Aldarminning á aðventu

Aldarminning á aðventu

Fyrsta ljósið á aðventukransinum minnir á spámennina, sem sögðu fyrir um komu frelsarans. Öll vísa aðventuljósin á hann, komu hans og nánd, sem það Orð Guðs, sem skapar, endurleysir og lífgar. Kirkjuárið byrjar sem endranær á þessum Drottins degi. Það fer á undan almanaksári og fellur ekki að því. Það vísar til þess að kristin kirkja er í heiminum en þó ekki af þessum heimi.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen. ,

Slá þú hjartans hörpu strengi, hrær hvern streng, sem ómað fær. Hljómi skært og hljómi lengi, Hósíanna nær og fjær.

Söngsystur úr Kór Hafnarfjarðarkirkju frá fyrri tíð hófu þessa hátíðarmessu á 1. sd. í aðventu með því að syngja lagið hrífandi eftir Johan Sebastian Bach er hljómar nú víða um hinn kristna heim og slær og gefur upphafstóna aðventunnar, sem boðar komu hjálpræðis Guðs og ríkis hans. Sálmur Valdimars Briem hvetur til þess að hjartans hörpustrengir ómi og innstu æðaslög af gleði þennan dag því að ,,Konungurinn konunganna/ kemur nú til sinna manna.”

Þær sungu sálminn í byrjun aðventu nú eins og forðum, þegar sr. Garðar Þorsteinsson söng hér messu hljómmiklum baritón- og bassa rómi enda annálaður söngmaður, listfengur og auðmjúkur gagnvart því helga hlutverki að vera falið að miðla návist Guðs og ríkis hans í tónum og tali ár frá ári í helgidómi Hafnfjarðarkirkju, og Bessastaða-og Kálfatjarnarkirkjum sem sóknarprestur þeirra og prófastur Kjalarnessprófastdæmis.

Í gær á aldarafmælisdegi sr. Garðars 2. desember var stofa í Strandbergi helguð minningu hans og fyrri tíðar sögu Hafnarfjarðarkirkju. Börn hans og afkomendur færðu þá söfnuði kirkjunnar m.a. kristalsskál að gjöf er sr. Garðar hafði sem skírnarskál á heimili þeirra Sveinbjargar Helgadóttur eiginkonu sinnar og skírði upp úr henni fjölda barna enda skírði hann oftast á prestsetrinu að Brekkugötu 18. Karlakórar eldri og yngri Þrasta og eldri Fóstbræður héldu síðan hrífandi tónleika hér í kirkju í þökk og virðingarskyni við sr. Garðar sem glæstan söngbróður og einsöngvara Fóstbræðra og kórstjóra og einsöngvara Þrasta og heiðursfélaga beggja kóranna. Söngur var sr. Garðari hjartans mál en einkum sem farvegur fagnaðarerindis Jesú Krists og þeirrar trúar og vonar, bjartsýni og lífsgleði, sem frelsarinn varpar inn í sögu og samtíð frá komanda ljóssins ríki sínu.

Aðventan merkir koma og bendir á heimsókn Krists, frelsarans fyrirheitna. Hún vísar til þess að hann kom, kemur og mun koma.

Fyrsta ljósið á aðventukransinum minnir á spámennina, sem sögðu fyrir um komu frelsarans. Öll vísa aðventuljósin á hann, komu hans og nánd, sem það Orð Guðs, sem skapar, endurleysir og lífgar. Kirkjuárið byrjar sem endranær á þessum Drottins degi. Það fer á undan almanaksári og fellur ekki að því. Það vísar til þess að kristin kirkja er í heiminum en þó ekki af þessum heimi. Það sýnir líka og birtir, að Guð er reiðubúinn með náð sína og hjálpræði okkur til handa áður en saga okkar hefst, áður en við höldum af stað hér í tímans hverfula heimi. Við vitum ekki hvað óvissir dagar hafa að geyma af mismunandi fregnum, atburðum og reynslu, gleði og sorgarefnum. Allt er á hreyfingu og umbreytist í tímans hverfula heimi, en við vitum hvað kirkjuárið felur í sér, þekkjum frasöguna af Jesú Kristi, vitnisburðinn um hann, líf hans, dauða og upprisu og stöðuga nærveru hans í anda sínum, allt til enda veraldar.

