Pelíkanabörn

Pelíkanabörn

Við erum pelíkanabörn, bitin til ólífs af höggormi dauðans. Ólífisbitið læknar kraftur Guðs í Jesú Kristi, blóð hans sem rann á Golgata.

Að lokinni helgri kvöldmáltíð á Getsemanestundinni hér í Hallgrímskirkju í gærkvöldi var altarið afklætt. Klæði, sem á sér ekki hliðstæðu hér á landi, var samkvæmt venju sett fyrir framan hið afskrýdda altarisborð til myndrænnar íhugunar. Klæðið er svart og á því er mynd af pelíkana sem breiðir út vængi sína yfir börnin sín. Listakonan frú Unnur Ólafsdóttir gerði og gaf kirkjunni þetta klæði. Hökullinn sem prestur skrýðist í dag er einnig hennar gjöf, svartur og á saumað fyrsta vers Passíusálmanna og sex myndir úr píslarsögunni.

Myndin af pelíkananum er fornt tákn píslanna og friðþægingarinnar, eins og frá greinir í messuskránni. Sagan segir að þegar höggormurinn hafði komist í hreiður pelíkanans og bitið ungana þá særði móðirin sig á brjóstinu og lét blóðdropa falla á ungana sína fimm. Og ungarnir lifnuðu við. Þetta sáu kristnir menn sem mynd og tákn um hvernig blóð Krists hreinsar okkur af allri synd – að fyrir benjar hans urðum við heilbrigð (Jes 53.5) og minnir líka á orð Jesú í Matteusarguðspjalli (23.37):

Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi?

Þá þú gengur í Guðs hús inn...

Annað listaverk fangar augað þegar gengið er inn í kirkjuskipið þessa dagana. Það er mynd af bronshurð með mósaikinnlögn sem er í vinnslu í Þýskalandi og verður sett fyrir aðaldyr Hallgrímskirkju þegar framkvæmdum lýkur. Höfundur þessa mikla verks er Leifur Breiðfjörð, sem reyndar á heiðurinn af mörgum listaverkum hér í kirkjunni, meðal annars hinu fagra glerlistaverki sem prýðir stafn kirkjunnar og verður hurðin nýja hluti af þeirri heild. Glugginn dregur heiti sitt af lokaversi Passíusálmanna, sem við syngjum hér á eftir: Dýrð, vald, virðing, og var gefinn til kirkjunnar á síðasta áratug 20. aldarinnar.

Milli hurðar og glugga verður letrað annað vers úr Passíusálmunum, vers sem hangir í ramma yfir dyrunum inn úr forkirkjunni og minnir á hugarfar kirkjugöngunnar sem aldrei skyldi verða endurtekning háðungar lausnarans (Ps 24:9):

Þá þú gengur í Guðs hús inn, gæt þess vel, sál mín fróma, hæð þú þar ekki Herrann þinn með hegðun líkamans tóma. Beygðu holdins og hjartans kné, heit bæn þín ástarkveðja sé. Hræsnin mun síst þér sóma.

Blóð Krists og þyrnikórónan

Að baki listaverki Leifs býr stef föstudagsins langa, blóð Krists og þyrnikórónan. Á dökkum bronsgrunninum gefur að líta blóðrauðan flöt með fléttuðu mynstri kórónunnar sem sett var á höfuð frelsaranum, honum til háðungar (Matt 27.29, Jóh 19.5). Það vopn snérist þó í höndum illgjörðarmannanna sem önnur, eins og sagt var fyrir um í Davíðssálmi 132.17:

Þar læt ég vald Davíðs eflast, Ég hef tendrað lampa fyrir minn smurða. Óvini hans mun ég íklæða skömm En á höfði hans mun kórónan ljóma.

Kórónan, sem ætlað var að undirstrika algjöran ósigur mannsonarins, varð í staðinn sigurtáknið mesta, svo sem lýst er í Opinberunarbókinni (Opb 6.2):

Ég leit upp og sjá: Hvítur hestur. Sá sem á honum sat hélt á boga og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.

Dauðinn og lífið

Þannig verður hvorugt skilið án hins, föstudagurinn langi og páskadagur, krossfestingin og upprisan, dauðinn og lífið. Hér áður fyrr þótti eðlilegt að skíra börn við kistu náinna ættingja. Veit ég þess mörg dæmi og þið áreiðanlega líka. Það er sterkt tákn um hvernig dauðinn á ekki lokaorðið, að lífið heldur áfram - einn kemur þá annar fer.

