Kristniboð á tímamótum

Kristniboð á tímamótum

Í sumar voru 80 ár liðin frá stofnun Kristniboðssambandsins eða Sambands íslenskra kristniboðsfélaga. Elsta aðildarfélagið, Kristniboðsfélag kvenna í Reykjavík, varð nú í byrjun nóvember 105 ára. Full ástæða er til að staldra við á tímamótum sem þessum.
fullname - andlitsmynd Ragnar Gunnarsson
06. nóvember 2009

Kristniboðið

Í sumar voru 80 ár liðin frá stofnun Kristniboðssambandsins eða Sambands íslenskra kristniboðsfélaga. Elsta aðildarfélagið, Kristniboðsfélag kvenna í Reykjavík, varð nú í byrjun nóvember 105 ára. Full ástæða er til að staldra við á tímamótum sem þessum.

Í fyrsta lagi lítum við aftur og þökkum það sem liðið er. Saga Kristniboðssambandsins er saga fjölda einstaklinga sem hafa borið mikla umhyggju fyrir starfi þess heima fyrir sem og á kristniboðsakrinum. Þar mætti telja upp fjölda nafna fólks sem lagði lið með fyrirbæn sinni og fjárhagslegri fórn sem munaði um. Einnig má nefna ósérhlífni sjálfboðaliða og starfsfólks í áraraðir og áratugi – og stóran hóp sem aftur og aftur hefur glaðst af hjarta þegar fréttir hafa borist af ávexti starfsins. Þar eru frásögur af einstaklingum og heilu byggðarlögunum sem umbreyst hafa fyrir kraft fagnaðarerindisins um Jesú Krist. Þar eru þakkarorð tugþúsunda sem notið hafa hjálpar kristniboðsins, kristniboðanna, samverkafólks og samstarfskirkna með einum eða öðrum hætti. Fjöldi fólks hefur eflst og styrkst til góðra verka, sjálfum sér og öðrum til blessunar.

Í öðru lagi er full ástæða til að minna á það starf sem unnið er í nafni Kristniboðssambandsins nú á dögum þó svo að sjaldan séum við ein að verki. Starfað er með kirkjum í Afríku og samstarfssamtökum sem eru að verki víða um heim. Með þeim tengslum og stuðningi við öflugt útvarps- og sjónvarpsstarf nær starfið annars vegar til milljóna með fjölmiðlun og er hins vegar unnið með persónulegum tengslum við einstaklinga, ekki síst í Eþíópíu og Keníu. Þar er hlúð að safnaðaruppbyggingu og stuðningi við starf heimamanna. Starfið er að miklu leyti einstaklingsmiðað, við sendum fólk sem starfar á meðal fólks – þar sem það ber frelsaranum Jesú Kristi vitni. Náð hans og óverðskuldaður kærleikur sem birtist í boðskapnum veldur víða umbreytingu – frá myrkri til ljóss, frá vonleysi til vonar, frá afskiptaleysi til kærleika.

Í þriðja lagi er ástæða til að horfa til framtíðar. Hlutverki okkar er ekki lokið. Boðin um Jesú Krist eiga erindi við allar þjóðir og þjóðabrot, allir eiga rétt á að fá tækifæri til að kynnast frelsaranum. En við horfumst einnig í augu við örar og miklar breytingar um allan heim. Nýjar aðstæður fela í sér ný tækifæri og nýjar aðferðir. Kristniboð næstu áratuga verður um margt frábrugðið starfi síðustu áratuga. En innihald þess verður þó hið sama: Að boða trú á Jesú Krist, krossfestan og upprisinn, og mæta náunganum í kærleika. Sú köllun er lífsspursmál fyrir kirkju Krists á Íslandi og um víða veröld. Kirkjan er kölluð til bað bera vitni og segja frá því sem hún hefur séð og heyrt. Kristniboðsdagurinn, einu sinni á ári, er áminning um að kirkjan sjái mikilvægi þess og hlýði kalli frelsarans sem enn segir: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“