Gluggaguðspjall

Gluggaguðspjall

Hvað fer fram í huga fólks? Við veltum þessu oft fyrir okkur hér í kirkjunni þegar við rýnum í forna texta og heimfærum þá upp á samtímann.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
02. desember 2018

Hvað fer fram í huga fólks? Við veltum þessu oft fyrir okkur hér í kirkjunni þegar við rýnum í forna texta og heimfærum þá upp á samtímann.

Nútímans fólk

Þetta á þó við í ýmsu öðru samhengi. Á þessum degi fyrir tveimur árum hófst afmælisdagskrá Neskirkju sem fagnaði senn 60 ára vígsluafmæli. Meðal annars héldum við svo kölluð „tímamótakvöld“ þar sem við rifjuðum upp sitthvað í sögu þessa helgidóms. Þar bar nafn Ágústar Pálssonar, höfundar Neskirkju, oft á góma enda er saga þessarar byggingar merkileg og á köflum stormasöm. Við skemmtum okkur yfir úrtöluröddum sem töldu hugmyndir hans vera hörmulega mistök en þögnuðu svo þegar heimsþekktur arkitekt gaf teikningum að kirkjunni sín bestu meðmæli. Nú þykir hún vera til marks um tímamótaverk, fyrstu kirkjuna á Íslandi sem hönnuð var samkvæmt forskrift módernismans.

Já, í þeim anda var litið svo á að hönnuðir bæru ríka félagslegar ábyrgð með mannvirkjum sínum. Byggingar og hverfi skyldu taka mið að líðan fólks og hag þess, maðurinn var þar mælikvarðinn og Ágúst var trúr þeirri köllun þegar hann teiknaði Neskirkju. Hún var fyrsta kirkjan á Íslandi þar sem gert var ráð fyrir safnaðarstarfi. Það er þó fleira sem bendir til þess að í hans augum hafi hið helga rými átt í samtali við umhverfi sitt. Á kirkjunni er þessi flennistóri gluggi, þrjátíu fermetrar að stærð og hann vísar í hásuður. Þegar sól skín í heiði þá flæðir birtan hingað inn.

Ekki minnist ég þess að glugginn sem slíkur hafi orðið tilefni deilna á hönnunartíma verksins en reyndin er þó sú að ef eitthvað olli fólki hugarangri eftir að byggingin var risin þá var það þessi gluggi. Klerkar, organistar og kórfólk fengu stundum geislana yfir sig í slíkum mæli að svitaperlur mynduðust á enni og stundum var ekki þurr þráður á fólki eftir eina sunnudagsmessu. Þá voru ekki bara prestar í þykkum kuflum heldur söngfólkið líka. Tilraunir til að hafa einhverja stjórn á ljósflæðinu með gardínum eða öðru, báru ekki tilætlaðan árangur.

Steindur suðurgluggi

Það var svo árið 1975, sem listakonan Gerður Helgadóttir var fengin til að gera tillögur að steindu gleri í þennan mikla glugga. Þá var hún sjálf langt leidd af því meini sem átti eftir að draga hana til dauða það sama ár, langt fyrir aldur fram. Árið 1967 hafði hún unnið glerlistaverk í vesturglugga Neskirkju og í greinargerð með því verki talaði hún um að glerið markaði ákveðin skil á milli þess erilsins og fjörsins úti á Melunum og þeirrar kyrrðar sem átti að ríkja innan veggja kirkjuskipsins.

Gerður var á heimavelli í kirkjurýminu en faðir hennar Helgi Pálsson lék á orgelið í Norðfjarðarkirkju við messur, allt til þess að þau fluttu til Reykjavíkur er Gerður var tíu ára gömul. Gaman er að segja frá því að í ævisögu Gerðar ræðir höfundurinn, Elín Pálmadóttir einmitt hversu áhugasöm Gerður var um tónlist. Hún nefnir sem dæmi þegar Gerður hlýddi á óratorína Messías eftir Händel í Trípólíbíó og varð fyrir miklum hughrifum. Það var heimilisvinurinn dr. Victor Urbancic sem setti verkið upp, í fyrsta skiptið sem það var flutt á Íslandi, líklega árið 1943 og kl. 17:00 í dag flytur Kór Neskirkju þessa mögnuðu óratoríu hér í Neskirkju.

En aftur að glugganum góða því árið 1990 voru þeir vinir hennar og samstarfsmenn í Oidtmann fjölskyldufyrirtækinu í Þýskalandi fengnir til að vinna steint gler út frá þeim teikningum sem Gerður hafði skilið eftir sig. Sá gluggi var settur upp og við það má segja að innanrými Neskirkju hafi gerbreyst. Þarna var í raun gengið lengra í þá átt sem Gerður hafði lýst er hún vann eldra listaverkið. Nú voru rafmagnsljósin helsti ljósgjafinn inni í kirkjunni og á þessum björtu dögum komu fallegir rauðir og bláir ljósdeplar á kórvegg kirkjunnar, þar sem áður hafði allt verið uppljómað í skini sólar.

