Draumur og hamingja

Draumur og hamingja

Kvikmyndafyrirtækið Dreamworks verður líklega selt. Þannig fer fyrir draumaiðnaðinum, hann gengur kaupum og sölum. En enginn getur selt eða keypt drauma okkar og vonir. Óskir ungs fólks í Nessókn voru ræddar í hugleiðingu 21. ágúst 2005. Stefna þeirra vermir, þau veiða hamingjuna í lífinu með svona afstöðu.

Hvað dreymir þig? Áttu þér draum? Kannski drauma? Hvað hindrar að þeir rætist? Getur verið að þú getir og ættir að leyfa þeim að rætast? Martin Luther King átti sér draum. Hann skrifaði sinn draum á blað og bar hann fram. Draumur hans er að rætast þó hann njóti hans ekki sjálfur. Þegar ég heyri fólk segja frá draumum sínum sperri ég eyrun. Ég hef reynslu af, að fólk sem leyfir sér að dreyma og setur sér markmið, setur kompásinn sinn, sér drauma sína rætast að miklu og stundum öllu leyti. Draumar eru sterkir, en aðeins í fólki sem vitjar drauma sinna, tjáir þá og vinnur að þeim og úr þeim.

Sumarnámskeið

Fermingarfræðslan er hafin eins og sjá má hér í kirkjunni. 110 fermingarbörn komu eins og sólargeislar inn í kirkjuna á mánudaginn var og voru síðan á sumarnámskeiði alla liðna viku. Síðan koma þau hingað í dag og með þeim foreldrar og fjölskylda. Öll eruð þið velkomin í Neskirkju, nú og ævinlega.

Fermingarfræðslan hér í Neskirkju hefur notið hylli. Athyglisvert er að prósentuhlutfall hvers árgangs, þ.e. þeirra sem sækja fermingarfræðslu hér, hefur ekki lækkað, jafnvel hækkað. Það er ótrúleg þróun á sama tíma og fólki fjölgar hér, sem er ekki í þjóðkirkjunni. Við gleðjumst yfir að þjónusta kirkjunnar nýtur þessarar hylli. Sumarnámskeiðin hafa heppnast afar vel. Nær öll börn sem skráð eru í þjóðkirkjunni sækja námskeiðin. Erlendis fækkar fermingarbörnum stöðugt en hér í þessum söfnuði fjölgar þeim. Það er íhugunar og þakkar virði. Það hefur verið vel staðið að fræðslunni undanfarin ár. Að öllum ólöstuðum getum við helst þakkað Rúnari Reynissyni árangurinn. Hann hefur umsjón með námskeiðinu og verið vakinn og sofinn að bæta það. Gefum honum klapp.

Hvernig var nú þessi stóri hópur? Þau hafa verið vinnufús og snögg. Hlátrar þeirra hafa hljómað, auðvitað líka óp sem og kurteisar spurningar og svör. Þau hafa gengið inní þennan helgidóm og fræðslu með opnum huga og sjálfstæði. Þau hafa skrúblulaust sungið sálma og leyft bænum að fljúga. Einn daginn fórum við í Skálholt og svo var sýslað og frætt í þessum stórkostlegu húsakynnum Neskirkju, sem er safnaðarstarfinu svo gjöfult umhverfi. Flatirnar í kringum kirkjuna urðu lífsins tún, þar voru sum að skrifa bænir eða að leikjum. Hópurinn small saman. Þau, sem voru uppburðarlítil á mánudegi, voru æði brött á föstudegi. Auðvitað þurftum við stundum að byrsta okkur og það hvein jafnvel í.

Friðrik Prússakonungur á að hafa sagt á sínum tíma – og margir endurtekið síðar - að því betur sem hann kynntist mönnunum því betur kynni hann að meta hundinn sinn! En ég segi öfugt við þá yrðingu: Því fleiri ungmennum, sem ég kynnist í Vesturbænum því styrkari verður trú mín á framtíð þjóðarinnar. Þið foreldrar fermingarbarna árgangsins 2006 megið vera stolt af ykkar fólki. Þið fermingarkrakkar eruð frábær. Þið eruð algjör draumur.

