Lærdómur sandkassans - Fermingarræða

Lærdómur sandkassans - Fermingarræða

Ég man þegar mamma fór með mig á gæsluleikvöllinn í Sólheimunum í Reykjavík í gamla daga þar sem sandkassinn var og skildi mig þar eftir í höndum gæslukonunnar. Ég horfði á eftir mömmu gegnum rimlana hnugginn á svip með tárin í augunum en ég tók gleði mína aftur þegar hún kom að sækja mig. Hún huggaði mig oft á mínum æskuárum.Í huga minn koma orð úr spádómsbók Jesaja þar sem segir: ,,Eins og móðir huggar son sinn, eins mun ég hugga yður, segir Drottinn.” (Jes. 66.13) Fermingarbörnin spurðu mig í vetur hvort Guð væri kona? Mér fannst það góð spurning. Það eiga nefnilega ekki allir góðan föður. Það eiga heldur ekki allir góða móður. Við búum stundum til mynd í huganum af Guði sem er í samræmi við þá mynd af fólki sem hefur reynst okkur vel í lífinu.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
08. júní 2014
Flokkar

Þitt lífsins ljósið bjarta,

æ, lát þú, Drottinn minn,

í mínum hug og hjarta

æ hafa bústað sinn,

á friðar leið það lýsi

um lífsins sporin myrk

og réttan veg mér vísi

með von um trúarstyrk.  Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það var Þorsteinn Þorkelsson sem samdi þetta fallega bænavers sem ég fór með Það er við hæfi að lofsyngja ljósið bjarta í dag þegar fermd verða 22 ungmenni sem eiga framtíðina fyrir sér. Í dag skírn á himni skír og fagur hinn skæri hvítasunnudagur. Þessi dagur dregur að sönnu nafn af Drottins sól eins og við sungum í fyrsta sálminum í messunni í dag. Gleðilega hátíð.

Sólin hækkar dag hvern á lofti og birtunnar frá henni gætir lengur og lengur svo varla gætir skugga í landslaginu. Framundan er lengsti dagur ársins á Jónsmessunni 24 júní þegar sólarinnar nýtur lengst við. Jesús líkti sjálfum sér við þetta skæra ljós sem á himni skin og sagðist vera ljós heimsins. Það er gott að bjóða Jesú að setjast að í hjörtum okkar því að hann getur verið okkur leiðarljós á vegi þegar við sjáum ekki handa okkar skil, gefið okkur styrk og kraft og hugrekki til að takast á við erfiðleika sem við kunnum að mæta á vegferð okkar í gegnum lífið. Þannig getur frelsarinn hjálpað okkur að feta leið friðar í samskiptum við náungann og hvetur okkur til að biðja fyrir friði.

Það er ekki vanþörf á því að biðja fyrir friði í heiminum. Víða eru átök milli þjóðflokka og þjóðarbrota eins og nú er að gerast í Úkraínu. Við þurfum svo sannarlega á voninni að halda, von um að sættir náist í tæka tíð svo fólkið geti haldið áfram að búa við frið. Að þessu leyti getur Guð farið fyrir þessu fólki með sínum friði og  lagt veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn eins og spámaðurinn Jesaja segir í lexíunni sem ég las áðan. Friður Guðs er engin kyrrstaða heldur frjósamur og virkur gjörningur sem skapar sátt milli fólks og þjóða og velgjörðasemi og hjálpsemi eins og postulinn segir í pistlinum í Hebreabréfinu. Guð þarf á okkur að halda til að það náist friður í samskiptum fólks í þessum heimi því að við erum hendur og fætur Guðs í þessum heimi. Hann hefur gefið okkur skilningarvitin til að við getum skapað heim þar sem allir geta búið við öryggi og frið og gleði þrátt fyrir alla erfiðleika sem mæta kunna okkur. Við kynntumst fyrst erfiðleikunum í sandkassanum þar sem við lékum okkur, erfiðleikum sem vörðuðu samskipti okkar við aðra krakka sem þar voru.

