Ríki og kirkja í Evrópu

Ríki og kirkja í Evrópu

Í umræðunni um samband ríkis og kirkju er gjarnan höfðað til þess að nútímaþjóðfélag krefjist þess að skilið sé milli ríkis og trúarbragða, ríki skuli vera hlutlaus í trúarefnum. Gjarna er vísað til fjölhyggju og jafnræðis trúarbragða.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
25. september 2003

Í umræðunni um samband ríkis og kirkju er gjarnan höfðað til þess að nútímaþjóðfélag krefjist þess að skilið sé milli ríkis og trúarbragða, ríki skuli vera hlutlaus í trúarefnum. Gjarna er vísað til fjölhyggju og jafnræðis trúarbragða.

Undanfarið hafa umræður verið innan Evrópubandalagsins um væntanlega stjórnarskrá þess. Þar hefur meðal annars verið rætt um það hvort Guðs nafn skuli þar nefnt, eða hinn kristni trúar og menningararfur álfunnar dreginn fram. Jóhannes Páll páfi og evrópsk kirknasamtök hafa ötullega barist fyrir því að stjórnarskráin nefni það sérstaklega hve kristindómurinn hefur verið mikilvæg uppspretta evrópskra gilda.

Ástæðan sé að í æ fleiri löndum og menningarheimum leika trúmálin og trúargildi æ meira hlutverk í stjórnmálum og menningu. Aðrir hafa barist ötullega gegn þessu, og sagt að ríki og kirkja séu aðskilin í Evrópu og þess vegna eigi kristindómurinn ekki heima í stjórnarskrá sambandsins. En þessi rök standast ekki fyllilega. Ríki og kirkja eiga margvísleg samskipti í Evrópu.

Í danska dagblaðinu Kristeligt Dagblad var fyrr á þessu ári gerð úttekt á sambandi ríkis og kirkju í þeim 25 Evrópulöndum sem eru eða verða senn innan ESB. Í öllum ríkjunum 25 er trúfrelsi en aðeins fá þeirra hafa kláran aðskilnað ríkis og kirkju. Ég leyfi mér að rekja nokkur meginatriði úr nefndri grein. Einnig hef ég leitað fanga í skýrslu sem gefin var út af norsku kirkjunni 2001: „Religionsfrihet og Religionspolitik.“

Í ofannefndri dagblaðsgrein kemur fram að í formálum stjórnarskráa fimm ríkja í Evrópu er Guðs nafn nefnt og hinn kristni menningararfur dreginn fram með ótvíræðum hætti. Í sex löndum til viðbótar er um að ræða meir eða minna formlegt samband ríkis og kirkju, þar sem stjórnarskráin tilgreinir eitt trúfélag sérstaklega sem þjóðkirkju eða ríkistrú. En í nánast öllum löndunum 25 blandar ríkið sér með einhverjum hætti í trúmál landsmanna, fyrst og fremst með því að ríkið fjármagnar trúfélög að hluta og oftast með því að kirkjan og kristnin hefur ótvíræða sérstöðu. Flest mið-, og austur- og suður Evrópu ríkin þar sem kaþólska kirkjan er í meirihluta, hafa gert samninga við páfastól, svonefnt konkordat, þar sem kaþólska kirkjunni eru tryggð ákveðin forréttindi af hálfu ríkisins. Það er augljóst að aðskilnaður ríkis og kirkju í Evrópu er miklu flóknari og margslungnara fyrirbæri en í fljótu bragðist virðist. Stjórnarskrárákvæði

Löndin fimm sem hafa beina tilvísun til Guðs eða kristindómsins í stjórnarskrám sínum eru : Pólland, Írland, Grikkland, Þýskaland og Slóvakía. Í formálum stjórnarskránna er lýst þeim grunngildum og menningarsamhengi sem þær byggja á.

