Hólmganga

Hólmganga

Samhengi dauðans og reikningskilanna. Hvar er það? Að dauðinn sé vegurinn heim að dómstól Drottins – hver segir það? Að lífið sé barátta góðs og ills, reynsluvegur í eftirfylgd, þar sem Kristur leiðir og leiðbeinir, hver veit það? Við vitum það.

Minn Jesú andláts orðið þitt í mínu hjarta ég geymi. Sé það og líka síðast mitt þá sofna ég burt úr heimi. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen

Við skulum rifja upp hluta af guðspjalli dagsins. Jóhannes skrifar:

Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: Kona, nú er hann sonur þinn. Síðan sagði hann við lærisveininn: Nú er hún móðir þín. Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín. Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: Mig þyrstir. Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: Það er fullkomnað. Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann. Joh.19.25-30.

Þannig hljóðar Guðs heilaga orð. Heilagi faðir, helga þú oss í sannleikanum. Þitt orð er líf, andi og sannleikur. Amen.

Kæri söfnuður. Það eru mikil forréttindi að fá að koma saman hér á þessum helga stað frammi fyrir Guðs Orði og mega taka á móti því hér í friði, að sönnu í miðjum heimi annríkisins og skarkalans en þó vernduð á alla vegu, af friði og kyrrð. Hér þarf ekki að kyrra hugann í glímu við ókyrrðina, hér kyrrist hugurinn eins og sjálfkrafa, og hvílir í þögninni, hinni skapandi, endurnærandi þögn. Það er mikil miskunn í henni.

Þögnin og dauðinn eru félagar. Við sem erum náttúrubörn skynjum á þessum dögum nýbyrjaðs aprílmánaðar, hina ólgandi þrá vorsins að mega brjótast fram. Lífið þrýstir á. Brumvökvinn brýst um í æðum trjánna og lóan leitar heimahaga. Hvort sem hann blæs kulda og snjó eða sendir sól og yl.

Þögnin er sæl en dauðinn er ekki velkominn. Samt erum við hér vegna hans. Vegna þess að enginn fylgir okkur tryggar eftir hvert fótmál en einmitt hann. Og vegna þess að frelsarinn Jesús Kristur mætti honum í okkar stað á þessum degi.

Þegar við hlustum eftir orðum guðspjallsins erum við færð að dánarbeði, eins og við ef til vill þekkjum úr eigin lífi. Nánustu aðstandendur eru saman komnir til þess að eiga þessar síðustu samvistir með hinum deyjandi og til þess að hann eða hún sé ekki einmana á dauðastundinni. Og þó er sá sem deyr, aleinn í dauðanum og tekur engan með sér. Vill ekki taka neinn með sér. Fylgdinni líkur við hliðið. Það er skipst á síðustu orðum, og svo allt í einu, er allt búið. Dauðinn tekur við. Engin staðreynd lífsins er jafn óafturkræf og hann, nema fæðingin.

Jesús talar til móður sinnar. Andartaki síðar er hann dáinn. Í dauðastundinni hneigði hann höfuð sitt í átt til hennar. Móðurfaðmurinn felur hann... sungum við í jólasálminum. Fæðing og dauði eru systkin og móðirin þrá þeirra beggja.

Föstudagurinn langi er orðinn að óþægindum í leit samtímans að sífellt meiri þægindum. Í kvöld á að krýna fyndnasta mann ársins og velja besta söngvara í X factor. Það er dansað og það er duflað og það er drukkið. Var það einhverntíma öðruvísi? Nei. Það var það ekki. Að ákveðinn hluti fólks gerði það ekki, og lét sér alls ekki detta það í hug, þannig var það líka alltaf í tvöþúsund ár.

Ekki borða bara kremið! Barnið situr með tertusneiðina og hefur engan áhuga á neinu nema kreminu. Það er það sætasta og besta.

Ég vil fá að lifa áfram án þess að deyja. Ég vil fá að verða bráðkvaddur svo snögglega að ég viti ekki hvað um er að vera, eða til vara vera með morfín í æð og á kæruleysislyfjum svo að mér sé alveg sama, og svo vil ég fá að vakna aftur hinummegin hjá öllum vinum mínum og ættingjum sem fóru á undan mér. Og hvað svo?

