Krísa í kirkjunni

Krísa í kirkjunni

Kirkjustofnunin er í krísu en ekki kristindómurinn. Eigum að afbyggja stofnunina? Hver er tilgangur kristninnar? Jú, að elska Guð og elska fólk. Allt sem hindrar, siðvenjur og kirkjukerfi, eiga að lúta þeim kvörðum. Við viljum að kirkjan sé alltaf öruggur staður fyrir uppvaxandi líf og kynslóð, staður sem veitir vaxtarmöguleika, frið, stuðning og ást.

Óhamingju Íslands verður allt að vopni. Kreppa kirkjunnar er á allra vörum og tilefnið dapurlegt. Í góðviðrinu í vikunni sat hópur úti fyrir kaffihúsinu Sólon í Bankastrætinu og ræddi ástandið í þjóðfélaginu. Allt í einu sagði einn í hópnum hátt og snjallt, svo hátt að allir sem gengu framhjá gátu heyrt hvað maðurinn sagði: “Þetta er allt eins. Það er eins með kirkjuna, dómstólana og launaseðlana – ég bara botna ekkert í þessu.”

Launaseðlarnir eru stundum furðulegir og í engu samræmi við hvað mönnum finnst að ætti að standa á þeim. Dómstólarnir eru gagnrýndir eða lofaðir allt eftir afstöðu og hagsmunum ummælenda. En kirkjan – ja hver botnar í henni?

Hvernig líður kirkjunni núna? Fjölmiðlarnir hafa miðlað átakanlegri mynd af hinu kirkjulega “yfirliði” í sögu og samtíð. Fólki líður illa þegar illvirki eru framin, enn verr þegar menn, sem traust hefur verið borið til, bregðast. Og svo er hjartanístandi þegar seint og illa gengur að viðurkenna brotin. En brotamenn hafa alltaf verið og eru forhertir og varnarhættir og sálfsblekkingar byrgja mönnum sýn. Þrátt fyrir að kirkjan hafi í raun komið á fót góðu viðbragðskerfi, hafi góðan ásetning og eigi vel virkt fagráð í kynferðisbrotum var þó ekki mokað út á sínum tíma þegar kynferðisbrot fyrrverandi biskups komust í hámæli. Málið hefur reynst vera krabbi kirkjunnar. Ekki var tekið á rótum meinsins og þá fer illa, meinið verður bara verra. En það er ekki nóg að rífa mítur og kórkápu af biskupi - eða mynd af vegg - heldur varðar málið annað og meira en einn mann. Um er að ræða menningu, starfshætti og afstöðu, sem varðar okkur öll, viðhorf og afferli.

Það er verkefni okkar framundan að gera allt málið upp. Nú er komið að kirkjuskúringu, sem ekki verður undan vikist. Traust er grundvallaratriði í samhengi trúarinnar. En traust gagnvart mismunandi starfsþáttum kirkjunnar er orðið köflótt. Við það eigum við ekki að sætta okkur. Skúrum í krísunni og verðum traustsins verð sem kirkja.

Jerúsalem - Jeríkó Fyrst að guðspjallstextanum, sem er ótrúlega hittinn og beittur hvað varðar nútímavanda kirkju, en varðar líka hlutverk einstaklinga. Saga dagsins er um ferðalanga á veg frá Jerúsalem austur og niður til Jeríkó. Þetta var n.k. Hellisheiðarvegur í Palestínsku samhengi. Hann var fáfarinn og því hættulegur. Aðeins hugaðir menn - eða þeir sem urðu vegna vinnu eða aðstæðna - fóru leiðina einir eða fámennir. Ræningjarnir áttu griðland í eyðimörkinni, komu og fóru með skyndingu. Ferðalangurinn í dæmisögu Jesú var samt á ferðinni niður gil og skorninga í átt til Jeríkó í Jórdandal. Skyndilega voru ræningjarnir komnir og umkringdu hann, slitu af honum klæði og fjármuni, börðu, stungu og skildu síðan eftir við vegarkantinn. Hrægammarnir hnituðu hringa hátt í lofti og hlökkuðu yfir bráð sinni. Þó varð bið á að þeir steyptu sér.

