Brauðbónus 5 + 2 = 12+

Brauðbónus 5 + 2 = 12+

Það er hægt að horfa en sjá þó ekki. Það er hægt að lifa en þó aðeins skrimta. Það er hægt að eiga en hafa litla eða enga gleði af. Það er hægt að hafa aðgang að lífsins mestu gæðum en meta þó lítils.

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga. Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta? En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra. Filippus svaraði honum: Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt. Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum? Jesús sagði: Látið fólkið setjast niður. Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist. Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu. Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn. Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs. Guðspjall Jóh. 6.1-15

Flugdrekahlauparinn Um daginn datt ég ofan í merkilega bók, sem ég las með áfergju. Sagan heitir Flugdrekahlauparinn, er eftir Khaled Hosseini og kom út á íslensku fyrir síðustu jól. Sagt er frá uppvexti tveggja drengja í Afghanistan. Báðir voru móðurlausir en vel hugsað um þá þótt félagsstaða þeirra væri ólík. Annar var vel stæður en hinn snauður þjónn. Þeir ólust upp á sama reitnum, annar bjó í stóru húsi föðurins en hinn í kofa skammt frá, þjónaði vini sínum, sá um útréttingar og skúringar á meðan hinn las og reyndi að nálgast föður sinn. Drengirnir voru nánir en afdrif þeirra afar ólík.

Með því að segja sögu drengjanna kynnist lesandinn sögu hins stríðshrjáða lands, menningu, ættflokkaátökum, kynjahlutverkum, gildum, stríðum, vonum og þrám fólksins. Heimur barna í þessum heimshluta verður ljóslifandi, gæska og vonska, góðverk og glæpir. En það sem slær mest – og gerir söguna svo djúpasækna, er að þrátt fyrir allar vísbendingar sáu drengirnir aldrei eða skildu, að þeir voru samfeðra og því bræður. Þeir hlupu saman, gengu í gegnum ýmis stríð og átök, urðu flugdrekameistarar, horfðu hvor á annan með aðdáun, en sáu aldrei hið augljósa, bróðurtengslin. Skyldleikinn varð ekki opinber fyrr en of seint, glæpir voru framdir og hörmungar dundu yfir. Sagan nístir hjartað og ekki hægt að víkja sér undan vangaveltu að kannski hefði harmsagan orðið önnur og skárri, ef þeir hefðu séð, vitað og skilið. Ég mæli með þessari blóðríku bók. Hún er full af mennsku, rit sem brúar gjár milli menningarheilda og trúarbragða og upplýkur fyrir okkur, að við erum systkin í þessari veröld.

Við missi skerpist vitund Að sjá en sjá þó ekki, lifa en lifa þó ekki með fyllingu, eiga en meta þó ekki. Vissulega er margt, sem við ekki tökum eftir fyrr en við höfum týnt eða tapað. Máltækið segir, að “enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.” Heidegger, heimspekingurinn þýski, gerði þetta meira að segja að heilmikilli heimspekikenningu. Við tökum varla eftir eldavélinni eða bílnum fyrr en þau bila. Þvottavélin bara mallar og við metum vart starf hennar fyrr en reimin fer eða kolin eyðast og þvottastaflarnir hlaðast upp. Við metum oft ekki að verðleikum stofnanir og þjónustufyrirtæki fyrr en þau eru flutt eða starfi þeirra breytt. Fólk, sem gengur undir öðrum, er oft vanmetið þar til það eldist eða deyr. Sérðu fólkið sem er gott við þig? Kanntu að meta það og þau sem þjóna þér? Eða þarftu að tapa, týna og missa til að læra að meta og þakka fyrir?

Brauðundur á fjalli Texti dagsins er í Jóhannesarguðspjalli, sjötta kafla. Sagt er frá útihátíð norður í landi, hátíð sem nærri því endar með ósköpum. Fyrirhyggjuleysið er talsvert og maturinn búinn. Mótshaldararnir eru verulega skelkaðir og vita ekki hvernig er hægt að leysa málið, kostnaðurinn við matarkaup er nærri árslaun og fjárráðin lítil skv. ályktun lærisveinanna. Sagan greinir frá því, að Jesús notar tækifæri til að veita þeim lífslexíu.

Ungur drengur eða þræll er nestaður. Í mal hans eru fimm byggbrauð og tveir fiskar. Þetta blessar Jesús og leggur saman. Útkoman er ekki sjö, heldur matur fyrir fimm þúsund karla + ótilgreindan fjölda kvenna og barna. Það er ótrúlegt dæmi, fimm + tveir og útkoman er meira en tólf, eiginlega þúsundaplús!

