Bernskuguðspjall

Bernskuguðspjall

Frásagnir þessar eiga það sameiginlegt að draga fram yfirnáttúrulega krafta ungmennisins Jesú. Gaman er að segja frá því að sumar þeirra hafa mótað íslenska kirkjulist. Ein sagan er af því þegar barnið Jesús hnoðaði leirkúlur og blés á þær með þeim afleiðingum að þær breyttust í spörfugla. Verk Ólafar Nordal í Ísafjarðarkirkju, fuglar himins, sækir í þá heimild þar sem leirfuglar eins og fljúga út frá altarisveggnum í helgidómnum. Svo merkilegt sem það kann að vera þá hafa margar þessar helgisagnir ratað inn í Kóraninn.

Ef við erum alveg heiðarleg þá er þessi sunnudagur hálpartinn klemmdur á milli tveggja stórhátíða. Já, hér var þéttsetinn bekkurinn á aðfangadag og þrátt fyrir hríðarbylji var ágæt aðsókn um nóttina og á jóladag. Framundan er svo gamlárskvöld og nýársdagur með öllum sínum töfrum.


Bóka- og matarklúbbar

 

En sunnudagurinn á milli jóla og nýárs lætur ekki mikið yfir sér. Hann er svolítið eins og börnin sem fá að labba inn á leikvanginn með meistaraflokksleikmönnum. Þau brosa framan í myndavélina þar sem liðin stilla sér upp en svo þurfa þau líka að drífa sig út af vellinum áður en leikar hefjast!

 

Já og stef þessa sunnudags er einmitt bernskan. Guðspjallið talar til okkar á þessum tímamótum. Það fjallar reyndar bæði um æsku og elli. Fulltrúar hvors tveggja koma fyrir hér í þessari stuttu frásögn Lúkasar af æskuárum Jesú.

 

Sagnfræðingar brjóta enn heilann um það hvernig á því stóð að kristindómurinn skyldi að endingu fá þessa miklu útbreiðslu sem raun bar vitni. Á þeim tíma sem Jesús lifði og starfaði voru margir trúarhópar í því umhverfi og gróskan í þessum efnum átti bara eftir að aukast á komandi öldum. Þessir litlu kristnu söfnuðir sem við fáum að kynnast svo sem í leiftursýn í bréfum postulanna, voru ekki skipaðir fólki sem myndaði efstu lög samfélagsins.

 

Það var öðru nær. Nútíminn myndi sennilega tala um bóka- og matarklúbba í því samhengi. Þau komu jú saman til að hlýða á frásagnir postalanna af lífi Jesú og svo settist fólk að borðum. Allar líkur benda til þess að fólkið sem þar kom saman hafi verið úr lægstu stéttum. Konur voru þar í lykilhlutverki, þrælar og leysingjar – þetta fólk hefur hrifist af boðskapnum sem það fékk að kynnast, af jafnri stöðu fólks gagnvart Guði, óháð því hvernig samfélagið kynni að meta það.

 

Vafalítið hafa margir túlkað orð postulans sem hér voru lesin líka í félagslegum skilningi: „Þú ert þá ekki framar þræll heldur barn. En ef þú ert barn, þá hefur Guð líka gert þig erfingja.“

 

Já, í því litríka mósaíkverki sem trúarheimurinn var á þeim tíma þykir það nokkur furða að þessir jaðarsettu söfnuðir ættu eftir að koma boðskap sínum á framfæri með þeim hætti að kristnin varð þegar á fjórðu öld ríkistrú í sjálfu Rómaveldi.


Apókrýfa

 

Og slík var gerjunin á fyrstu öldunum eftir Krist að ýmsir höfundar tóku sig til og skráðu upp frásagnir og goðsagnir sem áttu að snúast um líf Jesú.

 

Því raunin er sú að ævi frelsarans er okkur að mestu leyti hulin.  Tvö af guðspjöllunum fjórum lýsa fæðingu hans. Svo eigum við fáein frásagnarbrot frá ungdómsárum Jesú en meginþorri þeirra heimilda sem ritningin gefur okkur af lífi hans eru þessi þrjú ár þar sem hann er að störfum.