Prestur musterisins í Jerúslaem var á ferð á annexíuna í Jeríkó. Hann sá auðvitað hinn slasaða en sinnti ekki góðverkum og fór hratt hjá. Skóhljóð að nýju og vonir fórnarlambsins kviknuðu. Það var levítinn, sem var á ferð. Hann var kunnur fyrir guðsþjónustuhald sitt, en einnig hann var á hraðferð. Síðast kom svo Samverji, sem var annars flokks borgari í löndum Gyðinga, sem var litið niður til. En það var það var hann, sem stöðvaði asnann sinn og vann líknarverkið, batt um sár, gaf manninum að drekka og reiddi hann til læknandi manna og kostaði spítalavistina. Það var sá, sem síst hefði mátt búast við að væri almennilega innréttaður, sem reyndist vandanum vaxinn og brást rétt og vel við aðstæðum. Hinum slasaða var bjargað frá fullkominni niðurlægingu.

Elska – en hvernig? Þetta er mögnuð saga um fórnarlamb, sem varð ekki aðeins fyrir árás heldur óþarfa þjáningu, niðurlægingu og hörmungum í kjölfarið vegna afskiptaleysis guðsmanna þess tíma. Merking frásagnarinnar verður því áleitin í samtíma okkar vegna atburða síðustu vikna. En hún varðar líka viðburði í einkalífi okkar. Hvernig förum við með fórnarlömb almennt og hvernig hegðum við okkur þegar við sjáum fólk órétti beitt? Göngum við erinda hinna kúguðu og hrjáðu, niðurlægðu og þeirra sem ráðist hefur verið á? Erum við reiðubúin að vera málsvarar fórnarlamba? Erum við tilbúin að berjast við ofbeldismenn, kúgandi kerfi og fórna tíma okkar í erfiða baráttu? Saga Jesú varðar okkur öll og henni er ekki aðeins beint til presta og biskupa í sálgæsluaðstæðum.

Jesús sagði söguna til að kenna guðfræðingi list trúarinnar. Sá vildi kanna skoðanir Jesú og spurði hinnar ævarandi spurningar: “Hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?” Jesús þekkti bæði spurninguna og líka svör fræðinganna. Hann vissi vel, að hornsteinn í trúarhugsun Gyðinga var hið gamla og góða: “Elska til Guðs og elskan til náungans.” En hvað merkir að elska Guð og elska náungann? Svörin voru mörg og útlistandi lagabálkar fræðinganna skýrir. En Jesús vildi benda á aðalatriðið, að menn skildu og tileinkuðu sér virka elskuafstöðu og sagði því þessa snilldarsögu.

Allir vissu að vegurinn til Jeríkó var óhappavegur. Ræningjar tóku tolla og engum lögum varð komið yfir þessi börn eyðimerkurinnar. En prestarnir, þjónar musteranna urðu að fara til útkirkjunnar niður í Jeríkó. Þeir lutu vaktkerfi og urðu að fara til musterisins þar neðra til þjónustu. Þar sem ekkert prestssetur eða safnaðarheimili var þar né mötuneyti urðu þeir að taka með sér peninga til að greiða fyrir næturgistingu og mat. Jesús þekkti líka reglurnar, sem prestarnir urðu að hlýða. Þeir máttu t.a.m. ekki snerta lík, né heldur dauðvona menn til að saurgast ekki og eyðileggja þar með guðsþjónustuhaldið. Og Jesús setti saman söguna til að opna lokað þjónustukerfi, trúarkerfi sem ekki tók tillit til aðstæðna og lífs fólks.

Guðfræðingurinn spyr: Hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf.” Hann þekkti hvernig átti að svara spurningunni. En Jesúsagan opinberaði honum veikleika kenningarinnar. Auðvitað hafði hann sjálfur farið Jeríkóleiðina. Hann þekkti óttann við ræningjana og skildi því sneiðina. Helgihaldið og reglurnar um afskipti presta af sjúkum voru til að hefta ferðalanga við að liðsinna deyjandi manni. Guðsdýrkun samtíðarinnar var gömmunum hin besta hjálp. Það var og er ólíðandi hvað varðar inntak trúar og áherslu hins elskandi guðshugtaks kristninnar. Og prestarnir héldu áfram að stika niður til Jeríkó með spurn í hug. “Hvernig á ég að lifa til að öðlast eilíft líf?” En maðurinn lá við vegarbrún. Hvaða trúarlíf er það og hversu lífvænlegt?