Ég rakst á skemmtilega og lærdómsríka sögu sem lýsir þessu vel. Þetta er saga um okkur öll og mig langar til að deila henni með ykkur á þessum  fallega Hvítasunnudegi í kirkjunni okkar. Þessi saga er eftir mann sem ber eftirnafnið Fulgum. Og ég bið fermingarbörnin sem ég fermi hér í dag að hlusta vel á þessa sögu:

,,Mest af því sem ég í raun og veru þarf að vita um það hvernig ég á að lifa, hvað mér ber að gera og hvernig ég á að vera, það lærði ég í leikskólanum, í háskólanum var lífsviskan ekki hátt skrifuð, en þarna í sandkassanum, var hún efst. Og þetta er það sem ég lærði þar:  Gefðu öðrum með þér. Vertu sanngjarn. Ekki lemja aðra. Skilaðu hlutum aftur á sama stað. Taktu til eftir sjálfan þig. Taktu ekki það sem þú átt ekki. Biðstu fyrirgefningar ef þú gerir á hluta einhvers. Þvoðu hendurnar áður en þú borðar og eftir að þú hefur verið á klósettinu. Sturtaðu niður. Brauðsneið og nýmjólk gera þér gott. Gleymdu ekki að læra, hugsa, teikna, lita, syngja og leika þér, og að hjálpa til. Farðu snemma að sofa. Og þegar þið farið út gætið ykkar þá á umferðinni, haldist í hendur og passið hvert annað.

Allt sem maður þurfti að vita var þarna. Gullna reglan og kærleiksboðið, grundvallar þrifnaður, vistfræðin, allt var þarna í sandkassanum. Og hvaða lífsregla er betri, þegar maður fer út á lífsins vegu en þessi: Gætið ykkar á umferðinni, haldist í hendur og passið hvert annað. Svo mörg voru þau orð. Þetta er svo satt. Siðfræði kristninnar í hnotskurn, svona yfirmáta einfalt og skemmtilegt hljóðar það. En ósköp erfitt í alvöru hins fullorðna lífs.“ ( Rúmhelgir dagar: Karl Sigurbjörnsson)

Það er kannski ekki erfitt að sturta niður en ég man þó eftir því að mamma mín minnti mig stundum á það þegar ég komst á unglingsárin að ég hefði gleymt að sturta niður! Nú þvæ ég sjaldan eða aldrei hendurnar áður en ég borða og ég fer seint að sofa. Þegar ég var lítill þá leiddi mamma mig um gangstéttar Reykjavíkur. Ég var mjög upptekinn af öllu öðru en því sem var framundan. Það olli því  að ég gekk stundum á stöðumæla og fékk nokkrar kúlur á ennið. Þegar ég varð eldri þá hætti ég að ganga á stöðumæla af því að ég hafði lært af reynslunni, að betra væri að vita hvað væri framundan.

Þegar ég lit yfir heiminn þá verður mér ljóst að flest fullorðið fólk eigi í erfiðleikum með að taka út slíkan þroska að það geri aldrei mistök á vegferð sinni í gegnum lífið. En mistökin eru einmitt til að læra af þeim svo að þau gerist ekki aftur.

Þegar ég var barn þá æfði ég fótbolta hjá knattspyrnufélaginu Fram í Safamýri í Reykjavík. Ég var bakvörður og þá fannst mér orðið bakvörður merkja að ég ætti að vera bak við leikmennina í mínu liði þegar þeir sæktu fram á völlinn. Það varð til þess að ég fór aldrei fram fyrir miðlínu vallarins meðan á leiknum stóð. Auðvitað endaði ég oft inni í eigin marki með boltann og mótherjarnir fögnuðu. Það var alveg sama hvað risastór þjálfarinn sagði mér sem þá spilaði með úrvalsliði Fram. Ég skildi hann bara alls ekki. Mér fannst hann ekki vera góður þjálfari og fór bara mínar eigin leiðir. Ég skildi sko bara passa boltann þótt hann væri í mínu eigin marki. Fyrr en varði hætti ég í fóltboltanum og fór að æfa borðtennis. Það var skynsamleg ákvörðun en ég hélt áfram að halda með Fram og Leeds United, og auðvitað Völsungi.

