Grímurnar

Grímurnar

Þú hefur örugglega kynnst fólki sem gengur yfir þig og allt sem þér er kært. Fólk sem virkar kannski vel í byrjun en fer fljótlega að gera lítið úr þér og því sem skiptir þig máli. Fólk sem jafnvel gerir kröfur til þín sem eru óeðlilegar og óþægilegar. Við erum misnæm á að greina þessa hegðun og því kemst fólk misjafnlega langt með okkur.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
02. ágúst 2016
Flokkar

Japanir og grímurnar Þið hafið væntanlega tekið eftir því að margir Asíubúar (aðallega frá austur Asíu) notar oft andlitsgrímur eða svona grímur sem hylja vitin, munn og nef. Ég taldi lengi vel að ástæðan fyrir þessari notkun á grímunum væri að verja sig fyrir mengun í umhverfinu. Nú hef ég verið svo lánsöm að koma til Japan tvisvar sinnum og ferðast aðeins um landið og þá hef komist að því að nokkrar mismunandi ástæður eru fyrir því að Japanir nota þessar grímur.

Ein ástæða er vissulega mengun. Önnur ástæða er að ef fólk er kvefað og slappt þá notar það grímurnar til að smita ekki annað fólk og vill kannski að einhverju leyti verja sig fyrir smiti. Fyrst og fremst er þó verið að hugsa um að smita ekki aðra. Enn önnur ástæða er að gríman er notuð til að setja mörk, búa til eigið rými sem hver sem er fær ekki aðgang að.

Fyrir okkur sem búum í landi þar sem stærsti hlutinn er óbyggður og við þurfum aldrei að fara langa leið til þess að vera ein, er þessi notkun framandi. Japanir búa ekki við þennan lúxus þar sem húsin eru þétt, bæði í sveit og borg, íbúðirnar litlar og allsstaðar er fullt af fólki. Fólk þarf því alltaf að vera í einhverskonar samskiptum við annað fólk og kemst ekki svo auðveldlega í burtu. Margt fólk hefur því brugðið á það ráð að setja upp þessar grímur til þess að geta verið í friði. Það er erfiðara að þekkja fólk í sjón sem hylur vit sín og með grímunni getur þú búið þér til svolítið eigin rými, sem er algjörlega þitt, fyrir innan grímuna. Það er lítið og breytir kannski ekki mjög miklu en það er þitt. Og skilaboðin með grímunni eru líka skýr um að vera látin(n) í friði.

Það að fólk skuli nota svona lítinn, og að því er virðist ómerkilegan, hlut sem grímu, sem aðeins hylur munn og nef, til þess að setja mörk og búa sér til eigið rými sýnir hversu áreitið er mikið í löndum þar sem fólk býr svo þétt og þröngt.

Að setja mörk Vð eigum misauðvelt með að setja mörk og höfum ekki öll jafn ríka þörf fyrir það. Við getum bæði þurft að setja okkur sjálfum mörk og öðru fólki. Eigið markaleysi bitnar yfirleitt verst á okkur sjálfum en það getur verið snúið að setja mörk og skurðstofugrímur eru víst engin lausn hér á landi..

Við þurfum öll eigið rými og það er misjafnlega stórt eftir því hvernig við erum. Sum okkar hafa þannig reynslu að rýmið er orðið mjög lokað því við treystum engri manneskju nógu vel til að hleypa henni þarna inn fyrir. Svo eru hin sem eru með svo óendanlega opið rými að öll þau sem hafa áhuga eru velkomin þangað inn, jafnt á skítugum skóm sem hreinum. Það er samspil margra þátta sem mótar þörf okkar fyrir eigin rými og hversu skýr mörkin okkar verða í samskiptum við fólk. Meðalvegurinn er heilbrigðastur, þ.e. að geta valið sjálf hverjum við hleypum nálægt okkur og að eiga auðvelt með að segja nei og setja fólkinu í kringum okkur mörk.

