Hvísl Guðs

Hvísl Guðs

Olíugreifi bauð kunningja sínum heim til sín. Fyrst af öllu fóru þeir upp í háan útsýnisturrn til að geta skoðað umhverfið. Heimamaðurinn benti í allar áttir. “Þetta land þarna í austri á ég. Þú sérð hæðirnar. Akrarnir þarna suður frá eru á mínu landi. Ég keypti líka hvern skika alla leið upp í fjöllinn sem þú sérð í vestri. Reyndar á ég allt landið til norðurs líka, allt að borgarmörkum, sem við reyndar sjáum ekki.” Þetta var óneitanlega áhrifarík ræða og landeigandinn var rogginn.

Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði.

En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus.

Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans.En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.

Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans.

Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.

Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst.Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli ! vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum. (Lúk 16.19-31)

Landeigandi og himnesk ítök

Olíugreifi bauð kunningja sínum heim til sín. Fyrst af öllu fóru þeir upp í háan útsýnisturrn til að geta skoðað umhverfið. Heimamaðurinn benti í allar áttir. “Þetta land þarna í austri á ég. Þú sérð hæðirnar. Akrarnir þarna suður frá eru á mínu landi. Ég keypti líka hvern skika alla leið upp í fjöllinn sem þú sérð í vestri. Reyndar á ég allt landið til norðurs líka, allt að borgarmörkum, sem við reyndar sjáum ekki.” Þetta var óneitanlega áhrifarík ræða og landeigandinn var rogginn. Kunninginn, sem var spakur, gerði sér grein fyrir vanda sínum og ábyrgð. Hann benti beint upp í loftið og spurði rannsakandi: “En áttu einhverjar eignir í þesari átt? Hvernig er með landið á himnum?”

Guðspjallstexti dagsins fjallar um himnesk ítök og afstöðu til lífsins. Þetta er ein af þessum djúpu sögum, sem Jesús sagði til að efla hugsun fólks. Honum var umhugað um, að fólk staldraði við og spyrði um hvað máli skipti, greindi á milli þess, sem væri einhvers virði og hins sem væri hjóm. Guð - hjálp mín

Í guðspjallinu býr hinn ríki við allsnægtir og fötin, sem hann klæddist, voru merkjavörur þess tíma. Klæðið var úr úrvalsbómull af Nílarbökkum og litarefnið var unnið úr krabbadýrum, sem sé topptíska tímans. Karlinn var því vel stæður. Fyrir dyrum hans var svo Lasarus, öreigi og þurfamaður. Reyndar er hann eini maðurinn, sem ber nafn, í sögum þeim sem guðspjallamaðurinn Lúkas hefur eftir Jesú. Og nafnið merkir “Guð er hjálp mín.” Nafnið var ekki út í hött. Þó hann hefði verið lukkugrannur í lífinu var hann lukkumaður í hinu eilífa lífi.

Sá voldugi og vel stæði sinnti ekkert hinum fátæka og hunsaði því ábyrgð sína. Hundarnir hins vegar sleiktu sár hins ólánssama Lasarusar. Svo kom dauðinn að óvörum. Báðir létust. Lasarus féll í eilífðarfaðm Abrahams, sem merkir að honum farnaðist vel, fékk góða heimkomu í ríki himinsins. Hinn ríki var ólánssamur og leið kvalir handan grafar. Í sögunni er hann ekki það langt frá, að hann þekkir Lasarus álengdar, sér hve vel honum farnast og hverrar sælu hann nýtur. Og hann biður um líkn, að Lasarus færi honum vökva til að slökkva brunasviðann og lina þjáningu. En honum er bent á, að enginn samgangur sé milli sviða og enginn möguleiki á bót. Þá biður hann um, að bræður hans verði varaðir við. En ættfaðir Hebrea og Gyðinga, Abraham, segir honum skýrt að þeir muni ekki frekar en aðrir láta af villu síns vegar þó þeir sæju upprisinn mann.

Andleg gæði varða inntak

Þetta er nú rosaleg saga. Um aldir hafa menn viljað skilja hana nokkuð bókstaflega og búa til kenningar um hvernig hinir handanverandi staðir séu. En það er ekki aðalatriði í sögum Jesú. Þær eru sagðar vegna inntaks og áhersluatriða. Dæmisögur eru ekki fréttaskot úr borgarlífinu, ekki um atburði, heldur um inntak og tilgang, hin dýpri rök. Sögurnar eru dæmi til skilnings. Og hvað er það þá, sem Jesús vill segja þeim sem staldra við?

Jesús hafði ekkert á móti auði eða ríkidæmi. Hann var ekki á móti því, að menn nytu gæða lífsins. Hann var sjálfur úthrópaður sem lífsnautnamaður og að hann legði lag sitt við þá lífsglöðu. En Jesús var mjög á móti því, að menn yrðu þrælar nokkurs í heimi, færu að breyta verkfæri til góðs lífs í markmið. Í því ljósi dró hann upp andstæður af ríkidæmi anda og þrældómi við efnisleg gæði. Auður var tæki til að bæta lífið. Jesús spurði fólk alltaf og skipulega að því hvað það setti í forgang, hvað væru gildi þess. “Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera” segir hann (Matt. 6.21). Við hvað hefur þú fest þitt ráð, elsku og umhugsun? Erindi við okkur

Á þessi saga erindi við okkur nútímafólk? Erum við kannski altekin af því að safna hlutum og eignum, vilja meira og stærra? Ruglumst við ekki stundum í ríminu og gleymum, að hlutir eru ekki markmið heldur tæki til að lifa vel? Höfum við gleymt því að stóru húsin okkar eru til fyrir ástríki og glaðar fjölskyldur? Munum við alltaf vel, að ef við notum ekki fjármuni og eignir til góðs verðum við þrælar þeirra, en ekki húsbændur.

