Hvorki hetja né þrjótur

Hvorki hetja né þrjótur

Þegar bíll heyrðist koma akandi inn á hlaðið þurfti ég engar vitna við. Nú var hún komin, hjúkrunarkonan með stóru nálina. Bílhurð var skellt og þá var sem rimlagrindum væri rennt niður í sál minni.

Einu sinni þegar ég var fimm ára gamall var ég morðingi.

Eins og flestar örlagasögur hófst þessi í sakleysi. Ég hafði stundum heyrt föður minn ræða um feril sinn í frjálsum íþróttum og einhvernveginn sá ég fyrir mér að frami hans hefði verið mikill á þessu sviði. Einkum þótti mér tilkomumikið þegar hann eitt sinn sýndi okkur bræðrum hvernig kringlu væri kastað. Þetta var á þeim árum er rússneskir bassasöngvarar og kúlu- og kringlukastarar voru ímynd karlmennskunnar og stundum  voru svarthvítar myndir í Morgunblaðinu af samanreknum íþróttaköppum í þröngum búningum og mig langaði einlæglega til að falla í hópinn. Vera með. Það var vor í lofti og skaflanir í Mosfellsdalnum voru að þána. Ég var á vappi úti á hlaðinu við skólann í Hlaðgerðarkoti þar sem fjölskyldan bjó og sem ég er að hugsa um framtíð mína sem íturvaxins íþróttamanns sem kann að kasta kringlum af fítonskrafti þá sé ég að steinarnir á hlaðinu eru lausir úr viðjum vetrarins og sumir þeirra eru einmitt eins og kringlur í laginu.  Ég tek einn upp og reyni að bera mig að eins og ég hafði séð þetta fyrir mér og þykir bara ganga ágætlega. Steinarnir fljúga í fallegum boga út í móann handan girðingarinnar.  Loks kem ég auga á sérlega fallegan stein, sporöskjulaga og sléttan. Ég gríp hann upp úr krapinu og sveifla mér frjáls og glaður í tvo hringi áður en ég sleppi... en átta mig samstundis að ég hef ekki kastað í rétta átt og í sömu svipan kemur hún Rúna ráðskona gangandi fyrir húshornið einmitt í veg fyrir steininn og það skiptir engum togum að hann lendir á enni hennar, hún baðar út höndum og ég man að ég undraðist að hún skyldi ekki hrópa, heldur féll hún til jarðar eins og í Káboj-mynd og lá þar kyrr. Eitt augnablik stóð ég líka kyrr en stökk svo til Rúnu því mér þótti vænt um hana og við vorum vinir en nú sá ég að hún hreyfði sig ekki, svo ég hljóp í fáti inn í hús og hrópaði á fólk að koma því að Rúna vær dauð. Foreldrar mínir og aðrir starfsmenn skólans voru þarna nærri og komu brunandi og líka nokkrir nemendur, og það varð uppi fótur og fit.

Ég gekk ringlaður inn eftir löngum gangi hússins og mér fannst eins og veggirnir hvelfdust að mér og myrkrið umlyki mig. Þá vatt sér að mér stúlka sem var ein af nemendum foreldra minna, hún horfði á mig með ísköldu augnaráði og sagði - Ég sá að þú drapst hana Rúnu með steini. - Já, svaraði ég á innsoginu og hélt áfram för minni.

Fáum mínútum fyrr hafði ég átt glæsta framtíð á sviði frjálsra íþrótta, en nú gekk ég eftir þessum langa gangi fimm ára gamall og örlög mín voru ráðin. Ég var morðingi. Ég fór inn í herbergið mitt og lagðist undir sæng. Von bráðar opnuðust dyrnar og bróðir minn þremur árum eldri birtist þögull í gættinni. Hann horfði á mig með annarlegri vorkunn í augum og mælti eins og í undrun:

- Rúna ráðskona á systur sem er hjúrkunarkona. Hún er á leiðinni. Hún er með stóra nál og ætlar að stinga þig. Svo lokuðust dyrnar.

Ég tók þessu sem sjálfsögðum hlut. Svona færi fyrir þeim sem dræpu annað fólk. Það kæmi hjúkrunarkona í hvítum sloppi og stingi þá með stórri nál. Auðvitað. Það sagði sig í rauninni sjálft.

Þegar bíll heyrðist koma akandi inn á hlaðið þurfti ég engar vitna við. Nú var hún komin, hjúkrunarkonan með stóru nálina. Bílhurð var skellt og þá var sem rimlagrindum væri rennt niður í sál minni.  Er fótatak nálgaðist herbergisdyrnar mínar lá ég dofinn og vissi að nú kæmi konan með nálina. Það var tekið í húninn og dyrnar opnuðust.