Samhengi dauðans og reikningskilanna. Hvar er það? Að dauðinn sé vegurinn heim að dómstól Drottins – hver segir það? Að lífið sé barátta góðs og ills, reynsluvegur í eftirfylgd, þar sem Kristur leiðir og leiðbeinir, hver veit það? Við vitum það.

Komir þú undir krossinn stranga kristin sála, gæt þess hér, ef holdið tekur að mögla og manga minnstu hver þín skylda er. Láttu sem þú sjáir ganga sjálfan Jesúm undan þér . (PS.30.12)

Dauðinn hefur aldrei verið vinsæll. Dauðinn er allt um kring, en enginn vil sjá hann, enginn vita af honum sem ekki má til. Við höfum bannað hann. Dauðinn er ekki lengur hluti af lífinu. Dauðinn er slys eða sjúkdómur. Tillaga um kapellu í Gufuneskirkjugarði gerði ráð fyrir því að kistan stæði ekki fyrir miðju eins og venja hefur verið, heldur til hliðar, vegna þess að það er svo óþægilegt að hafa hana fyrir augunum. Það átti líka að bera hana út til hliðar en ekki gegnum söfnuðin miðjan eins og föst venja hefur verið í kristnum söfnuði. Það er ekki tilviljun, það er úthugsað. Það fjölgar þeim sem biðja um að sveitadúkurinn sé ekki tekinn af ásjónu hins látna, heldur megi þau sem það vilja fá að kíkja aðeins undir hann um leið og þau signa yfir.

Það hafa komið fram margar úthugsaðar hugmyndir um það hvernig væri hægt að komast framhjá dauðanum og alveg sérstaklega dauða Jesú Krists. Því ef hann dó ekki. þá er engin upprisa og ef enginn upprisa er þá er enginn kristindómur og þá eru þau öll sem játa trú á Jesú Krist á villigötum, og þau eru rúmlega tveir milljarðar. Það væri mikill sigur. Hvers?

Þannig kom eitt sinn fram sú kenning að Jesús sem er Guð og maður hefði hætt að vera bæði Guð og maður á krossinum vegna þess að Guð gæti ekki gefið sjálfan sig í hendur mannanna og orðið að deyja. Guð hefði því yfirgefið manninn Jesús, og farið burt frá honum. Sönnun þessa lægi í orðunum Eli, eli, lama sabaktani: Guð minn, Guð minn hví hefir þú yfirgefið mig. Hliðstæðar hugmyndir koma fram í skáldsögum og bíómyndum samtímans, annarsvegar um að búið sé að finna kistu með beinum Jesú, eða að sannað sé að hann hafi bara sofnað á krossinum og vaknað aftur í gröfinni og haldið svo áfram sambúð sinni við konu sína Maríu Magdalenu og átt með henni einhvern tilgreindan fjölda barna. Og svo heyrir maður líka að Guð hefði ekki þurft að fara þessa leið þjáningar og písla, limlestinga og krossdauða, hann hefði getað bjargað sálu minni öðruvísi og án þess. Það má vel vera. En hann kaus þessa leið.

Allt þetta snýst alls ekki fyrst og fremst um dauðann heldur um upprisuna.

Hvernig getur nokkur eignast aðgang að upprisunni nema deyja? Hin hræðilega staðreynd dauðans er þess valdandi að reynt er að horfa framhjá henni. Hinn dauði er þá ekki dáinn, heldur sefur hann, til þess að vakna heima hjá Guði. Svo stutt er á milli þessa heims og annars. Sá sem deyr, stígur út úr tímanum og beint inn í eilífðina. Jafnvel þótt hann liggi lengi lengi í gröf sinni, þá er hann á himnum þegar hann vaknar og veit ekki nema hann hafi bara blundað. Jesús hefur sjálfur gefið okkur tilefni til slíkra ályktana. Hann segir um dóttur Jaírusar: Hún er ekki dáin, heldur sefur hún. Þessu er lýst þannig hjá Lúkasi: Og allir grétu og syrgðu hana. Hann sagði: Grátið ekki, hún er ekki dáin, hún sefur.En þeir hlógu að honum, þar eð þeir vissu að hún var dáin. Hann tók þá hönd hennar og kallaði: Stúlka, rís upp! Og andi hennar kom aftur, og hún reis þegar upp, en hann bauð að gefa henni að eta.( Lk.8 52 -55)

Kristur er þegar sterkari en dauðinn. Það sést hér eins og líka við gröf Lasarusar og líkbörur sonar ekkjunnar í Nain.