Orðið aðventa vísar til væntinga og uppfyllinga dýpstu óska. En hvers er vonað og dýpst þráð? Veikir og lasburða menn þrá bætta heilsu. Áhyggjufullir og vansælir að drunga og þunga létti. Í ófriði og óvissu um hag og kjör er óskað dýpst eftir öryggi og friði nú sem jafnan fyrr. Í prédikun sinni á nýársdegi kirkjunnar 1. sd. í aðventu 1934, í miðri krepputíð, fjallar sr. Garðar um gildi merkra tímamóta, enda horfir hann yfir 20 ára sögu Hafnarfjarðarkirkju. Hann er þá rétt að verða 28 ára og enn aðeins á öðru ári sínu sem þjónandi sóknarprestur og jafngamall mér þegar ég hóf hér þjónustu við kirkjuna.

,,Vér minnumst þeirra manna”, segir hann, ,,sem ötulegast gengu fram til stuðnings því að þetta Guðshús yrði reist með þakklátum huga. Suma höfum ver enn hér mitt á meðal vor, en aðrir hafa þegar verið kallaðir frá störfum. En vér trúum því, að þeim sé á þessari helgu stundu veitt að vera hér návistum við oss og taka þátt í bænum vorum til Guðs, er vér biðjum hann að blessa hverja þá viðleitni, sem á komanda tímum verður hér gjörð til eflingar Guðshúsi hið ytra og innra í sálum hvers þess, er hingað leitar í þrá eftir samfélagi við Guð. Vér þökkum þeim sem á máli lofsöngs og tóna hafa hér snortið huga þeirra, sem á hafa hlýtt og opnað hjörtu þeirra fyrir dýrlegum áhrifum að ofan. En sérstaklega verður oss að minnast sr. Árna prófasts Björnssonar, sem hér tók við störfum í hinni nývígðu kirkju og helgaði krafta sína í þágu þessa safnaðar.

Guði sé þökk fyrir hvert það starf, sem sr. Árni leysti af hendi fyrir kirkjuna,” segir sr. Garðar, ,,til að boða þann konung, sem hann vildi helga krafta sína, og þakkir fyrir hvert það spor sem hann gekk inn í heimili hinna sjúku og sorgmæddu, fyrir hvert hughreystandi bros og hvert vingjarnlegt orð, hverja huggun, er hann fluttu nauðstöddum og einmanna bræðrum og systrum. Slíkur maður lifir eftir þeirri hugsjón, sem hann boðar.” Sr. Garðar átti sjálfur eftir að fylgja þeim sporum og fordæmi í langri prestsþjónustu sinni enda ávallt umhugað um farnað þeirra, sem bágast áttu sökum bjargarleysis, sorgar eða annarra rauna. Fullfrískir menn hímdu undir göflum í atvinnuleysinu, því að kreppan lamaði þrek og dáð, en Kirkjan og eldmóður sóknarprestsins miðluðu tiltrú og framtíðarvonum hér í Firði. Altarisgripirnir eftir Leif Kaldal, sem Kvenfélag kirkjunnar lét smíða á 20 ára afmæli hennar og sýndir voru á heimssýningunni í New York 1936, lýstu því líkt og yfir, að náð og lífsnægtir væri að sækja til frelsarans og ríkis hans og réttlætis, því að önnur lífsgæðu myndi að auki fylgja.

Hafnfirski togarinn Garðar og nafni sóknarprestsins, sló ný og ný aflamet og var sem sönnun og staðfesting þessa.