Þrá fermingarbarna

Átt þú þér draum? Hvað heldur þú að fermingarbörn hér í Nessöfnuði þrái mest? Eitt af mörgum verkefnum sumarnámskeiðsins var, að krökkunum var ætlað að huga að sínum innri manni, sækja djúpsettar langanir niður í vitundina og setja á blað. Þau máttu skrifa allt að fimm drauma á blaðið sitt. Ég ímyndaði mér að svörin yrðu sundurleit. Þau svöruðu með einlægni og sýndu, að þau bæði bera virðingu fyrir sjálfum sér og hinu kirkjulega samhengi. Enginn skrallaði með mikilvæg mál eða sneri út úr.

Það var auðvitað sitthvað kúnstugt sem kom fram. Fimm vildu leggja fyrir sig áhættuleik og hasaríþróttir og þrjú nefndu drauminn um að verða mjó og sæt. Hestar og hundar voru ofarlega á óskalista nokkurra. Einn vildi verða frægur fyrir að hjálpa fólki og svo kom fram löngun til hjálpar-og trúboðsstarfs. Nokkur stundu upp þeirri ósk, að þau mættu njóta meiri ástar síns eigin fjölskyldufólks. Slíkt stingur í hjartað. Eiga ekki fermingarbörn rétt á elsku síns fólks? Jú, svo sannarlega.

Hefðbundin draumastörf kynjanna eru á undanhaldi og menntunareinbeitnin skýr. Engar flugfreyjur framtíðar eru í hópnum og engir alþingismenn heldur, alla vega ekki í svörunum. En atvinnumenn og afreksmenn í íþróttum verða 39 í þessu draumaliði Nessóknar. KR þarf ekki að örvænta í framtíðinni þó illa ári nú í karlafótboltanum. Sautján stefna á frama í kvikmynda-, leikhús- og sjónvarps-geiranum. Sjö verða læknar ef allt gengur eftir og fimmtán listamenn í ýmsum greinum, en engir prestar hvað sem veldur! Sjö vilja verða góðar manneskjur og er það ekki dásamleg stefna fyrir lífið?

Tólf nefna, að þau vilji gjarnan búa erlendis um tíma. Nokkur bera kvíðboga gagnvart Hagaskólanáminu og óska að veran þar verði skemmtileg og til góðs.

Og hvað svo með hin dýpri gæði, sem boðuð eru á sumarnámskeiði, í starfi kirkjunnar, prédikun og á kyrrðarstundum sálgæslunnar? Þau voru þrjátíu og tvö sem nefndu, að þau vildu verða rík. En hið merkilega er, að samfara fjársókn kemur líka fram hjá börnunum sterk umhyggja gagnvart öðrum börnum þessarar jarðar. Sami fjöldi og sækir í ríkidæmi vill, að allir jarðarbúar hafi nóg og fái fullnægt grunnþörfum sínum. Krakkarnir umspenna því alla veröldina með kærleiksfaðmi sínum. Og enn fleiri, eða 34, biðja um frið, að hernaði linni og styrjaldir hætti. Náttúruvernd var mörgum ofarlega í huga. Siðferðis-vitund og áhersla er því greinileg.

Fjölskyldan og hamingjan

En hvað skyldi vera það, sem oftast er nefnt? Svarið er: Hið góða líf, góð fjölskylda, góður maki og hamingjan. Hver miðinn á fætur öðrum, um 60%, tjáir þær langanir að fjölskyldan verði hamingjusöm, öllum líði vel og að í framtíðinni verði góður maki og gjöful fjölskylda. “Mig dreymir um góða fjölskyldu.” “Mig dreymir um að vera hamingjusöm í framtíðinni.” “Ég vil verða hamingjusamur.” “Mig dreymir um, að vera hamingjusöm til æviloka.” “Mig dreymir að eignast góðan mann.”

