Að lofa bót og betrun

Að lofa bót og betrun

Við búum við annars konar öryggisleysi. Okkur hefur verið talin trú um að ef við eigum ekki væna innistæðu í banka og allt til alls og ríflega það, sé grundvöllur lífs okkar skekinn.

Í dag er siðbótardagurinn. Þá er minnst atburðarins árið 1517 er dr. Marteinn Lúther, meistari í frjálsum listum og helgri guðfræði, negldi sínar 95 tesur eða greinar upp á hurð hallarkirkjunnar í Wittenberg. Það gerði hann til að efna til umræðu um ýmislegt sem honum þótti betur mega fara í sinni kirkju, hinni rómversk-kaþólsku. Umræðan sú vatt hins vegar upp á sig og varð liður í gríðarlegum samfélagslegum breytingum þess tíma, já umbyltingu sem liggur til grundvallar því menningarsögulega tímaskeiði sem við köllum nútíma og skilgreina má á ýmsan hátt.

Siðbreyting - siðbót

Talandi um breytingar. Sumir vilja nefna þá hreyfingu sem Lúther var lykilmaður í siðbreytingu. Ég hef alltaf verið hrifnari af orðinu siðbót, enda var hinum kristna sið ekki breytt í grundvallaratriðum, heldur fóru fram umbætur í túlkun þess lífgefandi veruleika sem nefnist kristin trú. Bótin fólst í því að minnt var á kærleika Guðs sem hina einu uppsprettu fyrirgefningar og bænheyrslu, að hvorki væri hægt að kaupa sér syndaaflausn né biðja sér lausnar með ávarpi til manna, lífs eða liðinna.

Að kaupa sér fyrirgefningu

Til grundvallar siðbætandi tesum sínum lagði Lúther þessa: Að allt líf hinna trúuðu sé stöðug yfirbót. Yfirbótin á að verða sýnileg sem innri og ytri breyting á manneskjunni en fæst aðeins með fyrirbæn. Hún verður ekki keypt með peningum og verður seint algjör, nema fyrir náð Guðs. Þarna er Lúther auðvitað að mótmæla hinum svokölluðu aflátsbréfum sem eiga sér enga beina samsvörun í samtíma okkar – og þó. Skoðum það á eftir.

Alltjent er áhersla Lúthers þessi: Fyrirgefningin er Guðs gjöf og kærleiksverk, t.d. að gefa fátæku fólki eða lána þurfandi, eru miklu betri leið til að bæta eigin sálarhag en sýndarveruleiki keyptra skuldabréfa, ég meina aflátsbréfa. Innistæðan á himnum er þó algerlega óverðskulduð, eins og kemur fram í síðari ritum doktorsins, aldrei áunnin með verkum. Kærleiksverkin eru þó mikilvæg því af þeim vex kærleikurinn til náungans og manneskjan verður betri af, segir Lúther í tesu 44.

Öryggisþörf mannsins

Kaup á aflátsbréfum endurspeglar þörf mannsins fyrir öryggi. Sextándualdarfólk þjáðist af öryggisleysi um eigin sálarheill. Kirkjan prédikaði dauða og djöful yfir þeim sem ekki undirgengust flókin yfirbótarferli. Jafnvel deyjandi og látið fólk var ekki undanskilið óttanum, í þeim tilfellum aðstandendanna, sem létu glaðir fé af hendi rakna ef það mætti verða til að stytta dvöl ástvinarins í hreinsunareldinum.

Við búum við annars konar öryggisleysi. Okkur hefur verið talin trú um að ef við eigum ekki væna innistæðu í banka og allt til alls og ríflega það, sé grundvöllur lífs okkar skekinn. Við leggjum traust okkar á ytri gæði. Þess vegna höfum við keypt skuldabréf og gert alls kyns sparnaðarráðstafanir, en samt lifað um efni fram. Það er merkileg þversögn og verð dýpri skoðunar í öðru samhengi.

Bót og betrun

Skuldabyrðin og sektarkenndin er mörgum þungbær. En góðu fréttirnar eru þær að okkur stendur til boða bót og betrun. Hver myndi ekki vilja þiggja það að lifa kærleiksríkara og dýpra lífi, sjálfum sér og öðrum til mikils léttis? Okkur finnst e.t.v. erfitt að vera þiggjendur, þiggjendur náðar Guðs og fyrirgefningar. Við viljum heldur hafa stjórnina í eigin lífi, breytast fyrir eigin mátt og gáfur og efni. Stærsta ákvörðun lífs okkar, ákvörðun sem við þurfum að taka daglega, er að láta af eigin stjórn og láta að stjórn Guðs, stjórn Guðs til ríkara lífs. Þar er öryggið að finna í fyrirgefningu og náð, öryggi sem engir peningar fá keypt. Við eigum loforð um bót og betrun. Innheimtum það.

Tesur Lúthers eru ekki til á tölvutæku formi á íslensku, en þýðingu Jóhanns Hannessonar má lesa í Orðinu, riti félags guðfræðinema, 1. tbl. 1973, bls. 3-7.