Í öllum íþróttakappleikjum eru leikreglur sem leikmönnum ber að virða til þess að leikurinn geti farið friðsamlega fram frá upphafi til enda. Ef leikmenn brjóta af sér þá fá þeir áminningu eða eru reknir út af tímabundið eða fyrir fullt og allt og fá jafnvel leikjabann í kjölfarið. Við erum öll sammála um það að reglur eru nauðsynlegar í íþróttakappleikjum. Allir vilja öðlast sigursveignn og vinna til verðlauna. En þá þarf líka að leggja mikið á sig og njóta leiðsagnar góðs þjálfara sem við eigum auðvelt með að skilja.

Þegar ég var 22 ára þá varð á vegi mínum þjálfari sem ég lít mikið upp til enn þann dag í dag en það er Jesús sem er besti vinur barnanna, barna Guðs á öllum aldri. Hann nærir stöðugt barnatrúna í brjósti mér og hjálpar mér að eiga góð samskipti við samferðafólk mitt á degi hverjum.

Í þessu  lífi sem við lifum þá eigum við í stöðugum samskiptum við fólk, frá leikskólaaldri til fullorðinna og gamalmenna. Við getum ekki lifað saman í sátt og samlyndi nema hafa reglur til að lifa eftir, reglur sem samfélagið hefur komið sér saman um að virða og hafa í heiðri. Við lifum við kristinn sið í þessu landi þar sem siðfræði kristinnar trúar er í heiðri höfð. Nú ber svo við að við lifum í fjölmenningarsamfélagi þar sem fólk af erlendu bergið brotið hefur flutt til landsins með sína menningu, sinn sið og trúarbrögð. Margir hafa gerst erlendir ríkisborgarar. Töluverð umræða hefur verið um málefni hælisleitenda hér á landi og kvartað hefur verið yfir því hversu lengi mál þeirra hafa velkst innan kerfisins hér á landi. Það eru nú flestir sammála um það að stytta þarf þennan meðferðartíma með öllum tiltækum ráðum. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort fordómar ráði för í þessu máli. Sérhver líti í eigin barm að þessu leyti eins og Polla pönk sveitin talaði um í sínum boðskap í Evrópusöngvakeppninni. Í aðdraganda nýafstaðinna sveitastjórnarkosninga voru umræður um rétt múslima til að reisa sér mosku í Reykjavík. Ótti greip um sig hjá fólki sem kærði sig ekki um það að reist yrði moska í Reykjavík. Þessi ótti byggist fyrst og fremst á fjölmiðlaumfjöllun. Fjölmiðlar nútímans geta matað okkur á hverju sem er og stjórnað viðhorfum okkar til málefna hverdagsins nema við spornum við fótum og stundum gagnrýna hugsun þar sem hverjum steini er velt við áður en við tökum sjálfstæða afstöðu með því sem rætt er um. Þá verður t.d. umræðan á netinu ábyrgari. Sérhver líti í eigin barm að þessu leyti.

Ég heyrði nýverið viðtal í útvarpinu við íslenskar konur sem höfðu heimsótt Íran þar sem trúarbrögðin Islam ráða ríkjum, þar sem moskur eru á hverju horni. Þessar konur gáfu heimsókn sinni til Íran góðan vitnisburð en þær mættu alls staðar einstaklega kurteisu fólki.