Þú hefur örugglega kynnst fólki sem gengur yfir þig og allt sem þér er kært. Fólk sem virkar kannski vel í byrjun en fer fljótlega að gera lítið úr þér og því sem skiptir þig máli. Fólk sem jafnvel gerir kröfur til þín sem eru óeðlilegar og óþægilegar. Við erum misnæm á að greina þessa hegðun og því kemst fólk misjafnlega langt með okkur. Síðan eru þættir eins og alkóhólismi, ofbeldi, veikindi eða annað sem getur orðið til þess mörkin okkar færast til og rýmka og ef þetta fær að grassera óhindrað verður það til þess að við vitum ekki lengur hvar nokkuð “eðlileg” mörk liggja í samskiptum. Við verðum meðvirk og förum jafnvel að gera hluti, sem ekki teljast til eðlilegra samskipta, til þess að þóknast öðrum. Hvað er heilagt? Jesús virðist hafa verið nokkuð góður í markasetningum og í dag heyrðum við sagt frá því þegar hann setti mörk og gerði það með látum. Hann upplifði að fólk væri að gera lítið úr því sem honum var kært og því sem honum var heilagt, húsinu sem búið var að helga fyrir tilbeiðslu og helgihald. Hann fékk nóg. Kannski hafði þetta átt sér stað yfir lengri tíma og hann búinn að líta framhjá þessu nokkrum sinnum og látið þetta yfir sig ganga. Í það minnsta er hann gjörsamlega búinn að fá nóg þegar hann kemur þarna í musterið og sér sölutjöldin.

Hvað er þér heilagt? Hvað er þér svo kært að það má ekki sýna því vanvirðingu?

Svörin okkar eru sjálfsagt ólík því það er misjafnt hvað skiptir okkur mestu máli. En það er gott að svara þessum spurningum því stemmingin í samfélaginu okkar í dag er svolítið þannig að við megum alveg gera lítið úr öllu óháð gildi þess fyrir annað fólk. Það eina sem skiptir máli er hvað “mér” finnst. Ef mér finnst kristin trú glötuð og Þjóðkirkjan ömurleg þá má ég alveg segja það með mínum allra ljótasta munnsöfnuði ef ég vil, sérstaklega á netinu. Það sama á við önnur trúarbrögð, fólk, vinnustaði eða bara hvað sem er.

Það er svolítið eins og ekkert sé lengur heilagt í sjálfu sér heldur gildir bara það sem “mér” finnst. “Ég” hver sem ég er, hef alltaf rétt fyrir mér því mér finnst þetta.

Ég hef áhyggjur af þessari þróun og get varla séð fyrir mér hvar hún endar. Það er ekki hægt að níðast stöðugt á því sem er okkur kært. Það kemur að því fólk fær nóg og sýnir það, eins og Jesús gerði þarna í musterinu. Þegar stöðugt er farið yfir mörkin okkar kemur að því að við fáum nóg.

Þetta með markasetningu á nefnilega við bæði í einkalífinu og í opinberri umræðu. Það er bara svo miklu erfiðara að verja sig fyrir opinberum árásum en einkaárásum.

Við megum segja nei!

Við eigum að segja nei þegar okkur er nóg boðið og þegar okkur er misboðið. Það er gott að gera það um leið og farið er yfir mörkin okkar eða í það minnsta frekar fljótlega.

Það er flókið að vera manneskja í heimi þar sem við viljum bara flest gera okkar besta og gerum ráð fyrir að annað fólk vilji hið sama. Við getum þó, því miður, ekki alltaf gengið út frá því, og þá sérstaklega ekki þegar kemur að opinberi umræðu á netinu. Þar er fullt af fólki sem vill okkur bara alls ekki hið besta en líður illa og þarf að fá útrás fyrir því einhversstaðar. Í dag er bara svo auðvelt að ná eyrum fólks og ná athygli ef við erum orðljót og óhefluð í framkomu því fjölmiðlar virðast byggja fréttafluttning sinn í vaxandi mæli á ummælum fólks á samfélagsmiðlum.

Mig langar að biðja þig að íhuga hvað það er sem er þér kært eða heilagt og hvernig þú getir varið það. Mig langar líka að biðja þig að velta fyrir þér hvort eitthvað fólk í lífi þínu sé með þannig framkomu að þú þurfir að setja því skýrari mörk og hvernig sé best að fara að því. Einnig er gott að við veltum fyrir okkur hvort við sjálf höldum okkur innan “eðlilegra” marka í samskiptum í einkalífi eða á félagsmiðlum.

Japanir fara þá leið að bera grímur því þau eiga erfitt með að vera í friði frá fólkmergðinni en við þurfum engar grímur því hér er nóg pláss. Við ættum að geta átt grímulaus samskipti við fólk og umhverfi á þessu litla landi okkar en stundum þurfum við samt hjálp hvers annar til þess að setja mörkin og sjá hvar við megum bæta okkur í markasetningu. Amen.