Öll guðspjöllin segja margföldunarsöguna, en með mismunandi móti. Jóhannesarguðspjall segir Jesúsöguna ávallt með sínum ákveðna hætti. Það, sem einkennir m.a. þetta guðspjall, eru tvenndir. Í því er ógjarnan sagt frá einu heldur fremur pörum í spennu. Ekki er bara greint frá ljósi, heldur streitupari ljóss og myrkurs. Lífsáhersla guðspjallsins er í andófi gegn dauða. Svo er trú rædd með vísan til veruleika vantrúar. Tilgangur þessa dramastíls í Jóhannesarguðspjalli er að beina sjónum fólks til Jesú, að fá fólk til að gera sér grein fyrir að í honum er lausn lífsgátunnar, ljós í myrkri, leiði í torleiði, sannleikurinn.

Á fjallinu með fólkinu Við getum sest niður í grasið með manngrúanum, sem er kannski kominn með sultarverk í magann eftir langa prédikun Jesú. Þau vita að enginn skyndibitastaður er í nágrenninu, engar bæjarins bestu, franskar og hamborgarar. Svo bera Jesúsveinarnir körfur um og útdeila fátækrabrauði og fiskmeti líka. Nóg handa öllum. Gyðingar sem þekkja sögu sína vita, að svona máltíðarundur rímar við söguatburði Ísraels, minnir á hungraðan lýð í eyðimörk sem naut svo skæðadrífu brauðs af himni. Brauð verður ekki til með undursamlegum hætti - nema þegar Guð vitjar fólks. Allir verða mettir og þá er farið að hugsa um hvað eigi að gera við undramanninn, sem margfaldar brauð og fisk.

Hver er Jesús? Hvernig sjá menn og hvað sjá menn? Ekki gátu þau ímyndað sér að hann yrði brátt krossfestur, hæddur og deyddur. Ekki gátu þau ímyndað sér sögu Vesturlanda í kjölfar reynslunnar af lífgun hans. Ekki gátu þau ímyndað sér kenningarnar um hann, sem heimsbyggðin býr við.

Hver er þessi Jesús? Hann er flottur í brauðgerðinni. Hann gæti kannski orðið fínn landbúnaðarráðherra, nema bara fyrir þá sök, að hann gerir sig sekan um offramleiðslu! Hvað gerir saddur múgur við mann, sem hefur bjargað, gefið þeim brauð og sögur? Jú, tilbúinn að hylla og gera hann að forseta eða forsætisráðherra samkvæmt okkar orðfæri. Þegar menn ætla að krýna hann hverfur hann bara. Þegar menn vilja veita Jesú Kristi veraldarvöld gufar hann upp. Jesús hafði og hefur engan áhuga á valdi þessa heims, að verða efstur á vinsældalistum, njóta toppáhorfs í sjónvarpinu, vera ídól.

Jesus de Montréal Hver er Jesúmyndin í þínum huga? Þessar vikurnar er Jesúbíó í Neskirkju, kvikmyndir eru sýndar og ræddar alla sunnudaga á föstunni. Þessar myndir eru frá ólíkum tímum, en eru svonefndar Jesúmyndir. Þær sýna einhvern þátt í lífi og starfi Jesú eða hvernig líf hans mótar eða hefur áhrif á fólk. Myndin, sem sýnd verður seinna í dag, Jesús frá Montreal, fjallar um áhrif Jesú á samtímafólk. Hún fjallar um mann, sem innlifast svo veruleika Jesús Krists að mörkin á milli persónu Jesú og mannsins verða stöðugt ógreinilegri.

Leikhúshópur í Kanada setur árlega upp helgileik um þjáningu og dauða Jesú. Nýr leikari er ráðinn í hlutverk Jesú og tekur hlutverk sitt svo alvarlega að persóna hans rennur inn í fyrirmyndina. Trúin og innlifun í líf og starf Jesú er eitt, en kirkja og trúarstofnanir annað. Æfingar á helgileiknum opinbera yfirborðsmennsku, mannfyrirlitningu og græðgi fólks, en líka hræsni trúarleiðtoga og valdníðslu kirkjustofnana. Helgileikurinn snýst upp í mun meira en trúarlegt leikhús. Í krossfestingarsenunni verður slys og leikarinn í hlutverki Jesú deyr. En þar með er ekki sagan sögð því líffæri hins látna eru gefin til að bjarga lífi annarra.