En eitt tók við af öðru. Þegar geislarnir léku ekki lengur óhindraðir um kór Neskirkju kom upp nýtt vandamál. Á rigningardögum þegar sunnanáttin lamdi á glugganum þá frussaðist vatn yfir brúðarstólana og langleiðina að altarinu. Tilraunir til úrbóta skiluðu engum árangri. Það var eins og einhver lágþrýstingur myndaðist milli glerja og loks var afráðið að ráðast í viðgerðir. Sumarið 2016 mættu Oidtmann feðgar á staðinn, tóku niður þetta mikla listaverk og fluttu það til Þýskalands til eðlilegs viðhalds og þar bíður það enn eftir að viðgerðir á stóra glugganum fara fram.

En þegar þetta glæsilega verk hafði verið fjarlægt birtist á ný það kirkjuskip sem höfundur Neskirkju hafði séð fyrir sér. Þótt þau væru samstíga í liststefnunni þá var eins og hann sæi fyrir sér eitthvað allt annað en listakonan hafði gert. Hann vildi greinilega ekki draga fram skörp skil á milli umhverfis kirkjunnar og innanrýmis, nei þvert á móti. Það var eins og hann vildi benda á, um leið og hið ytra ljós lék um helgidóminn, að einmitt þetta væri hlutverk kristinnar kirkju, að hleypa því inn sem kemur að utan fremur en að loka það úti.

Þetta blasir við okkur nú í dag sem magnað sjónarspil, hvort heldur skuggamyndir gluggapóstanna mynda fjölda krossa á veggnum, nú eða að geislar umvefja blómum skreytta kistu við útför. Í rökkri skammdegis er birtan mött og full dulúðar. Og já – á björtum dögum vors og hausts þegar sólin skín beint inn um gluggann, þá verður manni stundum svolítið heitt og organistinn þarf að mynda skyggni með lófanum ef hann á að sjá á nóturnar!

Gluggaguðspjall

Guðspjall þessa dags, fyrsta sunnudags í aðventu gerist einmitt í helgidómi. Þetta er enginn venjulegur dagur í kirkjunni, nei þessi dagur er raunar fyrsti dagur kirkjuársins, sem er mánuði á undan almanaksárinu. Þetta er því nýársdagur í þeim skilningi. Þá erum við stundum svolítið sjálfhverf og veltum fyrir okkur hvað kirkjan er og í hvaða ljósi við getum skoðað hana.

Jesús er þarna ungur maður í musterinu. Sagan er ein af örfáum sem guðspjöllin geyma er lýsir honum á unga aldri og þarna segir Lúkas guðspjallamaður frá því þegar Jesús er að hefja þjónustu sína. Þarna birtist okkur texti sem er eins og stefnuyfirlýsing Guðs ríkisins nú eða kirkjunnar ef því er að skipta. Lúkas er stundum kallaður guðspjallamaður hinna fátæku og smáðu því hann gefur þeim hópum alveg sérstakan gaum.

Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.

Þetta er réttnefnt gluggaguðspjall sem við fáum að hlýða á nú á nýársdegi kirkjunnar. Jesús beinir sjónum sínum út fyrir veggi helgidómsins þar sem hann segir starf kirkju sinnar eiga að felast. Það er svo margt við þennan texta sem talar inn í aðstæður okkar hér í Neskirkju og raunar víðar. Það er alltaf miklu auðveldara að skerma sig af frá umhverfinu, dvelja í þeim ramma sem stundum er kenndur við þægindi og láta sig litlu varða þá þörf sem bíður okkar úti í heiminum.

Allt í boðun Jesú Krists varar við slíkri hugsun. Hann gagnrýndi óspart þá sem vildu reisa slíka múra og ögraði fólki með því að eiga samneyti við fólk sem tilheyrði ekki útvöldum hópum. Og já slíkt samneyti er ekki alltaf þrautarlaust. Mögulega hugsaði Ágúst Pálsson, höfundur Neskirkju með sér að stóri suðurglugginn væri í raun áminning til okkar sem hér þjónum um þessi sömu mál. Við getum einmitt litið svo á að ljósið sem kemur að utan eigi að lýsa upp starf okkar í kirkjunni. Stundum er það óþægilegt – en þannig er það líka þegar við stígum út fyrir rammann þægilega og sinnum verkum sem okkur eru nýstárleg.

Sýningin Gerður Helgadóttir 1928-1975

Hér á eftir opnar sýning Gerðar Helgadóttur á Torginu í safnaðarheimilinu. Verkin sem við völdum bera merki þess þess hvernig Gerður sjálf leitaði lífsfyllingar og tilgangs á sínum ævidögum. Hún var í hópum í París og víðar sem gáfu sig að dulhyggju og einhvers konar alheimsfræðum, stúlkan sem sótt hafði messur austur á Norðfirði á sínum tíma var alla tíð heilluð af hinu helgi lífs og listar. Þessi leit hennar birtist á margvíslegan hátt í kirkjulist hennar þar sem táknin leynast víða.

Nú stöndum við frammi fyrir erfiðum valkostum hér í Neskirkju, hvað við gerum með títtnefndan suðurglugga. Setjum við dimmblá gler Gerðar þar aftur upp eða látum við birtuna flæða inn okkur til upplýsingar og auðvitað líka nokkurs ama. Víst er kirkja Krists ekki stofnsett til makinda heldur býr köllun hennar og hlutverk í þeim heimi þar sem þjónusta okkar og starf fer fram.