Þráin eftir Guði

Þráin eftir Guði

Þrá eftir Guði er ekki ný meðal manna. Í Sálmum Gamla testamentisins mætum við þessari þrá. Þar á meðal eru harmsálmar samdir af fólki sem þráði nærveru Guðs eins og hindin sem leitar örmagna, því hún þráir vatnið og þarfnast þess til að lifa.

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann? Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir. Mt. 7:7-12.

Við skulum biðja saman: Ó, Jesús, gef þinn anda mér, allt svo verði til dýrðar þér. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í guðspjalli dagsins hvetur Jesús okkur til að biðja. Hann segir: Biðjið, leitið og knýið á. Þetta eru einföld og skýr orð, en þau vekja samt margar spurningar. Hvað eigum við að biðja um? Hverju eigum við að leita að? Hvernig og hvar eigum við að knýja á? Og hvers vegna?

Guðspjall dagsins kennir okkur þrennt: Við biðjum, leitum og knýjum á af því að við þráum Guð. Guð bregst við þrá okkar með því að gefa okkur góðar gjafir, leyfa okkur að finna sig og opna leiðina fyrir okkur inn að hjarta sínu. Ávöxtinn af gagnkvæmu kærleikssambandi Guðs og okkar sjáum við síðan í síðasta versi guðspjallsins, náungi okkar fer að skipta okkur máli.

Hvað er það sem við þráum? Að vera elskuð? Að búa við öryggi og að okkur sé óhætt? Að eiga frið í huga og hjarta? Að eiga gott og hamingjusamt líf án mótlætis, þjáninga og erfiðleika? Að eignast auðæfi, frama og frægð?

Jesús talaði um að þar sem hjarta okkar væri þar mundi fjársjóður okkar líka vera. Hjarta okkar getur verið svo víða og þrár okkar svo margar. Þráin eftir Guði er þó sú þrá sem skiptir mestu máli því hún fær okkur til að mæna á Guð, sem er skapari okkar og frelsari. Með því að einblína á Guð opnast leiðin inn í líf okkar og andi Guðs fær að komast að hjá okkur.

Þrá eftir Guði er ekki ný meðal manna. Í Sálmum Gamla testamentisins mætum við þessari þrá. Þar á meðal eru harmsálmar samdir af fólki sem þráði nærveru Guðs eins og hindin sem leitar örmagna, því hún þráir vatnið og þarfnast þess til að lifa.

Höfundar harmsálmanna þekktu það að lifa í nærveru Guðs í musterinu í Jerúsalem en þegar þeir ortu sálmana voru þeir fjarri, herleiddir eða musterið var ekki lengur til.

Þeir þráðu, grétu og hörmuðu – því nærvera Guðs skipti þá öllu, Guð var þeim lífið eins og vatnið hindinni. Þeir áttu hinsvegar eftir að komast að því að nærvera Guðs var ekki háð musterinu eða ákveðnum stað, því Guð mætir okkur þar sem við erum stödd.

Fólk hefur tjáð sig um þessa þrá í gegnum aldirnar. Einna þekktust eru orð Ágústínusar kirkjuföður sem ritaði í upphafi Játninga sinna: „Því að þú hefur skapað oss handa þér og hjarta vort er órótt uns það hvílist í þér.“ Skaparinn hefur lagt í okkur þessa þrá. Þó er eins og það vilji fenna yfir hana og hún týnast í amstri, veikleikum og annars konar þrám.

Hvernig eignumst við þá þessa þrá? Jesús nefndi það sem skiptir mestu máli í sambandi okkar við Guð: Elska skaltu Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum. Elska og þrá fara saman. Við þráum að vera með þeim sem við elskum. Hvernig getum við þá lært að elska Guð og þrá hann?

Við þurfum fyrst að átta okkur á skorti okkar, hvað okkur vantar eins og orð Ágústínusar draga skýrt fram. Guð hefur skapað okkur handa sér og hjörtu okkar eru ekki í lagi, þeim er órótt, þar til þau hvílast í Guði, þar til sambandið við hann er komið í lag. Við þurfum á Jesú að halda.

Í öðru lagi er okkur nauðsyn að horfast í augu við hver við erum. Í því felst að sjá synd okkar og játa hana fyrir Guði. Í guðspjallinu talar Jesús um þennan vanda okkar þegar hann segir að við séum vond. Frammi fyrir Guði sjáum við að hið vonda hefur náð taki á okkur. En við viljum helst ekki heyra það og erum treg til að játa það.