Trú sem heyrir vein Jesús stingur á hneigð manna til stofnanavæðingar og að reyna að bjarga sér á kostnað samferðarmanna. Það er eigingjörn afstaða, sem eflir menn á himinferðinni en heyrir ekki hróp niðurlægðra kvenna. Guðsdýrkun er sýndarmál ef náunginn gleymist. Fagrir helgisiðir eru flótti, ef menn tjá hræðileg mál í kirkjum en aðeins er skellt við skollaeyrum.

Guðsdýrkun kemur fram í hvernig umhyggjan við fólk er. Guðfræðingurinn skildi sögu Jesú. En boð Jesú er skýrt. “Far þú og gjör slíkt hið sama….” Það þýðir að við eigum bjarga öllum þeim sem gammarnir hlakka yfir. Þar eru vatnaskilin. Þar er stefna kirkjunnar og dómur hennar. Þar er hvöt hins kristna manns og lífsvísir.

Kirkjan fyrir lífið Við erum kirkja, fjölskylda Guðs. Okkur er falið að bera fréttir til manna um, að þessi heimur er ekki og má ekki vera leiksoppur grimmra örlaga, heldur í góðum höndum. Okkur er falið að fara vel með þennan dýrgrip sem heitir kirkja. Okkur er falið að feta í fótspor hans, sem var hinn eini miskunnsami Samverji, sem kom í heim manna til að líkna og lækna algerlega. Menn, sem eiga slíkan skilning, vita að kirkjulíf er ekki hálfvelgja, heldur er um líf og dauða að tefla.

Í dag eru börn borin til skírnar í kirkjum landsins og um allan heim. Þar engin krísa. Þúsundir koma til kirkju á Íslandi í dag og taka þátt í lífssöngvum og leggja lífinu lið. Fólki er þjónað vel. Það er engin kreppa í þeim kirkjumálum. Kirkjan eflist í landinu.Traustið er líklega óbrenglað til hverfiskirkjunnar en minnkandi í garð til yfirstjórnar þjóðkirkunnar? Kirkjustofnunin er í krísu en ekki kristindómurinn. Við verðum að spyrja stórra spurninga um hvort við eigum að afbyggja stofnunina? Hver er tilgangur kristninnar? Jú, að elska Guð og elska fólk. Allt sem hindrar, hvers konar siðvenjur og kirkjukerfi eiga að lúta þeim kvörðum. Við viljum að kirkjan sé alltaf öruggur staður fyrir uppvaxandi líf og kynslóð, staður sem veitir vaxtarmöguleika, frið, stuðning og ást.

Í þeim ofbeldismálum, sem hafa verið opinberuð og rædd síðustu daga hefur komið ljós, að í kirkju okkar var ekki geta til að hlusta á konur sem höfðu orðið fyrir ofbeldi með því móti að ganga erinda þeirra. Ég ætla ekki að dæma þá sem brugðust, en ég held hins vegar að ég gangist við að kirkjan okkar er dæmd þar með og við eigum að gangast við ábyrgð okkar og tryggja að hreinsað verði út og breytt verði til bóta. Að mínu viti er vilji meðal presta og starfsfólks kirkjunnar til að læra af mistökum og gera betur til að hinir rændu og særðu liggi ekki lengur í áratugi. Jesúsagan knýr kirkjuna til að læra að verða betri málsvari hinna kúguðu og efla hæfni til að taka á brotamönnum. Brotasæknir menn hafa um aldur reynt að nýta sér góðgirni trúmanna og umburðarlyndi kirkjunnar. Skúrum út og notum viðeigandi meðul til að glíma við illskuna.

