Jesús og morgunverðurinn

Jesús og morgunverðurinn

Það var fjölmennt við morgunverðarborðið á prestssetrinu á Reykhólum í morgun. Þar sem morgnarnir byrja vanalega í kyrrð og ró var skemmtilegur erill. Það var ekki hellt upp á einn bolla af kaffi heldur fulla könnu og morgunverðardiskarnir voru 8 en ekki einn.

Biðjum með orðum séra Hallgríms Péturssonar: Láttu Guðs hönd þig leiða hér, lífsreglu halt þá bestu, blessuð hans orð sem boðast þér, í brjósti og hjarta festu. Amen.

Náð sé með okkur og friður frá Guði skapara okkar og Jesú Kristi frelsara okkar. Amen.

Það var fjölmennt við morgunverðarborðið á prestssetrinu á Reykhólum í morgun. Þar sem morgnarnir byrja vanalega í kyrrð og ró var skemmtilegur erill. Það var ekki hellt upp á einn bolla af kaffi heldur fulla könnu og morgunverðardiskarnir voru 8 en ekki einn. Það varð fjölgun upp á 7 manneskjur af báðum kynjum og á öllum aldri. Við vorum öll að búa okkur undir ferðalag dagsins, stefnan var tekin á stefnuna, prestastefnuna á Ísafirði.

Og það er gott að vera komin hingað í dag,horfa yfir hér úr prédikunarstólnum og sjá öll þessi kunnuglegu andlit, við erum heppin að eiga hvert annað að.

Það er gott að vera prestur hér í Vestfjarðaprófastsdæmi þó erfitt sé fyrir okkur prestana hér að hittast til skrafs og ráðagerða. Fresta hefur þurft hérðasfundum fram á haust v.ófærðar að vori og hittingum ýmiss konar og við sem erum á sunnanverðum kjálkanum ,,skreppum“ ekkert til að hitta kollegana hér fyrir norðan. Það er gott að vera hér prestur m.a. v. sögunnar: Því það var fyrir rétt 40 árum að hjón nokkur komu í eitt prestakall prófastsdæmisins og vildu fá að skoða kirkjuna og prestssetrið.

Formaður sóknarnefndar,sem þá var úti að stússa í garðinum spurði karlinn hvort hann hefði hug á að sækja um prestsembættið. Nei, sagði karlinn, það er konan.

Ekki er það verra, sagði formaðurinn þá. Og varð konan fyrst kvenna til að hljóta prestsvígslu á Íslandi og eru 40 ár í ár, hinn 29. september frá því að sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir var vígð fyrst kvenna á íslandi til prests. Og héðan úr Vestfjarðaprófastsdæmi kemur einnig fyrsta konan, sem var vígð til biskups á Íslandi.

Ég bað oft upphafsbænina sem við fórum með áðan, ásamt systrum mínum á kvöldin með henni mömmu þegar ég var lítil. Láttu Guðs hönd þig leiða hér, mér fannst gott að vita að Guð myndi leiða okkur inn í nóttina eða þannig skildi ég þessa bæn þegar ég var lítil.

Önnur bæn sem líka var í uppáhaldi var: Láttu nú ljósið þitt, loga við rúmið mitt. Hafðu þar sess og sæti, signaður Jesús mæti. Mér fannst gott að vita að Jesús kæmi og hefði sessu á litla kollinum mínum við rúmið mitt á meðan eg svaf en ég skildi aldrei alveg af hverju það þurfti endilega að taka það fram að Jesús væri sætur, sæti signaður Jesús mæti.

Það er svo gott að eiga svona minningar og vita að þó svo að skilningurinn hafi kannski ekki alltaf verið alveg á tæru þá hvíldi ég örugg í hendi Guðs. Mig hefur svolítið vantað þessa öryggistilfinningu undanfarið, þessa fullvissu um að ég og þið og kirkjan okkar hvíli örugg í hendi Guðs.

Mér hefur nánast fundist á undanförnum árum sem að gefið hafi verið skotveiðileyfi á kirkjuna og þjóna hennar. Það er, að því er virðist, allt í lagi að tala illa um kirkjuna og þau sem þar vinna. Fjölmiðlar passa sig á því reglulega að hafa neikvæðar fréttir af þjóðkirkjunni og sumt fólk í landinu okkar lítur á kirkjuna og þjóna hennar sem afætur á þjóðfélaginu og kallar okkur öllum illum nöfnum og heldur því fram að kirkjan sé á framfæri skattborgaranna því ríkið borgi prestum laun og með því að slá kirkjuna af sé heilbrigðisþjónustunni og skólakerfinu borgið og flestu öðru. Landið muni loks rísa úr skuldasúpunni þegar búið er að loka síðustu kirkjunni og henda prestinum út.