Í þriðja lagi erum við kölluð til að lifa í iðrun. Þegar við lærum að þekkja okkur sjálf og hve aumkunarverð við erum á margan hátt, þá lýkst upp fyrir okkur hve stórkostlegur Guð er sem elskar okkur eins og við erum. Jesús fyrirgefur syndir. Þegar við biðjum hann um að fyrirgefa okkur þá hreinsar hann okkur og gefur okkur elsku í staðinn. „Biðjið og yður mun gefast,“ segir hann.

Í fjórða lagi þurfum við að biðja Guð um að gefa okkur kærleika og þrá eftir sér. Honum er ekkert ljúfara en að svara þeirri bæn.

Iðrunin er stórkostlegt tæki. Þegar við játum fyrir Guði hve mjög við þurfum á honum að halda, iðrumst synda okkar og tökum við fyrirgefningu hans, þá gerist það sjálfkrafa að Guð fer að skipta okkur meira og meira máli. Og áhrifin fara strax að koma í ljós: Byrðarnar léttast, áhyggjurnar minnka, okkar innri maður hreinsast og við eignumst frið og innri gleði.

Kærleikssamfélag er orðið til. Við elskum Guð og upplifum hve heitt við erum elskuð á móti. Af þessu sambandi elsku og ástar vex síðan kærleikur til náunga okkar. Það er verk Guðs sem hefst í sál okkar og mótar síðan líf okkar, afstöðu og breytni.

Þetta kærleikssamfélag áttu mörg þeirra sem helguðu líf sitt baráttunni fyrir sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar. Þau báðu, leituðu og knúðu á hjá Guði. Þau þráðu að Guð gæfi sjálfstæði og betri tíma. Þau fundu fyrir handleiðslu Guðs. Fullveldið og sjálfstæðið var bænasvar.

Í dag fögnum við yfir fullveldi og frelsi Íslands. Fullveldið varð veruleiki vegna þrár sem óx fram í hugum og hjörtum fólks, þrár sem leiddi til orða og baráttu og gat af sér fullvalda þjóð fyrir 88 árum. Við skulum biðja Guð að við fáum að varðveita sjálfstæði okkar og frelsi og að kærleikurinn til náungans móti ætíð þjóðfélagið okkar. Ætli það sé ekki líka þráin eftir að ná settu marki sem knýr okkur að skólabókunum á næstu dögum og vikum hér í Háskólanum. Biðjum Guð um að vera með okkur, blessa, styrkja og gefa góðan árangur. Rektor Háskólans hefur sett skólanum og okkur nemendum markmið: Háskóli í fremstu röð. Undir það tekur stúdentaráð með dagskrá sinni í dag. Biðjum Guð að svo verði og að við, nemendur skólans, fáum styrk til að koma honum þangað.

Þrá okkar er mikið afl, hvort sem við erum að tala um árangur í námi, betri háskóla, sjálfstæði þjóðar eða annað. Og hún er mikið afl í sambandi okkar við Guð. Þau sem elska Guð og þrá hann geta beðið og þeim er gefið, þau leita og finna, þau knýja á og fyrir þeim er upp lokið. Þráin opnar Guði leiðina inn að hjörtum okkar og umbreytir lífi okkar. Elskan vex og vex.

Jólin nálgast, tími aðventunnar gengur brátt í garð. Gætum að okkur, að langanir okkar og þrár í tímanlega og efnislega hluti fylli ekki líf okkar. Mætti löngun okkar og þrá beinast í auknum mæli að Jesú Kristi sem upphaflega kom á jólunum og sem kemur enn í dag til hvers og eins okkar sem vill taka við honum. Mætti líf okkar og löngun beinast að honum, að sálir okkar finni frið og hjörtu okkar hvíli í Guði. Í spádómsbók Jeremía segir Drottinn við fólkið sitt: „Þið munuð finna mig þegar þið leitið mín af öllu hjarta.“ Tökum þá hvatningu og það loforð með okkur inn í komandi vikur, próflestur, jólaundirbúning og baráttu daglegs lífs. Kærleikur Guðs er óendanlega dýrmætur og óendanlega mikið gott gerist þegar hann nær tökum á okkur.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen. Meðtakið postullega kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með okkur öllum. Amen.