Ekki prédikun heldur vitnisburður

Ekki prédikun heldur vitnisburður

Það sem hughreystir mig í þessum sögum er að Jesús metur hvernig trú manneskjunnar kemur fram í aðstæðum daglegs lífs og þegar fólk tekur skref til að hjálpa sjálfum sér og öðrum.

Kaffi

Ertu til í að koma og segja nokkur orð í Kvennakirkjunni, spurði sr. Auður Eir mig, þegar við hittumst um daginn á stórmerkilegu málþingi um konur og tón. Þetta yrði svona vitnisburður frekar en prédikun, orð frá einni konu til annarrar, frá hjarta til hjarta.

Já sæll, hugsa ég, það væri kannski bara gaman að fá að koma í Kvennakirkjuna, ótrúlega langt síðan ég hef hitt konurnar þar, það væri gaman að syngja nýja sálma og eiga samfélag um trúna sem gefur okkur svo mikið. Og gaman að hafa vitnisburð.

Ég er samt ekkert mjög vön því að hafa vitnisburði. Ekki eins og ég skil orðið. Ég er vön að prédika, útleggja og heimfæra. Ég er vön að blogga, skrifa hnittna statusa á facebook og tísta, vön að skrifa beittar og knappar greinar sem stundum rata í blöðin. En ekkert mjög vön því að vera með vitnisburð.

Þess vegna var það svo skemmtilegt þegar sr. Auður bað mig að koma og hafa vitnisburð hér í kvöld. Ég hugsaði með mér, jæja nú fæ ég að æfa mig í að hafa vitnisburð - því maður notar nefnilega allt aðra vöðva þegar maður hefur vitnisburð heldur en þegar maður skrifar prédikun eða ritar blaðagrein.

Þegar maður ætlar að prédika, tekur maður til nokkur lykilverkfæri - eða ætti ég kannski að segja lykil búsáhöld - sem hver prestur hefur aflað sér í menntun og reynslu og þarf að hafa aðgengileg þegar stigið er í stólinn. Prédikunarvinnan felur í sér mörg skref og hefur alltaf að markmiði að skapa vettvang þar sem sá og sú sem hlusta á prédikunina fá tækifæri til að endurspegla - og uppgötva - sína trúarlegu sjálfsmynd í hinum kristna boðskap um ást og frelsi.

Vettvangur prédikunarinnar er í formi trúarlegrar ræðu sem lýtur eigin lögmálum og verður til að mynda að ganga inn í veruleika biblíutexta, veruleika mannlegrar reynslu og veruleika trúarinnar. Það er ástæðan fyrir því að prestar hafa allir lært tungumálin sem Biblían var skrifuð á, grísku og hebresku, og að þeir fylgjast vel með og eru á nótunum þegar kemur að málefnum líðandi stundar. Það er óumdeilt að þetta sé nauðsynlegt til að prédika í kirkjunni okkar.

Í vitnisburðinum á maður hins vegar að ausa úr sjóðum hjartans, tala um það sem snertir hvað maður persónulega er að kljást við og upplifa, og út frá sjónarhóli trúarinnar, hvað það er sem geri mann sterkan og hvað veikan. Og til þess þarf maður svo sem engin sérstök áhöld, eða hvað?

Hvað gerist þegar maður hefur engin áhöld til að bjarga sér með? Verður maður þá ekki að koma nakinn fram? Það er óneitanlega ógnvænleg tilhugsun - meira að segja þótt í óeiginlegri merkingu sé. Mér dettur í hug sagan um Davíð og Golíat og hvað það er gert mikið úr því hvað Golíat var vel búinn, mað allar þessar brynjur, vopn og verjur, á meðan Davíð hafði úr engu að spila nema slönguvaðnum sínum. Og trúnni sinni.

Þó var það Davíð sem hafði betur. Það blæs mér ákveðnu hugrekki í brjóst, þegar ég sest niður og skrifa vitnisburðinn minn. Kannski er í lagi að leggja frá sér öll prédikunaráhöldin, a.m.k. í eitt skipti, og treysta á trúna og það sem hún vill miðla frá mínu hjarta til ykkar.

Hvað er þá trúin? Hvað get ég sagt ykkur í vitnisburði um mína trú sem snertir ykkar trú og styrkir hana? Þegar prestur ætlar að hafa vitnisburð um sína eigin trú, þarf hún að passa sig að fela sig ekki á bak við prestafötin og láta vitnisburðinn snúast um það sem aðrir trúa. Það er nefnilega svo auðvelt - að fjalla um hvernig trúin birtist í samtímanum og menningunni, hvað þurfi að vera til staðar til að trúin blómstri og hvað beri að varast, hvað Jesús kenndi okkur um trú, hvernig fólk sýnir trú sína og hvernig trúin getur verið afl til góðra hluta - og ógeðfelldra hluta líka. Það er ekkert mál að halda erindi um þetta allt saman.

En hvað þá um mína eigin trú, sem vitnisburðurinn á að snúast um? Hvernig hefur trúin hjálpað mér, gert mig að betri manneskju og betri eiginkonu, betri mömmu, systur og dóttur? Hefur hún gert það yfirhöfuð?

Ég ber þá von í brjósti að ég eigi svona "móment" þar sem heimurinn sér trúna mína og tengi hana við góða andans ávexti. Guðspjallið í dag, um vinina sem komu með lamaða manninn til Jesú, sýnir svona móment hjá þeim. Jesús sá trú þeirra og það góða sem hún kom til leiðar. Fleiri vitnisburðir um trú eru t.d. í sögunni um kanversku konuna, sem gekk hart fram í því að Jesús hjálpaði dóttur hennar sem var kvalin, og lét sig ekki. Kona, mikil er trú þín, sagði Jesús við hana.

Það sem hughreistir mig í þessum sögum er að Jesús metur hvernig trú manneskjunnar kemur fram í aðstæðum daglegs lífs og þegar fólk tekur skref til að hjálpa sjálfum sér og öðrum. Það segir mér að trúin fjalli ekki um annan veruleika en þann sem við lifum hér og nú, hún snýst ekki um að trúa einhverju fáránlegu, heldur um lífið okkar hér og nú í heiminum sem við lifum í, með fólkinu sem við lifum með.

Það er líka hughreystandi að trúin er valdeflandi og markmiðssækin. Það segir mér að þegar við stöndum með sjálfum okkur og þeim sem við elskum, lifum við trú okkar. Alla vega fengjum við "thumbs up" hjá Jesú. Hann myndi segja við okkur þegar við setjum niður saman eftir messuna í kvöld, og fáum okkur kaffi og köku, þetta áttu skilið, mikil er trú þín, að taka frá stund fyrir sjálfa þig og vinkonur þínar og gera vel við sálina þína og kroppinn þinn. Og hann myndi segja þegar við vöknum í fyrramálið, hjálpum þeim sem við búum með að undirbúa sig fyrir daginn, förum í vinnuna, skólann eða í erfiða viðtalið sem við höfum kviðið: Kona, mikil er trú þín að vera svona dugleg og hugrökk. Og hann myndi segja okkur þegar við verðum ástfangnar - eða hættum að elska eitthvað sem gerir okkur ekki gott - þetta er góð trú, sem stendur með lífinu sem ég gaf þér. Gættu hennar alltaf og leyfðu henni að vaxa hvern einasta dag.