Enn sterkari en sú hringrás lífsins, fæðing og dauði, er verk Krists á krossinum og vitnisburður hinnar tómu grafar, inn í dauðann og út úr honum aftur. Í hinu mannlega er dauðinn endalokin, síðasta blaðsíða lífsbókarinnar, sagan tæmd, göngunni lokið. Án Krists – ekkert. Aðeins fyrir Krist fæst hið eilífa líf, viðreisnin, gjaldið til dauða að fullu goldið, mistökin bætt, hið brotna gert heilt fyrir blóð hins eina fullkomna á Golgata.

Því þó inntak föstudagsins langa sé stef sorgar og þjáningar bendir þessi dagur áfram, áfram til sigursins, til Lífsins: Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn? (1Kor 15.55). Verum því ekki hrygg eins og hin sem ekki eiga von. Því að ef við trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þau sem sofnuð eru (1Þess 4. 13-4). Verum ekki hrygg eins og hin sem ekki eiga von.

Illskan og andhverfa hennar

Stef þjáningarinnar kemur víða fyrir í listinni, tónlist, myndlist, skáldskaparlist. Í kvikmyndum er þjáning, hatur og dauði oftar en ekki sá þráður sem verkið er fléttað úr, ekki síst þegar byggt er á raunverulegum atburðum. Ég sá á dögunum nýlega mynd þýska leikstjórans Uli Edels um Baader Meinhof-gengið. Þar lýst hörmulegum afleiðingum þeirrar stefnu að berjast gegn ofbeldi með ofbeldi, hvernig hugsjónir sem í fyrstu eru réttlát reiði gegn heimsvaldastefnu og kúgun snúast í andhverfu sína og byltingin étur að lokum börnin sín. Vanmáttur manneskjunnar gegn illsku heimsins, sem birtist bæði í hinum pólitísku kerfum og í andstöðunni gegn þeim, er undirtónn myndarinnar á óþyrmilega ógnvekjandi hátt.

Andhverfa illskunnar er ekki meiri illska, heldur hinn víði og langi, hái og djúpi kærleikur Krists (Ef 3.18), ómælisdjúp elsku Guðs, sem svo elskaði heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf (Jóh 3.16). Svar Guðs við ofbeldi og dauða er að gangast sjálfur undir þau mannlegu kjör, að verða fyrir ofbeldi svo grófu að leiðir til lífláts. Með því er hann bæði þolandi og gerandi, með því að hann sjálfviljugur kýs að þola þær þjáningar sem vöntun kærleikans kallar yfir manneskjuna – og sigrast þannig á illskunni.

Þyrnikórónan

Víkjum aftur að táknmáli listaverksins sem prýða mun inngang Hallgrímskirkju innan skamms. Í Passíusálmunum slæst Hallgrímur Pétursson í för með Jesú á leið hans til Golgata, frá Herrans Kristí útgang í grasgarðinn, það er Getsemane, á skírdagskvöld til greftrunar hans að áliðnum föstudegi hinum langa. Tuttugasti og fjórði sálmurinn, sem vitnað var í hér að framan, fjallar um purpuraklæðið og þyrnikórónuna:

Þyrnikórónu þungri þeir þrengdu að Herrans enni. Báleldi heitum brenndu meir broddar svíðandi´ í henni. Augun hans bæði´ og andlit með allt í blóðinu litast réð, slíkt trúi´ eg kvala kenni.

og í næsta versi:

Þessum bölvunar þyrnikrans þrengt var að höfði lausnarans til huggunar hrelldum manni.

Þyrnikórónan, höfuðfat háðungar og kvala svo augun fylltust blóði, varð til huggunar hrelldum manni. Hvernig má það vera? Jú, segir sr. Hallgrímur:

Guð minn kórónu gaf mér þar gæsku og dýrðar eilífrar hér og á himnum bæði.

Með þyrnikransinum tekur Kristur á sig þjáningu hins hrellda manns, sem fær dýrðar kórónu Guðs í staðinn, huggun gæsku Guðs. Því kvalir Jesú og krossdauði eru kristnum manni lausnarverk: Vorar þjáningar voru það sem hann bar og vor harmkvæli er hann á sig lagði (Jes 53.4) og ávinningurinn er þessi, sem greinir í Passíusálmi 25:

Dýrðar kórónu dýra Drottinn mér gefur þá, réttlætis skrúðann skíra skal ég og líka fá upprisudeginum á, hæstum heiðri tilreiddur, af heilögum englum leiddur í sælu þeim sjálfum hjá.

Komið til mín

Já, páskasólin er aldrei langt undan hjá Hallgrími Péturssyni, hún er innvafin í þjáningagönguna. Í samræmi við það verða einnig letruð á hurðina góðu orð Jesú úr 11. kafla Matteusarguðspjalls (v. 28): Komið til mín. Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.

