Eboo, Osló og trúarlínan

Eboo, Osló og trúarlínan

Það er hægt að hafa áhrif á og móta ungt fólk og það er mikið í húfi. Það unga fólk sem kynnist trúarlegum veruleika og trúarlegri nálgum sem er öfgalaus, umburðalynd og nærandi mun ekki aðhyllast þær öfgaraddir innan trúarbragðanna og gegn trúarbrögðum sem svo víða leynast
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
24. júlí 2011

Þegar ég er vakandi fyrir því að leita að tilgangi í lífinu og tilgangi með lífi mínu leyfi ég mér stundum að túlka atburði sem hluta af æðri áætlun frekar en tilviljakenndar upplifanir. Ég upplifði slíkann atburð síðustu helgi og þó að ég sé varkár í að draga of stórtækar ályktanir sit ég eftir snortinn.

Þannig er að ég hef um nokkurt skeið tekið virkan þátt í starfi evrópskra æskulýðssamtaka sem heita Ecumenical Youth Council in Europe eða Samkirkjuráð æskunnar í Evrópu. Ráðið er í raun frjáls félagasamtök sem mynduð eru af ungu fólki úr ólíkum kirkjudeildum víðsvegar að úr Evrópu. Markmið samtakanna er að stuðla að samvinnu og samhug ólíkra kirkjudeilda til að vinna að réttlæti, friði og heilindi sköpunarinnar. Æskulýðssamtök kirkjunnar í Reykjavík hefur átt aðild að þessum samtökum í á þriðja áratug og hafa fjölmargir ungir leiðtogar í kirkjunni okkar tekið þátt í starfi þeirra.

Síðstu helgi sótti ég fund á vegum þeirra en ég tilheyri hópi eldri leiðtoga sem eru að vinna að tillögum fyrir framtíð samtakanna. Maður kemst ungur í öldungaráð æskulýðssamtaka. Flugleiðavélin til Kaupmannahafnar var full og ég sat við hlið konu sem var að lesa bók sem vakti athygli hjá mér. Bókin ber heitið Acts of Faith og þegar ég spurði konuna út í bókina kom í ljós að við áttum meira sameiginlegt en okkur grunaði. Kona þessi vinnur sem háskólakennari á sviði trúarlífs-félagsfræði í Ástralíu og hefur brennandi áhuga á starfi með ungu fólki og þverkirkjulegu og þvertrúarlegu samstarfi. Með okkur tókst vináttu sem ég vona að muni bera mikinn ávöxt.

Ég gekk frá borði með þessa bók undir hendinni en hún gaf mér eintakið sitt. Acts of Faith er reynslusaga ungs múslima í bandaríkjunum af indverskum uppruna, Eboo Patel, en hann er stofnandi og forstöðumaður þvertrúarlegra æskulýðssamtaka Interfaith Youth Core. Samtökin byggja á einfaldri aðferðafræði og öflugum boðskap. Eboo Patel segir í bók sinni að átök 21. aldar munu fyrst og fremst snúast um trúarbrögð heimsins og þar skipi ungt fólk veigamestann sess. Trúarleiðtogar sem aðhyllast bókstafshyggju beita fyrir sér ungu fólki til að framkvæma voðaverk á meðan að trúarsamfélög almennt setja ekki næga orku í að sinna ungu fólki.

Patel bendir réttilega á að þó að Sheik Omar Bakri Mohammed og Dan Gayman telji sig vera á öndverðum meiði, sitthvoru megin trúarlegrar stríðslínu, eru þeir í raun samherjar. Sheik Omar Bakri Mohammed er stofnandi öfgakenndra íslamskra æskulýðssamtaka sem ól af sér fjórmenningana sem sprengdu sig í loft upp í London 2007. Dan Gayman er forstöðumaður Christian Identity, kirkju í bandaríkjunum sem leggur áherslu á yfirburði hvíta kynstofnsins og réttmæti helfararinnar, en úr ungliðahreyfingu hans kom hryðjuverkamaðurinn sem ber ábyrgð á sprengjum við heilsugæslu í Alabama þar sem fóstureyðingar eru framkvæmdar og á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996. Annar er múslimi, hinn kristinn en saman standa þeir í þeirri trú á að hatur og ofbeldi séu réttmætir ávextir trúarskoðana sinna. Hinir ungu ofbeldismenn eru aldir upp af trúarleiðtogum sem fjárfestu tíma sínum í að ala þá upp í þeirra brengluðu hugsjónum.

