Hið nýja sem kemur og grær

Hið nýja sem kemur og grær

Frá upphafi lýðveldis á Íslandi árið 1944 hefur embættistaka forseta hafist með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Hér er fyrirbænar- og þakkarstund. Hér er minnt á samfylgd þjóðar og kristinnar trúar í þúsund ár.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hvar stöndum við, hvert viljum við stefna? Hver er grundvöllur lífs okkar? Hvernig er samfélagssáttmálinn? Þessar og viðlíka spurningar hafa undanfarið brunnið á vörum okkar sem hér búum. Allt er breytingum háð og það sem var og er hefur verið tekið til endurskoðunar. Það er sama hvar borið er niður, allt virðist undir smásjá. Ef marka má orðræðuna þá er sem engu sé treystandi, hvorki mönnum né náttúruöflum.

Traust og ótti eru andstæð hugtök, en tengjast þó því þar sem mikið traust ríkir er lítill ótti en þar sem mikill ótti er þar er lítið traust. Áðan heyrðum við lesið úr fjallræðunni svo kölluðu í Matteusarguðspjalli. Söguna um húsin tvö, annað sem byggt var á sandi og hitt sem byggt var á bjargi. Sagan er kunn en hún er framhald, næstum samantekt á því sem áður er sagt í fjallræðunni. Fjallræðan hefur að geyma meginatriðin í siðakenningu Jesú þar sem hann kemur fram með nýtt og mikilvægt viðhorf. Í deilum leggur hann til að andstæðingurinn sé afvopnaður með viðhorfi sem er laust við hatur og fullt sáttfýsi í því skyni að losna úr vítahring ofbeldis og hefnda.

Fjallræðan hefst á svokölluðum sæluboðum. Þeim er beint að lærisveinum Jesú sem hvetur þá til að bogna ekki andspænis mótlæti sem þeir geta mætt vegna trúar sinnar. Hann örvar þá til að hlaðast nýjum krafti. Til að lífið öðlist bragð og birtu þarf hver lærisveinn sjálfur að vera salt og ljós. Að lifa eftir vilja Guðs merkir fyrst og fremst að breyta um hugarfar.

Í fjallræðunni eru perlur sem margir kannast við eða þekkja. Þar eru t.d. orðin um að við eigum ekki hafa áhyggjur af morgundeginum, því hann hafi sínar áhyggjur. Og þar er gullna reglan sem hvetur okkur til að líta í eigin barm áður en við aðhöfumst gagnvart öðrum. „Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi.“ „En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi.“

Hér er áhersla á breytnina. Það er ekki nóg að heyra orðin og vilja fara eftir þeim. Það á að breyta eftir þeim. Hygginn er sá sem það gerir. Enginn þekkir fyrirfram þau illviðri sem geta átt eftir að mæta honum í lífinu. Jesús leggur áherslu á að sá sem vilji grundvalla traust líf skuli reisa það á óhagganlegum kletti, það er orði Guðs, sem sé meðtekið, íhugað og eftir því breytt.

Við leitum að nýjum nálgunum á öllum sviðum samfélagsins. Það hefur ekki gengið sérstaklega vel að finna hið nýja enda er sagt að ekkert sé nýtt undir sólinni. Kærleiksboðskapur kristinnar trúar á enn erindi við íslenskt samfélag. Það á við um orð og verk. Þau gildi sem kallað er eftir eru þau gildi er fram koma í Biblíunni og höfð hafa verið í heiðri hér á landi í þúsund ár. Þau byggjast á trú, von og kærleika. Það þarf ekki að leita langt yfir skammt að hinu nýja ef betur er að gáð. Iðkun trúarinnar á forsendum kærleikans eykur félagsauð og bætir samfélagið. Guðfræðin getur lagt mikið til samfélagslegrar umræðu eins og aðrar fræðigreinar.