Það gleymist oft hið mikilvæga hlutverk sem þjóðkirkjan gegnir í samfélagi okkar með margvíslegri þjónustu sem oft á tíðum er ósýnileg og að hún gerir ekki greinarmun á sóknarbörnum og þeim sem standa utan kirkjunnar.

Vissulega innheimtir ríkið sóknargjöld fyrir þjóðkirkjuna eins og önnur trú- og lífsskoðunarfélög og ríkið innheimtir einnig fjölmörg gjöld fyrir aðrar frjálsar félagahreyfingar. Við erum kannski alveg búin að fá nóg af þessari umræðu, alltaf sama staglið og vælið en þetta hverfur ekki eða fer þó við hættum að tala um þetta. Það er ljóst að þegar eru nokkrir söfnuðir í landinu komnir í þrot og aðrir ramba á barminum. Og ekki er hægt að gera ráð fyrir því að hlunnindi nokkurra presta, sem vinna mörg hver hörðum höndum við að afla þeirra hlunninda, rétti við halla kirkjunnar. Starfsfólki hefur verið fækkað eða laun lækkuð og viðhaldi frestað og kirkjurnar okkar liggja undir skemmdum, organistum hefur verið sagt upp og kórar lagðir niður svo tekin séu dæmi um þá hagræðingu og niðurskurð sem átt hefur sé stað. Niðurskurðurinn kemur niður á grunnstoðum í starfi kirkjunnar, og enn liggur fyrir hagræðing í formi niðurfellinga embætta og sameininga, það hriktir í grunnstoðum kirkjunnar og stundum er það eins og kirkjan sjálf taki þátt í að hrikta í grunnstoðum sínum.

Mikið væru nú gaman ef fjölmiðlafólkið okkar myndi nú kynna sér allt það starf sem fram fer í kirkjunni og heimsækja t.d. mismunandi gerðir pretsakalla í dreif- og þéttbýli. Og sjá eins og í dreifbýlisprestsaköllunum sumum þar sem presturinn er sá eða sú eina sem sér um helgihaldið, barna og æskulýðsstarf, öldrunarstarf og hvað starf sem nefna má og sjá t.d. hvað það getur verið erfitt að greina á milli heimilis prestsins og embættisbústaðarins þangað sem fólk getur leitað á öllum tímum en sem er jafnframt heimili prestsins og fjölskyldunnar. Það væri gaman að sjá þau komast upp úr hlunnundahjólförunum, aukagreiðslupælingum og sóknargjaldsumfjölluninni og virkilega skoða það sem við prestar erum að gera um land allt og sjá allt sjálboðaliðastarfið sem blómstar um landið. Því að kirkjan okkar um land allt er borin uppi af sjálfboðaliðum. Það kom berlega í ljós í könnun jafnréttisnefndar frá því í haust. Og sem betur fer er fjöldi fólks um land allt sem vill hag kirkjunnar sem mestan og bestan. Við verðum að komast úr varnarræðunum og afsökunargírnum og standa stolt með okkur sjálfum og fagnaðarerindinu.

Æ, ég ætlaði ekki að tala um þetta. Það væri ef til vill nær fyrir mig sem jafnréttisfulltrúa kirkjunnar að fjalla um kynjahallann umtalaða í kirkjunnni, við getum ekki látið sem sá halli sé ekki til staðar eða þá veitingu eða ekki veitingu prestembætta. Leið okkar prestanna til embætta innan kirkjunnar getur verið með ýmsum hætti. Sum okkar hafa lítið þurft að hafa fyrir embættum sínum á meðan önnur hafa virkilega þurft að leggja mikið á sig. Mér finnst svo góð sagan sem hún séra Auður Eir sagði einu sinni í tengslum við veitingu prestsembætta og birti i bókinni sinni ,,Bakarí Guðs“ Hún segir:

,,Mér finnst hægt að líkja úthlutun prestsembætta við það þegar ég fór einu sinni fyrir löngu til nafntogaðs augnlæknis í Reykjavík. Biðstofan var full af fólki og læknirinn kom við og við í dyrnar og kallaði það inn til sín. Ég heyrði fólk segja að það væri engin regla á þessu og sum sögðust hafa átt að komast að fyrir löngu. Samt biðum við öll. Það fór líka að síga í mig þegar ég var búin að bíða lengi og sá að fólk sem kom á eftir mér var þráfaldlega kallað inn á undan mér. Læknirinn kom í dyrnar um leið og kona kom inn með barn í fanginu. Hann sagði glaðlega að hann væri viss um að við vildum öll að þau kæmust að strax svo að barnið þyrfti ekki að bíða. Þegar hann kom í dyrnar næst leit hann til mín og: Nei, er þetta ekki hún Auður Eir? Svona fína frú má ekki láta bíða lengur. Mér fannst að ég ætti að segja að margt fólk væri enn á undan mér. Ég gerði það samt ekki og fann að ég varð upp með mér af athyglinni og forgangninum.“