Og svo segir hann við ræningjann sem er að deyja við hliðina á honum: Í dag, skaltu vera með mér í Paradís. Í dag. Samt reis hann upp á þriðja degi. Samt dvaldi hann í gröfinni þar á milli. Samt fór hann og predikaði fyrir öndunum í varðhaldi, - það er, fyrir hinum látnu, og leysti þau, fyrst Adam og Evu. Ég fékk einmitt senda mynd frá vini mínum prófessor í Rúmeníu, sem sýnir að þegar Jesús með dauða sínum braut hlið Heljar og teygði hönd sína inn fyrir hliðið gengu þau fyrst fram Adam og Eva.

Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.

Jesús dó á krossinum. Þegar þau tóku hann niður var ekkert líf í líkama hans. Það er huggun okkar sem stöndum við dánarbeð og verðum vitni að dauðanum. Líka þegar dauðinn er lausn frá sárum kvölum eins og svefninn, bróðir hans. Dauðinn er kaldur og stirður. Hann er hræðileg alvara. Hann er ekki þægileg útafsofnun til samtíma uppvöknunar á himnum. Hann er köld krumla sem hrífur burtu frá okkur manneskju sem við elskum. Hann er algjör endir þess sem var.

Einmitt þess vegna er svo stórkostlegt að Jesús Kristur skyldi brjóta brodd dauðans og sigra hann. Einmitt þess vegna er svo stórkostlegt að mega standa frammi fyrir krossi Krists á föstudaginn langa ár eftir ár í fullu trausti þess að í því sem hann dó, og gaf upp andann hafi hann sigrað minn eigin dauða.

En hólmgangan á krossinum var ekki við dauðann í venjulegri mynd hans, því skapari lífsins hefur þegar dauðann á valdi sínu.

Hólmgangan á krossinum er við illskuna og syndina. Það var dauðinn sem afkvæmi syndarinnar sem hann sigraði um leið og syndina sjálfa og það varð ekki gert nema fara alla leið inn í ríki dauðans.

Hinn endanlegi sigur Krists yfir illskunni vannst ekki fyrr en í ríki dauðans vegna þess að baráttan var ekki aðeins fyrir hönd þeirra sem voru og á eftir komu heldur allra þeirra sem voru fyrri, því að sonur Guðs er í senn fæddur á jólum og er þó fyrri en allt, fyrri en Abraham.

Svo stór synd engin er að megi granda þér ef þú iðrandi sér í trúnni Jesúm hér (PS.47.18)

Um þetta snýst helstríð Krists á krossinum og þetta er gjöf hans þar til mín og þín. Hið illa hefur misst takið, syndin hefur misst dauðann. Það er ekki illskan og dauðinn sem ríkja heldur lífið og fyrirgefningin. Í dag skaltu vera með mér í Paradís merkir ekki stað í tíma og rúmi, heldur merkir það fyrirgefninguna. Í dag eignast þú fyrirgefningu syndanna, það er þín Paradís með Kristi.

Hið endanlega uppgjör á lífi mínu fyrir dómstól Drottins þegar ég dey, er ekki dauðinn sem laun syndarinnar, heldur lífið sem sigur frelsarans gefur. Lífið sem er fyrirgefning syndanna.

Þess vegna megum við ganga héðan út fyllt af voninni, í glöðu trausti Guðs barna, og megum segja honum allt og biðja hann um allt og berjast með honum góðu baráttunni og segja frá, því Kristur á krossinum deyr fyrir eitt og sérhvert þeirra sem hann endurleysir og frelsar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda, sem svo dásamlega hluti hefur gjört á Golgata.