„Í dag erum við öll Norðmenn“

„Í dag erum við öll Norðmenn“

Við eigum að láta það heyrast hátt og skýrt að kynþáttahatur, tortryggni gagnvart útlendingum, já og fordómar gegn trúarbrögðum verði ekki liðið. Að hvers kyns ofbeldi er ólíðandi.

Í djúpum harmi og einlægri hluttekningu söfnumst við hér. Við höfum heyrt heilagt orð og farið með játningu trúarinnar. Játningin er svar hjartans við því sem trúin heyrir. Við heyrðum lesna texta úr hinni helgu bók. Allir fjalla þeir um játningu trúar. Þegar áföllin verða og harmurinn sækir að þá vegur það að trúnni við hjartarætur. Lexían er úr bók Jeremía, harmljóði hans er hann hafði örmagnast frammi fyrir ógn og ofsopa ofsækjenda sinn. Það var gott að heyra uppörvun og hvatning Drottins til hans. Við þurftum öll á því að halda, þau eru eins og töluð til okkar og allra sem skelfast ógn og hatur heimsins, þessi orð: „.... ég er með þér,  ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn. Ég bjarga þér úr höndum vondra manna  og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.“  Síðari lesturinn er um Pál, ofstopamanninn og ofsækjandan þangað til Jesús, hinn krossfesti og upprisni gekk í veg fyrir hann og kallaði hann til að vitna um ljós og frið og frelsi fagnaðarerindisins. Og það gerði Páll. Það var hann sem ritaði einhver fegurstu orð sem við eigum um gleði og frið. Það var hann sem lyfti fram þeirri opnu samfélagssýn sem ekki hefur látið heiminn ósnortinn síðan: „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ Og það var Páll sem ritaði óðinn um kærleikann, sem við þekkjum öll og unnum: „Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.“

Og svo heyrðum við guðspjallið sem er um játningu Péturs, fiskimannsins fljótfæra og hugmikla. Sem í gleði og sigurvissu var fús til að játa trúna á Krist en andspænis ógn og hættu og hæðnisglotti heimsins, var fljótur að falla frá og afneita. Hann sem var í mun að leiðrétta frelsarann og forða honum frá ógöngum krossins, og verja Drottinn, jafnvel með sverði. Við heyrum hvernig Jesús áminnir hann. Það er gott að vera minntur á að okkar kristna trú er ekki trú með allt á hreinu. Og það er ekki okkar að verja Guð og hafa vit fyrir frelsaranum. Við erum fæst með allt á hreinu, flest okkar með hik og efa og hálfvolga skoðun, breyskar manneskjur, en við megum reiða okkur á þann mátt sem aldrei bregst. Játning Péturs er í fullu gildi: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ Kristin trú er að staðsetja sig á kletti þeirrar játningar í áföllum og ágjöfum daganna.

Við höfum safnast saman hér í dómkirkjunni í dag til að tjá norsku þjóðinni samstöðu og samhug andspænis þeim ólýsanlega hryllingi sem voðaverkin í Oslo og Úteyju eru. Héðan úr dómkirkju landsins sendum við norsku þjóðinni hugheilar kveðjur hluttekningar og samúðar. „Í dag erum við öll Norðmenn,“ sagði forsætisráðherra Svíþjóðar, og það er vel mælt. Við erum öll harmi lostin og finnst að okkur sjálfum vegið.  Grimmdin og hatrið sem að baki voðaverkunum býr er óskiljanlegt. Að einn ofbeldismaður skuli hafa áorkað slíku hermdarverki, úthugsuðu og djöfullegu grimmdarverki gegn saklausu fólki er óskiljanlegt og ægilegt. Við finnum lamandi ótta og öryggisleysi er við hugsum til þess hvers hatrið er megnugt nái það að blinda huga manns og virkja til voðaverka. Og það hve ógnin stendur okkur nærri, jafnvel hér í þessum friðsæla heimshluta, þar sem við höfum talið okkur örugg og óhult í okkar opna og góða samfélagi á grundvelli kristinna gilda.

 Hinn ungi ofbeldismaður er sagður haldinn reiði vegna afstöðu norskra yfirvalda til innflytjenda. Manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds af tilhugsuninni um að einn maður skuli geta fyllst svo mikilli reiði og hatri að hann geti réttlætt svona hræðilegan glæp útfrá hugmyndfræðilegum markmiðum sínum. Það hefur reyndar verið áhyggjuefni á Vesturlöndum, hvers kyns daður við fordóma og hatur og dýrkun á ofbeldi. Það er grafalvarlegt. Við berum þar öll ábyrgð. Svo margt í okkar menningu og samskiptum hefur borið vitni um agaleysi, ábyrgðarleysi og virðingarleysi í orðum og athöfn. Virðingarleysið getur af sér kaldhæðni og kaldhæðnin nærir reiði, fyrirlitningu og hatur. Við berum skyldu til að vinna gegn því hugarfari og afstöðu. Við eigum að láta það heyrast hátt og skýrt að kynþáttahatur, tortryggni gagnvart útlendingum, já og fordómar gegn trúarbrögðum verði ekki liðið. Að hvers kyns ofbeldi er ólíðandi. Hér þurfum við öll að taka höndum saman í uppeldi til lýðræðis, uppeldi og mótun til virðingar fyrir öðrum, mótun menningar kærleika og friðar, í ræktun hins opna, góða samfélags.

