Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig

Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig

Í dag, á föstudaginn langa, staðnæmumst við á Golgatahæð, horfum á krossinn, virðum fyrir okkur hann sem leið - tók út þjáningu og kvöl vegna kærleikans. Stemningin við krossinn var undarleg, fólk stóð í tveimur flokkum, hermennirnir, annars vegar, sem spottuðu hann og hæddu, og hins vegar vinir Jesú, sem fylgdu honunm alla leið, meðal annarra móðir hans María, móðursystir hans, María og María Magdalena.
fullname - andlitsmynd Jón D Hróbjartsson
06. apríl 2007
Flokkar

Þá seldi hann þeim hann í hendur, að hann yrði krossfestur. Þeir tóku þá við Jesú.

Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata.

"Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar; Jesús í miðið."

Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA.

Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku.

Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.

Pílatus svaraði: Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað.

Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr.

Þeir sögðu því hver við annan: Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann. Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn.Þetta gjörðu hermennirnir.

En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena.

Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: Kona, nú er hann sonur þinn.

Síðan sagði hann við lærisveininn: Nú er hún móðir þín. Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: Mig þyrstir.

Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum.

Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: Það er fullkomnað. Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann. Jóh. 19.16-30

Þeir tóku Jesú og krossfestu hann.

Í dag, á föstudaginn langa, staðnæmumst við á Golgatahæð, horfum á krossinn, virðum fyrir okkur hann sem leið - tók út þjáningu og kvöl vegna kærleikans.

Stemningin við krossinn var undarleg, fólk stóð í tveimur flokkum, hermennirnir, annars vegar, sem spottuðu hann og hæddu, og hins vegar vinir Jesú, sem fylgdu honunm alla leið, meðal annarra móðir hans María, móðursystir hans, María og María Magdalena.

Frá vörum Jesú komu orð, bænir og andvörp, sem síðan hafa fylgt kristninni, “sjö orð Krists á krossinum” - eru setningar sem í raun draga saman líf og starf Jesú, undirstrika boðskap hans í meitluðum setningum og andvörpum. Fyrst þetta: Faðir fyrirgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gjöra, hann grét yfir vonsku mannanna, vantrú þeirra, þegar þetta gerðist og alla tíð síðan. Með sínum spámannlegu augum, sá Jesús vonskuna, illskuna í allri sinni stærð fyrr og síðar, hann sá synd mína og þína.

Náttúran stundi við, það varð myrkur um miðjan dag, það reið jarðskjálfi yfir, fortjald musterins rifnaði í sundur, ofanfrá og niður. Áhrifaríkar myndir sem guðspjöllin draga upp. Fortjaldið rifnaði, hið allra helgasta kom í ljós, ekki bara inni í helgidóminum, heldur einnig þarna úti á Golgatahæð, - þar kom hið allra helgast í ljós, hinn fórnandi kærleikur, hinn fullkomni kærleikur, elskan sem ekki spyr um kostnaðinn, ástin, sem ekki spyr um endurgjaldið. Kærleikurinn á engin önnur vopn en kærleikann.

Stundum vildum við kannski sjá eitthvað, einhvern sem á róttækan hátt gæti rutt illskunni úr vegi, þjáningunni, hungrinu, styrjöldunum, - en hvernig? Jesús notaði ekki vopn, hann notaði ekki heldur, það sem er annars svo nálægt okkur , - skeytingarleysið um aðra, hugsunarleysið, öfundin, hefndin, ofbeldið. Öllu þessu afneitaði Jesús, hann bjargaði ekki sjálfum sér, hann gekk alla leið inn í þjáninguna, inn í svartasta myrkur angistar og ótta, alla leið inn í dauðann. Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig, - hann reyndi á öllum sér að vera yfirgefinn, hann upplifði glötunina.

Glíma Jesú á krossinum er dýrmæt fyrir okkur. Sr. Hallgrímur yrkir um þetta m.a.

Hvað stillir betur hjartans böl En heilög Drottins pína ´og kvöld? Hvað heftir framar hneyksli og synd En Herrans Jesú blóðug mynd.

Á krossinum upplifir Jesús hinar stríðustu mannlegu tilfinningar sem hægt er að hugsa sér. Margir eiga þessa reynslu þjáningarinnar í einhverri mynd.

