Ég þakka

Ég þakka

Guð er aldrei nefndur en þó er Guðsmyndin skýr. Skáldið er fullt þakklætis, s.s fyrir bros barna sinna, vináttu og ljós lífsins

Ég þakka orðin sem að sólin gefur að sumri til í faðmi jarðarinnar og jörðin dæsir dýrlega og sefur og dreymir næstu gjafir ævi minnar.

Þetta fallega vers er eftir dr. Sigurð Ingólfsson, skáld og bókmenntafræðing, og er að finna í ljóðabók hans sem nefnist Ég þakka- og inniheldur 52 þakkarbænir. Þessi bók er bænabók án þess að gefið sé til kynna að um bænir sé að ræða eða hver viðtakandi skuli vera. Guð er aldrei nefndur en þó er Guðsmyndin skýr. Skáldið er fullt þakklætis, s.s fyrir bros barna sinna, vináttu og ljós lífsins.“ Guð er samofinn öllu því sem er og var og verður. Hann er jafn sjálfsagður í nærveru sinni og andardráttur, sólargeisli og regndropi.“ skrifar föðurbróðir höfundar, vígslubiskupinn í Skálholti, hr. Kristján Valur Ingólfsson, í formála þakkarbænabókarinnar. Mér er ánægja að geta þess að Sigurður er dóttursonur annars vígslubiskups, hr. Sigurðar Guðmundssonar, sem átti mestan þátt í því að Hólar urðu aftur að biskupssetri, með því að sækja jafnframt um og hljóta sóknarprestsembættið og flutti því til Hóla, en fram að árinu 1986 sátu vígslubiskupar Hólastiftis heima í þeim prestaköllum sem þeir þjónuðu. Árið 1997 var biskupsstóll loks endurreistur formlega á Hólum, en þá voru liðnar nær tvær aldir frá því hann hafði verið lagður niður.

Þar með hafði Hólastaður endurheimt reisn sína og virðugleika sem biskupssetur og nú situr hér þriðji vígslubiskupinn frá þeim tíma.

Það er eftir því tekið hve fús frú Solveig Lára vígslubiskup er að veita mér, djáknanum, aðgang að þjónustunni hér í dag og er það reyndar í fjórða skiptið sem hún býður mér það. Slíkt er ekki sjálfsagt, þótt við djáknar höfum heimild til að annast m.a. guðsþjónustu með samþykki sóknarprests, sálgæslu og fræðslu bæði fermingarbarna og yngri barna. Vígslubiskupinn hefur sýnt mér mikið traust og þakka ég það af auðmýkt í þeirri von að vel fari. Samskipti okkar sr. Solveigar Láru ná aftur til ársins 1967, er ég varð umsjónarkennari hennar í Miðbæjarbarnaskólanum við Tjörnina í Reykjavík og hún var 11 ára skólastúlka. Þótt samskipti hafi rofnað í áratugi, voru þau endurnýjuð fyrir allmörgum árum og í dag vildi ég ekki vera án þeirra. Þakka þér og ykkur báðum, kæru vígslubiskupshjón, það allt og meira til.

Aftur til þakkarbænarinnar þar sem þakkað er fyrir gjafir sólarinnar í faðmi jarðar. Við höfum einnig mikið að þakka frá því fyrr í sumar. Fyrst ber að nefna að nánast öll þjóðin fylltist gleði og stolti vegna einstakrar framgöngu og árangurs karlalandsliðs okkar í knattspyrnu á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi. Drengirnir okkar hafa áunnið sér virðingar víða um heim fyrir frammistöðu sína og hógværð og sömuleiðis áhorfendaskarinn með agaðri framkomu.

Annað sem þjóðin tók sameinuð þátt í voru forsetakosningarnar í júnílok og á morgun 1. ágúst, mun nýi forsetinn okkar, Guðni Thorlacius Jóhannesson, vera settur í embætti við hátíðlega athöfn, sem reyndar verður látlausari en áður að óskum hins nýja forseta, sem er vel. Ber að fagna glæsilegum þjóðhöfðingja og því að virtur fræðimaður skuli aftur setjast á forsetastól. Hann flytur nú til Bessastaða með fjölskyldu sína, vel menntaða og myndarlega eiginkonu og fjögur ung börn.

Og enn ber að þakka og nú fráfarandi forseta okkar, Ólafi Ragnari Grímssyni, sem hefur staðið forsetavaktina lengur en nokkur annar, eða í tuttugu ár og hefur notið virðingar bæði heima og erlendis, fyrir hæfni sína og dugnað, þótt ekki væri hann alltaf óumdeildur.

Eflaust mætti telja fleiri þakkarefni sumarsins, en hér læt ég staðar numið í bili.