Misjafnar eru aðstæður í heimi hér. Á sléttunum í Malaví í sunnanverðu landinu býr fólk við fábrotnar aðstæður. Íslendingar hafa lagt þeim lið meðal annars með því að koma upp vatnsbrunnum í þorpunum. Fólkið kann að gleðjast og tekur á móti gestum með söng og dansi, þó aðallega konurnar. Á vef hins íslenska Biblíufélags má lesa um mikla gleði fólks á þessum slóðum nú. Konur og börn dönsuðu af gleði. Þetta trúaða fólk hafði safnast saman til þess að fagna afreki, sem lengi verður í minnum haft; Nýja testamentið var loksins aðgengilegt á hjartkæru tungumáli þeirra, lambya.“

Nú má lesa fjallræðuna sem og annað í Nýja-testamentinu á þeirra tungumáli. Okkar þjóð er ein sú fyrsta í heiminum sem eignaðist Nýja-testamentið á eigin tungu og stuttu síðar alla Biblíuna. Það hefur haft mikil áhrif hér á landi meðal annars hvað tungumálið íslensku varðar. Úr biblíumáli eru komin mörg orðatiltæki sem enn eru notuð, t.d. „í upphafi skyldi endinn skoða“ sem er úr Síraksbók og að „uppskera eins og maður sáir“ úr 2. Korintubréfi.

Frá upphafi lýðveldis á Íslandi árið 1944 hefur embættistaka forseta hafist með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Hér er fyrirbænar- og þakkarstund. Hér er minnt á samfylgd þjóðar og kristinnar trúar í þúsund ár. Í Davíðssálmi segir skáldið: „Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glaðir á honum.“ (118:24) Það er vissulega tilefni til að gleðjast á þessum degi þegar nýkjörinn forseti er settur inn í embætti. Það eru tímamót í dag fyrir hinn nýkjörna forseta og fjölskyldu hans og fyrir íslenska þjóð.

Bóndinn og skáldið Guðmundur Ingi Kristjánsson samdi ljóð um hið nýja sem kemur: Það kemur, það kemur, hið nýja, hið nýja! – Þú nemur hið mjúka, hið glaða og hlýja sem ómar og skín, sem ilmar og hlær þar sem eitthvað sem nýtt er kemur og grær.

Við, íbúar þessa lands lifum í voninni. Væntum hins nýja sem kemur og grær. Voninni um samhljóm í lífi fólksins í landinu. Þakklæti er ein grunnstoð hamingjunnar. Við megum ekki gleyma að þakka fyrir allt það góða sem við höfum og það sem gert hefur verið til heilla og framfara. Það er eðlilega uppi rík krafa að halda á lofti mannréttindum, mannúð, og jöfnuði fyrir alla. Að rýnt sé til gagns í almennri umræðu og hvers konar niðurrifi sé hætt. Fólkið í kirkjunni sem og íbúar þessa lands vænta þess af okkur sem valin höfum verið til forystu að við stöndum okkur í þeim efnum.

Á undanförnum árum hefur verið rætt um innihald samfélagssáttmála. Unnið hefur verið að endurskoðun stjórnarskrárinnar en hún hlýtur að innihalda þau grundvallaratriði sem lög og reglur byggja á. Þar viljum við vera hyggin og byggja á bjargi sem ekki bifast þó hellirigni. Við erum rík þjóð. Land okkar er fagurt og frítt og auðlindir miklar. Þegar ferðast er um landið má þó sjá að mesti auður þessa lands er fólkið sem hér býr.

Í dag er dagur gleði og vonar. Samleið forsetaembættisins og Þjóðkirkjunnar hefur frá upphafi verið farsæl. Ég bið þess að svo megi áfram verða. Ég þakka fráfarandi forseta samleið og störf og bið verðandi forseta farsældar í þjónustunni fyrir land og þjóð. Guð blessi þig og fjölskyldu þína alla. : „Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glaðir á honum. Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi.“ (Dav.118:24-25)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.