Kölluð til frelsis

Kölluð til frelsis

Eitt árið enn verða Reykvíkingar og nærsveitarmenn vitni að skemmtilegum og litríkum hátíðahöldum undir fána gay pride. Að vanda er þátttaka og viðvera almennings geysi góð og þeim sem til þekkja ber saman um að Reykjavík Gay Pride hafi mikla sérstöðu í hinsegin hátíðahöldum fyrir það hve fjölskylduvæn hún er og hversu almenna skírskotun hún hefur.

Eitt árið enn verða Reykvíkingar og nærsveitarmenn vitni að skemmtilegum og litríkum hátíðahöldum undir fána gay pride.  Að vanda er þátttaka og viðvera almennings geysi góð og þeim sem til þekkja ber saman um að Reykjavík Gay Pride hafi mikla sérstöðu í hinsegin hátíðahöldum fyrir það hve fjölskylduvæn hún er og hversu almenna skírskotun hún hefur.  Kjarni hátíðarinnar er að sögn aðstandenda hennar gleði og stolt, sem snertir töluvert aðra strengi en hefðbundin þögn og skömm sem hefur svo lengi umvafið málefni samkynhneigðra.

Samkynhneigð og trú

Að þessu sinni voru trúmál nokkuð áberandi í dagskrá og umfjöllun hátíðarinnar.  Í fyrsta sinn er Regnbogamessa hluti af opinberri dagskrá gay pride en Hallgrímssöfnuður í Reykjavík hýsir í samstarfi við hinsegin daga guðsþjónustu þar sem prestar þjóðkirkjunnar og fríkirkjunnar í Reykjavík þjóna, ásamt bandarískum presti sem prédikar.  Þá var áhugahópur samkynhneigðra um trú, Á.S.T., sýnilegur í gleðigöngu laugardagsins.  Á.S.T. stendur einnig fyrir frekari kynningu og samtali um trú og trúabrögð í framhaldi af hinsegin dögum nú í vikunni.

Eins og oft áður þegar trú og samkynhneigð ber á góma, snýst umræðan um hjónaband vs. staðfest samvist og aðkomu kirkju og trúfélaga að þeim gjörningi.  Svo er einnig raunin nú.  Í leiðurum dagblaða sem og viðtölum og ávörpum í tengslum við hinsegin hátíðina kom iðulega fram sú skoðun að það eina sem standi út af borðinu til að fullum rétti og jafnri stöðu sé náð sé að trúfélögum verði leyft að gefa saman fólk af sama kyni.

Það segir mikið um sterka stöðu kirkjulegra athafna í samfélaginu, að málin skuli snúa við ráðamönnum og öllum þorra fólks eins og raun ber vitni.  Það að þjóðkirkjan hafi viljað taka smá en upplýst skref í sem víðtækasti sátt, hefur ekki mætt miklum skilningi utan frá.  Umhugsunarvert er fyrir okkur sem störfum í kirkjunni að ekki hefur tekist á trúverðugan hátt að setja fram afstöðu kirkjunnar, sem ræður gangi mála í samtalinu um hjónabandið og staðfesta samvist.  Fyrir upplýstum almenningi sem og kjörnum fulltrúum á alþingi Íslendinga, vefst sá greinarmunur sem þjóðkirkjan hefur viljað halda fram þegar kemur að stöðu hjónabandsins gagnvart öðrum sambúðarformum.  Segja verður að sá munur verður vart studdur með öðrum rökum en þeim sem lúta að hefð og því hvernig hlutirnir hafa verið, sérstaklega þegar málum er lagalega háttað þannig að fólk í staðfestri samvist hefur alveg sömu réttindi og skyldur og fólk í hjónabandi.  Spurningin fyrir þjóðkirkjuna í þessu máli hlýtur því að vera sú hvort köllun hennar lúti fyrst og fremst að því að standa vörð um tiltekna fjölskylduskipan og heiðra viðteknar hugmyndir um samspil kynhlutverkanna.

Þjóðkirkjan og staðfest samvist

Mér þykir sem sagt umhugsunarvert hvað þjóðkirkjunni hefur illa tekist að fóta sig í umræðunni um hjónaband og staðfesta samvist og hve brösuglega gengur að útlista blæbrigði sambúðarformanna sem við drögum fram úr hinni kirkjulegu hefð.  Þó er ýmislegt vel þess virði að halda fram í þessu samhengi.  Á prestastefnu í apríl sl. var lögð fram ályktun kenningarnefndar þjóðkirkjunnar um staðfesta samvist (sjá http://www.kirkjan.is/?frettir/2006?id=170).  Þessi ályktun liggur til grundvallar umræðu og frekari ákvarðana innan stofnana þjóðkirkjunnar og því er fróðlegt að sjá hvað þar segir um samkynhneigð og staðfesta samvist.  Of langt mál er að tíunda alla umfjöllun kenningarnefndar hér en rétt að benda á við hve ólíkan tón kveður í ályktun nefndarinnar miðað við málflutning ýmissa annarra trúfélaga, eins og dæmi er um í heilsíðuauglýsingu á bls. 33 í Morgunblaðinu laugardaginn 12. ágúst sem "samvinnuhópur kristinna trúfélaga" stendur að.

Ályktun kenningarnefndar sem lögð var fram á prestastefnu 2006 er svohljóðandi:

  • Þjóðkirkjan kallar fólk til fylgdar við Krist og áréttar í boðun sinni og breytni boðskap hans um kærleika, manngildi og samábyrgð. Þjóðkirkjan metur alla jafnt án tillits til fjölskyldustöðu, í samræmi við kærleiksboðskap Krists.
  • Þjóðkirkjan heldur á lofti biblíulegum og kristilegum gildum sem styðja gott líf, stuðla að réttlæti og standa vörð um velferð allra, sérstaklega þeirra sem af einhverjum ástæðum eru misrétti beittir.
  • Þjóðkirkjan viðurkennir að kynhneigð fólks sé mismunandi og ítrekar að samkynhneigðir eru hluti af kirkju Krists og lifa undir fagnaðarerindi hans.
  • Þjóðkirkjan vill styðja allt kristið fólk í viðleitni þess til að temja sér ábyrgan lífstíl og hvetur alla, jafnt samkynhneigða sem gagnkynhneigða, til að hlýða köllun Krists til náungakærleika og ábyrgðar í kynlífi, sambúð og fjölskyldulífi.
  • Þjóðkirkjan styður hjónabandið sem sáttmála karls og konu á forsendum hins kristna kærleika. Þjóðkirkjan styður ennfremur önnur sambúðarform á sömu forsendum.
  • Þjóðkirkjan styður þá einstaklinga af sama kyni sem vilja búa saman í ást og trúmennsku og staðfesta samvist sína og skuldbindingar. Þjóðkirkjan heimilar prestum sínum að blessa sambúð þeirra samkvæmt þar til ætluðu formi.
Það er trú mín að það sem hér kemur fram sé upplýsandi og hjálplegt í yfirstandandi samtali um trú og samkynhneigð.  Eins má hver sem vill sjá að langur vegur er frá því sem hér er áréttað um afstöðu þjóðkirkjunnar til samkynheigðra og staðfestrar samvistar frá þeim málflutningi sem kemur fram í auglýsingunni titlaðri "Frjáls úr viðjum samkynhneigðar" í áðurnefndri auglýsingu "samvinnuhóps kristinna trúfélaga".

Til lækningar þjóðunum

Íslenska þjóðkirkjan er hluti af samfélagi lútherskra kirkna um allan heim.  Fyrir þremur árum þinguðu þessar kirkjur undir merkjum Lútherska heimssambandsins í Winnipeg í Kanada.  Yfirskrift heimsþingsins var Til lækningar þjóðunum (For the Healing of the World).  Þessi orð eru sótt í síðustu bók Biblíunnar, Opinberunarbók Jóhannesar, þar sem lýst er lífsins tré og áhrifum þess á líf þjóðanna:

Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum (Op 22.2).
Þetta þema lækningarinnar, í víðasta skilningi orðsins, lá til grundvallar þingstarfanna og umræðu allrar.  Eitt af þeim sviðum sem hugað var að, voru aðstæður fjölskyldna, hvar lækningar væri þörf í samhengi fjölskyldulífs og hvað það væri sem ógnaði réttlæti og kærleika í nærsamfélagi okkar.

