Ræða á jólum í Strandarkirkju!

Ræða á jólum í Strandarkirkju!

Jólin felast í einfaldri frásögu, ævintýrablæ, jólasálmum, bænum, tækifæri til að gefa þeim sem mest þurfa á að halda. Við þörfnumst þessa tíma. Við þurfum á hátíðinni að halda — ekki til að flýja raunveruleikann, heldur til þess að staldra við, hugleiða, þakka og sækja þrótt til að geta látið gott af okkur leiða.

Þrennt grípur hugann. Frásögn Ívars Smára Guðmundssonar um baráttu hans fyrir lífi sínu úti fyrir Skrúði rétt fyrir jól. Margir muna eftir nafni Guðmundar Sesars Magnússonar þegar hann var að berjast fyrir fjölskyldu sinni gegn sölumönnum dauðans. Hann skrifaði bók um fíkniefnabölið sem nefndist Sigur í hörðum heimi. Sjálfur missti Guðmundur Sesar föður sinn í hafið þegar hann var tveggja ára. Svo les maður þessa frásögn af því hvernig hann fórnaði lífi sínu til að tengdasonur hans gæti lifað og séð konu sína og barn aftur. Þeir voru fastir í lofttómi í bátnum og höfðu gert margar tilraunir til þess að komast niður og út. Höfðu sætt sig við að þeir kæmust ekki. Sá yngri nefndi það að leitt væri að fá ekki að sjá konu sína og nýfæddan son aftur. Þá skaltu lifa sagði sá eldri og spyrnti þeim yngri eins fast og hann gat niðurávið og hann komst á kjöl. Síðan rekur hver atburður annan líkt og í jarteiknasögu Þetta er merkileg saga um fórnarlund og hetjuskap.

Frásögn í norsku pressunni um Ragnar litla drengsins sem fórst í þegar flóðbylgjan skall á ströndinni leitar einnig á hugann. Í gær voru nákvæmlega fimm ár síðan flóðbylgja skall á ströndum fjölmargra ríkja við Indlandshaf með þeim afleiðingum að 230 þúsund einstaklingar létu lífið. Það var öflugur jarðskjálfti undir Indlandshafi sem olli flóðbylgjunni sem var svo öflug að hún gjöreyðilagði stóran hluta lands í mörgum ríkjum. Meðal þeirra sem fórust var Ragnar litli tveggja og hálfs árs. Norskur strákur. Bylgjan hreyf hann frá foreldrum sem örvingluð leituðu hans dögum og vikum saman. Foreldrar hans hafa nú stofnað velferðarsjóð í nafni hans og helga líf sitt því að hjálpa litlum börnum. Við getum ekki lengur hjálpað Ragnari segja þau en við getum hjálpað öðrum börnum. Þau leita að merkingu og innihaldi í heimi þar sem hræðilegir, óréttlátir hlutir eiga sér stað. Í dag hefur sjóðurinn um Ragnar litla skipt sköpum í lífi fjölmargra tælenskra barna sem misstu foreldra sína í hörmungunum.

Þannig gerast merkilegir, eftirtektarverðir atburðir á jarðarkringlunni þar sem fólk sýnir hetjulund, fórnsfýsi, mannelsku. Þar sem fólk stendur frammi fyrir ógnvænlegum hlutum, missi, sorg og bregst við af ótrúlegri hetjulund. Ómar Ragnarsson rifjar upp í morgun á bloggi sínu að:

Þegar ég heyri um atvikið, um Guðmund Sesar, segir Ómar, kemur mér í hug þegar tengdafaðir minn heitinn, Jóhann Jónsson vélstjóri, ákvað í sjávarháska að fórna sér fyrir yngri mann. Þeir flutu báðir í sjónum efir að togarinn Vörður frá Patreksfirði sökk langt suðaustur af Vestmannaeyjum í haugasjó um hávetur fyrir 58 árum. Togarinnn Bjarni Herjólfsson, sem kom að, sigldi um þar sem mennirnir börðust fyrir lífi sínu í sjónum og bjargaði skipverjum einum af öðrum, heldur Ómar áfram. Þegar þeir komu að Jóhanni kallaði hann til þeirra og benti í áttina að hinum yngri skipsfélaga sínum: “Takið þið hann fyrst, hann er yngri!” Þeir sigldu að manninnum og tókst að bjarga honum, en aðstæður voru mjög erfiðar í svona miklum sjógangi og myrkri og þetta tók því sinn tíma. Þegar þeir komu aftur að Jóhanni var það of seint. Hann hafði fórnað lífi sínu til að bjarga félaga sínum. Alls fórust fimm menn í þessu hörmulega sjóslysi. Jóhann var enn á besta aldri, um fimmtugt, en samt vildi hann að yngri manninum yrði bjargað fyrst. Við þekkjum söguna af Strandsarkirkju., : ,,Fyrir langa löngu gerði ungur bóndi úr uppsveitum Árnessýslu för sína til Noregs á sínu eigin skipi. Var ferð þessi farin til að sækja valinn við til húsagerðar. Segir nú ekki af ferðum bónda fyrr en hann hefur verið lengi á hafi úti á leið sinni til Íslands. Lendir hann þá í sjávarháska og hafvillu í dimmviðri og veit ekki lengur hvert skip hans stefnir. Í örvæntingu sinni heitir hann því þá að gefa allan húsagerðarvið sinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi heilu og höldnu. Að þessu heiti unnu birtist honum sýn í líki ljósengils framundan stefni skipsins og verður nú ljósengill þessi stefnumið er hann stýrir eftir. Segir ekki frekar af siglingu þessari fyrr en skipið kennir grunns í sandvík milli sjávarklappa. Hvarf þá engillinn og birta tók af degi. Sáu þá skipsmenn að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Og þessi kirkja reis.“ Þannig er veröldin, ekki síst veröld sjómanna, veröld hafsins, veröld strandarinnar full af hörmulegum atburðum hetjuskap, fórnarlund, trúarvissu, ólýsanlegum kraftaverkum. Oft er hinn trúaði skilningsvana. Hvers konar Guð!! Er nokkur Guð? En mannfólkið er ótrúlegt. Stundum er hetjuskapurinn og fórnarlundin, umhyggjan fyrir öðrum meiri en hægt er að ímynda sér. Stundum sprettur upp úr hörmungunum fallegt blóm sem líknar og leiðir eins og í tilfelli norsku hjónanna sem misstu drenginn sinn. Í öðrum tilfellum lýsa verk fallinna hetja okkur hinum. Eru lýsandi dæmi um hve langt maðurinn getur náð. Lífið getur verið yndislegt, en stundum er það táradalur en frásögn N:T: um fæðingu Jesúbarnsins færir okkur heim sanninn, þeim sem trúa, að ekki sé allt sem sýnist, að til sé gott afl, æðri forsjón. Örugglega gefið sumu því góða fólki sem hér hefur verið minnst á kraft, vilja og þrek til þess að bregðast við með ótrúlegum hætti. Sagan hjálpar okkur leita að merkingu og innihaldi í heimi þar sem hræðilegir, óréttlátir hlutir eiga sér stað innan um alla góðu hlutina. Jólin felast í einfaldri frásögu, ævintýrablæ, jólasálmum, bænum, tækifæri til að gefa þeim sem mest þurfa á að halda. Við þörfnumst þessa tíma. Við þurfum á hátíðinni að halda — ekki til að flýja raunveruleikann, heldur til þess að staldra við, hugleiða, þakka og sækja þrótt til að geta látið gott af okkur leiða. Því að ..barn er oss fætt…sonur er oss gefinn….á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla.