Lýstu mér, sólin hvíta

Lýstu mér, sólin hvíta

Hálærði guðfræðingurinn var orðlaus frammi fyrir einlægri trú drengsins, sem hafði öðlast innsýn þarna á áugnabliki. Maðurinn sem átti að vita allt í trúarlegum efnum var lítill við hliðina á drengnum.

Lestrar: Sálm 104,24-30, Post 2,1-11, Jóh 14,15-21.

Biðjum með orðum Sigurbjörns Einassonar biskups:

Lýstu mér, sólin hvíta, heita, bjarta, Heilagi andi Guðs og Krists, hans sonar, Uppspretta ljóss og friðar, lífsins vonar, Ljúk mér upp, kom þú, streym þú yfir mig, Anda nú þinni elsku inn í mig.“

Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði, föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega hvítasunnuhátíð og gleðilega fermingarhátíð!

Kæru vinir, sem nú fermast saman hér í dag. Mig langar til að þakka ykkur fyrir veturinn og allar spjallstundirnar sem að við höfum átt saman. Þar höfum við velt upp stórum spurningum og reynt að leita svara við þeim. Ég vona að þið farið þannig út í lífið, veltandi fyrir ykkur spurningunum og leitið ætíð heiðarlega að svörum. Eina rétta svarið getur ef til vill verið ómögulegt að finna, en leitinni skal haldið áfram!

Þegar ég fór að hugleiða, hvað ég ætti að ræða um við ykkur, rakst ég á bréf þýska guðfræðingsins Dietrich Bonhoeffer. Bréfið leitaði á hug minn og ég spurði mig, hvort að ég gæti notað það í grunn hugleiðingar á fermingardegi. Svarið var bæði já og nei, en á endanum varð já ofaná og ég steypti mér í djúpu laugina. Bonhofeffer var stórgáfaður og má með réttu nefna Mozart guðfræðinnar. Hann var fæddur árið 1906 og lauk doktorsprófi í guðfræði tuttuguog eins árs gamall 17.desember 1927. Árið eftir var hann staddur á Spáni í Barcelona, þar sem hann átti að vera eitt ár sem aðstoðarprestur í evangelískum söfnuði erlendis, þar sem að töluð var þýska. Í bréfi sínu til Walter Dress segir hann vini sínum frá því, að hann hafi fengið þennan sama morgun einstakt sálusorgunartilfelli til meðhöndlunar. Um klukkan ellefu hafi tíu ára drengur komið með pöntun frá foreldrum sínum til Bonhoeffers. Bonhoeffer tók eftir, að ungi maðurinn, sem venjulega var glaður og kátur, var eitthvað niðurdreginn. Skyndilega fór ungi pilturinn að gráta og innan um grátstafinn heyrði Bonhoeffer aðeins: „Herra Wolf er dáinn.“ „Hver er Herra Wolf?“ spurði Bonhoeffer. Upp kom, að Herra Wolf var ungur sjefferhundur, sem hafði verið veikur í átta daga og hafði látist fyrir einum og hálfu klukkutíma. Hundurinn og drengurinn voru góðir leikfélagar. Þennan morguninn hafði hundurinn vakið drenginn og nú var hann dáinn. Hvað var hægt að segja í þessum aðstæðum. Skyndilega stóð drengurinn kyrr og sagði: „en ég veit að hann er alls ekki dáinn.“ „Hvað áttu við“ spurði Bonhoeffer. Drengurinn svaraði: „Jú, andi hans er á himnum og gleðst.“ Drengurinn hafði eitt sinn spurt kennara sinn í kristinfræðitíma, hvernig það væri í himnaríki. Kennarinn hefði þá sagt honum að hann vissi það ekki, hann hefði aldrei verið þar. „Segðu mér núna“ sagði drengurinn við Bonhoeffer „mun ég sjá Herra Wolf aftur?“ „Hann er sannarlega á himnum? Er það ekki?“

Bonhoeffer segir svo frá: þarna stóð ég og átti að svara með já eða nei.“ Ef ég hefði sagt: „Nei, það vitum við ekki“ þá hefði það þýtt „nei.“

Hér var kominn ungur maður sem vildi endalegt svar og slíkt er alltaf erfitt að gefa.

Bonhoeffer segir: „ég sagði við hann: „sjáðu til. Guð hefur skapað mennina og líka dýrin. Hann hefur því elskað dýrin eins og manninn og ég trúi því að þannig sé það hjá Guði. Allt sem hefur fengið kærleika á jörðu, sé líka hjá Guði, því að kærleikurinn er brot af Guði. Hvernig þetta allt gerist, vitum við ekki...“

Drengurinn hætti að gráta og sagði: „Ég sé semsagt herra Wolf aftur, þegar ég dey og þá getum við leikið okkur saman aftur.“

Bonhoeffer svaraði, að hvernig það yrði vissum við ekki.