Þegar reiðin og hatrið blindar huga manns er voðinn vís. Andstæða reiðinnar er sljóleikinn gagnvart rangindum og illsku. Hvort tveggja skulum við forðast. Reiðin er einatt viðbrögð öryggisleysis, varnaleysis og ótta. Hvað yfirvinnur óttann? Það er kærleikurinn. Martin Luther King sagði: „Hatrið og beiskjan megna aldrei að lækna óttann. Það gerir kærleikurinn einn. Hatrið lamar lífið og fjötrar, kærleikurinn leysir það úr viðjum. Hatrið ruglar, kærleikurinn skapar samhljóm, hatrið myrkvar, kærleikurinn lýsir upp.“ Hin óskiljanlegu grimmdarverk í Noregi hafa afhjúpað grundvallar varnarleysi okkar, bæði sem einstaklinga og samfélag.  Hatrið og hefndin mega ekki ná undirtökunum, óttinn og varnaleysið mega ekki lama hið opna samfélag. Það er markmið hefndarverkamannsins. Látum hann ekki ná markmiðum sínum!

Það er reyndar einhver dýrmætasti lærdómurinn sem við getum dregið af þessum voðalega atburði, hvernig fólk hefur brugðist við með samstöðu og umhyggju fyrir hvert öðru og staðfestir þannig gildi og veruleika hins opna lýðræðislega samfélags.  Og eins og einhver sagði í gær, úr því að einn maður, gagntekinn hatri gat áorkað öðru eins til ills, hversu miklu gæti ekki samstaða hinna ótal mörgu í kærleika komið til leiðar! Styrkjum ásetning okkar og vilja til að taka höndum saman við allt góðviljað fólk í baráttunni fyrir því opna og góða samfélagi þar sem virðing og náungakærleikur, mannúð og miskunnsemi ráða för.  

Í kirkjum Íslands og Noregs, já og um öll Norðurlöndin, safnast fólk saman í dag.  Kirkjan, athöfn hennar og iðkun á mikilvægu hlutverki að gegna í norrænum samfélögum, opnir helgidómar og iðkun sem á sér djúpar rætur í minningu og menningu kynslóðanna, og tjáir tilfinningar sem okkur öllum eru sameiginlegar, hver svo sem trúarafstaða og skoðanir eru. Við tjáum sorg, samhug og fyrirbæn. Við minnumst þeirra sem létu lífið og þeirra sem lifðu hryllinginn af og takast nú á við afleiðingarnar, þjánginu, sorg og söknuð.  Og við  heiðrum þau sem á þessum skelfilegu tímum sýna kærleika og hugrekki í því að hjálpa og líkna þeim sem líða og þjást. Í bæn okkar biðjum við um visku til handa stjórnvöldum og leiðtogum norsku þjóðarinnar og öllum þeim sem bera ábyrgð á öryggismálefnum og löggæslu.  Og við tjáum virðingu okkar og vinarþel og réttum norskum vinum og grönnum og samferðarfólki hollan huga og hlýja hönd samstöðu og fyrirbænar andspænis ógn og ótta. Hér eru bænaljós á borði þar sem við getum tendrað ljós til að tjá samhug og bæn. Dómkirkjan verður opin í dag fyrir alla sem hingað vilja koma og gera bæn sína, tendra ljós eða eiga kyrrðarstund. Séra Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur og sr Sigrún Óskarsdóttir verða hér til viðtals til kl fimm. 

Við heyrðum hvatning Guðs er hann mælti við harmi lostinn vin sinn: „.... ég er með þér,  ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn. Ég bjarga þér úr höndum vondra manna  og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.“  Sá sem þar talar er Kristur, sonur hins lifanda Guðs. Hann er með okkur, hjálpar og frelsar, hann er mátturinn sem þjáist í samlíðan með þeim sem líða, sem gekk í dauðann fyrir okkur öll, og sem reis af dauðum og lifir. Máttur hans mun sigra alla ógn og alla vá. Fyrirætlanir hans eru fyrirætlanir fyrirgefningar en ekki endurgjalds, friðar og  réttlætis, lífs og gleði. Og sú vitund og vissa ber uppi von okkar og trú. Áhyggjur allar og kvíða, sorg og söknuð og órólegar hugsanir fáum við að leggja í hendur hans. Þær hendur  eru merktar sárum krossfórnarinnar. Hann þekkir sárin lífs og sálar. Og hann mun vel fyrir sjá.   Hér á eftir munum við syngja huggunarsálminn, „Á hendur fel þú honum.“ Síðan mun sendiherra Noregs, Dag Werno Holter, flytja ávarp.

Ærede ambassadör, kjære  norske venner som deltar her i dag.  På den islandske kirkes vegne vil jeg kondolere og uttrykke vor dype sorg og sterke samhörighet med det norske folk overfor denne fryktelige tragedi. Vi ber om Guds nærvær med dem som lider,  styrke og kraft til alle de som hjelper og tröster. Guds nåde og fred være med dere alle. Og som dagens tekst sier:„...jeg er med deg, jeg vil frelse deg og fri deg ut, lyder ordet fra Herren. Jeg vil berge deg ut av de ondes hånd og fri deg fra voldsmenns grep.“ Ritningarlestrar: Jer. 15. 19-21    Post. 26. 12-20   Matt. 16. 13-26