Heil kirkja

Heil kirkja

Kirkjan stendur fyrir sínu og enginn skal og má komast upp með það að skemma hana. Kirkjan er heilagt samfélag, sem er myndað af anda Guðs, það snertir hjörtu og býr í þeim. Ekkert mannlegt vald getur tekið slík gæði frá þér og það að eiga slík gæði þegar mótvindar lífsins blása er magnaðra en orð fá lýst.

Kirkja í krísu. Já, kirkjan er í raunverulegri krísu. Atburðir síðustu daga hafa verið þjóðinni mikið áfall. Ég ætla ekki að standa hér í þessum stól og fara að verja yfirstjórn kirkjunnar né minningu Ólafs Skúlasonar, það dettur mér ekki í hug. Hins vegar vil ég að það komi skýrt fram að ég trúi þolendum í þessu máli og þolendum kynferðisofbeldis yfir höfuð, því það er án nokkurs vafa enginn leikur að koma fram og greina frá slíkri reynslu. Margt hefur verið sagt undanfarna daga á opinberum vettvangi,misgott. Kastljósið var, að mínu mati, hvað bjartast þegar rætt var annars vegar við Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur, sem flestir vita að var ein af þeim konum er varð fyrir kynferðisofbeldi af hendi Ólafi heitnum Skúlasyni og hins vegar við Guðrúnu Jónsdóttur fyrrverandi forstöðukonu Stígamóta, sem talaði skynsamlega og af yfirvegun.

Í því viðtali var komið inn á merkilega kirkjulíkingu. Líkingin sú á reyndar vel við í krefjandi umræðu síðustu daga. Það er fjölskyldulíkingin. Venjulegast er gripið til líkinga á borð við kirkjuskipið, sem siglir um í lífsins ólgusjó og við erum áhöfnin eða lífsins tré, þar sem stofninn er Kristur og við sprettum út frá honum sem greinar. Kirkjan sem fjölskylda. Fjölskylda Guðs. Hvernig bregst þessi fjölskylda við áföllum? Væntanlega á mismunandi hátt eins og venjuleg fjölskylda. Við erum jafn ólík eins og við erum mörg og fjölskyldutengsl eru það á sama hátt. Það má sjá fyrir sér sem dæmi heimilisföður og geranda, sem þaggar allt niður með valdi, móður í afneitun, ekkert skal hafa gerst, þolandinn engist um af kvíða og lamaður af ótta, aðrir í fjölskyldunni þegja þunnu hljóði eða hafa hátt og rjúka í burtu.

Reiði, sársauki og svo margflóknar tilfinningar búa að baki. Þögnin verður óbærileg og ef ekkert uppgjör á sér stað, engin hreinsun, verður ástandið jafnvel lífshættulegt og hættir aldrei að minna á sig. Kirkjan stendur frammi fyrir því þessa dagana að gamalt kynferðisafbrotamál var aldrei gert upp og þess vegna lifir það áfram. Þögn og þöggun myrkraverka er vond og afdrifarík aðferð, sem sýnir það og sannar að á meðan slíkt fer fram viðheldur það sársauka og óheilbrigði fjölskyldunnar og ríkjandi vantrausti. Þannig ríkir tortryggni innan sem utan fjölskyldu og fólki hættir við í dómum sínum að setja jafnvel alla fjölskyldumeðlimi undir einn hatt. Það er jafnframt mjög sársaukafullur veruleiki og gerir illt verra. Misgjörðamenn, ofbeldismenn hafa verið, eru og verða innan samfélags og stofnanna þess. Það er erfiður sannleikur, en sannleikur engu að síður. Það er líka vandasamt að koma í veg fyrir það, en það sem við getum gert er að viðurkenna aldrei gjörðir þeirra með því að hylma yfir, þagga eða þegja.

Fyrir slíkum viðbrögðum geta legið ýmsar ástæður, en verst er sú ástæða sem felst í því þegar við felum af því að við erum að vernda eigin stöðu. En hver svo sem ástæðan er þá verðum við ávallt samsek ofbeldismanninum með því að sópa skítnum undir mottu. Við eigum að taka skítinn upp og ganga almennilega frá honum og tryggja það að hann safnist ekki fyrir aftur. Verst er þegar ofbeldismaðurinn kemst upp með að hrekja í burtu og grafa undan því samfélagi sem upphaflega fer af stað með sannleika og kærleika að leiðarljósi. Eiginmaður Sigrúnu Pálínu segir á einum stað á svokallaðri fésbók að prestur einn í Danmörku hafi nefnt það við hana á sínum tíma að mikilvægt væri að gera sér grein fyrir því að þarna voru kirkjunnar menn að verki en ekki kirkjan sem slík.