 

Heimildirnar um ævi Jesú eru þó fleiri. Þær tilheyra flestar hinum svo nefndu apókrýfu ritum Nýja testmanentisins en apókrýfa merkir eitthvað sem er af vafasömum uppruna, bókstaflega merkir orðið eitthvað sem er í leynum. Og það skýrir líka örlög þeirra og hlutskipti. Þegar kanón Biblíunnar var fastsettur á kirkjuþingum fjórðu aldar, þá var sú krafa gerð til ritanna að þau hefðu verið lesin í þessum frumsöfnuðum frá upphafi og ættu að innihalda boðskap sem væri í samræmi við meginkenningar Krists.

 

Fyrir vikið féllu allmargir textar úr náðinni, en þeir tilheyrðu hefð sem kennd er við speki eða gnósis á grísku. Samkvæmt henni var allt hið jarðneska af hinu illa. Skaparinn eins og honum er lýst í Gamla testamentinu var í þeim anda illgjarn og markmið hvers einstaklings ætti að vera að hefja sig yfir hið það sem væri af þessum heimi. Gnósis, eða þekkingin átti að stuðla að því.

 

Tómasarguðspjall tilheyrir þeirri hefð. Góstíkerar túlkuðu til að mynda söguna kunnu úr aldingarðinum Eden á þann hátt að höggormurinn sem tældi Evu til að bíta í ávöxtinn væri í raun fulltrúi Krists. Því hann hefði opnað þeim gáttir inn í nýjar víddir þekkingar og visku. Guð aftur á móti væri illur og hefði blekkt þau í varnaðarorðum sínum.

 

Ef við rifjum upp trúarjátninguna, þá sjáum við að þar er talað gegn hugmyndum af þessum toga. Við segjum strax í upphafi trúa því að Guð sé skapari bæði himins og jarðar. Þar með komast textar á borð við Tómasarguðspjall ekki inn í kanóninn svokallaða – helgiritasafnið sem við köllum Nýja testamentið.

 

Fleiri svo nefnd guðspjöll voru þar sett til hliðar. Þar má nefna annað Bernskuguðspjallið sem kennt er við Tómas, og er frá annarri öld. Þá er til nokkuð sem kallast Falsguðspjall Mattheusar og er frá 7. öld. Einnig er merkileg heimild frá því um svipað leyti, arabískt æskuguðspjall og þá hefur írskt guðspjall sömu tegundar varðveist og er það frá svipuðum tíma.

 

Frásagnir þessar eiga það sameiginlegt að draga fram yfirnáttúrulega krafta ungmennisins Jesú. Gaman er að segja frá því að sumar þeirra hafa mótað íslenska kirkjulist. Ein sagan er af því þegar barnið Jesús hnoðaði leirkúlur og blés á þær með þeim afleiðingum að þær breyttust í spörfugla. Verk Ólafar Nordal í Ísafjarðarkirkju, fuglar himins, sækir í þá heimild þar sem leirfuglar eins og fljúga út frá altarisveggnum í helgidómnum. Svo merkilegt sem það kann að vera þá hafa margar þessar helgisagnir ratað inn í Kóraninn.


Mælikvarðinn


Þannig eru margar slíkar frásagnir til sem birta mynd af Jesú og hafa öðru fremur þann tilgang að fylla inn í eyðurnar sem hin viðurkenndu guðspjöll skilja eftir. Guðspjallamaðurinn Lúkas deilir með okkur þessari frásögn þar sem foreldrar Jesú furða sig á því sem fólk sagði um hann. Og forspá er gefin þar sem öldungurinn Símeon lýsir því að Jesús eigi eftir að hafa söguleg áhrif ef svo má að orði komast: „Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael. Hann verður tákn sem menn munu rísa gegn. Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.“

 

Þegar þessi orð eru skráð, í lok fyrstu aldar, hefur fátt bent til þess að þau ættu eftir að rætast. Raunin varð önnur. Og rétt er það sem öldungurinn spáði. Orð Krists átti eftir að verða mælistika á gott og illt. Sjálfur spáði hann því að margir ættu eftir að koma fram í nafni hans en leiða fólk um leið á ranga braut.

 

Í þeim efnum eiga kristnir menn mælistiku sem birtist okkur í bréfum postulans Jóhannesar: „Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.“

 

Hér er orðaður sá mælikvarði sem Jesús sjálfur setti, boðaði og lifði eftir. Og Lúkas guðspjallamaður dregur saman uppvöxt Jesú með þessum orðum: „En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.“ Við fáum lítið meira að frétta allt þar til hann var kominn á fullorðsinsár. Og enn í dag lifir það kraftaverk í sálu okkar að við skulum geta tekið á móti trúnni, voninni og kærleikanum sem trúin á Jesú færir okkur.