Um daginn heyrði ég samtal við unga konu í norska sjónvarpinu, þetta var ung kona, vel menntuð, kristin var hún, en hún sagði frá mjög erfiðri reynslu, hún hafði fengið krabbamein og stuttu síðar hjartaáfall, í framhaldi af því gekk hún í gegnum uppskurð og meðferð. Það varð eins og jarðskjálfti í lífi hennar, það hrundi allt, hún sá bara svartnættið, - hún missti trúna á Guð, gat ekki beðið bænirnar sínar. En hún bætti við, ég átti marga góða að, ættingja og vini sem ég vissi að báðu fyrir mér og hún gat sagt við þá, - ég bið að heilsa Guði. Andlegir og líkamlegri kraftar hennar voru á þrotum, hún var sem lömuð. Eflaust líður mörgum einmitt svona í dag. Þessi ágæta kona sagði síðan frá því hvernig hún smátt og smátt fór að ná heilsu og kröftum að nýju, feta sig upp úr djúpa dalnum, en upplifði aftur og aftur að hún hrasaði, missti takið og féll niður og varð að byrja upp á nýtt. En í þessu samhengi fann hún aftur trúna, kannski í breyttri mynd, hún eignaðist þessa reynslu, að þegar hún féll niður klettavegginn, þá hafnaði hún í faðmi sem umvafði hana, faðmi sem hún kaus að kalla faðm Guðs, hönd Guðs. Margar frásagnir eru til, sem segja þessa sömu sögu hinnar þungbæru reynslu þjáningar og sorgar, sögu efasemda, vantrúar, uppgjafar, en einnig þessa lífsreynslu trúar og vonar, sem felst í því að okkur smátt og smátt tekst að halda í þau gildi sem hafa sýnt sig að duga í lífsins ólgusjó.

“Mig þyrstir”, - þriðja orð Krists á krossinum, jú líkami hans kallaði á vökva, hann þjáðist raunverulegri mannlegri þjáningu, en ekki aðeins líkamlega, hann þjáðist andlega, hann þyrsti í að sjá mennina gráta yfir sjálfum sér, sjá synd sína og skömm, já, sjá að hann var kominn, frelsarinn eini og sanni til að leysa okkur undan valdi syndar og dauða. Hann þyrsti allt sitt líf í að hjálpa, elska, uppörfa, gleðja og frelsa.

Á enskri tungu er föstudagurinn langi kallaður ”the good friday” , góði föstudagurinn, vegna hvers?, jú vegna þess að hið góða, hið eiginlega góða, fullkomna, hið allra helgasta varð svo augljóst, - þorstinn í að elska og bjarga, - “faðir fyrirgef þeim”, - “ kona, nú er hann sonur þinn”, “Jóhannes, nú er hún móðir þín”, - umhyggjan kom í ljós, gildi fjölskyldunnar var dregið fram, gildi samfélagsins, hins kærleiksríka samfélags.

“Í dag, skaltu vera með mér í Paradís”, þetta fékk svo hinn iðrandi illvirki að heyra, - Kraftur fyrirgefningarinnar, blessun himinsins var að brjóta sér farveg inn í mannheim.

Æðsta krafa kærleikans frá sjónarhóli Jesú er að elska óvin sinn. Þetta hefur þvælst fyrir mörgum. Oft hef ég spurt í fermingarfræðslunni: Krakkar, er þetta hægt, er hægt að elska óvin sinn. Svörin láta yfirleitt aldrei standa á sér, þau svara strax, “nei, það er ekki hægt, - glætan!” Þetta hefur síðan iðulega orðið stökkpallur inn í mjög góðar umræður um fyrirgefninguna og það hvernig Jesús bæði prédikaði og sýni í lífi sínu og starfi að þetta er hægt. Sáttargjörð og fyrirgefning er kannski á undanhaldi í menningu okkar. Það sýnir sig alltént, að þetta er jafn erfitt í dag eins og á öllum öldum, flokkadrættir verða, borgarsamfélög og heilu þjóðirnar klofna í ólíkar fylkingar vegna mála sem ekki er hægt að semja um. Hatrið verður svo sárt og vont, að við eygjum ekki möguleikann á fyrirgefningu og sátt. Faðir fyrirgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gjöra, - reynum að læra af Jesú, reynum í dag að læra af þessum hnitmiðuðu setningum, sem hann andvarpaði frá krossins tré.

“Gegnum Jesú helgast hjarta í himininn upp ég líta má.”

Á föstudaginn langa, á þeim góða föstudegi var fortjaldi himins svift frá, eilífa lífið kom í ljós, líka fyrir okkur.

Það er fullkomnað, - Jesús fór alla leið og bað andlátsbænina góðu: Í þínar hendur fel ég anda minn.

Sr. Hallgrímur orti út frá þessu orði:

Minn Jesús, andlátsorðið þitt Í mínu hjarta´ eg geymi, Sé það og líka síðast mitt Þá sofna´eg burt úr heimi. Þetta megum við gera að kvöldbæn okkar á hverju kvöldi, þetta megum við gera að andlátsbæn okkar, - vitandi að einmitt þannig er GUÐ, - faðir og bróðir, hann umvefur mig á bak og brjóst, alltaf, - um alla eilífð.

Dýrð sé Guði föður syni og heil. anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Meðakið postulega blessun: Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.