Mér til nokkurrar furðu var það móðir mín sem birtist í gættinni. - Bjarni minn liggur þú hér, elsku drengurinn minn?! Hún Rúna vill fá að sjá þig hún veit að þú gerðir þetta alveg óvart. - Er hún ekki dauð? Spurði ég.

Ég mun aldrei gleyma faðmlagi Rúnu ráðskonu og huggunarorðum hennar. Og þegar ég gekk aftur út á ganginn voru veggirnir sem slútt höfðu svo ögrandi fram komnir á sinn rétta stað baðaðir björtu ljósi og sjálfur var ég svo léttur að mér fannst að ég gæti lyfst frá jörðu þá og þegar.

Ég hafði endurheimt lífið mitt. Ég var ekki morðingi og ég var heldur ekki frjálsíþróttahetja. Bara fimm ára strákur í gallabuxum og peysu. Og það var miklu, miklu meira en nóg. Ég skynjaði á algerlega nýjan máta hvað ég var ríkur og frjáls og hve gott það var að eiga lífið eins og það bara er.

“Líkt er himnaríki fjársjóði sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann. Enn er himnaríki líkt kaupmanni sem leitaði að fögrum perlum. Og er hann fann eina dýrmæta perlu fór hann, seldi allt sem hann átti og keypti hana.” (Matt. 13. 44-52)

Fjársjóðurinn bara er þarna. Perla hamingjunnar bíður þess bara að komið sé auga á hana og þá kostar hún ekkert nema allt. Skömm þín eða  sæla, sök þín eða upphefð eru ekki einu sinni skiptimynt í þeim viðskiptum.

„Enn er himnaríki líkt neti sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða þegar veröld endar: Englarnir munu koma, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.” (Matt. 13. 44-52) Sæla fimm ára drengsins sem hlotið hafði faðmlag og fyrirgefningu var í því fólgin að vera hvorki hetja né þrjótur, hvorki samanrekinn kringlukastari í þröngum búningi né kaldrifjaður morðingi heldur bara krakki uppi í Mosfellsdal.

Það sem aðskilur vonda og góða í líkingu Jesú, það sem greinir réttláta menn frá ranglátum þegar upp er staðið er ekki það að sumir séu þrjótar en aðrir göfugir afreksmenn. Það sem úrslitum ræður um líf og dauða er að þiggja lífið og þakka það. Eldsofn glötunarinnar er kjör þeirra sem hafna lífinu. Grátur og gnístran tanna er hlutskipti sem við getum valið. Eymd er valkostur og hún er raunveruleg í lífi okkar allra að því leyti sem við ekki tökum við lífinu sem gjöf . Lífið sem þér er gefið er stærra en allar þínar gjörðir. Veistu það? Þér tekst ekki, jafn vel þótt þú beitir ýtrustu kröftm þínum þá megnar þú ekki að vera stærri en lífið. Hvort sem þú gerist þrjótur eða hetja þá er máttur þinn hlægilegur í samanburði við stærð þeirrar gjafar sem þér er færð. Ef þú sérð ekki þetta þá ertu að glata lífinu, velja eymdina.

Við heyrðum lesið úr skilnaðarræðu Móse hér áðan þar sem hann kallar þjóðina til ábyrgðar á eigin lífi og segir m.a. „Þetta boð, sem ég legg fyrir þig í dag, er ekki óskiljanlegt eða fjarlægt þér. [...] Nei orðið er mjög nærri þér, í munni þínum og hjarta svo að þú getur breytt eftir því. Hér með legg ég fyrir þig líf og heill, dauða og óheill.”  „Veldu þá lífið” Segir Móse undir lok ræðu sinnar. „Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann.” (5. Mós. 30.11 og 14-15 og 19-20)

Þegar Rúna ráðskona breiddi út faðminn á móti litla morðingjanum sínum þá skildi ég að glæpur minn var smár í samanburði við kærleika ráðskonunnar.  Þannig hefur Jesús Kristur í eitt skipti fyrir öll breitt út faðm sinn móti heiminum. Negldur á krossinn í okkar stað gaf hann öllum mönnum upp sakir og auglýsti að í samanburði við gæskuna, lífið, fegurðina og sannleikann eru afrek okkar mannanna á sviði fólsku og gæsku harla smá.

Amen.