Í lexíu dagsins í Jeremía segir frá heimsókn hans til leirkerasmiðs, sem bjó til nýtt ker ef hið fyrra mistókst. Þá kom orð Drottins um það hvort hann gæti ekki farið með Ísraelsmenn eins og leirkerasmiðurinn gerði. Þeir væru í hendi hans, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins. Það er augljóst að Guð ætlaði ekki að mölva leirkerið sitt í mynd mannsins, þetta ker sem hann gerði í mynd sinni. Hann grandar ekki mynd sinni. Á sama hátt vill hann ekki að sjálfsmynd mannsins brotni. Maðurinn verði alltaf heill. Það er vilji Guðs. Þá áttar hann sig á að líf mannsins er í hendi Guðs. Við erum í hendi Guðs, eins og barn á armi og penninn í hendi.

Berum saman hugsunina um sköpun sem skapari hefur ekki hefur skipt sér af síðan hann setti allt verkið í gang og þá sköpunartrú sem við viðhöldum í kirkjunni. Að Guð sé stöðugt að sköpun sinni svo hún endist. Verk Guðs eru góð verk og af því verki hans ættum við ekki að gera annað en það sem er í anda hans. Það felur jafnvel í sér að svara illskunni sem birtist í hefndarverkum og ódæði með góðu og nægir að nefna voðaverk Breviks í og við Osló fyrir fimm árum, en þá lagði forsætisráðherra Noregs áherslu á í huggunarárvarpi sínu til þjóðarinnar, að horfa fram á veginn og láta þennan voðaatburð ekki eitra líf þeirra.

Svipumst um hér á Hólum, þessum merka menningarstað sem á sér 910 ára sögu. Skyldu biskupar fyrri alda ekki hafa verið að vinna Guðs góðu verk er þeir hjálpuðu fátækum eins og Jón Ögmundsson, fyrsti biskupinn á Hólastóli 1106, ásamt því að leggja til að klaustur yrði stofnað á Þingeyrum með öllu því merka starfi sem þar var síðar unnið. Annar biskup, Guðmundur góði Arason, átti reyndar í deilum við höfðingja þar sem hann hélt fram sjálfstæði kirkjunnar, en hann lýsti því yfir að enginn ætti að svelta á biskupsdæminu og að allir sem kæmu heim að Hólum ættu að fá tvær máltíðir á dag. Má segja að þar hafi verið vísir að hjálparstarfi kirkjunnar. Guðbrandur Þorláksson sem með þýðingu og útgáfu á Guðbrandsbiblíu 1584 lagði grundvöllinn að íslensku máli sem leitt hefur til þess sjálfstæðis og þeirrar menningar sem við njótum í dag og að lokum nefni ég Gísla Magnússon biskup sem stóð fyrir því að þessi merka Hóladómkirkja var reist fyrir rúmum 250 árum eftir mikinn niðurlægingartíma staðarins.

Í dag er fer fram blómlegt starf á Hólum, með biskupssetri og virku kirkju-og menningarstarfi, s.s. sýningu núna í Auðunarstofu þar sem 350 ár eru liðin frá fyrstu útgáfu Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar og er sú bók til sýnis ásamt mörgum öðrum útgáfum.

Já, maðurinn vinnur sannarlega Guðs góðu verk í anda hans.

Guðspjall dagsins greinir frá því er Jesús grét yfir borginni og örlögum hennar. Enn fremur um hreinsun musterisins, sem sagt er frá í öllum guðspjöllunum fjórum. Jesús grætur yfir borginni helgu, Jerúsalem (og merkir friður) sem var umsetin. Jesús talar til borgarinnar: „Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma“. Það hlýtur að vera mjög mikilvægt við þekkjum okkar vitjunartíma, þ.e. að við skiljum erindi okkar í þessum heimi og hvar mörk okkar liggja, einmitt núna. Leirkerið sem skapað var, er afar brothætt um þessar mundir og menningin okkar næstum orðin völt. Eitt af því sem við, kirkjunnar fólk, ættum að gera er auðvitað að svara hverju sem að kirkjunni beinist með kærleika og friði, jafnvel þótt boðið sé upp á ófrið og deilur. Svar okkar við því sem gengur á úti í heimi er að svara hverju sem er í anda fagnaðarerindisins sem flutt er af honum sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Sá heimur er nú óvart okkar heimur líka. Við finnum til samlíðunar með fólkinu sem hefur verið að missa ástvini sína fyrir hendi hryðjuverkamanna en stríð þeirra eru þegar orðinn afdrifaríkur þáttur í lífi evrópskrar menningar sem af er þessari öld.

