Brothætt sem eggið, og fullt af gæðum, visku og gleði

Brothætt sem eggið, og fullt af gæðum, visku og gleði

Þó að ég sé kominn á þann þroskaaldur að mér beri að fara varlega í sakirnar með sætindin þá finnst mér alltaf jafn gaman að því að brjóta páskaeggið og seilast í innihaldið. Páskaeggin eru ómissandi í páskahaldinu, þau prýða nú páskaborðin heima, ýmist stór eða smá, fábrotin eða hlaðin skrauti.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
23. mars 2008

nokkrir þankar um páskaegg og páskatrú

Þó að ég sé kominn á þann þroskaaldur að mér beri að fara varlega í sakirnar með sætindin þá finnst mér alltaf jafn gaman að því að brjóta páskaeggið og seilast í innihaldið. Páskaeggin eru ómissandi í páskahaldinu, þau prýða nú páskaborðin heima, ýmist stór eða smá, fábrotin eða hlaðin skrauti. Flest geyma þau góðgæti, sem gleður, og málshátt sem einatt vekur kátínu, og iðulega umhugsun. En hvað kemur páskaeggið hinum kristnu páskum annars við?

Páskaeggið er eitt elsta tákn páskanna. Og ber mikilvægan boðskap sem gott er að gefa gaum.

Litlir fingur opna páskaeggVissulega er páskaeggið aðeins vísbending, eins og önnur tákn, og jafnan margræð. Eggið geymir líf og framtíð. Undir harðri, líflausri skurninni dylst líf, nýtt líf. Eggið brestur og brotnar en við það brýst hið nýja líf fram. Það mætti sjá í þessu dæmi um eilífa hringrás lífsins, þar sem erfitt er að greina á milli hvort er á undan hænan eða eggið. Nei, enda er slík hringrás ekkert til að gleðjast yfir. Fagnaðarerindi páskanna snýst um annað. Páskarnir eru gleðifrétt sem páskaeggið minnir á, það er sagan af undri páskanna. Páskaeggið minnir á fullyrðing fagnaðarerindisins að lífið brýst gegnum, eins og Jesús, sem rauf viðjar heljar og allt varð nýtt, ekkert eins og áður, „hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til.“ (2.Kor.5.17)

Egg er viðkvæmt og brothætt. Eins og lífið. Boðskapur páskanna er krafa um lotningu fyrir lífinu! Við sköpum ekki líf. Við getum ekki skapað eitt einasta lóuegg. En við eigum auðvelt með að brjóta það! Það er Guð, skaparinn, hinn góði vilji og milda vald sem gefur líf. Og lífið allt ber fingraför hans. Þess vegna ber okkur að mæta því og umgangast það allt af varfærni, virðingu og lotningu,. Maðurinn hefur rétt og skyldu til að nýta skynsemi sína og gáfur, afl og auð til góðs, og til að rannsaka og rækta það líf sem Guð skapar og gefur. Við megum þakka fyrir allt það sem auðlegð þjóðanna hefur veitt af auknum lífsgæðum, og það allt sem vísindi og tækni hafa áorkað í að lækna mein og bæta lífið, og auka skilning á mannlegu lífi og breytni. Samt verðum við ætíð að minnast þess að auðmýkt er grundvöllur allrar visku og vísinda og sannrar mennsku. Höfum við komið fram af ábyrgð og virðingu? Hvað munu niðjar okkar segja um ráðsmennsku okkar yfir lífinu og framferði sem hefur spillt og raskað lífríkinu með óbætanlegum hætti? Að bera lotningu fyrir lífinu merkir að virða komandi kynslóðir. Þær eiga rétt á gjöf lífsins. Erum við fær um að breyta neysluvenjum okkar svo að barnabörnin okkar og komandi kynslóðir á þessari jörð megi njóta lífsins?

Páskaeggið minnir á lífið sem brotnar og brestur svo nýtt líf rísi af því, líf í fullri gnægð og gleði. Góðgætið og málshættirnir, vellíðan, gleðin og kátínan minna okkur á þau gæði. Og það er allt eins og mynd eilífa lífsins. Lífið er gjöf, og lífsgæðin og gleðin eru gjafir sem við megum þiggja. Við getum ekki keypt okkur það sem dýrmætast er, hversu marga milljarða sem við eigum. Gæfan er fólgin í því að gefa, deila með sér og þjóna náunganum í kærleika. Það er einföld lífsviska margprófuð í reynslueldi kynslóðanna. Það kom fram í fréttum um daginn að rannsóknir erlendra háskóla hafa sýnt fram á það að þeim líður í raun og veru betur sem gefa. Það ætti engum að koma á óvart. Sjálfur frelsarinn sagði þetta: „Sælla er að gefa en þiggja.“

Gleðiboðskapur páskanna felur í sér þann undursamlega leyndardóm, sem varpar birtu vonar á lífið allt, líka yfir forgengileika og dauða. Við erum í fjötrum þess, en mitt í því öllu brýst eilífa lífið fram, líf í fullri gnægð. Þegar Jesús rís af gröf sinni þá merkir það að lífið sigrar, og allt það dásamlega sem hann stendur fyrir. Það getum við ekki skilið né útskýrt, fremur en við getum brotið egg til að sannfærast um hvort í því sé líf. En við getum þegið það, lifað af því, glaðst yfir gjöfum þess, reitt okkur á það og mætt með því lífi og líka dauða í kærleika, von og trú.

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Gleðilega páska!