Málmur, fólk og Andinn

Málmur, fólk og Andinn

Listakonan Steinunn Þórarinsdóttir hefur gert marga stórkostlega skúlptúra. Einn er í Kópavogskirkju, tveir í miðbænum, einn við Sandgerði, annar við Bjarnastaðavör, en sá besti er við Kristskirkju.

Listakonan Steinunn Þórarinsdóttir hefur gert marga stórkostlega skúlptúra. Einn er í Kópavogskirkju, tveir í miðbænum, einn við Sandgerði, annar við Bjarnastaðavör, en sá besti er við Kristskirkju.

Listaverk á torginu fyrir framan HallgrímskirkjuÉg minnist þess þegar ég var einu sinni á göngu við Landakotsspítala. Sól skein og skyndilega sá ég útundan mér að hin þokkafulla og bljúga Madonnu-nunna logaði. Sólin skein í gegnum veruna og krossmark ljómaði á brjóstinu. Ég var sem numinn til himna, varð fyrir handanreynslu. Síðan hef ég metið Steinunnarverk mikils og vil sjá þau og upplifa. Þau eru skýr og einföld en jafnframt flókin og margþætt. Hið einfalda yfirborð er sem hafflötur millar dýptar.

Nú hefur Steinnunn í samvinnu við Listvinafélag Hallgrímskirkju opnað stórsýningu í kirkjunni og á Hallgrímstorgi. Á torginu er málmfólk að koma og fara frá kirkjunni. Allt í einu staldrar venjulegt mannfólk við á þessu fallega en þó líflitla torgi. Á bekkjunum sitja nokkrar málmverur. Ferðamenn og innlendir setjast við hlið þeirra og brosa.

Þetta eru kætandi þáttökuskúlptúrar, sem tjá sterkt leit mannsins að samastað í tilverunni. Í nýmálaðri, hvíttaðri forkirkju eru gipslíkamar. Enginn þeirra er heill í rýminu, eins og farnir inn í múrinn eða á innleið. Margar túlkanir þeirra eru mögulegar. Ein er að hér megi greina útgáfu af hinum biblíulega boðskap, að manneskjan sé sambreyskingur heima. Með eilífð í brjósti, en á för í tíma, vera af þessum heimi og öðrum einnig.

Inn í kirkjunni situr svo ein málmveran á aftasta kirkjubekk með sálmabók sér við hlið - og eins og í djúpri kyrru. Það er einkennilegt þegar kirkjugestir verða svona fjölbreytilegir. Það eru englar í kirkju, lifandi mannfólk og málmmenn. Kirkjan opin öllum!

Þetta er flott sýning, borginni, kirkjunni og ekki síst Steinunni Þórarinsdóttur til sóma. Einhvers staðar er svo Jón Ársæll í þessu öllu saman, alla vega eins og verkaþræll eins og hann orðaði það sjálfur. Hann styður sína konu vel í listiðjunni. Steinunnarsýningin er stórsýning, sem laðar, vekur, örvar, pirrar og gleður og er því fullkomlega í samræmi við tímann og hátíð Andans og vaxtartímann sem á eftir fer. Af hverju eru allir skúlptúrnir á leið frá kirkjunni rauðir? Er það ekki af því að þeir eru tákn fyrir alla þá sem hafa orðið fyrir úthellingu Andans. Alla vega getur maður ímyndað sér það á Hvítasunnu.