Það veldur okkur sársauka að heyra af dauða saklausra borgara á götum sem við höfum sjálf gengið eftir, dauða á stræti þar sem gaman var andartaki fyrr, sbr. orð forseta Íslands eftir voðaverkin á aðalgötu Nice í Frakklandi fyrir skömmu:“Þetta hefðu alveg eins geta hafa verið Íslendingar sem létust“, en fjöldi Íslendinga var einmitt þarna vegna leiks íslenska fótboltaliðsins um tveimur vikum fyrr. Veröld okkar fer minnkandi og verður sjálfsagt á endanum ein borg, eitt heilagt þorp á fjalli heimsins. Það er talað um heimsþorpið og það er einhvern veginn að rætast í okkur, sem erum orðin svo lík fyrirmynd okkar, Guði, sem finnur til með sínu minnsta barni. Það er næstum því gott að við finnum til þegar við heyrum af fórnarlömbum og grátum yfir þeim sem líða. Hér áður fyrr var jafnan miðað við höfðatölu, jafnvel líka í slysum og dauðsföllum: Að einn slasaður maður á Hringbrautinni jafngilti að fimmtán væru slasaðir í Finnlandi og einn maður dáinn í umferðarslysi á Vesturlandsveginum væri jafnstór frétt og rútuslys í Egyptalandi þar sem tuttugu deyja en það var jafnt og hundrað dánir í lestarslysi í Kóreu. Sem betur fer hefur þetta breyst þannig að við erum ekki lengur eins ónæm á dauða og missi annarra þótt þeir búi langt frá okkur. Það er gott að manngildið er orðið það sama í hugum okkar þótt lífi einnar manneskju sé lifað fjarri okkar heimalandi. Þá erum við orðin mennskari og um leið líkari skapara okkar sem skapaði alla menn jafna, enga alveg eins heldur hvern og einn jafn líkan sér að allri mynd.

Fögnuður okkar er mikill af því að við finnum í boðskap dagsins hvað smiðnum þykir vænt um smíði sína. Það sem er mikilvægast er það sem ætla má að verði til heilla fyrir alla sem Guð hefur gefið líf og gleði.

Boðskap dagsins gæti einnig verið að finna í þessum mikla viðsnúningi sem er í sjálfu guðspjallinu. Það byrjar á þessum gráti sem við höfum ekki komist hjá vegna hryggðarinnar eftir ódæðin vondu. Jesús grætur og við getum gengið út frá því að hann krýpur við kné allra sem þjást. Það er næstum því eins og þegar sr. Hallgrímur Pétursson hefur sýnt að hann kraup við hlið fólks í angist og orti sálma með von og trúartrausti þegar bæði hann sjálfur og þau og við höfum mest þurft á því að halda. Og hann endar á "Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst ..."

Kvenbiskupar okkar, ásamt prestum, hafa einnig kropið við kné hælisleitenda sem leituðu á náðir þeirra er flytja átti þá úr landi.“Kirkjan hlýtur alltaf að taka afstöðu með fólki í neyð“, sagði biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir. „Ég grét er ég sá mennina dregna út úr kirkjunni“ sagði vígslubiskupinn á Hólum, frú Solveig Lára Guðmundsdóttir. Þarna sýna þessar sterku trúkonur meðlíðan og stuðning við þá sem þjást og eiga um sárt að binda. Eins og presturinn ungi sem faðmaði syrgjandi ekkju að sér við gröf eiginmanns hennar sem hafði látist skyndilega um aldur fram og hann grét með henni. Þannig er kristin trú í verki og sá kærleikur sem Kristur boðar. Slík viðbrögð eru ómetanleg og dýrmæt þeim sem þeirra njóta. Slíkt er eitt af þakkarefnunum sem fyrr voru nefnd. Í almanaki sem nefnist Vegur til farsældar eru einkunnaorð dagsins í dag: „Kærleikur í verki er-jákvæð, einlæg og ákveðin aðferð-sem hjálpar þér að ná til annarra svo þeir viti að þú elskir þá“.

En svo endar lestur guðspjallsins á því að það næstum heyrist í fólkinu sem daglega kom saman í helgidóminum til að hlýða á Drottin. Guðspjallið endar á fólkinu og þannig líka á okkur og þar af leiðandi eigum við leik. Í því er fullkomin gleði og öryggi. Fólkið er nær fagnaðarerindinu vegna nálægðar þess við Jesú. Um leið er maðurinn orðinn nákomnari erindi Jesú þar sem hann leggur manninum það á hjarta.

Þetta er eiginlega okkar hlutskipti sem gefið er ef við lesum okkur allt til enda, lesum okkur eftir reipi fagnaðarerindisins yfir hvaða hyldýpi sem fara þarf að settu marki; að eiga von á því góða sem hann hafði heitið að gera, þessi blessaði Guð sem blessar okkur - bara ef við hlýðum ákaft og dveljum við Orð hans.

Megi hinn upprisni Kristur, Drottinn vor og frelsari, leiða okkur í kærleika sínum svo við mættum þjóna honum af auðmýkt.

Amen.

Guðspjall:Lúk.19,41-48.