma fyrir náunga okkar. Og ekki bara um jólin heldur alla daga.

Hvatning jólanna er að við gerum heilt það sem brotnað hefur í samskiptum, að við reynumst öðru fólki veit.

Jólin snúast einnig um það að búa til pláss fyrir boðskap jólanna. Boðskapinn um frið og fögnuð og kærleika milli manna.

Búa til pláss fyrir Guð sem birtist okkur í Jesú Kristi, veita honum sess og sæti. Búa til pláss fyrir jötuna í hjarta okkar.

Í þriðja versi í jólasálmi Stefáns Thorarensens segir:

Og oss til merkis er það sagt: í aumum reifum finnum lagt Það barn í jötu, er hefur heim í hendi sér og ljóssins geim. (sl. 85:3)

Gleðileg jól öllsömul.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.