Æfum elskuna – iðkum hamingju

Fermingarbörn 2006 eru fjölskyldu- og hamingju-fólk. Draumarnir eru raunverulegir og öll þessi draumablöð, sem voru skrifuð á föstudeginum voru lögð á altarið áðan og fyrir þeim mun sr. Örn Bárður biðja í almennu kirkjubæninni. Sem foreldrar þurfum við að staldra við og spyrja um þarfir, stöðu og stuðning. Við þurfum að staldra líka við og hafa síður áhyggjur af dótinu, sem markaðssamfélagið vill dengja yfir okkur öll.

Unglingurinn þinn þráir góða fjölskyldu, góða menntun, góða framtíð, hamingju en ekki bara dót. Kannski er það íhugunarvirði þennan vetur. Æfðu þig í elskunni. Iðkaðu hamingjuna heima fremur en að úthella þér í að vinna fyrir útgjöldum vegna fermingar. Eigðu tíma við eldhúsborðið í hjal og spjall, tíma fyrir flæði elskunnar.

Miðjan

Við spyrjum fermingarbörnin gjarnan hver sé miðjan í kirkjunni. Þau hugsa hratt og svara skjótt að það sé altarið. Hvað er altari annað en borð og hefur þú tekið eftir að borð er miðja kristinnar kirkju? Veruleiki borðsins er að fólk kemur saman, að elskan teygir sig til annarra, að þeim er boðið inn í hringinn, meðteknir, viðurkenndir sem eru boðnir til veislu og til borðs. Þannig er veruleiki Guðs. Guð býður elsku sína, býður viðurkenningu sína, býður til sambands við sig. Guð hefur tíma, ber í sér þessa elsku, kann að hlusta á þig og vill starfa að því að draumur þinn rætist.

Ég sá í erlendum fjölmiðlum fyrir skömmu, að kvikmyndafyrirtækið Dreamworks þeirra Steven Spielberg og félaga ætti í rekstrarerfiðleikum. Svo sagði Mogginn frá því í gær, að líklega yrði fyrirtækið selt. Þannig fer fyrir draumaiðnaðinum, hann gengur kaupum og sölum. En það er enginn sem getur selt eða keypt þína drauma. Þú átt þá og er talsvert miklu leyti á þínu valdi hvort þeir rætast. Draumarnir eru ríkulegir í þessum stóra hóp hér í dag.

Kannski er það merkilegasta, að stærstu og flottustu draumarnir eru í vitund Guðs, sem dreymir þessa veröld, dreymir þig án afláts, dreymir ský og regn, hjartslátt þinn, líf þitt, að þú og allur þessi mannsöfnuður verði hamingjusöm, njóti elsku, njóti allrar þeirrar spennu elskunnar sem möguleg er. Þess vegna störfum við hér, bjóðum þér til þessarar himnesku veislu, sem við köllum altarisgöngu. Þar gengur þú inn í draum Guðs um elskuna, um hamingjuna, um vonina, trúna. Þar gengur þú inn í drauminn þar sem allt er mögulegt og þú ert elskaður og elskuð. Þar er magnaðasta draumaverksmiðja raunveruleikans og framtíðarinnar.

Amen

Eftirmáli.

Nágranni minn benti mér vinsamlegast á að ég væri ekki búinn að setja prédikun sunnudagsins inn á síðuna mína. Þetta var í gærkvöldi, á þriðjudagskvöldi. Hann hafði verið í kirkju og ætlaði að kíkja ræðuna en gripið í tómt. Það er nú gott fyrir prestinn að fá svona hvatningu, fólki er ekki sama um hvað sagt er, það vill lesa aftur það sem það heyrði prestinn segja. Það er eftirspurn eftir prédikun! Ég sé það á töluupplýsingunum að sumar prédikanirnar eru mikið lesnar. Það koma margir í kirkju og tölvusöfnuðurinn er risastór. Takk Magnús fyrir að krefja mig um prédikun á vefnum líka. Þetta hvetur til dáða!