Þetta er mögnuð mynd og ein áhugaverðasta Jesúmynd síðustu áratuga og ég hvet kirkjugesti til að koma, sjá myndina og taka þátt í umræðum. Og kannski ættum við að velta vöngum yfir að fara að nota kirkjuhús okkar fyrir helgileiki, en gæta þess þó að leikararnir deyi ekki!

Jesúveruleiki samtíðar Hvernig er og starfar Jesús meðal okkar? Eru þau, sem ganga erinda lífsins, opna augu okkar, fórna öllu fyrir okkur og gefa okkur jafnvel líffæri sín fulltrúar Jesú eða jafnvel Kristar samtíðarinnar ? eins og kvikmyndin ýjar að. Fólkið í grasinu á fjallinu fyrir norðan hélt, að spámaður væri upprisinn meðal þeirra og vildi gera hann að þjóðarleiðtoga. En það hlutverk vildi Jesús ekki. Hver er sannleikur hans og hvernig eigum við að sjá?

1. Jesús gefur lífið Þegar Jóhannesarfrásögnin er lesin grannt sést, bæði í guðspjallstexta dagsins og líka í öllum sjötta kaflanum, að Jesús túlkar líf sitt og tilveru með ákveðnu móti. Í 35 versi segir hann: “Ég er brauð lífsins.” Það merkir hvorki meira né minna, að Jesús gefur lífið. Hann er forsenda lífs og næring þess lífs. Hvaða afstöðu höfum við til hans? Trúum við því eða er Jesús eitthvað annað, t.d. góðmenni, siðferðisviðmið eða spekingur?

2. Samfélagsmyndun – hópur - kirkja Hið annað í þessum texta er, að lífgjöf Jesú hefur félagslegar afleiðingar. Jesús skapar hópkennd, tengir fólk saman og hvetur til að fólk liti á sig sem lífshóp. Þetta hefur líka afleiðingar í starfi kirkjunnar. Öllum, sem koma í þessa kirkju, er ljóst að borðið í kirkjunni, altarið, er miðja hússins. Altarisgangan er endurtekning máltíðar á grasfjallinu, máltíðum Jesú, þegar hann brýtur brauðið og gefur sínum lærisveinum. Sú máltíð er máltíð hans. Þegar við síðan göngum til altaris á eftir erum við samfélag Jesú Krists, hópurinn hans.

3. Brauðið og kærleikurinn Hið þriðja í textanum eru hagnýtar afleiðingar í lífi þeirra, sem trúa og eru hluti hópsins. Það eru verkin, störfin, það sem oft er nefnt kærleiksverk. Brauð handa hungruðum heimi, brauð handa fólki, allir eiga að njóta grunnréttinda lífsins. Vegna þess að við njótum lífgjafar Jesú, gefum við af gæðum okkar til að hugraðir fái næringu og þyrstir fái drukkið gott vatn. Aðferð Jesú er okkur fyrirmynd. Hann sendir ekki fólkið frá sér svangt, heldur notar allt sitt til að gefa það sem fólk þarfnast. Með sama hætti látum við fólk verða okkar fólk, systkin okkar, gefum fólki mat og gæði til lífs. Amen.

Lexía 5. Mós. 8.2-3 Þú skalt minnast þess, hversu Drottinn Guð þinn hefir leitt þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni til þess að auðmýkja þig og reyna þig, svo að hann kæmist að raun um, hvað þér býr í hjarta, hvort þú mundir halda boðorð hans eða ekki. Hann auðmýkti þig og lét þig þola hungur og gaf þér síðan manna að eta, sem þú eigi þekktir áður né heldur feður þínir þekktu, svo að þú skyldir sjá, að maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur að maðurinn lifir á sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins.

Pistill 2. Kor. 9.6-11 En þetta segi ég: Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara. Guð er þess megnugur að veita yður allar góðar gjafir ríkulega, til þess að þér í öllu og ávallt hafið allt sem þér þarfnist og getið sjálfir veitt ríkulega til sérhvers góðs verks. Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu. Sá sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu, hann mun og gefa yður sáð og margfalda það og auka ávexti réttlætis yðar. Þér verðið í öllu auðugir og getið jafnan sýnt örlæti sem kemur til leiðar þakklæti við Guð fyrir vort tilstilli.