Aðferðafræði Eboo Patel er einföld og byggir á því sem hann kynntist í KFUM starfi sem ungur maður, þar var honum veitt umhyggja, athygli og hlutverk. KFUM í bandaríkjunum byggja á kristnum grunni en meðlimir í samtökunum eru af öllum trúarhefðum. Boðskapur Interfaith Youth Core er fjölhyggja þar sem borin er virðing fyrir hinum ólíku trúarbrögðum, ungt fólk hvatt til að þekkja og virða rætur sínar og trú og viðurkenna þá fergurð sem finnst í fjölbreytileika átrúnaðar. Í bókinni segir frjálslega þýtt: Trúarleg fjölhyggja er hvorki fátækleg sambúð eða þvinguð málamiðlun. Það er tegund virkar samvinnu sem viðurkennir sérleik trúarlegra hefða og trúarsamfélaga með þeirri sannfæringu að samfélög fái notið sín best þegar samfélagið er heilbrigt. Það er sú sannfæring að hagmunum heildarinnar sé best borgið þegar allir fá tækifæri til að leggja sitt af mörkum.

Það er hægt að hafa áhrif á og móta ungt fólk og það er mikið í húfi. Það unga fólk sem kynnist trúarlegum veruleika og trúarlegri nálgum sem er öfgalaus, umburðalynd og nærandi mun ekki aðhyllast þær öfgaraddir innan trúarbragðanna og gegn trúarbrögðum sem svo víða leynast. Öfgahyggja og öfgatrú kann að virðast á stundum fjarlægur íslenskum veruleika en svo er ekki. Þræðir gyðingahaturs og andúðar á útlendingum fengu nægilega lengi að liggja óáreittir í Evrópskri menningu og kirkjuhefð til að þeir ólu af sér þann hrylling sem gyðingar þurftu að þola í útrýmingarherferðum Þjóðverja og Rússa. Þær herferðir áttu og eiga sér stuðningsmenn í okkar samfélagi og andúð á gyðingum og útlendingum í landi okkar er víða sýnileg í opinberri umræðu.

Þau voðaverk sem áttu sér stað um helgina í Osló eru af þessum meiði öfgahyggju og andúðar á útlendingum. Sú hugmyndafræði sem að hinn norski hryðjuverkamaður aðhyllist byggir á upphafningu kristindómsins, útrýmingu múslima í Vestur-Evrópu og andstöðu við trúarlega og menningarlega fjölhyggju. Hryðjuverka-maðurinn ræðst mögulega gegn ungliðahreyfingu norska verkamannaflokksins vegna áherslu flokksins á baráttu gegn fordómum í garð útlendinga í Noregi. Í myndbandi sem hann birtir á youtube er haldið á lofti því sjónarmiði að Íslam séu ofbeldisfull trúarbrögð og vill taka upp vopn í baráttu gegn þeim og fyrir hinum kristna málstað. Laun krossfarans eru samkvæmt myndbandinu eilíf sæla á himnum. Öfgamaðurinn sem telur sig vera á öndverðum meiði við íslamska öfgamenn er í raun af nákvæmlega sama sauðahúsi.

Eboo Patel spyr í niðurlagi bókar sinnar hvort að hinir ungu múslimar sem stóðu á bakvið sjálfsmorðsárásirnar í London eða hinn ungi lærisveinn Dan Gayman sem framdi voðaverkin í bandaríkjunum hefðu beint reiði sinni í farveg ofbeldis hefðu heilbrigðir æskulýðsleiðtogar mætt þeim. Hann hvetur trúarsamfélög og kirkjur til að taka uppeldishlutverk sitt alvarlega og fjárfesta í æskulýðsstarfi svo að ungmennum sé mætt áður en að þau verða öfgahópum að bráð. EYCE, samtökin sem við störfum með, leggja sitt lóð á vogar-skálarnar og á vegum þeirra er nýlokin þriggja ára herferð gegn bókstafstrú sem var m.a. unnin í samtarfi við samtök ungra múslima í Evrópu (FEMYSO) og samtök ungra gyðinga í Evrópu (EUJS).

Saman biðjum við með ungu fólki í Evrópu til Allah, Jahweh og Jesú um að draumurinn um réttlæti, frið og heilindi sköpunarinnar megi verða að veruleika.