Lækningin mikla

Lækningin mikla

Krossinn er andsvarið við skilningstré góðs og ills í frásögninni um Adam og Evu. Eins og ávöxtur þess trés leiddi til syndafallsins, og syndin leiddi af sér dauða Adams og allra síðan þá, er krossinn hið raunverulega lífsins tré og ávöxtur þess er frelsið frá syndinni, frelsið frá dauðanum.

Við heyrðum í pistli dagsins þessi orð: Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð (1.Pet. 2. 24) Og í niðurlagi guðspjallsins, þar sem við vorum leidd inn í samfélag þeirra sem forðum stóðu undir krossinum heyrðum við orðin: Þá hneygði hann höfuðið og gaf upp andann. (Jóh. 19.30.)

Um manninn frammi fyrir krossinum orti ítalski biskupinn og guðfræðingurinn Bonaventura (d.1274) sálm sem Helgi Hálfdánarson þýddi. Þar segir svo:

Haf þú maður hverju sinni Herrans Jesú kross í minni hann sé traust og hrósun þín, augun mæni andar þinnar á það merki náðarinnar, þar til ævidagur dvín.

Krossins tré með dýrum dreyra Drottins vígt, er fegra og meira öllum trjám er auga sá. Lífstréð sanna orðið er það, aldin himins-sætleik ber það þau er dauða frelsa frá.

Krossins lát mig, Kristur, minnast, krossi þínum undir finnast æ, með hug og hjarta mitt. Kross þinn veit ég faðmi feginn fundið svo ég geti veginn heim í ríkið helga þitt. Amen. (Johann Fidenza Bonaventura - Helgi Hálfdánarson)

Kæri söfnuður.

Enn höfum við lagt leið okkar hingað í helgidóminn í þjóðarhelgidóminum á föstudaginn langa til að íhuga orð og verk Guðs og biðjast fyrir undir krossi Krists.

Þegar Jesús hafði glímt sína bænaglímu í Getsemane nóttina sem hann var svikinn, gekk hann ótrauður þá braut sem honum var búin. Jesús gekk sjálfur fús í dauðann. Það lesum við í guðspjalli Jóhannesar: Ég legg líf mitt í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. (Jóh. 10.17-18)

Dauðinn er það stef föstudagsins langa sem sterkast hljómar. Dauðinn, sem tekur á sig ýmsar myndir. Hann er ógn og andstæðingur lífsins. Hann er það alltaf. Líka þegar hann merkir að hörðu stríði er lokið, að þjáningum linni, að friður sé fenginn.

Dauðinn er ógn sem við berum með okkur svo lengi sem við lifum. Hann hefur margar birtingarmyndir, í lífi einstaklinga, fjölskyldna, samfélaga og þjóða.

Dauðinn deyðir meira en lífið. Hann deyðir vonirnar og tilfinningarnar og vináttuna. Dauðinn megnar að taka frá okkur allt sem okkur er kært.

Í Jobsbókinni er ritað um mann og tré (14.1-3, og 7-10).

Maður, af konu fæddur, lifir fáa ævidaga, fulla af eirðarleysi. Hann vex eins og blóm og visnar, hverfur sem hvikull skuggi. Samt hefurðu á honum vakandi auga og kallar hann fyrir dóm þinn. Tréð á sér framtíð, verði það höggvið vex það á ný og teinungarnir halda áfram að vaxa. Þótt rótin eldist í jörðinni og stofninn deyi í moldinni vex það áfram fyrir kraft vatnsins og ber greinar eins og ungur kvistur. En deyi maðurinn liggur hann máttvana, gefi maðurinn upp andann, hvað verður þá um hann?
Jesús var leiddur fjötraður að krossinum eins og lamb er leitt til slátrunar, eða fangi til aftöku. Margar myndir leita á hugann. Hörmungatímar mannlegrar niðurlægingar, uppreisnartímar mannlegar reisnar. Maður deyr fyrir augum okkar. Við ráðum engu þar um. Sumir deyja þegar tími þeirra er kominn og við lútum því. Aðrir deyja án þess að við getum samþykkt að tíminn sé kominn.

