Skuld, ráðleysi og firra?

Skuld, ráðleysi og firra?

Hvað gefa vitringar? Varla bull, ergelsi og pirru – eða skuld, ráðleysi og firru? Nei, gjafir þeirra eru til lífsbóta, fæðingargjafir og trúargáfur. Við getum notið þeirra við bætur eigin lífs og samfélags í krísu.

Mörg jólatré eru komin út í garð og skraut í geymslur. Jólin eru á útleið. En í ýmsum kirkjuhefðum eru jólin ekki byrjuð. Rétttrúnaðarkirkjurnar í Austur-Evrópu hafa annað tímatal en vestrænar kirkjur og undirbúa nú hátíðina. Flestar kirkjur héldu á fyrstu öldum kristninnar upp á fæðingu og skírn Jesú fyrri hluta janúar. Það var ekki fyrr en á fjórðu öld sem jólahaldið var í okkar heimshluta fest við þessa tíð í desemberlok sem við þekkjum jólatíma og þau voru haldin í tæpan hálfan mánuð, eða til þrettándans, þrettánda dags jóla. Til að minna síðan á lok jóla var í Danmörk meira segja komið fyrir ofurlitlu af púðri í vitringakertunum, sem brennd voru niður þann dag – til að minna fólk á að þegar kviknaði í púðrinu með hvellum og ljósagangi  - já þá lyki jólunum.

Bull ergelsi og pirra? Við jólalok eru allir jólasveinar farnir. Hvorki gjafmildir né stelvísir sveinar koma heldur vitringar. Þeir eru góðir og gjafmildir og íhugunarverðir. En rebbinn í barnastarfinu í kirkjunni sér jafnan einhverar nýjar hliðar á málum, spyr erfiðra spurninga og segir margt fyndið. Hann skildi ekki þetta með gull, reykelsi og myrru og taldi, að vitringarnir hafi gefið Jesúbarninu “bull, ergelsi og pirru!” Þessi speki rebba (nákominn Sigurvin Jónssyni) rataði í prédikun og fór á vefinn fyrir ári síðan. Spaugstofan notaði svo þennan frasa og spann með eitt laugardagskvöldið á nýliðinni aðventu.

Boðskapur rebba er hnyttin og ég held hann lýsi vel því, sem gerist þegar fólk skilur ekki veru og atferli vitringanna. Þegar menn hafa ekki lotningu í sér gagnvart Jesúbarninu og hinu guðlega innræti veraldar verður bull, ergelsi og pirra gagnvart dýrmætum lifsins.

Hverjir og hvaðan? Vitringarnir hafa gjarnan verið þrír í sögum og í myndlistinni og nefndir Baltasar, Melkíor og Rafael. Ekkert er þó í guðspjöllunum um nöfn þeirra. Biblían segir heldur ekkert um fjöldann. Í austrænni kristni eru þeir fleiri, allt að tólf og karlkyns.

Eru þetta allt karlar? Það getum við ekki fullyrt heldur. Sú hnyttni hefur löngum gengið í kristninni, að vitringarnir geti ekki hafa verið kvenkyns. Ef svo hefði verið hefðu þær byrjað á að fá sér almennilegar leiðbeiningar um hvar Jesú myndi fæðast, þær hefðu verið á staðnum á réttum tíma, þrifið húsið til að undirbúa fæðinguna, hitað vatn, hjálpað til og gefið barninu og foreldrunum eitthvað nothæft s.s. bleyjur, mat og föt en ekki fullkomlega ónothæft gull, reykelsi og myrru!

Um aldir sáu menn í vitringunum tákn mismunandi hluta hins þekkta heims þeirrar tíðar. Einn þeirra átti að vera svartur og frá Eþíópíu, annar frá Indlandi og einn frá Austurlöndum fjær. Enn í dag er álit sumra kínverskra kristinna, að einn vitringanna hafi verið frá Kína. Um þetta er ekkert vitað með vissu en skýringarnar eru skemmtilegar.

Á grískunni eru mennirnir nefndir magus og í ft. magoi. Magusar gátu verið töframenn og af þessu orði er enska orðið magic sprottið. Líkast til ber að skilja söguna sem svo að komumenn hafi ekki verið töframenn heldur fremur prestar og stjörnuspekingar frá norðurhluta Íran.

Matteus guðspjallamaður var ekki upptekinn af jólasögunni eins og við þekkjum hana úr Lúkasarguðspjalli, en Matteus fræðir okkur um vitringana. Og af hverju skyldi það nú vera? Guðspjöllin eru ólík og með mismunandi samhengi og tilgang. Í guðspjalli Matteusar er opnun. Þar ríkir sterk og ákveðin vitund um, að kristnin eigi ekki aðeins erindi við lokaðan hóp Gyðinga heldur allan hinn þekkta heim manna. Guð velur ekki þröngt, heldur vítt. Guð er ekki smásmugulegur heldur stór. Guð er ekki bara einnar þjóðar Guð heldur allra manna. Guð lætur sig ekki aðeins varða einn átrúnað heldur allt líf, hugsun og veru allra. Það er áhersluatriðið og því er ekki einkennilegt, að í þessu guðspjalli, sem býður að kristna allar þjóðir, skíra og kenna öllum, komi prestar við sögu utan úr heimi trúarbragðanna. Erindi vitringanna er m.a. að tjá opnun og alþjóðavæðingu hins trúarlega.