Fordómar verða til vegna vanþekkingar á viðkomandi málefni sem fordómarnir beinast það. Til að minnka fordóma þarf að halda úti fræðslu um viðkomandi málefni.. Við  lifum saman í fjölbreytilegu og margslungnu þjóðfélagi þar sem við höfum ólíkar þarfir hvert og eitt. Við Íslendingar hljótum að geta talað okkur saman niður á kerfi sem flestir geta sæmilega við unað þar sem hinum minnsta bróður og systur er sinnt sérstaklega vel, ekki síst þeim sem glíma við geðraskanir. Við megum ekki láta okkar eigin fordóma koma í veg fyrir að fólk geti stundað sinn átrúnað. Við lifum við trúfrelsi á Íslandi.  Minnkum fordómana með því að tala saman í anda frelsarans frá Nasaret. Jesús er góður þjálfari í mannlegum samskiptum. Hann getur hjálpað okkur að minnka eigin fordóma.

Ég man þegar mamma fór með mig á gæsluleikvöllinn í Sólheimunum í Reykjavík  í gamla daga þar sem sandkassinn var og skildi mig þar eftir í höndum gæslukonunnar. Ég horfði á eftir mömmu gegnum rimlana hnugginn á svip með tárin í augunum en ég tók gleði mína aftur þegar hún kom að sækja mig. Hún huggaði mig oft á mínum æskuárum.Í huga minn koma orð úr spádómsbók Jesaja þar sem segir: ,,Eins og móðir huggar son sinn, eins mun ég hugga yður, segir Drottinn.” (Jes. 66.13)

Fermingarbörnin spurðu mig í vetur hvort Guð væri kona? Mér fannst það góð spurning. Það eiga nefnilega ekki allir góðan föður. Það eiga heldur ekki allir góða móður. Við búum stundum til mynd í huganum af Guði sem er í samræmi við þá mynd af fólki sem hefur reynst okkur vel í lífinu.

Ég veit ekki af hverju ég er að líkja mömmu við Jesú. Sennilega vegna þess að ég dýrka mömmu mína líkt og Jesú þó með öðrum hætti sé. Líkt og Jesú þá hefur mamma mín verið mér leiðarljós á lífsins vegi til þessa dags.

Í guðspjallinu segir Jesús: ,,Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“ Eftir upprisu Jesú Krists frá dauðum þá dvaldi hann sýnilegur með lærisveinunum þar til hann hvarf þeim sjónum á Uppstigningardag. En hann átti spil í hendi sem lærisveinarnir vissu ekki um. Hann ætlaði að koma til þeirra í heilögum anda á Hvítasunnudag og vera með þeim í anda upp frá þeirri stundu.

Gleði lærisveinanna var ósvikin þegar þeir fundu fyrir nærveru frelsarans á Hvítasunnudag. Þá föttuðu þeir hvað Jesús hafði verið að tala um við þá áður en hann hvarf þeim sjónum. Þennan Hvítasunnudag var kirkjan stofnuð af fyrstu lærisveinunum og við, kristið fólk, erum hvert og eitt hlekkir í þessari lærisveinakeðju.

Og nú ætla fermingarbörnin í dag að bætast í hópinn. Að sönnu er það einstaklega gleðilegt og við óskum þeim innilega til hamingju með þá ákvörðun að vilja leitast við að feta í fótspor frelsarans Jesú Krists á vegferð þeirra í gegnum lífið. Að lokum vil ég þakka fermingarbörnunum fyrir skemmtilegar og gefandi samverustundir í vetur þar sem við veltum stóru spurningunum fyrir okkur og reyndum að svara þeim. í sameiningu.

Sr. Friðrik A Friðriksson sem eitt sinn þjónaði við miklar vinsældir á Húsavík samdi fallega friðarbæn sem mér þykir vænt um en nú í morgun var þáttur um hann í útvarpi allra landsmanna. Friðarbænin hljóðar svo:

,,Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi, sá friður sem heimurinn getur hvorki veitt né frá oss tekið sé með oss mannanna börnum í gleði og sorg, í lífi og dauða.” (sr. Friðrik A Friðriksson)

Amen.

Lexía: Jes. 43. 16-19

Pistill: Heb 13. 12-16

Guðspjall. Jóh. 16. 16-23