Það hefur svo óralengi verið glímt við að finna leiðir til að velja presta í kirkjunni okkar og má segja að val presta og framkvæmd sé sífelldur höfuðverkur sem engin verkjalyf virðast geta unnið á.

Ekki halda samt að ég sé búin að gleyma Jesú og textunum okkar í dag. Guðspjallið hefst á Litlu Biblíunni Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Þetta er einmitt eitt af því sem ég lærði líka sem lítil stelpa, mér finnst eins og ég hafi alltaf kunnað þetta vers og ég er viss um að það sé svo um mörg okkar. En það var með þetta vers eins og bænina um sæta Jesú, ég skildi það ekki alveg. Ég kunni það alveg reiprennandi en skildi það samt ekki.

Jesús er að svara honum Nikódemusi faríesea sem komið hafði til hans í skjóli nætur og spurt hann áleitinna spurninga. Hann vildi t.d. vita það hvernig í veröldinni að fullorðin manneskja gæti fæðst aftur þegar hún væri þegar orðin gömul? Ekki gæti hún skriðið aftur í líf móður sinnar. Til þess að hjálpa Nikódemusi til að skilja var Jesús búinn að tala við hann um Israelsfólkið og Móse í eyðimörkinni og svo endar hann útskýringar sínar með elsku Guðs til veraldarinnar. Það er vegna þess hversu mikið Guð elskar okkur að við eigum möguleikann á eilífa lífinu en til þess að svo geti orðið verðum við að elska Guð. Guð fyrirgefur okkur, feykir í burt afbrotum okkar eins og skýi og syndum okkar líkt og þoku eins og segir í lexíu dagsins. Það eina sem við þurfum að gera er að taka við ljósinu og fyrigefningunni. Við eigum stundum erfitt með að trúa á fyrirgefningu Guðs, rétt eins og fólkið sem fyrst vantreysti Pétri í pistli dagsins en bað hann svo að dvelja hjá sér í nokkra daga svo þau gætu lært meira af honum. Við skulum vera óhrædd við að taka á móti fyrirgefningu og elsku Guðs.

Ég tel þrátt fyrir allt, að hvort sem Jesús kemur og fær sér sæti hjá okkur á kvöldin, eða Guð heldur í hendina okkar á nóttunni, þá hvílum við öll örugg í hendi Guðs, hvort sem við sitjum ein eða mörg við morgunverðarborðið á morgnanna, nærvera Guðs og elska umvefur okkur alla daga.

Dýrð sé Guði, föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Lestrar dagsins:

Jesaja 44.21-23

Drottinn skapar og endurleysir

21Minnstu þess, Jakob, og þú, Ísrael, að þú ert þjónn minn. Ég skapaði þig, þú ert þjónn minn, Ísrael, þér gleymi ég ekki. 22Ég feykti burt afbrotum þínum eins og skýi, syndum þínum líkt og þoku. Hverf aftur til mín því að ég hef endurleyst þig. 23Fagnaðu, himinn, því að Drottinn hefur gert þetta, gleðjist, undirdjúp jarðar. Hefjið fagnaðaróp, þér fjöll, skógurinn og öll tré í honum, því að Drottinn hefur endurleyst Jakob og birt dýrð sína í Ísrael.

Postulasagan 10.42-48

42Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. 43Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“ 44Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð kom heilagur andi yfir alla þá er orðið heyrðu. 45Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir að Guð hefði einnig gefið heiðingjunum heilagan anda 46því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð. Þá mælti Pétur: 47„Hver getur varnað þess að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem við.“48Og hann bauð að þeir skyldu skírðir í nafni Jesú Krists. Síðan báðu þeir hann að standa við í nokkra daga.

Jóh. 3.16-21

16Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. 17Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann. 18Sá sem trúir á son Guðs dæmist ekki. Sá sem trúir ekki er þegar dæmdur því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina. 19En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið því að verk þeirra voru vond. 20Hver sem illt gerir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins svo að verk hans verði ekki uppvís. 21En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins svo að augljóst verði að verk hans eru í Guði gerð.“