Á hugann leita nöfn einstaklinga sem gengu sjálfviljug í dauðann eða ákváðu að binda sjálf endi á líf sitt. Af því að á þau er of sjaldan minnst þorum við að gera það hér undir krossinum. Það er undarleg ráðstöfun almannaróms að kalla hin fyrri hetjur en hin síðari heigla eða jafnvel eitthvað ennþá verra, nema viðkomandi hafi verið hetja að atvinnu og persóna í fornum hetjusögum, eða kannski konungurinn Sál sem lét fallast á sverð sitt, eins og Biblían greinir frá.

Sannarlega er það göfugt að hætta lífi sínu til að önnur manneskja geti lifað, og mikil fórn að missa líf sitt við þær aðstæður. Dauði þess sem féll fyrir eigin hendi er sveipaður þoku, og enginn veit nema sá sem allt veit, hvort einkenni hans var uppgjöf eða sigur.

Að áfellast þann sem velur þá leið er rangt og miskunnarlaust. Alltof lengi var sá tími ríkjandi í kristinni kirkju að dæma þau hart sem sjálf völdu dauðann og kalla gjörð þeirra illum nöfnum, jafnvel meta til jafns sjálfviljugan eigin dauða og að taka líf annars manns. Það var vondur tími og lítill skilningur á eðli manns og elsku Guðs.

Undir krossi Krists megum við minnast allra þeirra sem kusu sér þessi örlög; af kaldri skynsamlegri yfirvegun, í tilfinningalegu uppnámi, í sjúkri örvinglan, í flótta frá eigin skyldum og ábyrgð, eða þeirri bjargföstu sannfæringu að engin önnur leið væri fær.

Það má alveg einu gilda hver aðdragandinn var, við felum þau öll í miskunn Guðs sem fullkomnaðist í dauða Jesú Krists á krossinum og við biðjum þeim öllum blessunar sem bera þá þungu samviskubyrði alla ævi að hafa komið of seint, að eigin mati, eða brugðist einhvernvegin ranglega við. Þeirri byrði getur enginn létt af nema Guð, og það gerir hann. Enginn dauði er jafn óvelkominn og sá sem á engan aðdraganda.

Kæri söfnuður, undir krossi Krists hefur kristið fólk á jörð staðið sérhvert sinn á nýjan leik, ár eftir ár á föstudaginn langa og glímt við þann veruleika sem það sér með augum trúarinnar. En jafnvel sá sem hefur allar trúarkenningar á hraðbergi kann þó að spyrja mest og oftast : Hversvegna?

Lærisveinarnir sátu í loftsalnum í gærkveldi og Jesús gaf þeim nýja sýn inn í himinn Guðs með jarðneskum táknum. Hann braut brauðið og sagði: Þetta er líkami minn, og hann blessaði vínið og sagði: Þetta er blóð mitt. Þannig kynnir hann það sem í vændum er: Þannig mun líkami hans verða brotinn á krossinum , þannig mun blóði hans verða úthellt þegar hann gefur líf sitt í dauðann, og enginn hefur meiri elsku en sá sem gefur líf sitt svo að aðrir megi lifa, - er tilbúinn að kafa niður í dýpstu myrkur dauða og þjáningar til þess að sigra dauðann, og gefa öðrum hlutdeild í þeim sigri.

Kæri söfnuður.

Á vissum tímum í sögunni var það venja að mála dauðastríð Jesú Krists á krossinum í sterkum litum. En það er ekki ætlun eða aðferð guðspjallsins heldur fyrst og fremst að opna augu fyrir því sem í raun og veru gerðist þar og hvaða þýðingu það hefur fyrir einstakling og heild, fyrir mann og heim.

Þó að það sé ekki hægt að horfa þangað hlutlaust eða tilfinningalaust megum við varpa yfir atburðinn sjálfan þeirri hulu virðingar og helgi sem okkur er töm þegar einhver deyr.

Dauðastundin er heilög stund og við sem lifum eftir stöndum hjá í hryggð og ótta og megnum ekkert annað.