Það sem ógnar fjölskyldum, sem griðarstað umhyggju og öryggis, var í huga þátttakenda ofbeldi ýmis konar, fátækt, sjúkdómar, neysla áfengis og fíkniefna, sem og örar samfélagsbreytingar.  Innan lútherskra kirkna búum við að ólíkri reynslu og sjónarhornum á fjölskyldulíf og fjölskyldugerðir, sem helgast meðal annars af ólíkum bakgrunni og fjölbreyttum menningarsvæðum.  Það er því heljarmikil áskorun að hlú að réttlæti og lækningu í fjölskyldum í samhengi fjölbreytileika hefða og menningar.

Þessi atriði sköpuðu heitar umræður á heimsþinginu, ekki síst þegar þau voru skoðuð í ljósi breyttra kynhlutverkra og mismunandi kynhneigðar.  Málefni fjölskyldna og kynja eru vitaskuld samtvinnuð menningu hvers og eins og umfjöllun á kirkjulegum vettvangi er þar ekki undanskilin. Þegar kemur að málefnum samkynhneigðra eru einstaka kirkjur mjög misjafnlega í stakk búnar.  Ólíkar guðfræði- og samtalshefðir hafa áhrif á hvernig fjallað er um málið en fyrst og fremst stjórnar menningarlegt samhengi því hvernig kirkjurnar nálgast það.  Allt þetta gerir samtal og samstarf í kringum þetta mál flókið og viðkvæmt.  Það breytir því samt ekki að kirkjurnar lifa í þannig samfélagi að viðfangsefni einnar verður viðfangsefni allra hinna.  Þess vegna hafa lútherskar kirkjur skuldbundið sig til að halda áfram að huga að málefnum fjölskyldna, hjónabands og kynhlutverka, og stuðla að einlægu og tillitssömu samtali um það hvernig við vinnum að réttlæti og lækningu í aðstæðum þeim tengdum.

Þetta er mikilvægt fyrir þjóðkirkjuna fyrir tveggja hluta sakir.  Annars vegar draga ákvarðanir á borð við þessa fram hina alþjóðlegu vídd íslensku þjóðkirkjunnar og minnir okkur á að það sem við segjum og gerum hefur áhrif á líf annarra kirkna og kristinna bræðra og systra út um allan heim.  Hins vegar láta þær okkur í té, sérstaklega í því samhengi sem hér er um rætt, ákveðinn umræðugrundvöll fyrir málefni fjölskyldu og nærsambanda.  Kirkjan er kölluð til að fara að fordæmi meistara síns og frelsara, að mæta fólki í þeim aðstæðum sem það er, og losa það úr viðjum skammar og helsis, sem það sjálft eða umhverfi þess hefur vafið það í.

Heil og frjáls, stolt og glöð

Tilefni þessarar greinar er sú umræða sem hefur skapast í kringum hinsegin hátíð í Reykjavík, hvað varðar trú og samkynhneigð og afstöðu þjóðkirkjunnar.  Þjóðkirkjan speglar auðvitað ekki skoðun allra kristinna trúfélaga, eins og glögglega má sjá af því dæmi sem hér var tekið.  Henni hefur heldur ekki tekist eins og best verður á kosið að draga fram það sem hún álítur skipta mestu máli í samtalinu um hjónaband og staðfesta samvist.  En hún tekur þátt í því samtali og álítur það farsælt og gott að það fari fram með opin augu, á nærgætinn hátt og í sem víðtækastri sátt.

Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir, segir í Jóhannesarguðspjalli.  Stærstu skilaboð gleðigöngunnar í borginni okkar eru að samkynhneigðir knýja á um réttlæti og lækningu inn í það samfélag sem hefur haft tilhneigingu til að viðhalda misskiptingu og ójafnrétti á grundvelli kynhneigðar.  Þessi skilaboð tekur þjóðkirkjan alvarlega og vill bregðast við þeim.