Drengurinn vissi það hinsvegar. Eftir nokkra mínútna umhugsun sagði hann: „Ég skammaði Adam og Evu í morgun. Ef þau hefðu ekki borðað eplið, hefði Herra Wolf ekki dáið.“

Hálærði guðfræðingurinn var orðlaus frammi fyrir einlægri trú drengsins, sem hafði öðlast innsýn þarna á áugnabliki. Maðurinn sem átti að vita allt í trúarlegum efnum var lítill við hliðina á drengnum.

Bonhoeffer skrifar: „Traustið í andliti drengsin sem gekk burt fá mér, mun ég aldrei gleyma.“

Það er eitthvað við þessa frásögn sem heillar. Getur maður alltaf fengið endanleg svör við öllum sínum spurningum?

Unga drengnum var ljóst, að andi hundsins fór til himna og gladdist. Honum var jafn ljóst, að við skiljum eftir hér okkar jarðneska líkama. Drengnum var ljóst, að hann lifir í heimi sem er ekki fullkominn, ekki algóður, en þó er þetta heimur, þar sem kærleiki á að ríkja og að það sé í okkar valdi að koma þeim kærleika fram.

Hérna stendur barnskilningurinn á tilverunni andspænis sprenglærðum guðfræðingnum og hefur betur. Skilur guðfræðinginn eftir hugsi.

Ef til vill er þetta það sem Jesús sagði, að það væri eingöngu barnið í okkur sem gæti fundið Guð. Við gætum ekki troðið okkur í gegnum nálaraugað, sem að barnið færi auðveldlega í gegnum.

Það má hér líka sjá samsvörun í frásögn Bonhoeffers við guðspjall dagsins. Það koma fyrir andartök í lífi okkar, þar sem að við fáum innsýn inn í kjarna tilverunnar. Slík innsýn getur verið heimska í augum þeirra sem telja sig hafa allt á þurru og vita allt. Slík innsýn getur líka verið okkur hvatning til að leita að barninu í okkur sjálfum og sjá, hvort að lausnin hafi kannski alltaf legið fyrir augum okkar, en við ekki séð!

Slík þekkingarleit á að vera okkur leiðarvísir í lífinu. Skipulag lífríkisins hér á jörðu er okkur ráðgáta og enn meiri þegar við horfum á allar stjörnur himinsins úr Hubble sjónaukanum. Þvílía óreiðu er þar að sjá. Af hverju er ekkert skipulag að sjá þar. Bíðum við! Hugsanlega er þar skipulag, sem við höfum enn ekki komið auga á! Okkar er að spyrja allt lífið og reyna að finna svörin eftir bestu getu. Þetta höfum við verið að reyna í allan vetur. Spurt og hugleitt.

Það er ekki víst að við fáum svör við öllu, en umræðan er mikils virði. Umræðan er alltaf til gósð. Við verðum vinir eftir sem áður og virðum niðurstöðu hvers annars. Stundum verðum við að láta okkur nægja svör eins og hjá stráknum hjá Bonhoeffer. Hann fann svar sem að nægði honum. Hann hefur efalaust síðar á ævinni íhugað niðustöðu sína þennan morgun. Hitti hann naglan á höfuðið eða ekki? Guðfræðingurinn fór ekki lengra en hann gat, en drengurinn sá lengra, alla vega fyrir sig.

Hvítasunnan er ein slíkra spurninga. Kraftaverkasaga, en líklega um leið tákn. Á hvítasunnunni lokast það sem opnaðist í Babylon, eins og segir í Fyrstu Mósebók 11,9“og þar ruglaði Drottinn tungumál allrar jarðarinnar og þaðan tvístraði hann þeim um alla jörðina.“ Hvítasunnan er sameiningardagur. Textinn var gerður til að skiljast. Svo fennir yfir forsendurnar og eftir stendur textinn eins og hann er. Við reynum að skilja hann með öllum tiltækum ráðum. Þannig verðum við að lifa lífinu, án þess kannski að fá alltaf fullnaðar svör við öllu. Ég sá eitt sinn mývarg í smásjá. Þvílík undrasmíð að öllu leyti. Eitt er þó ljóst í mínum huga með tilliti til slíkrar völundarsmíðar sem flugan er, að það er hugsun að baki tilveru okkar hér á jörðu og það er mér leiðarvísir fram á við.

Megið þið eiga gleðilegan fermingardag og njótið hans í hvívetna í faðmi fjölskyldunnar.

Við nafn hans lít ég loga brenna og leika á vörum – saman renna nú allra þjóða móðurmál í mannsonarins fórnarskál. Í einu nafni ómar hér um eilífð: „Jesú lof sé þér.“

Þá blómgast rós í ríki þínu. Þú ræður yfir lífi mínu. Með hvítasunnusól ég rís og sest í þinni Paradís. Ég gaf þér herra hjarta mitt og hefi öðlast lífið þitt.

(Grundtvig – Heimir Steinsson)

Guð gefi okkur öllum gleðilega hvítasunnuhátíð!