Í stjórnarskrá Írlands frá 1937 segir í inngangi: „Í nafni heilags anda, sem allt vald kemur frá, og til hans vér sem menn og ríki hljótum um síðir að lúta...“ 92% Íra eru rómversk kaþólskir, helmingur þeirra telst virkur í kirkjunni.

Í stjórnarskrá Póllands frá 1997 eru málin sett fram á nútímalegri hátt. En þó fer þar ekkert milli mála að þar er hinn kristni grundvöllur í forgrunni. Þar segir: „Vér, pólska þjóðin, og allir íbúar í lýðveldinu, bæði þeir sem trúa á Guð sem uppsprettu sannleika, réttlætis, góðvildar og fegurðar, sem og þeir sem ekki eiga hlutdeild í þeirri trú, en telja að þessi grunngildi eigi sér aðrar uppsprettur....“

Í Grikklandi hefst stjórnarskráin frá 1975 með orðunum: „Í nafni heilagrar, ódeilanlegrar þrenningar.“ Gríska stjórnarskráin gefur grísku rétttrúnaðarkirkjunni forréttindastöðu. Allir prestar hennar eru launaðir af ríkinu, og allar kirkjubyggingar eru reknar á kostnað ríkisins. 97 af hundraði Grikkja tilheyra grísku rétttrúnaðarkirkjunni og samband ríkis og kirkju í Grikklandi er hið nánasta í Evrópu. Kirkjan á miklar jarðeignir og hefur miklu hlutverki að gegna í stjórnmálum og þjóðfélagsmálum þar í landi.

Fyrr á tímum gegndi kirkja og kristindómur mikilvægu hlutverki í Þýskalandi og þýska stjórnarskráin frá 1949 vísar til Guðs og þar með valds sem er mönnum æðra. Formáli stjórnarskrárinnar hefst með orðunum: „Þar sem þýska þjóðin er sannfærð um ábyrgð sína fyrir Guði og mönnum....“

Kirkja og ríki voru formlega aðskilin í Þýskalandi 1918, og stjórnarskráin gerir ráð fyrir að öll trúfélög séu jöfn gagnvart ríkisvaldinu, en þó er þar sérstakt samband í milli ákveðinna kirkjudeilda og ríkisvaldsins. Þegar trúfélag hlýtur viðurkenningu býðst ríkið til að innheimta kirkjuskatt/meðlimagjöld fyrir trúfélagið. Það á við um þriðjung Þjóðverja sem eru mótmælendur og annan þriðjung sem eru rómversk kaþólskir, og einnig um Gyðinga, Mormóna og Sjöunda dags aðventista. Skólarnir eru skyldugir til að annast trúfræðslu nemenda sinna í samræmi við óskir viðkomandi trúfélaga. Þetta krefst náins samstarfs kirkna og skólayfirvalda, trúfélög og kirkjur hafa mikil áhrif á kennsluefni og skipan kennara í þessum greinum. Ríkið greiðir fyrir þessa kennslu.

Í Slóvakíu, sem varð sjálfstætt ríki árið 1992, er ótvíræð tilvísan til hins kristna arfs í formála stjórnarskrárinnar, en nágrannalandið, Tékkland, vísar í stjórnarskrá sinni til þess að þjóðin sé hluti hinnar evrópsku fjölskyldu og lýðræðisríkja heimsins og sé „harðákveðin í að vernda þá arfleifð menningar og efnislegra og andlegra verðmæta.“ Ríkið styður öll skráð trúfélög með því að greiða prestum þeirra og forstöðumönnum laun, sem og að styrkja viðhald kirkjubygginga og styðja við sjúkrahús, skóla og hjálparstarf kirknanna.