Dauði Krists á krossinum er sannarlega eins og dauði hvers annars manns að sjá, en þó sést aðeins hið ytra, og lengra sér aðeins trúin. Dauði hans á tré sameinar það sem tjáð er í orðum Jobsbókar. Rótin eldist ekki bara í moldinni, hin banvæna rót syndarinnar er að engu gjörð, en upp vex ný grein. Stofninn deyr í moldinni, en fyrir kraft vatnsins vex upp ný grein. Í skírninni eignumst við lausn frá syndinni og eilíft líf með honum sem dó og var grafinn og reis upp frá dauðum.

Það er hægt að horfa til krossins þar sem frelsarinn hangir, bæði sem einstaklingur og hluti af heild. Það er, sem játandi Jesú Krists , og sem kirkjan. Einungis sá hópur er samstæður og samtaka sem hefur að geyma einstaklinga sem hugsa eins og heild.

Jesús frelsari minn er frelsari heimsins. Ég er hluti þess heims sem hann frelsar.

Ef ég spyr andspænis krossinum, eða yfirleitt frammi fyrir Guðs augliti einungis um það hvernig Guð mætir mér í sögu minni fæ ég ófullkomið svar. Ég þarf að geta spurt:

Hvernig mæti ég Guði með mína sögu í sögu hans? Hvernig tekur hann mina sögu og gerir að sinni?

Ástæðan fyrir þessum ólíku spurningum liggur í því hvernig kirkjan túlkar sitt hversvegna? frammi fyrir krossinum. Hún getur gert það bæði vítt og þröngt.

Ef hún gerir það með Ágústínusi kirkjuföður og hefð vesturkirkjunnar leggur hún megin áhersluna á lausnina frá syndinni í lífi einstaklinganna og í siðferði þeirra. Í hefð Ágústínustar er dregin upp myndin sem geymir þrjú stef: sköpun, synd og endurlausn.

Áherslan hvílir á synd hvers og eins, og játningu hans og iðrun andspænis fórn Krists á krossinum vegna synda okkar mannanna. Það er fórnandi sýn á friðþæginguna. Hún getur birst nánast án tengsla við upprisuna og sigur Jesú yfir syndinni, dauðanum og valdi hins illa. Þessi áhersla er mjög persónuleg mynd kristindómsins.

Guðfræðingar austurkirkjunnar, hinir grísku kirkjufeður halda á lofti öðrum þrem stefjum. Þeir leggja áherslu á samhengið milli sköpunar Guðs, holdtekjunnar, að Guð varð maður, og hinnar fullkomnu endurnýjunar sköpunarinnar.

Guð varð maður til þess að hann gæti sjálfur gengist undir afleiðingar syndarinnar í heiminum og tekið á sig refsingu hennar, sem er dauðinn. Ekki bara fyrir hvern og einn sem trúir, heldur fyrir allan heiminn, og þannig endurskapað hann. Þegar hann sigraði dauðann og syndina varð heimurinn nýr. Hann læknaði heiminn af syndafallinu.

Krossins tré með dýrum dreyra Drottins vígt, er fegra og meira öllum trjám er auga sá. Lífstréð sanna orðið er það, aldin himins-sætleik ber það þau er dauða frelsa frá.

Hvað merkir þetta vers þeirra Helga og Bonaventura? Hið sama og hinir grísku kirkjufeður segja.

Lífsins tré stóð við hlið skilningstrésins í Eden sköpunarsögunnar. Þegar maðurinn Adam hafði óhlýðnast og etið af skilningstrénu var honum vísað frá svo að hann æti ekki líka af lífsins tré lifði eilíflega sem syndari.

Krossinn er andsvarið við skilningstré góðs og ills í frásögninni um Adam og Evu. Eins og ávöxtur þess trés leiddi til syndafallsins, og syndin leiddi af sér dauða Adams og allra síðan þá, er krossinn hið raunverulega lífsins tré og ávöxtur þess er frelsið frá syndinni, frelsið frá dauðanum. Kristur er hinn nýi Adam sem glímir við dauðann og sigrar hann, og sigrar þar með syndina og freistinguna og endurnýjar heiminn. Hann er hinn nýi Adam, hins nýja heims, hinnar nýju sköpunar. Hann er frelsari heimsins, því að hið fyrra er farið og allt er nú þegar orðið nýtt. Dauðinn hefur ekkert vald framar. Það staðfestir upprisan sem við væntum á þriðja degi héðan í frá. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.