Mér er ofarlega í huga þakklæti til þeirra kvenna, sem hafa haft í sér dug og staðfestu til að minna á sannleikann. Á þeim var brotið, þær rændar gleði sinni og síðan svívirtar með skeytingarleysi eða getuleysi. Þær hafa ekki valdið kirkjunni skaða því kirkja á og má aldrei vera hrædd við sannleikann og kirkja má aldrei vera vettvangur þöggunar, kúgunar eða neins konar bælingar. Þökk sé þeim, sem kalla okkur til ábyrgðar og kirkjuhreinsunar. Ef til væru hetjuverðlaun kirkjunnar myndi ég leggja til að þeim yrðu veitt slík viðurkenning.

Spegill þinn Smásaga Jesú á erindi við þig. Þetta er saga, sem er eins og spegill til að spegla og skoða sig í. Er líf þitt hraðferð? Gefur þú þér ekki tíma til hins mikilvæga? Heyrir þú veinin, sérðu sárin, veistu af ræningjunum og flýtir þér samt framhjá? Er þín ferð til eilífðarverkanna svo hröð að þú hafir ekki tíma til að hlúa að lífinu? Það er þetta, sem Jesús vill fá okkur til að hugsa um.

Kirkjulífið stendur ekki eða fellur með trausti til stofnunar, biskups, kirkjustjórnar, afstöðu til lagagreina eða hversu margar krónur eru greiddar í sóknargjöld. Allt eru þetta mikilvægt en ekki afgerandi lífsforsendur.

Jesús vill, að kirkjan hans sé elskurík og án afneitunar í meginmálum og ekki síst réttlætismálum, mikil hreyfing manna, sem lært hafa að guðsþjónusta er jafnframt skilvís og ákveðin þjónusta við menn. Í lok guðspjallsins segir Jesús: “Far þú…. og ger slíkt hið sama….” Já, kirkjan er í krísu en ekki Jesús Kristur. Kreppur eru alltaf til að betra. Nú er komið að bótum, bæði í stofnun og í eigin ranni.

Ef þú skilur ekki dómskerfið, launaseðil eða kirkjuna máttu þó skilja og vita, að kristindómur er þjónusta við Guð og þjónusta við menn – elska Guð og elska menn. Það er sameiginlegt hlutverk þitt og mitt – okkar allra. Amen.

Prédikun í Neskirkju, 29. ágúst, 2010. 13. sd. eftir þrenningarhátíð.

Í lok messu minnti ég á að á þeim málum sem rædd voru í prédikun væru margar hliðar og að fleiri túlkanir væru mögulegar en þær sem ég tjáði. Boðið var til samtals og margir voru til viðræðu í kirkjukaffinu. Við, kirkjufólkið og þjóðin, höfum bara efni á einlægri umræðu og uppgjör. Takk Neskirkjufólk fyrir samfélag.

Textaröð: A

Lexía: 1Mós 4.3-16a

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“ Þá sagði Kain við Abel, bróður sinn: „Göngum út á akurinn.“ Og er þeir voru á akrinum réðst Kain á Abel, bróður sinn, og drap hann. Þá sagði Drottinn við Kain: „Hvar er Abel, bróðir þinn?“ Kain svaraði: „Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?“ Drottinn sagði: „Hvað hefurðu gert? Blóð Abels, bróður þíns, hrópar til mín af jörðinni. Þess vegna skaltu vera bölvaður og burtrekinn af jörðinni sem opnað hefur munn sinn og tekið á móti blóði bróður þíns er þú úthelltir. Þegar þú yrkir jörðina skal hún ekki framar gefa þér uppskeru sína. Landflótta og flakkandi skaltu vera á jörðinni.“ Kain sagði við Drottin: „Sekt mín er meiri en svo að ég fái borið hana. Nú hefur þú rekið mig burt af landinu. Ég verð að fela mig fyrir augliti þínu, landflótta og flakkandi um jörðina. Þá getur hver sem finnur mig drepið mig.“ Drottinn sagði við Kain: „Svo skal ekki verða. Hver sem drepur Kain skal sæta sjöfaldri hefnd.“ Og Drottinn setti merki á Kain til þess að enginn sem rækist á hann dræpi hann. Og Kain gekk burt frá augliti Drottins.

Pistill: 1Jóh 4.7-11 Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.

Guðspjall: Lúk 10.23-37 Og Jesús sneri sér að lærisveinum sínum og sagði einslega við þá: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“ Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“ En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur. Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“ Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“ Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“