Á Spáni slær stjórnarskráin föstu að landið sé skuldbundið til að vernda alla Spánverja og menningu þeirra og hefðir. Um trúarbrögðin segir m.a.: „Engin trú má vera ríkistrú. Ríkisvaldið skal þó virða trú hins spænska samfélags og gæta þess að viðhalda samstarfi við kaþólsku kirkjuna og aðrar trúarhreyfingar.“

Eins og í öðrum Evrópulöndum er trúfrelsi á Spáni en ríkið hefur gert sérstakan samning, konkordat, við Vatikanið, sem veitir rómversk kaþólsku kirkjunni forgang, sem hefur í för með sér að hún nýtur fjárhagslegs stuðnings ríkisins.

Spænska ríkið innheimtir kirkjuskatt fyrir kaþólsku kirkjuna og veitir þar að auki kaþólsku kirkjunni jafngildi um 12 milljarða króna beinan styrk. Jafnframt því greiðir ríkið laun og annan rekstrarkostnað skóla í eigu kaþólsku kirkjunnar. Önnur trúfélög hafa án árangurs reynt að fá sams konar stuðning.

Á Ítalíu var rómversk kaþólska kirkjan ríkistrú allt til 1947. Þá gekk í gildi ný stjórnarskrá sem aðskildi ríki og kirkju formlega. Í stjórnarskránni er þó kaþólska kirkjan nefnd og konkordat milli Vatikansins og ítalska ríkisins frá 1984 slær því föstu að þó kaþólska kirkjan sé ekki ríkiskirkja skuli ríkið þó styðja hana. Það gerist meðal annars með því að ríkið greiðir laun kennara sem kirkjan skipar til að annast kristindómsfræðslu í skólum landsins. Ríkið greiðir og laun kaþólskra presta sem starfa á sjúkrahúsum, fangelsum og í hernum. Löggjöfin er að mörgu leyti afar hliðholl kaþólsku kirkjunni sérstaklega. Ríkið innheimtir kirkjugjald fyrir kaþólsku kirkjuna og nokkur önnur trúfélög, sem er ákveðinn hluti tekjuskattsins. Kristindómsfræðsla skólanna er á höndum kaþólsku kirkjunnar,en kostuð af ríkinu, eins og fyrr segir. Í upphafi skólaárs verða foreldrar að tilkynna skólanum ef þau vilja ekki að börn þeirra njóti kristindómsfræðslu. Einstaka trúfélög sem gert hafa samning við ríkið geta sent kennara á sínum vegum inn í skólana til að annast trúfræðslu, en það er á þeirra eigin kostnað.

Sama má segja í Portúgal. Konkordat við Vatikanið veitir kaþólsku kirkjunni margvísleg forréttindi, og jafnvel þótt lög um trúfrelsi frá 2001 áskilja að önnur trúfélög geti samið um svipuð kjör hefur það reynst torvelt í raun.

80 af hundraði íbúa Austurríkis tilheyra rómversk kaþólsku kirkjunni. Þótt svo stjórnarskráin geri ráð fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju nýtur kaþólska kirkjan og nokkur önnur trúfélög sérstakrar opinberrar stöðu, sem felur í sér að ríkið innheimtir kirkjugjald til trúfélaganna og veitir þeim margvíslegan fjárhagsstuðning til starfsemi sinnar. Rómversk kaþólska kirkjan nýtur þar forréttinda vegna meirihlutafylgis.

Malta er eina land Evrópu sem gerir ráð fyrir ríkistrú í stjórnarskrá. Þar hefur rómversk kaþólska kirkjan sérstöðu og stjórnarskráin kveður á um að skólarnir uppfræði í kaþólskri trú.

Í þeim Evrópulöndum þar sem mótmælendur eru í meirihluta er víða gert ráð fyrir þjóðkirkjum, þó svo að alls staðar sé kveðið á um trúfrelsi og sums staðar sé aðskilnaður ríkis og kirkju samkvæmt stjórnarskrá.