Kirkjan stendur fyrir sínu og enginn skal og má komast upp með það að skemma hana. Kirkjan er heilagt samfélag, sem er myndað af anda Guðs, það snertir hjörtu og býr í þeim. Ekkert mannlegt vald getur tekið slík gæði frá þér og það að eiga slík gæði þegar mótvindar lífsins blása er magnaðra en orð fá lýst.

Það fór t.a.m. í gegnum huga minn þegar ég heyrði þessi gullvægu setningu Sigrúnar Pálínu í Kastljósinu: “Það er svo undarlegt að ég er knúin af þrá eftir því að þessi kirkja verði heil”. Eitt er víst að kirkjan verður ekki heil ef við göngum framhjá manneskju í neyð eins og presturinn og Levítinn. Já, prestar geta víst gengið framhjá eins og aðrir og látið sem þeir sjái ekki afbrot og vanda náungans. Hvað það er, sem fer í gegnum huga þeirra er láta sig ekki náungann varða vitum við aldrei fyrir víst, en rótin er venjulegast ótti, ótti um eigið líf og lífsviðurværi, sumir virðast láta regluverkið hindra þjónustu sína við náungann, sem er með öllu óskiljanleg afstaða og er sett fram sennilegast í þeim tilgangi að vekja athygli á fleiri hliðum málsins, en slíkt er tímafrekt og vitlaust í ljósi núverandi aðstæðna kirkjunnar.

Það vita allir, líka misgjörðamenn, að þjónar kirkjunnar á Íslandi eru bundnir trúnaði gagnvart skjólstæðingum sínum, og það vita líka allir og sömuleiðis misgjörðamenn að samkvæmt landsslögum ber hverjum og einum skylda til að tilkynna barnaverndaryfirvöldum sé barn svívirt. Hvorki prestar né nokkur annar er undanþeginn þeirri reglu, sem betur fer. Við megum heldur ekki gleyma því að innan kirkjunnar eru raunverulegir samverjar, sem stoppa við og horfast í augu við neyðina og sérhvern vanda, sem tilkynna og fylgja málum eftir, sem eru í góðu sambandi og samstarfi við söfnuðinn og vilja í alla staði vel og sinna starfi sínu af meiri hugsjón fremur en sem áskrifendur að launum. Það var nefnilega samverji á veginum líka, Guði sé þökk fyrir það og Guð gefi að hann opni augu okkar allra fyrir ábyrgð okkar, hvort sem við erum prestar, bændur, sjómenn, sálfræðingar eða hvað annað, hvort sem við erum trúuð eða trúlaus, skráð í þjóðkirkju eða ekki.

Ertu t.d. viss um að þú sért skráður í þjóðkirkjuna á réttum forsendum eða skráður úr henni á réttum forsendum? Viltu yfir höfuð hafa Þjóðkirkju? Fer það eitt í taugarnar á þér að hún sé í tengslum við ríkið? Þar eru tengslin heldur rýr orðin, kirkjumálaráðuneytið er horfið og samningur um kirkjujarðir og laun stendur eftir. Ef til vill er bara hollt fyrir kirkjuna, sem er þegar orðin mjög sjálfstæð stofnun gagnvart ríkinu, að tengslin verði alveg rofin eða hvað?

Jafnvel myndi bara reyna meira á presta að standa sig í starfi. Í Vesturheimi eru söfnuðir frjálsir meira að segja að því að reka presta fyrir ekki meiri sök en að bulla í prédikunarstólnum einhvern sunnudaginn. Það er alltént nauðsynlegt að skoða vel þetta fyrirkomulag og skoða alla fleti þess, hvaða breytingar það hefur í för með sér, hvernig kirkjujarðir út um allt land verða gerðar upp. Þetta er hluti af sjálfskoðun kirkjunnar og hún er ekkert undanþegin því að fara í sjálfskoðun rétt eins og aðrar stofnanir samfélagsins þessa dagana. En hvað svo sem verður, þá mun ekkert kirkjufyrirkomulag taka trúna frá okkur né Krist krossfestan og upprisinn.

Hann er þarna hjá þér alla daga eins og hann sjálfur hefur heitið þér, hann mun halda áfram að vísa þér veginn, hann mun halda áfram að hvetja þig til þess að stoppa hjá náunganum í neyð, hann mun leiða þig áfram í því að sprengja graftarkýlin, hann mun ekki hætta að snerta við hjarta þínu sé leiðin þangað móttækileg og opin. Hann mun ekki draga úr þolendum kynferðisofbeldis, hann gengur með hverri manneskju, sem segir:

“Það er svo undarlegt að ég er knúin af þrá eftir því að þessi kirkja verði heil”.

Því sannleikurinn gerir sínar eigin kröfur. Amen.