Komið til mín. Það er lykillinn að voninni inn í drunga og myrkur föstudagsins langa. Það eru þessi orð frelsarans sem ljúka upp helgidóminum, táknmynd himna á jörðu, nærveru Guðs með fólkinu sínu. Aðeins með því að koma til Jesú verður þyrnikórónan hans okkar dýrðar kóróna, aðeins með því að vera honum trú allt til dauða að við munum öðlast kórónu lífsins (Opb 2.10). Það á við um okkur öll, því öll höfum við syndgað og skortir Guðs dýrð (Róm 3.23). Og öll höfum við þurft að erfiða, hvert á sinn hátt, og fundið þunga lífsins, jafnvel verið að sligast undan áhyggjum og áföllum. Við erum pelíkanabörn, bitin til ólífs af höggormi dauðans.

Ólífisbitið læknar kraftur Guðs í Jesú Kristi, blóð hans sem rann á Golgata. Allan daginn breiddi ég út faðminn móti óhlýðnum og þverbrotnum lýð, segir í Rómverjabréfinu (Róm 10.21). Í einni þakkarbæninni í handbók Þjóðkirkjunnar segir í samræmi við þetta:

Hann (þ.e. Jesús) var hlýðinn allt fram í dauða á krossi, þar sem hann útbreiddi sínar helgu hendur, er hann leið, svo að hann mætti dauðann sigra, slíta fjötra satans og frelsa frá glötun alla þá sem trúa og veita oss föllnum hlutdeild í guðdómi sínum.

Blóðugar hendur Jesú, útbreiddar á krossinum eru opinn faðmur Guðs, umvefjandi ást hans til þín og mín. Hvert brot, bæði þau sem við erum völd að og eins hin sem við höfum orðið fyrir, rúmast í þeim faðmi, faðmi fyrirgefningarinnar. Komið til mín.

Þjáningar Jesú

Hér í Hallgrímskirkju verða Passíusálmarnir lesnir í dag svo sem hefð er fyrir. Að þessu sinni verða frumflutt sálmalög þau sem Jón Ásgeirsson, tónskáld, færði kirkjunni að gjöf á föstudaginn langa á síðasta ári. Fimm kórar ásamt stjórnendum sínum flytja fyrsta og síðasta vers hvers sálms og fjöldi lesara annast lestur annarra versa. Flutningurinn hefst kl. 13 og stendur yfir í fimm til sex klukkustundir. Aðgangur er ókeypis og frjálst að koma og fara að vild eins og hvarvetna þar sem Passíusálmarnir eru lesnir í kirkjum landsins í dag, víða í heild sinni.

Ég hvet ykkur til að koma til kirkju og hlýða á lestur sálma þjáningabarnsins frá Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Lýsingar sr. Hallgríms á þjáningum Jesú eru skrifaðar af mikilli innlifun, eins og við heyrðum dæmi um hér að framan. Líkamlegar kvalir frelsarans hafa verið nánast óbærilegar, frá stingandi þyrnum kórónunnar og húðstrýktu bakinu til naglanna sem reknir voru í gegn um hendur og fætur. Í kvölum sínum leið Jesús með öllum þeim sem ofbeldi eru beitt, inni á heimilum, á götum úti, þeim sem þjást vegna hungurs og styrjalda. Og í háðunginni sem hann var beittur birtist samlíðan frelsarans með öllum sem verða fyrir einelti, tilfinningalegu ofbeldi og kúgun hvers konar.

En dýpsta kvölin sem Jesús Kristur leið á krossinum var ekki sú sem hann fann á líkama sínum eða sál. Kvölin mesta var hin andlega kvöl, hin óbærilega sorg Guðs yfir orsök allra þjáninga, aðskilnaði mannsins frá vilja hans, hinu góða, fagra og fullkomna, sorgin yfir verki djöfulsins í heiminum, verki grimmdarinnar, ljótleikans, ófullkomleikans. Og lausnarverkið var unnið öllum til handa, fyrir pelíkanabörn allra tíma, alla syndara sem uppi höfðu verið eða fram mundu koma, allt frá upphafi veraldar til endaloka tímans, fyrir þig og fyrir mig.

Horfum til krossins í dag og alla daga, hugdjörf með séra Hallgrími (Passíusálmur 25: 10):

Út geng ég ætíð síðan í trausti frelsarans undir blæ himins blíðan blessaður víst til sanns. Nú fyrir nafnið hans út borið lík mitt liðið leggst og hvílist í friði. Sál fer til sæluranns.