Stóra Bretland hefur enga stjórnarskrá en mörg lög og reglur ákvarða tvær þjóðkirkjur í konungsríkinu, í Englandi er það enska biskupakirkjan, Church of England, og í Skotlandi skoska mótmælendakirkjan, Church of Scotland. Tengsl ríkis og kirkju eru margslungin í Bretlandi. Þjóðhöfðinginn ber titilinn „Verjandi trúarinnar“. Forsætisráðherrann útnefnir erkibiskup ensku kirkjunnar, sem ásamt nokkrum öðrum biskupum eiga sjálfkrafa sæti í efri deild breska þingsins, Lávarðadeildinni. Í Bretlandi er sterk hefð fyrir trúfræðslu í skólunum og samstarfi kirkju og skóla.

Stjórnarskrár Danmerkur og Finnlands gera ráð fyrir þjóðkirkjum. Í Danmörku er stjórnarskrárákvæðið nánast samhljóða ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. En danska þjóðkirkjan er þó mun tengdari ríkinu en íslenska þjóðkirkjan. Danska kirkjan hefur enga miðstjórn, öll ráð hennar eru í höndum þjóðþingsins og kirkjumálaráðuneytisins. Ríkið innheimtir kirkjuskatt sem stendur undir rekstri kirkjunnar og safnaða hennar, en önnur trúfélög njóta ekki lögbundins stuðnings ríkisins. Kristinfræði er kennd í skólunum. Nemendur sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni fá undanþágu frá þátttöku, en fáir notfæra sér það. Samstarf kirkju og skóla er náið.

Í Finnlandi eru tvær þjóðkirkjur. Lútherska kirkjan sem tæplega níutíu af hundraði landsmanna tilheyrir, og rétttrúnaðarkirkjan, sem hefur um fimmtíu þúsund meðlimi. Ríkið innheimtir kirkjuskatt til beggja kirkna, þjóðþingið setur þeim lög. Lútherska kirkjan hefur þó umtalsvert sjálfstæði og sterka fjárhagsstöðu. Eru engin lög sett um kirkjuna án samþykkis kirkjuþingsins, og þjóðþingið getur aðeins samþykkt lagafrumvörp kirkjuþingsins, eða hafnað þeim. Trúfræðsla er á námskrá skólanna og skal veitt í samræmi við trúfélag nemandans. Ef minnst þrír nemendur í bekk eru utan trúfélaga ber að veita þeim svo nefnda „livsåskådingskunnskap“. Fulltrúar kirknanna taka þátt í mótun námskrár í trúfræðslu, þótt hún sé á ábyrgð og kostnað og undir forræði skólans.

Í Noregi er ríkiskirkja samkvæmt stjórnarskrá. Ríkið greiðir laun og stendur undir starfsemi lúthersku kirkjunnar. Sveitarfélögin reka sóknarkirkjurnar og starfsemi þeirra. Konungurinn og helmingur ráðherra í ríkisstjórn Noregs verða að tilheyra lúthersku kirkjunni. Önnur trúfélög njóta þó margvíslegs stuðnings. Unnið er að því að efla trúfræðslu innan skólana, að ríkið greiði fyrir trúaruppfræðslu sem þjóðkirkjan og önnur viðurkennd trúfélög annist. Lönd þar sem ríki og kirkja eru aðskilin samkvæmt stjórnarskrá

Í nokkrum löndum Evrópu eru ríki og kirkjan aðskilin - og þó. Í Hollandi er sennilega eina dæmið að finna um algjöran aðskilnað ríkis og kirkju í Evrópu.

Frakkland aðskildi ríki og kirkju af mikilli hörku árið 1905 og hefur hrósað sér af algjöru hlutleysi í trúarefnum. Stjórnvöld í Frakklandi telja járntjald vera milli ríkis og kirkju. En, þó er um margvísleg tengsl að ræða milli ríkis og kirkju. Til dæmis á franska ríkið og rekur allar kirkjubyggingar sem eldri eru en 1905. Kirkjur og trúfélög geta fengið viðurkenningu sem „menningarstofnanir“ og þannig fengið skattaívilnanir og þeir sem gefa til þeirra frádrátt frá skatti. Engin trúfræðsla er í skólum og lítið samstarf við trúfélög og kirkjur á vettvangi skólanna. En skólarnir gefa þau rými í stundaskrám til trúfræðslu sem trúfélögin geta nýtt sér. Í Alsace-Lorraine er kristindómsfræðsla í skólum í samstarfi við kirkjuna, og eru það leyfar frá þeim tíma er sá landshluti var innan marka Þýskalands.