Í prédikun sr. Garðars hér í kirkju sex árum síðar 1. sd. í aðventu 1940, sem ber þá upp á fullveldisdaginn 1. desember, leggur hann áherslu á vonarboðskap trúarinnar á styrjaldar- og háskatíð. Hann fjallar um spámennina sem áminntu Guðs lýð forðum daga en töldu líka í hann kjark. ,,Þessi dagur er viðkvæmur minningardagur”, segir hann, ,,ekki síst nú, þegar frelsið er fótum troðið og andi hins forna Rómaveldis ríkir á ný, andi kúgunar og harðstjórnar, og hver smáþjóðin af annarri er hneppt í ánauðarfjötra. Eins og sakir standa erum vér ekki lengur frjáls þjóð. Og þó að oss hafi verið heitið frelsi á ný, að þeirri styrjöld lokinni, sem nú geisar, þá veit enginn hvernig henni lýkur. Og mörg dæmi þess höfum vér fyrir oss hve valt er að treysta loforðum stórþjóðanna, þegar varnarlaus og máttvana þjóð á í hlut.” Hann fjallar um spámenn og frelsishetjur, sem ávallt glæddu vonarneistann og vöktu meðvitund um köllun og tilverugildi og spyr? ,,Lifir þrátt fyrir frelssisviptingu enn á ný, í sálu íslensku þjóðarinnar frelsisþrá og vakandi meðvitund um hvers virði frelsið er?” Það varðar mestu. Stríðið válega útheimti miklar fórnir. Siglt var héðan frá Hafnarfirði eins og víðar af landinu út í óvissuna með björg og dýrmætan afla yfir ólgandi haf, sem stríðsátökin gerðu háskasamlegra en nokkru sinni. Og ekki komust öll skip aftur heim frá þeim hildarleik. Sóknarpresturinn lifir óvissuna, missi og sorgir með söfnuðum sínum, styrkjandi og huggandi hljómþýðri röddu. Og hann syngur um ,,Báruna bláu” af næmum skilningi, afl hennar og áhrif og ,,Álfu vorrar yngsta land,” af þrótti og sannfæringu með kórfélögum sínum í Fóstbræðrum og Þröstum, vongóður um gæfu lands og þjóðar á komandi tíð.

Hann gróðursetur vonarfær. Og honum auðnast að sjá skógarlundi vaxa og mannlíf dafna. En klakahrannir og holskeflur færa þó enn skip í kaf. Júlíslysið vottar það og slær hryggð á bæ og inn í syrgjandi hjörtu. Á slíkum stundum reynir á atgerfi, kjark, trúarsannfæringu og andlegt þrek sálusorgarans, sem ekkert megnar af sjálfum sér nema fyrir hjálp og nálægð þess frelsara, er færir birtu himins síns og ríkis inn í lífsins ógn og stríð fyrir djúpa og einlæga trú.

1. sd. í aðventu 1968 ber enn upp á fullveldisdaginn, sem þá er fagnað í fimmtugasta sinn. Það er bjart yfir deginum og sr. Garðar horfir yfir hálfa öld og lýsir á einlægan hátt eigin reynslu af því, þegar dagurinn og stundin rann upp, að Ísland varð frjálst fullvalda ríki 1. desember 1918. Hann segir frá stundinni áhrifaríku og ógleymanlegu, þegar mannfjöldi á stjórnarráðstúninu og Lækjartorgi fylgist í all þungbúnu veðri með því, að danski fáninn hverfur af stöng og íslenski fáninn er dreginn að húni á stjórnarráðsbyggingunni í fyrsta sinni. ,,Ég stóð þar 11 ára gamall segir hann”, en hann varð 12 ára daginn eftir, ,,við hlið föður míns á stjórnaráðsblettinum. Og ég skynja enn þá djúpu og algjöru kyrrð, sem ríkti í hópi þeirra, er viðstaddir voru. Ég hafði búist við því, að á þessari stundu brytust út hávær fagnaðarlæti mannfjöldans, drynjandi lófaklapp og húrrahróp. Og síst af öllu hafði ég átt von á því að þögn og algjör kyrrð myndi ríkja á þessari mestu fagnaðarstund í sögu íslensku þjóðarinnar. Mér var litið á hvern af öðrum, sem nærri stóðu, og sama hljóða alvaran hvíldi yfir þeim öllum, og víða sá ég tár í augum blika.

Ég skildi það síðar með auknum þroska, að þeim sem fullþroskaðir voru, var þessi stund svo stórkostleg, áhrifamikil heilög stund, að þeir máttu ekki mæla og tárin sem ég sá í augum glitra voru þakklætistár.”

Og er ekki sem unnt sé að hverfa enn aftar í tímann og sjá fyrir sér í andblæ þessarar helgu andartaka og svipmyndar, sem sr. Garðar bregður upp fra bernsku sinni, stundina innihalds- og áhrifaríku, þegar Jesús kemur fram í samkunduhúsi heimabæjar síns Nasaret og lýsir því yfir, að andi Drottins sé yfir sér og kunngjörir náðarár Drottins og lausnina langþráðu, sem spámenn höfðu horft til og svo lengi hafði verið beðið eftir.