Sagan um ríka manninn varðar sálarstefnu okkar. Hefur þú tíma fyrir það, sem máli skiptir, fólkið í kringum þig, fyrir kyrru ástarinnar og strokanna? Hefur þú tíma fyrir að næra þinn innri mann? Hefur þú tíma og getu til að gera það, sem gerir þig hamingjusama og hamingjusaman? Lasarusar heimsins bíða

Lúther sagði einhvern tíma, að maðurinn væri kengboginn inn í sjálfan sig. Það er kjarngóð útlegging guðspjalls þessa dags. Hinn ríki var svo upptekin af eignum sínum, af líferni sínu, af glaumi og gæðum heimsins að hann gleymdi þeim, sem var við dyrnar, var læknis og hjálpar þurfi. Auðæfin eru mikil og auðvelt að týnast í þeim önnum sem þeim fylgja. En það er aldrei hörgull á Lasarusum heimsins, sem liggja við dyrnar. Lestu blöðin, talaðu við starfsfólk hjálparstofnana, talaðu við fólkið hér í kirkjunni. Lasarusarnir eru við dyrnar okkar. Þeir bíða.

Í þjáningunni kallar Guð

Guð sendir okkur ekki þjáninguna til að aga okkur. Guð hegðar sér ekki eins og gamaldags, kaldlyndur uppalandi. Guð kallar til okkar í þjáðum systrum og bræðrum, kallar okkur til mennskunnar. Í veinum þjáðs fólks á þurrkasvæðum í Afríku hljómar rödd Guðs. Í stunum misnotaðra kvenna um allan heim hvíslar Guð. Í hryglum fólks á stríðshrjáðum svæðum er Guð. Í vanlíðan sjúks fólks í húsinu við hliðina á þér biður Guð um aðstoðarmenn. Í vanlíðan barna á drykkjuheimilum er Guð að biðla til þín. Í fréttabréfi Hjálparstarfs kirkjunnar og fréttum fjölmiðla spyr Guð, hvort þú getir axlað einhverja ábyrgð og hver mennska þín sé. Lasarusarnir eru bænir Guðs um að við lifum vel og með ábyrgð.

Grjótkast og hjálparbeiðni

Strákur keyrði niður Miklubrautina á nýjum sportbíl. Aðrir bílstjórar hægðu á sér til að geta betur virt fyrir sér þennan gljáfægða, purpuralita bíl. Allt í einu skall steinn í bílhurðina. Ökumaðurinn hrökk við, snöggreiddist, beygði uppá grasbalann og rauk út til að góma krakkann, sem hafði kastað. Það var auðvelt. Lítill strákur var skammt frá og ökumaðurinn hljóp til hans og æpti. “Af hverju ertu að henda grjóti í nýjan bílinn. Ertu vitlaus?” Drengurinn skalf af skelfingu.

“Fyrirgefðu, ég var búinn að kalla svo lengi og enginn kom. Bróðir minn er lamaður og er í hjólastól. Við vorum þarna á milli grenitrjánna og hjólastóllinn datt og bróðir minn liggur á jörðinni. Við gátum ekki komið honum upp í stólinn. Geturðu hjálpað okkur?”

Bílstjórinn var sleginn út og það dagaði á hann að það væri ekki illur vilji eða skemmdarfýsn að baki grjótkastinu. Með samanbitnar varir lyfti hann lömuðum dreng í stólinn og horfði svo á eftir bræðrunum. Hann sá vel lakkskemmdina og lét ekki gera við hana fyrr en það fór að ryðga undan. Hann notaði beygluna til að minna sig á hvað máli skipti í lífinu. Hinn purpuraliti tók sönsum í þessari sögu. Hver er þinn Lasarus í lífinu? Hvaða kall berst þér? Það eru köllin um þinn innri mann, um lífið og um tilgang lífsins.

Fólk frestar undirbúningi

Prestur einn kom inn á bensínafgreiðslustöð í mestu önnum á föstudegi. Löng ferðahelgi var framundan. Han beið rólegur og loks var röðin komin að honum. Afgreiðslumaðurinn var þreytulegur, andvarpaði og sagði meðan hann dældi í tankinn: “Fyrirgefðu hvað þetta tekur allt langan tíma. Fólk frestar alltaf fram á síðustu stundu að taka bensín áður en það fer af stað. Það er undarlegt hvað fólk undirbýr ferð sína seint!” “Já,” sagði presturinn. “Ég þekki þetta sama í mínum bransa!”

Raðaðu vel og rétt

Hlustaðu eftir fréttunum, hlustaðu á köllin í heiminum, hlustaðu á hvíslið hið innra í þér. Guð er að kalla til þín. Guð vill, að þú setjir Guð í forgang í lífinu og raðir svo öllu hinu, eignum, gerðum, í forgangsröð. Þá ferðu að heyra, að allar þessar raddir eru Guðsraddirnar og þá ferðu að skilja betur hlutverk þitt í lífinu. Þá hefur þú vandað ferðaundirbúninginn í tíma, þegar hinn skyndilegi dauði kemur.

Sigurður Árni Þórðarson, s@kirkjan.is. Flutt í Neskirkju 13. júní 2004. Fyrsti sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Guðspjallstextinn skv. A röð - Lúk. 16. 19-31.