Í Lúxemburg er engin þjóðkirkja í stjórnarskrá, en ríkið styður við nokkur trúfélög verulega. Ríkið greiðir laun allra presta kaþólsku kirkjunnar og nokkurra mótmælendakirkna. Rabbía Gyðinga eru einnig ríkislaunaðir, en deilt er um hvort ríkið skuli einnig launa presta, imama, múslima.

Sama er að segja um Belgíu. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. En ríkið greiðir þó laun, eftirlaun og íbúðarhúsnæði presta og forstöðumanna allra skráðra trúfélaga, kaþólskra presta, rabbía og imama. Ríkið fjármagnar einnig byggingu og viðhald kirkna og samkunduhúsa.

Svíþjóð skildi að ríki og kirkju og felldi ákvæði um þjóðkirkju út úr stjórnarskrá árið 2000. Þó er þar ákvæði um að þjóðhöfðinginn verði að tilheyra lúthersku kirkjunni. Þingið setur kirkjunni rammalög og ríkið greiðir umtalsverðar fjárhæðir til viðhalds kirkjubygginga. Ríkið innheimtir einnig sóknargjöld fyrir öll skráð trúfélög, og standa þau gjöld undir öllum rekstri trúfélaganna.

Ungverjaland og Slóvenía gera ráð fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju í stjórnarskrám sínum. En í Ungverjalandi hafa fjögur trúfélög sérstöðu að lögum: kaþólska kirkjan, lútherska kirkjan, kalvínska (reformeraða) kirkjan og Gyðingdómur. Ríkið greiðir þessum kirkjum hluta launa presta þeirra og forstöðumanna, og styður byggingar og rekstur kirkjubygginga og samkunduhúsa. Í Slóveníu eru ríki og kirkja formlega aðskilin í stjórnarskrá en ríkisstjórin hefur gert samning við Vatikanið sem tryggir sérstöðu kaþólsku kirkjunnar.

Loks má líta aðeins lengra út yfir sviðið:

Tyrkland er múslimskt land við þröskuld Evrópu og sækist eftir aðild að Evrópusambandinu. Þar stóð Atatürk fyrir aðskilnaði ríkis og trúmála á þriðja áratug tuttugustu aldarinnar og Tyrkland skilgreindi sig sem veraldlegt, sekúlert, ríki og þjóðfélag. En tyrkneska ríkið greiðir þó laun allra imama, presta múslima, reisir og rekur moskurnar og sérstakt ráðuneyti í Ankara semur allar prédikanirnar sem fluttar eru í moskunum á helgidögunum! Íslamistar herja mjög á stjórnvöld að létta þessum hömlum og gera landið að íslömsku lýðveldi.

Í Rússlandi vék guðlaust ríki Sovétveldisins fyrir menningu þar sem rétttrúnaðarkirkjan er talin hafa miklu hlutverki að gegna, og sækist líka eftir áhrifum á stjórnmálasviðinu. Nýlega voru sett umdeild lög í Rússlandi sem takmarka mjög starfsemi annarra trúfélaga en þeirra sem hafa hefðbundna stöðu í rússnesku samfélagi og menningu.

Þetta er lauslegt yfirlit yfir stöðu ríkis og kirkju í Evrópu. Af því má sjá að ekki er allt sem sýnist. Eins er víst að þessi umræða er mikilvæg og snertir innstu taug samfélagsins. Trúmál skipa æ veigameiri sess í stjórnmálum og menningu samtímans, til góðs og ills.