Þetta er ekki í fyrsta sinni sem Jesús lætur að sér kveða. Skírn hans í ánni Jórdan markar upphaf að starfi hans og boðun, þegar andinn helgi birtist í dúfulíki yfir honum. Og að tillaðan andans liggur leið hans út í auðnina, þar sem hann fæst við freistingar hins illa áhrifavalds, sem myrkvar heim og vísar þeim öllum frá sér.

Leið hans til valda og yfirráða felst ekki í þjónustu og þjónkun við heimsdrottna myrkurs, illsku og dauða heldur í allt öðru fremur, þjónustunni við særða og synduga menn. Hún felst í fórnar- og kærleiksverkum.

,,Andi Drottins er yfir mér af því, að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. Í dag hefur ræst þessi ritning í aheyrn yðar,” segir Jesús.

Orð hans hafa verið fleiri, en þessi hefur verið kjarni þeirra. Andi Drottins er yfir í allri boðun hans, og síðan með lærisveinum hans, andinn helgi, andi hvítasunnunnar, andi kirkjunnar, sem opnar hjörtu, svo að þau verða móttækileg fyrir lifandi hjálpræðisorði hans. Jesús gefur blindum sýn, losar fjötra særðra og þjáðra.

En hversu varanlegt er það náðarár Drottins, sem hann lýsir yfir, að sé gengið í garð í orðum sínum og verkum? Enn eru menn blindir, fjötraðir og þjáðir nær og fjær, svo sem tíðindi greina frá dag frá degi, og Guðsríkið virðist enn handan við alla reynd og sögu. Náðarár Drottins er engu að síður nærri, því að Jesús Kristur er nálægur. Það er í honum fólgið, veru hans, orðum hans, kærleiksmætti hans.

Nærri í hinum krossfesta frelsara og upprisna Drottni. Hvarvetna þar sem unnið er að því að losa fjötra kúgunar og óréttlætis, þjáninga og rauna, þrýstir vera hans og veröld sér inn í jarðar heim. Og er ekki sem í þeim sannleika og opinberun sé áskorun fólgin til okkar kristinna manna og kirkju á hverri tíð, um það, að beina athygli, áhuga og umhyggja, viðhorfum og verkum allra helst og einkum að þeim sem Jesús vill leysa og frelsa, - til að virkja og flytja þeim gleðilegan boðskap, lausn og líkn náðarárs Drottins í mætti hans og kærleiksljósi, sem farvegu fær um huga og hendur lifandi trúar og sýnir sig í gefandi og góðum verkum?

Sr. Garðar ræddi við mig eftirmann sinn um nauðsyn þess að reisa safnaðarheimili við Hafnarfjarðarkirkju sem væri athvarf safnaðarins til fjölbreytts og framsækins safnaðastarfs og sækti sér afl og orku til helgihalds kirkjunnar, tilbeiðslunnar, lofsöngsins, orða og sakramenta frelsarans. Hann hefði fagnað því að sjá það sem orðið er, fagnað kirkjunni sinni og Strandbergi, glæstu safnaðarheimili hennar, glaðst yfir ykkur sem eruð í kór og barnakór kirkjunnar og berið fram lofgjörð aðventunnar í fögrum söng, svo að hjartastrengir titra og óma. Sr. Garðar þakkar iðulega í prédikunum samstarfmönnum sínum, einkum á tímamótum, þakkar vandvirkum organista, kór, og meðhjálpara, sóknarnefnd og kvenfélagi ötulu og góðu störfin, sem öll miða að því að boða frelesarann og komu ríkis hans. Jafnframt því sem við nú á nyársdegi kirkjunnar í byrjun nýrrar aðventu þökkum góðum Guði fyrir sr. Garðar Þorsteinsson á aldarminningu hans, er Guði þakkað fyrir þá sem fyrr og síðar lögðu Hafnarfjarðarkirkju lið og studdu kirkjustarfið í söfnuðum Kjalarnesprófastsdæmis. Og þeim er þakkað að sjálfsögðu einnig, sem nú eru í stafni og móta helgiþjónustu og kirkjustarf. ,,Vér biðjum þess,” segir sr. Garðar í lokaorðum sínum í prédikun á þessum kirkjudegi, og ég geri þau orð hans að mínum, ,, að á ókomnum tímum megi kirkjan vera það ljós, er lýsir oss best í Jesú nafni sem viti í hafróti lífsins, ungum og öldnum, sannur helgistaður. Kom Drottinn, þú sem átt hið besta að bjóða og vígja, bú hjá oss og ver með oss, á kirkjuárinu nýja.”