Kóngavæðingin Hugsuðir aldanna hafa síðan lesið í táknmál og útvíkkað helgisöguna. Vitringarnir urðu annað en þeir voru upphaflega. Þegar kóngar fóru að trúa á Krist var ekkert einkennilegt, að menn færu að ímynda sér að þessir vitru og góðu menn hefðu verið konungbornir, svona til að ítreka það, að konungum væri ekki stætt á öðru en að lúta Jesúbarninu. Í ýmsum þýðingum Biblíunnar var gjarnan þýtt (t.d. í ýmsum enskum biblíuþýðingum), að vitringarnir hafi verið konungar, og þar með voru gjafirnar sem gefnar voru konunglega túlkaðar, en ekki tákngjafir presta eða spekinga. Þessi kóngavæðing varð víða í hinum kristna heimi. Víða er þrettándinn nefndur hátíð hinn þriggja konunga.

Íslenska hómilíubókin, sem er prédikanasafn frá fyrstu öldum kristni á Íslandi, segir t.d. berlega að þeir hafi verið “Austurvegskonungar.” En þegar Guðbrandur gaf út sína Biblíu var orðið magos þýtt sem sem vitringur í Guðbrandsbiblíu og þannig hefur verið þýtt allar götur síðan á 16. öld. Í íslenskum biblíum eru því gjafararnir góðu vitringar en ekki kóngar.

Flestir halda, að vitringarnir hafi vitjað Jesú á fæðingarkvöldi í Betlehem af því þannig eru myndir og helgileikir barnanna. En helgisagan er sleip. Í Biblínni er ekkert um, að þeir hafi vitjað Jesúbarnsins þegar það var nýfætt. Kannski var búið að flytja það eitthvað annað. Ekkert sagt hvenær þeir komu heldur það eitt er sagt að þeir hafi opnað fjárhirslur sínar og gefið gjafir.

Hvað gefa vitringarnir? Spaugastofan skemmti með því að enduróma misskilning Neskirkjurebba um bull, ergelsi og pirru. Mörgum virðist að kóngar íslensku þjóðarinnar hafi síðustu misserin gefið okkur slíkar gjafir og pirringurinn sé því víða meðal landa okkar. Í þeim anda teiknar listamaðurinn Gunnar mynd í Fréttablaðið í fyrradag (2. jan. 2009 bls. 12.). Myndir hans eru flottar og þennan dag var mynd hans með kónga-vitringastefinu. Þar bera þrír alþingismenn, þar af tveir ráðherrar, fram gafir nýfæddu barni. Þeir þingmennirnir eru fulltrúar okkar og þeirra gjafir eru rosalegar: Skuld, ráðleysi og firra.

Þurfum við nýja leiðtoga, sem geti leitt þjóðina út úr ógöngum? Við þurfum ekki fleiri kónga, en við getum alveg tekið á móti raunverulegum vitringum. Þeir koma ekki að utan, úr stjörnuspeki himingeimsins. Viskan, gullið, allt hið vellyktandi og salvi þjóðarlíkans er til. Allt það, sem við sem einstaklingar og þjóð þurfum er fyrir hendi, innan í okkur, innan í menningunni. Siðferðisviðmiðin eru til, ríkidæmið er í fólki og auðlindum okkar. Nú ættum við að staldra við sem einstaklingar og spyrja okkur sjálf um hvað við viljum, hverjar séu óskir okkar. Gjafirnar sem við þiggjum eru það sem Guð hefur gefið okkur með lífinu, hæfileikum okkar, menningu okkar og lífsreynslu. Nú er bara að taka fram fæðingargjafir okkar sem Guð hefur í visku sinni gefið okkur.

Að lúta barninu með vitringunum Við getum notað vitringana sem fyrirmynd til að vitkast. Sagan hefur merkingu fyrir raunverulegt líf. Við þurfum ekki að trúa, að vitringarnir hafi verið þrír eða tólf. Við þurfum ekki að vita hvort þeir voru frá Eþíópíu, Íran eða Kína. Við þurfum ekki að trúa þessari sögu frekar en við þurfum að trúa Hamlet eða Njálu. En helgisögur hafa merkingu eins og mikilvægar sögur mannkyns.

Hin táknræna merking vitringanna er m.a. að við menn erum ferðalangar í tíma. Að markmið lífsgöngu allra manna sé lík langferð vitringanna til móts við barnið, til að mæta manninum Jesú í tíma og í raunveruleika. Okkar köllun er að gefa það, sem okkur er mikilvægt, af okkur sjálfum, já okkur sjálf – eins og vitringarnir - og snúa síðan til okkar heima með reynslu af hinu stórkostlega í veganesti. Við erum frjáls að því að túlka þessa vitringa eftir okkar hætti, en tilvera þeirra er tilvera mín og þín. Þú ert í sporum eins þessara manna. Þú þarft ekki að trúa að þeir hafi verið þrír eða tólf. Fjöldi þessara vitringa getur verið allur fjöldi - allra manna á öllum öldum. Þín er vænst í hóp þeirra. Þú mátt vera þarna við hlið þeirra. Þegar þú íhugar sögu þeirra er endursköpuð þín eigin saga. Þegar þeir lúta Jesú í lotningu beygir þú þitt líf með þeim.

Helgisaga er utan við lífið ef hún er skilin bókstaflega en eflir lífið ef hún fær að tjá merkingu. Þú mátt á þessum örlagatímum draga fram gáfur þínar, visku þína og aðrar fæðingargjafir þínar og nota í þágu endurgerðar þinnar tilveru og þjóðfélagsins. En þú mátt líka verða einn af vitringunum. Það verður þegar þú viðurkennir mikilvægi þess að lúta barninu, veruleika Jesú Krists. Þar er ekki skuld, ráðleysi og firra. Þar er ekki bull ergelsi og pirra. Heldur gull, reykelsi og myrra – eða með öðrum orðum það sem þú þarfnast til hins góða lífs.

Amen

Íhugun í Neskirkju, 4. janúar, 2009